Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls kynntum við fulltrúar 1. minni hl. fjvn., fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn., bæði í umræðum og í nál. hvernig við blasti skipbrot hæstv. ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar í fjármálum ríkisins. Þar var m.a. gerð grein fyrir skattastefnu ríkisstjórnarinnar, eyðslustefnu hennar, sífelldri útþenslu ríkiskerfisins og hallarekstri. Þá var einnig dregið fram í dagsljósið hvernig þessi stefna ásamt linnulausum feluleik með raunveruleg útgjöld ríkisins hefur leitt til þess að þjóðin verður að axla gjaldabyrði á næstu árum sem nemur hrikalegum fjárhæðum. Þessi arfur ríkisstjórnarinnar er geigvænlegur. Viðskilnaður hennar í fjármálum ríkissjóðs ætti að verða öllum ríkisstjórnum sem á eftir koma víti til varnaðar.
    Á milli 2. og 3. umr. hafa verið gerðar verulegar breytingar á fjárlagafrv. Þær koma fram í brtt. meiri hl. nefndarinnar og hefur ákvörðun um flestar þeirra veigameiri verið tekin í ríkisstjórninni eftir ítrekuð fundahöld og skæklatog síðustu daga. Það vinnulag meiri hl. fjvn. er vafasamt að viðhafa, þ.e. að senda ágreiningsefni til ríkisstjórnar vegna frv. sem fyrir liggur á Alþingi og er hlutverk Alþingis að afgreiða. Afleiðingin lýsir sér m.a. í því að nefndin hefur setið aðgerðarlítil mest af þeim tíma sem verið hefur til umráða milli umræðna og beðið úrslita úr hráskinnaleik hæstv. ráðherra. Þetta vinnulag hefur m.a. lýst sér í því að engar till. hafa komið til afgreiðslu í fjvn. í heild fyrr en á fundi nefndarinnar kl. 14.30 í gærdag og þær síðustu kl. 10 nú í dag eða örfáum klukkutímum áður en 3. umr. átti að hefjast. Þetta vinnulag er ekki til eftirbreytni og ég tel vafasamt að það sé eðlilegt af hv. meiri hl. fjvn. að varpa í svo ríkum mæli ýmsum ágreiningsefnum til hæstv. ríkisstjórnar og láta hana fljúgast á um það tímum saman, dögum saman rétt áður en kemur að 3. umr. og lokaafgreiðslu fjárlaga. Ég vil þó taka það fram að miðað við þetta vinnulag og miðað við þær aðstæður og kröppu tímamörk sem hér hefur orðið að búa við hefur hv. meiri hl., og ekki síst formaður nefndarinnar, hv. 5. þm. Vestf. sem hér var að ljúka máli sínu, haldið á málum af þeirri lipurð sem hægt hefur verið að ætlast til í samskiptum við minni hl. nefndarinnar. Ég vil því ítreka þakkir mínar til hans og til meiri hl. í heild eins og ég reyndar hafði áður gert við 2. umr. þessa máls.
    Þegar forstjóri Þjóðhagsstofnunar ásamt starfsmönnum sínum og starfsfólk hagdeildar fjmrn. komu til fjvn. í gærdag lýsti forstjóri Þjóðhagsstofnunar því að á næsta ári væru horfur á meiri viðskiptahalla gagnvart útlöndum en þjóðhagsspá gerði ráð fyrir. Enn fremur að loðnuafli væri í mikilli óvissu og ekki ólíklegt að hann dragist saman úr 850 þús. tonnum, sem gert er ráð fyrir skv. þjóðhagsspá, og niður í 400 þús. tonn. Þetta væri þó fremur bjartsýn áætlun um loðnuveiðar á næsta ári en svartsýn. Þessi samdráttur í loðnuveiðum þýddi samdrátt í landsframleiðslu um 2,5 milljarða og þar með væri áætlaður hagvöxtur á næsta

ári horfinn. Þrátt fyrir þessar upplýsingar lagði skrifstofustjóri hagdeildar fjmrn. fram nýjar till. um tekjuhlið fjárlaga á næsta ári sem eru um 2,1 milljarði kr. hærri en áætlun fjárlagafrv. Þannig er teygt úr tekjuspánni þrátt fyrir að við 2. umr. væri tekjugrunnur frv. talinn veikur og að niður væri fellt að hluta svokallað tryggingagjald.
    Ýmislegt í þessum till. er athyglisvert og þó að hér hafi verið allítarlega farið yfir þær af hv. 5. þm. Vestf. þá sé ég ástæðu til þess að víkja að þeim í örfáum atriðum.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að hækka tekjuskatt einstaklinga um 650 millj. kr. Verður það að teljast býsna bjartsýn spá miðað við þær horfur sem nú eru í loðnuveiðum og þar með samdrætti tekna í þjóðfélaginu. Sömu sögu er raunar að segja um þá till. sem hér er til meðferðar og fyrir liggur frá meiri hl. um tekjuskatt fyrirtækja þar sem gert er ráð fyrir að hækka hann um 300 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir að hækka virðisaukaskatt um 1050 millj. kr. sem sumpart er skýrt með því að um tilfærslu sé að ræða á milli ára en að öðru leyti með bættum innheimtuaðferðum.
    Þá er gert ráð fyrir því að bifreiðatollar og þess háttar gjöld vegna meiri bílainnflutnings hækki um 285 millj. kr. Tryggingaiðgjald sem gert var ráð fyrir að skilaði ríkissjóði skv. fjárlagafrv. 1600 millj. kr. á skv. þessum till. að skila ríkissjóði 750 millj. kr. minna eða samtals 850 millj. kr. Ástæða er til að vekja athygli á því að skv. frv. sem fyrir liggur um þennan skatt hér á hinu háa Alþingi er gert ráð fyrir að hinn nýi skattur skili ríkissjóði 500 millj. kr. Eigi að síður kemur í nýjum tekjutillögum hv. meiri hl. skv. því sem kokkað hefur verið í fjmrn. að þetta gjald skuli skila ríkissjóði 850 millj. kr. í nýjum tekjum. Þá er gert ráð fyrir því að hækka jöfnunargjald um 100 millj. kr. þrátt fyrir það að ekki séu uppi nein áform um að endurgreiða þetta gjald svo sem samningar og lagaákvæði standa til um.
