Átak gegn einelti
Föstudaginn 21. desember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. félmn. góða afgreiðslu þessa máls, svo og allan þann stuðning sem málið hefur fengið. Það hefur nú fengið afgreiðslu sem ég tel efnislega fullnægjandi. Hér er um mál að ræða sem sífellt er betur að koma í ljós að brýnna úrbóta er þörf í.
    Nú nýverið barst þingmönnum Reyknesinga til að mynda bréf frá örvæntingarfullum foreldrum sem líða ekki ofbeldi í unglingaskóla í nokkur þúsund manna byggðarlagi. Þar eru börn beitt einelti. Þar er um að ræða margháttað ofbeldi, svo sem fingurbrot og ógnanir með hnífum og skaða með hnífum. Ég trúi því að verði það átak gegn einelti gert sem þessi till. mælir með að gert verði, þá muni verða hægt að liðsinna í slíkum málum. En fyrstu aðgerða er þörf nú þegar.
    Þeir sem gerst þekkja til þessara mála segja að ekkert sé verra en þögnin. Ég vænti þess að þessi till., verði hún samþykkt, rjúfi þá þögn og það þegjandi samþykki sem gefið er í samfélaginu fyrir einelti.