    Þá er í sjöunda lagi gert ráð fyrir tekjuöflun á árinu 1991 með sérstöku jöfnunargjaldi sem sagt er að eigi að leggjast á matvæli svo sem svokallaðar pítur og pizzur eða hvað það nú allt heitir og einnig með hækkun á áfengi og tóbaki, væntanlega umfram verðlagshækkanir, sem kemur þá fram í vísitölu og verðlagsþróun. Þessi liður á að gefa 500 millj. kr. Samtals er þetta um 2,1 milljarður kr. sem gert er ráð fyrir því nú við þessa áætlun og þessar till. að tekjur ríkissjóðs hækki frá því sem greint er í fjárlagafrv.
    Ég vek á því athygli að með þessum till. er auðvitað verið að hækka skatta á þjóðina og með þessum till. er hæstv. ríkisstjórn enn einu sinni að setja nýtt skattamet. Með þessum till., verði þær samþykktar og verði þær raunhæfar, hækkar skattahlutfall miðað við verga landsframleiðslu upp í 28,1% og er það nýtt met. Ég hef áður rifjað það upp að á árinu 1987 var þetta hlutfall 23,5%. Frá 1987 til 1991 hækka skattar skv. þessum tillögum um 4,6 prósentustig miðað við landsframleiðslu.
    Skrifstofustjóri hagdeildar fjmrn. lagði á það

áherslu að áætlunin væri byggð á óbreyttri þjóðhagsspá sem lögð var fram í haust um svipað leyti og fjárlagafrv. Ef horfur færu hins vegar versnandi og það drægi úr tekjumyndun í þjóðfélaginu í líkingu við það sem þjóðhagsstjóri taldi líkur á sagði hann nauðsynlegt að endurskoða tekjuhliðina og bætti við: Ef loðnan klikkar fer tekjuhliðin í hundana. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar lét þess og sérstaklega getið að miðað við horfur í þjóðfélaginu væri þessi tekjuspá býsna ógætileg.
    Ég held að engum blandist hugur um það að hinar nýju till. um tekjuhlið fjárlaga sem hér hafa verið fluttar af hv. meiri hl. fjvn. beri með sér augljós fingraför hæstv. fjmrh. Í fyrsta lagi skattahækkanir og í öðru lagi óraunsæjar tölur. Hvort tveggja þekkjum við frá þessum hæstv. ráðherra fyrr í sambandi við fjármál ríkisins á ýmsum sviðum.
    Ég hlýt að taka það fram hér að þetta sannar að mínum dómi að það er ekki sérstaklega trúverðugt fyrirkomulag að sá sem leggur fram till. um tekjuhlið fjárlagafrv. við lokaafgreiðslu sé jafnframt starfsmaður fjmrh. Áður gilti það fyrirkomulag að till. um tekjuhlið fjárlagafrv. og um breytingar á tekjum fjárlagafrv. fyrir lokaafgreiðslu voru settar fram af Þjóðhagsstofnun sem er óháð stofnun enda þótt sjálfsagt sé að viðurkenna að iðulega hafi það nú gerst að ráðherrar hafi haft nokkur áhrif á þá starfsmenn sem þar hafa verið í forustu þó að sá sem þar hefur lengst setið sé nú kominn sjálfur í ráðherrastólinn. Samt sem áður liggur það fyrir að sú stofnun á að vera óháð stofnun. Hún byggir sína tekjuspá og tekjuáætlun varðandi tekjur ríkissjóðs á þjóðhagsáætlun og á þjóðhagshorfum. Hér er því lýst yfir að tekjuspáin og tillögur um hana byggi á þjóðhagsáætlun frá því í haust og því er lýst yfir að ef t.d.,
eins og hér segir orðrétt eftir skrifstofustjóra hagdeildar fjmrn., ,,loðnan klikkar fer tekjuhliðin í hundana``. Svo kemur hæstv. fjmrh. hér í dag með nýja greinargerð eða minnisblað um hugsanleg áhrif minni loðnuafla á tekjuhlið fjárlaga árið 1991 og hv. 5. þm. Vestf. vitnaði hér nokkuð í þetta blað áðan. Þar segir m.a. að gangi þetta eftir verði viðskiptahalli 3 milljörðum kr. meiri en áður hafi verið gert ráð fyrir. Sem sé, að viðskiptahallinn fari úr 5,7 milljörðum upp í 8,7 milljarða, eða e.t.v. 9,7 því áður hafði forstjóri Þjóðhagsstofnunar gert ráð fyrir því að viðskiptahallinn ykist um 1 milljarð.
    Það kemur víða fram að minni loðnuafli um 450 þús. tonn hefur auðvitað stórkostleg áhrif á tekjur í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir það kemur þessi snilldarsetning sem er niðurstaða fjmrn., væntanlega hæstv. fjmrh., sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Niðurstaðan er því sú að minni loðnuafli samkvæmt dæmi Þjóðhagsstofnunar hefði lítil sem engin áhrif á tekjuhlið fjárlaga fyrir árið 1991.``
    Ég verð nú að segja það að ef hæstv. fjmrh. er búinn slíkri snilld í meðferð mála að því er varðar tekjur í þjóðfélaginu og tekjur ríkissjóðs þá ætti hann nú að boða til blaðamannafundar og skýra þetta. Hann hefur stundum boðað til blaðamannafundar af minna

tilefni en því að hann sé búinn að finna ráð til þess að þrátt fyrir að loðnuafli minnki um 450 þús. tonn á einu ári hafi það lítil sem engin áhrif á tekjumyndun ríkissjóðs á því ári. ( Fjmrh.: Þetta álit er ekki frá mér komið, það veist þú vel.) Hæstv. fjmrh. hefur sjálfsagt ekki samið þetta sjálfur vegna þess að hann er nú að grípa hér fram í. ( Fjmrh.: Ég hafði ekki hugmynd um að ...) Hæstv. fjmrh. hins vegar kallaði á mig sérstaklega til þess að færa mér þetta skjal með eigin hendi. Þannig að ég hef það frá honum, enda er það merkt fjmrn.
    Ég skal ekkert segja um það hver hefur samið þetta skjal en ég get vel trúað því að það sé skrifstofustjóri hagdeildar fjmrn. Ég vil taka það fram að þó skrifstofustjóri hagdeildar fjmrn. hafi komið hér með ótrúverðugar till. um tekjuhlið fjárlaga í gær og hafi síðan komið með þetta skjal, sem fjmrh. rétti mér hér fyrr í dag þegar umræða var hafin, þá er ég ekki með þeim orðum að gagnrýna þennan starfsmann fjmrn. Hann starfar undir stjórn þessa hæstv. ráðherra sem stendur þarna í dyrunum, hæstv. fjmrh. Og það er fyrirkomulag sem ekki gengur að starfsmaður fjmrh. sem er alveg beint undir hans handarjaðri skuli leggja fram till. sem eru úrslitatillögur við tekjuhlið fjárlaga eins og hér er nú gert. Það var ekki núv. hæstv. fjmrh. sem tók upp þetta fyrirkomulag heldur fyrrv. hæstv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, og á hann lítið lof skilið fyrir.
    Ég vil ítreka það að með þessu er ég ekki að kasta neinum steini eða gagnrýni að þeim starfsmanni sem verður að vinna sín verk undir forsjá síns ráðherra. Sé hann hins vegar starfsmaður í óháðri stofnun hefur hann a.m.k. alla burði til þess að geta starfað á eigin ábyrgð og sett fram till. óháð því hvað hlutaðeigandi ráðherra kýs að fá í sínum skjölum eða ekki.
    Sú niðurstaða sem hér liggur fyrir er sem sé skattahækkun ofan á það sem áður hafði verið sýnt í fjárlagafrv. um 2,1 milljarð kr. Hæstv. ríkisstjórn bregður vitaskuld ekki vana sínum að setja nýtt met í skattaálögum á þjóðina, helst við hverja umræðu um fjárlagafrv. og stundum hefur það nú líka verið gert við umræður um fjáraukalagafrv.
    Áður en vikið er að gjaldahliðinni vil ég taka það fram að við þessa umræðu eru allar brtt. fluttar af meiri hl. nefndarinnar. Svo hefur raunar lengst af verið við 3. umr. að því er tekur til tekjuhliðar, þ.e. 3. gr., einnig að því er tekur til 5. gr., þ.e. um B-hluta stofnanir, og oft að því er tekur til ýmissa till. er varða 6. gr. og raunar stundum við þessa umræðu að því er varðar 4. gr. Stundum hefur svo sannsýnilega verið á málum haldið af hv. meiri hl. fjvn., hver sem hann hefur verið í það og það skiptið, að nefndin hefur öll treyst sér til að flytja þær till. sem fluttar eru við 4. gr. Svo er ekki að þessu sinni. Að þessu sinni er meðferð ríkisfjármála með þeim hætti og undirbúningur og aðdragandi og till. sjálfar í ýmsum greinum með þeim hætti að það er ekki nokkur leið fyrir minni hl. að standa að slíkum till. þó með fyrirvara væri. Þess vegna liggur það fyrir að allar till. sem fluttar eru við þessa umræðu úr fjvn. eru af hálfu

meiri hl. og meiri hl. eins.
    Við þessa umræðu leggur hv. meiri hl. fjvn. fram till. um aukin útgjöld er nema um 1622 millj. kr. Þrátt fyrir það dregst hallinn saman um 500 millj. kr. á pappírnum og verður um 4 milljarðar. Ég vek enn athygli á því að það vinnulag var viðhaft að málefni þau sem hér er um að tefla voru til meðferðar á hverjum ríkisstjórnarfundinum á fætur öðrum þar sem einstakir hæstv. ráðherrar toguðust á um málin og að skæklatogi loknu kom einhver og einhver handahófskennd niðurstaða til hv. meiri hl. fjvn. sem síðan gerði þær till. að sínum og flytur þær hér við þessa umræðu.
    Ég vek í fyrsta lagi athygli á því að skv. áætlunum sem fyrir liggja vantar til almannatrygginga um 1 milljarð kr. á næsta ári. Í fyrsta lagi til lífeyristrygginga um 500 millj. kr. Í öðru lagi til sjúkratrygginga, þ.e. aðallega vegna lyfjakostnaðar, um 500 millj. kr. Ástæða væri hér til að spyrja hæstv. heilbrrh., ef hann hirti um að vera við umræðu um fjárlög, hvernig þessum sparnaði á að ná. Það væri ástæða til að spyrja hæstv. heilbrrh. á hvern hátt eigi að skera niður lífeyristryggingarnar, ellilaun gamla fólksins? Á að gera það með þeim hætti að borga ellilífeyri bara í 11 mánuði því það er nánast á þann veg að það sem hér er ætlað til ellilífeyrisgreiðslna dugi 11 mánuði ársins. Annað tveggja á að skerða þessar greiðslur yfir allt árið eða borga ekkert í einum mánuði ársins, væntanlega í einhverjum af þeim mánuðum þegar þessi hæstv. ríkisstjórn er farin frá. En hæstv. fagráðherrar ýmsir hverjir sinna ekki þeirri skyldu sinni að vera hér við þegar rætt er um fjármál ríkissjóðs og varða þeirra fagráðuneyti. Það er því ekki hægt að toga út úr þeim eitt einasta orð þegar maður vill fá svör við spurningum um einstök málefni eins og þessi. Ég sé það að hæstv. fjmrh. er nú mjög ókyrr og allur á nálum og veit ekki hvar hann á að standa hér í þessum sal. Það væri einnig hægt að spyrja hann hvar eigi að skera niður ellilífeyrinn. Hvort eigi að skerða hann jafnt yfir árið eða hvort eigi að skilja eftir einn mánuð og borga þá ekki neitt. Það væri hægt að spyrja hæstv. fjmrh. einnig um það á hvern hátt eigi að ná þeim sparnaði í lyfjakostnaði, sem hér er talinn um 500 millj. kr., með tilliti til þess að sama fyrirætlun var á þessu ári um sparnað í lyfjakostnaði um 500 -- 600 millj. kr. sem þó varð að taka aftur inn sem útgjöld ríkissjóðs í fjáraukalögum sem þegar hafa verið afgreidd. Hér er því augljóst að vantar inn í þetta dæmi aðeins á einum lið um 1 milljarð kr.
    Hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar hefur kynnt till. um að hækka framlag til Byggingarsjóðs verkamanna um 200 millj. kr. Þessi till. mun til komin vegna þess að á tiltekinni samkomu Alþfl. í Hafnarfirði minntust þau hæstv. félmrh. og hæstv. utanrrh. og var það kallaður sáttakoss sem lengi vel fékkst ekki upplýst hvað mundi kosta í peningum. Nú hefur það komið í ljós að gjaldið fyrir þennan koss er 200 millj. kr. og skv. öllum spurnum af þessu máli hefur hann fallið í verði eftir því sem dagarnir hafa liðið. Er það auðvitað

skýringin á því að ekki var mögulegt að toga það út úr hv. meiri hl. fjvn. né hæstv. ráðherrum fyrr hvað þessi koss mundi kosta. Smám saman hefur það farið svo að verðfall hefur orðið á kossinum þannig að hann er kominn niður í 200 millj. kr. En þar að auki er meiningin að verulegur hluti af þessari greiðslu verði í formi lánsfjár því að upplýst er að hæstv. fjmrh. muni hafa gefið undir fótinn með það að Byggingarsjóði verkamanna verði útvegað lánsfé allt að 850 millj. kr. frá lífeyrissjóðum landsmanna. Það er hluti af þessari greiðslu og þá í formi lánsfjár.
    Það er svo annað mál að með því að auka lántökur Byggingarsjóðs verkamanna um 850 millj. kr. felur það í sér að verið er að flýta fyrir gjaldþroti þessa sjóðs og koma sér undan því að leggja fram þau framlög í beinum peningum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lofað og gefið fyrirheit um í gegnum þennan sjóð og er enn eitt dæmið um það að þessi hæstv. ríkisstjórn er þannig að velta því yfir á framtíðina sem hún sjálf hefur tekið ákvarðanir um að skuli greitt úr ríkissjóði.
    Enn eru engar till. fluttar hér um fé til Byggingarsjóðs ríkisins og er það í fyrsta sinn sem það gerist að ekki er fé úr ríkissjóði til þess sjóðs. Það er alkunna að málefni Byggingarsjóðs ríkisins eru í algeru óefni. Skv. því sem segir í fjárlagafrv. sjálfu vantar til sjóðsins á næsta ári 588 millj. til þess að hann geti staðið við sína starfsemi og loforð án þess að ný lánsloforð séu gefin.
    Í till. hv. meiri hl. kemur fram að lagt er til að skerða framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna um 200 millj. kr. Hér er væntanlega um að ræða niðurskurð á námslánum. Ekki er meiningin skv. upplýsingum formanns fjvn. að mæta þessu á þann hátt að sjóðnum verði útvegað nýtt lánsfé, heldur er hér um niðurskurð á námslánum að ræða um 200 millj. kr. Ég hefði kosið að fá að heyra það frá hæstv. menntmrh. ellegar hæstv. fjmrh. á hvern hátt þeir hugsa sér að framkvæma þennan niðurskurð námslána.
    Ég vil svo einnig vekja athygli á því að þrátt fyrir þetta eru málefni þessa sjóðs að öðru leyti í miklu óefni því að í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur verið veitt til hans meira lánsfé en framlög þannig að hann er smám saman að éta upp sitt eigið fé miðað við það verkefni sem honum hefur verið falið og hefur verið þanið býsna mikið út. Eins og nú standa sakir þá er lánahlutfall til sjóðsins miðað við fjáröflun til hans á næsta ári yfir 60% en framlög innan við 40%. Til þess að eigið fé sjóðsins stæðist þarf þetta hlutfall að vera öfugt og rúmlega það. Það þarf að vera framlag um 60% og lánsfé um 40%. Þá stæði eiginfé sjóðsins í járnum, hvorki minnkaði eða ykist. En þetta er nú eins og annað hjá hæstv. ríkisstjórn, að hún er með þessum hætti að rýra stöðu sjóðsins og flýta fyrir þrotum hans.
    Miðað við þær till. sem fyrir liggja og varða Þjóðarbókhlöðuna verða framkvæmdir þar mjög af skornum skammti og nánast í strandi. Mun vanta yfir 200 millj. kr. til þess að unnt sé að halda áfram verkum með þeim hætti að lokið verði áfanga sem til stóð að

vinna á næsta ári. Á hinn bóginn er reiknað með að ljúka við fyrstu lotu 1. áfanga í Þjóðleikhúsinu þrátt fyrir að ekkert sé til að vinna við aðra lotu í 1. áfanga. Það þýðir að hægt verður að taka salinn í notkun þrátt fyrir að ýmsir aðrir hlutar hússins séu sundurflakandi og verður svo allt næsta ár. Ég sé ekki ástæðu til að ræða hér málefni Þjóðleikhússins eða hvernig haldið hefur verið á málum í þeim framkvæmdum þar sem sannarlega hefur verið farið aftan að öllum venjulegum og góðum framkvæmdavenjum. Þar er ráðist í framkvæmdir áður en hönnun er lokið. Þar eru teknar ákvarðanir um hvenær framkvæmdum skuli lokið áður en búið er að hanna. Það eru teknar ákvarðanir um það fyrir fram hvenær hægt sé að hefja rekstur hússins áður en vitað er hvernig hönnun verður. Þetta leiðir til þess að sífellt er verið að breyta hönnun og breyta framkvæmdaáætlunum á framkvæmdatíma sem allir ættu að vita að kostar gífurlegt fjármagn. Þetta vinnulag sem er á ábyrgð hæstv. menntmrh. hlýtur að fela í sér gífurlega sóun eins og komið hefur fram í skýrslum um þetta mál.

    Þá er ekki að finna í till. hv. meiri hl. fé til að mæta aukinni fjárþörf vegna niðurgreiðslna sem fyrir liggur í gögnum fjvn. að vanti um 200 millj. kr. eftir 1. sept. nk. til þess að halda í horfi með niðurgreiðsluhlutfallið. Þetta þýðir, ef rétt er, að þá hækka matvörur í verði sem þessu nemur en hæstv. ríkisstjórn finnst það sjálfsagt ekki skipta miklu máli, enda er það, eins og hún kallar það, eftir þjóðarsátt. A.m.k. verður það að lokinni göngu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Þetta hefur auðvitað áhrif á, eins og ég sagði, verðlag og þar með vísitölu og alla verðlagsþróun í landinu.
    Þá er hér ekki neina krónu að finna til þess að sinna því sem tillögur eru á kreiki um í nefnd sem starfar á vegum hæstv. iðnrh., um verðjöfnun á orku. Sú nefnd starfar undir forustu hv. þm. Eiðs Guðnasonar og hefur haldið nokkra fundi þar sem tillögur eru á kreiki um að taka upp nýtt fyrirkomulag um verðjöfnun á orku en það kostar allmikla peninga eða eigi minna en 400 -- 500 millj. kr.
    Miðað við þær till. sem hæstv. ríkisstjórn og hv. meiri hl. fjvn. leggur fram hér á hinu háa Alþingi á þessi nefnd auðvitað aðeins að sinna því að vera með tillögur að nafninu til, bara á pappírnum. Það á bara að tala um málið og segja að við höfum sett fram tillögur en það á ekki að koma fram ein einasta króna til þess að mæta þessu verkefni, ekki ein einasta króna. Þetta verkefni er því allt á pappírnum og allt í orði en að engu leyti á borði.
    Þessir liðir sýna nokkurn hluta af því sem ástæða væri til að fá nánari skýringu á hjá hæstv. ráðherrum, einstökum hæstv. fagráðherrum og hæstv. fjmrh. Vegna þess að svo mikið hefur vinnuálagið verið núna þessa síðustu klukkutíma eftir að þessar tillögur komu fram, eftir skæklatog hæstv. ráðherra uppi í Stjórnarráði og hv. meiri hl. fjvn. fékk þær í hendur, að það hefur ekki verið tóm til að skýra þær til nokkurrar hlítar í meðförum fjvn. Enda jafnóvíst hvort hv. meiri

hl. hefur haft það nokkuð á valdi sínu að geta útskýrt þær tillögur sem þannig er fleygt inn til fjvn. úr herbúðum hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara yfir fleiri slíka liði varðandi útgjaldatillögur eða till. við 4. gr. frv. sem komið hafa frá hv. meiri hl. fjvn. en ég nefndi hér örfáa sjóði og hvernig staða þeirra væri. Ég hef talið fróðlegt að taka saman hvernig fjárveitingum hefur miðað áfram frá árinu 1986 til ársins 1991 til nokkurra af þessum sjóðum. Ef fyrst er litið á Byggingarsjóð ríkisins og miðað við verðlag ársins 1991, þ.e. fjárlagafrumvarpsverðlag, líta fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins út á þann máta að árið 1986 voru þær 2 milljarðar 822 millj. kr., 1798 millj. árið 1987, 1640 millj. árið 1988, falla síðan niður í 671 millj. 1989 og á árinu 1990 falla þær niður í 54 millj. Eins og fram hefur komið falla þær á þessu ári niður í núll. Framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins hafa því lækkað frá árinu 1986 á föstu verði um 2,8 milljarða rúmlega.
    Framlög til Byggingarsjóðs verkamanna hafa á hinn bóginn hækkað á þessu tímabili um 49 millj.
    Til Lánasjóðs ísl. námsmanna hafa framlög ríkissjóðs lækkað úr 2 milljörðum 328 millj. niður í 1930 millj., eða um 398 millj. kr.
    Og uppbætur á lífeyri, þ.e. til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafa framlög ríkissjóðs lækkað úr 1248 millj. árið 1986 í 788 millj. árið 1991, eða um 460 millj. kr. Það er alkunna að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og hjúkrunarkvenna er að komast í þrot, hans eigið fé er raunar þrotið. Skuldbindingar sjóðsins næstu tvo til þrjá áratugina nema 20 milljörðum króna umfram eigið fé sjóðsins. Það er auðvitað afleiðing af því að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur dregið svo saman fjárveitingar til sjóðsins, hvað sem skuldbindingum hans líður, að fjárhagur hans kemst á vonarvöl. Sé þetta tekið saman, framlög til þessara fjögurra sjóða, sést að framlög ríkissjóðs til þeirra hafa á föstu verði lækkað um nálega helming frá árinu 1986 til ársins 1991 miðað við till. sem fyrir liggja og varða fjárlagafrv., þ.e. úr 7 milljörðum 49 millj. kr. í 3 milljarða 631 millj.
    Þetta er vitaskuld aðeins hluti af því dæmi sem ég rakti hér, og við fulltrúar Sjálfstfl. höfum í nál. við 2. umr. sýnt fram á það hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur velt byrðunum á undan sér yfir á framtíðina með því að vanrækja að leggja fram fé eins og til hefur verið ætlast til þess að standa straum af skuldbindingum sem gerðar hafa verið og á þann hátt leynt þeim vanda sem við er að fást í fjármálum ríkissjóðs. Á þann hátt er reynt að fá út skárri útkomu á pappírnum við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni og við afgreiðslu fjáraukalaga hverju sinni en raunveruleikinn segir til um.
    Hæstv. ríkisstjórn er nú algjörlega ber að því að hafa hagað sínum vinnubrögðum á þennan hátt. Hún hefur ekki brugðist við þeim hætti að breyta verksviði þeirra sjóða sem hún á að standa straum af fé til. Það er ekki gert. Það fyrsta sem verður gert væntanlega er að breyta verksviði Lánasjóðs ísl. námsmanna með lækkun námslána eða takmörkun á umfangi sjóðsins. Það verður þá fróðlegt að sjá hvernig þær tillögur verða. Að öðru leyti hefur hæstv. ríkisstjórn ekki ráðist að því verkefni að breyta verksviði þeirra sjóða sem ríkissjóður stendur á bak við og leggur fram mikinn hluta af fé til starfseminnar í hverjum fyrir sig. Þetta hefur ekki verið gert.
    Ég rakti það, sem ég þarf ekkert að vera að margítreka, við 2. umr. að ýmsar skuldbindingar af þessum toga sem myndast hafa í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og ná að vísu sumar yfir árið 1988 eru allt upp í 47 milljarðar króna og bíða þess að verða lagðar á herðar framtíðarinnar þegar þessi hæstv. ríkisstjórn er farin frá.
    Það sem ég hef hér rakið varðandi sjóðina fjóra, sem ég nefndi, er að þótt framlög ríkissjóðs hafi lækkað um helming frá 1986 stafar það ekki af því að þörfin hafi minnkað. Þörfin hefur ekki minnkað hjá þessum sjóðum, verksvið þeirra hefur ekki verið takmarkað. Til að mynda hefur lífeyrisþegum í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna ekki fækkað og íslenskum námsmönnum hefur ekki fækkað. Þörfin hefur stórkostlega vaxið en þrátt fyrir það hafa framlögin úr hendi ríkissjóðs lækkað um helming á föstu verði.
    Þetta er sú svikamylla sem hæstv. fjmrh., hæstv. ríkisstjórn í heild og allt hæstv. stjórnarliðið hefur verið að koma hér upp í fjármálum ríkisins á undanförnum árum og gerð er í þeim tilgangi að blekkja þjóðina, blekkja fyrst Alþingi og síðan þjóðina og leyna raunverulegum vanda sem við er að fást í þessum málaflokki.
    Þær breytingar sem orðið hafa á fjárlagadæminu frá 2. og til 3. umr. miðað við þær till. sem fyrir liggja frá meiri hl. hv. fjvn. eru það miklar að við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. töldum ástæðu til að taka saman sérstaka grg., sem dreift hefur verið á borð þingmanna, grg. þar sem sumpart eru sýndar þær breytingar sem orðið hafa á fjárlagadæminu á milli umræðna og sumpart dregið saman með nokkuð skýrari hætti þær upplýsingar sem birtar voru í nál. okkar sjálfstæðismanna við 2. umr. Þetta er m.a. vegna þess að forsendur hafa breyst á milli umræðna, til að mynda við þær skattahækkanir sem orðið hafa, til að mynda við breytingar á væntanlegri landsframleiðslu samkvæmt spá og svo framvegis.
    Ég sé ástæðu til þess þar sem hér er um grg. að ræða sem ekki er prentuð sem þskj. að lesa grg. sem hluta af minni ræðu. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjárlagafrv. hefur tekið veigamiklum breytingum eftir afgreiðslu fjvn. við 2. umr. Það á bæði við um tekju- og gjaldahlið. Umtalsverð breyting til hins verra á þjóðhagsáætlun liggur þar að auki í loftinu. Að teknu tilliti til þeirra þátta sem augljóslega eru vanáætlaðir og atriða sem ekki koma fram í heildaryfirliti er því yfirvofandi að fjárlagahallinn vaxi umtalsvert á næsta ári og að nýtt Íslandsmet verði sett í skattheimtu þriðja árið í röð. Ef fram fer sem horfir má búast við fjárlagahalla á næsta ári að fjárhæð

hvorki meira né minna en 6 -- 7 milljarða króna og að tekjur ríkissjóðs vaxi að raungildi í hlutfalli við landsframleiðslu úr 27,6% í 28,1%.
    Það er með ólíkindum að þeirri stefnu að auka stöðugt ríkisútgjöld og skattheimtu skuli vera haldið til streitu þegar ljóst er orðið að hún gerir stöðugt illt verra. Eins og staðan er og hefur verið í þjóðfélaginu verður fjárlagahallinn aldrei brúaður með skattahækkunum. Hvort tveggja kemur til að skattahækkanirnar draga úr verðmætasköpuninni og kynda enn frekar undir aukningu ríkisútgjaldanna. Skattahækkanirnar valda samdrætti í atvinnulífinu, gjaldþrotum og atvinnuleysi. Heildartekjur heimila og fyrirtækja minnka og þar með einnig sá stofn sem skattheimtan er grundvölluð á. Erfiðleikarnir, gjaldþrotin og atvinnuleysið kalla svo á aukna félagslega aðstoð og þar með aukin útgjöld hins opinbera.
    Viðvarandi fjárlagahalli kallar stöðugt á nýjar lántökur af hálfu ríkissjóðs, vaxandi skuldasöfnun hins opinbera, bæði bein og óbein, gerir einstaklingnum og fyrirtækjum stöðugt erfiðara fyrir á lánamarkaðinum. Vextir hækka og svigrúm innlendra aðila til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar verður mjög takmarkað.
    Núverandi stefna í ríkisfjármálum hefur ekki aðeins reynst haldlaus heldur stefnir hún þjóðarhag í voða. Hún stefnir efnahag atvinnulífs, heimila og fyrirtækja í hættu og ógnar þar með stjórnmálalegu og menningarlegu sjálfstæði þjóðarinnar.
    Í framhaldi af nál. 1. minni hl. við 2. umr. er rétt að undirstrika og vekja sérstaklega athygli á eftirfarandi atriðum:
    Stefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr hefur verið að hækka skatta og að auka ríkisumsvif. Stefnunni hefur verið framfylgt bæði leynt og ljóst. Henni er enn haldið fram skv. fyrirliggjandi fjárlagafrv. þótt hún sé í reynd hið mesta glapræði. Það viðhorf hefur ráðið ferðinni að ráðamenn ríkisins séu betur til þess fallnir að ráðstafa þjóðartekjunum en heimilin og atvinnufyrirtækin. Ríkisstjórnin hefur aðhyllst forsjárhyggju og verið þeirrar skoðunar að aðrir en einstaklingarnir sjálfir vissu hvað þeim væri fyrir bestu.
    Það hefur verið staðhæft að umsvif hins opinbera væru minni hér á landi en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þessari staðhæfingu er haldið til streitu, jafnvel þótt ljóst megi vera að hin miklu ríkisumsvif hérlendis verða ekki mæld á sama mælikvarða og í grannlöndunum. Mörg boð og bönn íslenska ríkisins hvorki eru né verða auðveldlega metin í krónum og aurum.
    Útgjaldaaukning ríkisins hefur verið sögð óhjákvæmileg til að viðhalda því velferðarkerfi sem við sækjumst eftir. Þetta er rangt en jafnvel þótt að öðru óbreyttu megi rökstyðja aukninguna ætti að vera augljóst að það gengur ekki til lengdar að útgjaldaaukning hins opinbera sé meiri en verðmætasköpun atvinnulífsins.
    Því hefur verið haldið fram að það sé sjálfsagt að vinstri flokkar á Íslandi gangi eins langt og nokkur kostur er í að auka útgjöld ríkisins til félags- og velferðarmála þegar þeir fá aðstöðu til þess í ríkisstjórn. Við fulltrúar Sjálfstfj. í fjvn. mótmælum framangreindri stefnu og þeim viðhorfum sem liggja henni að baki. Hún endurspeglar skilningsleysi á almennum efnahagslögmálum og þeirri staðreynd að óhófleg skattlagning dregur úr framtakssemi, verðmætasköpun og þar með því sem er til skiptanna. Hún felur í sér vantrú á einstaklingsframtaki og með henni er horft fram hjá þeim óþrjótandi möguleikum sem eru á því að láta einstaklingum og frjálsum félögum þeirra eftir að annast stóran þátt þeirrar þjónustu sem nú er veitt á vegum hins opinbera.
    Ríkisfjármálastefnu núv. ríkisstjórnar hefur verið framfylgt einarðlega en um leið af miklu fyrirhyggjuleysi. Staðreyndir:
    1. Miðað við fjárlagafrv. við 3. umr. hafa skattar til ríkissjóðs á ársgrundvelli verið hækkaðir um 16 milljarða króna frá og með 1988 til 1991. Þetta gerir því á ári rúmar 240 þús. kr. á fjögurra manna fjölskyldu.
    2. Þrátt fyrir skattahækkanirnar stefnir í það að samansafnaður halli ríkissjóðs árin 1988 -- 1991 verði yfir 30 milljarðar króna á verðlagi fjárlagafrv.
    3. Lántökur opinberra aðila á innlendum lánsfjármarkaði eru á næsta ári áætlaðar 32,4 milljarðar eða 20,2 milljarðar að frádregnum afborgunum. Þetta samsvarar hvorki meira né minna en 53% af áætluðum peningalegum sparnaði landsmanna árið 1991. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur heildarlántaka ríkissjóðs umfram lánveitingar hækkað úr 7,6% árið 1988 í 14,9% skv. fjárlagaáætlun 1991.
    4. Skv. yfirliti Ríkisendurskoðunar og áætlun samkvæmt fjárlagafrv. 1991 má gera ráð fyrir að stöðugildum hjá ríkinu fjölgi um 550 árið 1991 en árið 1990 fjölgaði þeim um 400. Á sama tíma og störfum hjá ríkinu fjölgar dregst hins vegar vinnuaflsnotkunin saman í atvinnulífinu almennt, (500 -- 600 störf árið 1990).
    5. Skv. forsendum fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir því að samneysla (rekstrarútgjöld hins opinbera) aukist um 2% árið 1991 eða umtalsvert meira en aðrar þjóðhagsstærðir. Sl. 10 ár, eða frá 1980, hefur samneyslan
aukist um 53% á meðan verg landsframleiðsla hefur aðeins aukist um 22,4%. Hagvöxtur á mann yfir allt tímabilið án aukningar samneyslunnar er 2,2%. Samsvarandi tala fyrir OECD er 20%.
    6. Eins og á undanförnum árum kemur stór hluti af tekjuaukningu ríkissjóðs ekki fram í tekjuyfirliti fjárlagafrv. Hvort tveggja kemur til að útgjöld eru færð til frádráttar tekjum og að tekjur hverfa inn í rekstur tiltekinna stofnana til frádráttar útgjöldum.
    7. Frv. boðar mikinn vanda í fjármálum ríkisins á komandi árum. Á undanförnum árum hefur í mörgum tilvikum verið gengið á eigið fé stofnana og sjóða. Ríkissjóður hefur jafnframt tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar sem nema tugum milljarða og ekki hafa verið gerðar upp. Ekki síður alvarlegt er að í mörgum tilvikum er ljóst að ríkissjóður fær ekki að óbreyttu staðið undir þessum skuldbindingum.

    8. Umtalsverð aukning ríkisumsvifa hefur á liðnum árum átt sér stað utan fjárlaga, sbr. Hlutafjársjóð og fyrirhugaðan Hagræðingarsjóð sem ætlunin er að taki til starfa nú um áramótin.
    Stefnan hefur þrengt mjög hag heimilanna og atvinnulífsins. Linni henni ekki leiðir hún til ófarnaðar. Staðreyndir:
    1. Hagvöxtur á Íslandi sl. áratug hefur verið óviðunandi, bæði á íslenskan mælikvarða og í samanburði við hagvöxt þeirra þjóða sem við verðum að bera okkur saman við. Frá 1980 til 1990 hefur árlegur hagvöxtur á Íslandi verið nálægt 2% en á sama tíma 3% hjá OECD. Landsframleiðslan á Íslandi hefur vaxið um 22,4% á þessum tíma en 33,8% hjá OECD. Þegar tekið hefur verið tillit til fólksfjölgunar verður samanburðurinn enn óhagstæðari fyrir okkur Íslendinga. Stöðnun í lífskjörum á meðan þau halda áfram að aukast hjá grannþjóðunum gerir að verkum að hætta á landflótta er yfirvofandi.
    2. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aldrei verið hærri en á þessu ári, eða 51,6% af landsframleiðslu, voru 40,3% árið 1987.
    3. Greiðslubyrði af erlendum lánum verður á næsta ári skv. spá Seðlabanka 21,7% af útflutningstekjum, var 16% árið 1987.
    4. Kaupmáttur ráðstöfunartekna launafólks er talinn hafa lækkað um meira en 15% frá 1987 til 1990.
    5. Atvinnuleysi hefur u.þ.b. þrefaldast frá 1988. Gert er ráð fyrir að 2.500 manns gangi atvinnulausir að meðaltali allt þetta ár. Þjóðhagsstofnun spáir því að atvinnuleysi aukist enn á næsta ári.
    6. Gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja fer sífellt fjölgandi og eru engar horfur á að því dapurlega ástandi linni. Fjöldi gjaldþrota eingöngu í Reykjavík er áætlaður um eða yfir 900 í ár, samanborið við 351 árið 1987.
    7.  Viðskipti þjóðarbúsins við útlönd eru með stöðugum halla og er spáð að hann verði 5700 millj. kr. á næsta ári. Hallinn á því eina ári mun því nema nálægt 90 þús. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.``     Þetta er undirskrifað í dag af okkur sjálfstæðismönnum í fjvn., Pálma Jónssyni, Agli Jónssyni og Friðjóni Þórðarsyni. Það má geta þess að í því skjali sem hæstv. fjmrh. rétti mér um það leyti sem þessi umræða hófst gerir fjmrn. ráð fyrir því að halli á viðskiptum við útlönd vaxi um 3 milljarða frá því sem áður hafði verið talið og verði því ekki, eins og hér er sagt, 5,7 milljarðar á næsta ári heldur 8,7 milljarðar. Það þýðir þá einnig að þessi halli á einu ári nemur um 140 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta er ekki eina árið sem er með þeim halla á utanríkisviðskiptum. Með þessum hætti höfum við verið að safna upp skuldum erlendis og nú er svo komið að milli fjórða og fimmta hver króna af útflutningstekjum okkar gengur til að greiða afborganir og vexti á ári hverju.
    Sýnilegt er af þeim horfum sem eru bæði birtar í þjóðhagsáætlun og skv. athugasemdum þjóðhagsstjóra og skrifstofustjóra hagdeildar fjmrn. frá því í gær og frá því í dag að þessi halli mun vaxa á næsta ári og

skuldabyrðin mun aukast á næsta ári meira en hér kemur fram og þar með greiðslubyrðin.
    Með þessari grg. fylgja tvö fskj. sem sýna í fyrsta lagi þær breytingar sem orðið hafa á skattheimtu á þjóðina, þ.e. heildartekjum ríkissjóðs, sem hlutfalli af landsframleiðslu frá árinu 1987 til 1991 sem sýnir að hún var 1987 23,5% en er komin á næsta ári, skv. þeim till. sem nú liggja fyrir frá hv. meiri hl. fjvn., upp í 28,1%, eða hefur hækkað um 4,6%. Í öðru lagi er hér fskj. sem sýnir það að skv. fjárlagafrv. og fyrirliggjandi þjóðhagsáætlun með föstu verðlagi, þar sem verð á árinu 1987 er sett 100, hafa skattar til ríkisins hækkað um 16% til ársins 1991 á meðan ráðstöfunartekjur heimilanna, rekstrargjöld heimilanna, sem fundin eru með útreikningi úr einkaneyslu, hafa lækkað um 12%. Þetta sannar auðvitað það, sem ekki kemur neinum á óvart, að því meira fjármagn sem ríkissjóður tekur til sín, því meira fé sem við verjum í ríkisreksturinn, þá sífelldu útþenslu ríkiskerfisins sem við höfum verið að byggja upp nú á allra síðustu árum, sérstaklega í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar, því minna verður til skiptanna fyrir aðra. Þá er minna til skiptanna fyrir heimilin í landinu. --- Ef hæstv. fjmrh. gæti slotað þeim fundi sem hann er á þarna við hv. þm., hæstv. ráðherra er náttúrlega hér til að hlýða á þá umræðu sem fram fer. ( Fjmrh.: Viltu ekki segja þm. Sjálfstfl. það?) Eftir því sem meira er tekið í hlut ríkissjóðs, eftir því sem ríkiskerfið er í sífellu þanið út, eins og hér hefur verið gert, um 16% ríkisútgjöldin, eða skattar til ríkisins, 1987 -- 1991, þeim mun minna er til ráðstöfunar fyrir aðra. Þeim mun minna fé hafa heimilin úr að spila. Þeim mun minna fé hafa atvinnuvegirnir í landinu úr að spila og aðrir þeir sem ekki eru á jötu hjá ríkinu. Þetta eru einföld sannindi sem auðvitað þarf ekki að tyggja hér yfir hv. alþm. en það virðist vera ástæða til að þylja þetta einu sinni enn yfir hæstv. fjmrh.
    Ef þessar skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar eru greindar í sundur eftir skattategundum kemur í ljós að beinir skattar hafa hækkað á föstu verði frá 1987 til 1991, miðað við fjárlagafrv., um hvorki meira né minna en 85%, beinir skattar á einstaklinga og fyrirtæki. Óbeinir skattar hafa að sjálfsögðu hækkað miklu minna. Þeir hafa hækkað um 5% á sama tímabili og heildarskattbyrðin, eins og áður sagði, um 16%. En það er athyglisvert hversu mjög hefur verið gengið í skrokk á einstaklingunum og fyrirtækjum með hækkun beinna skatta. Og það er auðvitað í samræmi við þá stefnu sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur fylgt.
    Ég tel ástæðu til þess hér við lokaumræðu um fjárlagafrv. fyrir árið 1991 að vekja athygli á því að afgreiðsla fjárlaga er býsna mikilvægt málefni og ekki sama hvernig sú afgreiðsla fer fram. Fjárlög ríkisins eiga að vera og geta verið mikilvægt stjórntæki í efnahagsmálum. En það gerist því aðeins að þau séu afgreidd á þann hátt að hægt sé a.m.k. nokkurn veginn að standa við tölur, áætlanir séu raunhæfar og mögulegt sé að sigla eftir áætlunum á grundvelli þeirra í rekstri einstakra stofnana og í umfangi tiltekinna viðfangsefna. Þetta eru meginatriði til þess að fjárlög geti

orðið stjórntæki. Séu hins vegar áætlanir fjárlaga rangar og ekki í samræmi við þau verkefni sem á að halda gangandi verða fjárlög máttlaust stjórntæki. Svo hefur verið í tíð hæstv. ríkisstjórnar sem nú situr.
    Og það er kannski ástæða til að vekja athygli á því við þessa lokaumræðu um fjárlög að við erum með eitt slíkt plagg í höndunum þar sem fjárhæðum ýmsum, bæði gjalda- og teknamegin, hefur verið hagrætt að geðþótta einstakra ráðherra og í skæklatogi hæstv. ríkisstjórnar og þannig sendar einstakar till., bæði tekna- og gjaldamegin, til hv. meiri hl. fjvn. sem hefur sætt sig við að taka við málunum á þann hátt og leggja málin á þann hátt fyrir Alþingi. Slíkar geðþóttaákvarðanir um fjárhæðir tekna - og gjaldamegin valda því að það er ekki merkur atburður að afgreiða þessi fjárlög. Þau eru að ýmsu leyti sýndarplagg. Afgreiðsla fjárlaga nú er líka þeim annmörkum háð að það er ekki fylgt lögum um það að afgreiða samtímis lánsfjárlög. ( Fjmrh.: Það er af því að Sjálfstfl. neitar því.) Það hlýtur að vera rangt að Sjálfstfl. neiti því. Það er auðvitað fyrir það að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið þessu máli áfram eins og henni er skylt. Ég á ekki von á því að það sé með nokkru móti hægt að bera það á Sjálfstfl. að hann hafi tafið svo fyrir afgreiðslu lánsfjárlagafrv. að það hafi orðið til þess að hindra að það næði afgreiðslu hér með sama hætti eða sambærilegum tíma og fjárlög. En það er óskiljanleg ósvífni af hæstv. fjmrh. að bera það hér á borð úr sæti sínu að Sjálfstfl. hafi neitað því að afgreiða lánsfjárlög á sama tíma og fjárlög.
    Í fyrsta lagi liggur það því hér fyrir að það er ekki nema hluti af fjárlagadæminu eða fjármálum ríkisins sem verið er að afgreiða með fjárlögum, lánsfjárlögin liggja eftir, og því ekki heildarmynd af þeirri afgreiðslu sem hér er verið að framkvæma. Til viðbótar er, eins og áður er fram komið, tekju - og gjaldapóstum þessa fjárlagafrv. skákað niður á blað í þeim tilgangi að sýna niðurstöður sem eru án samhengis við raunveruleikann í ýmsum greinum. Tilgangurinn er auðvitað að sýna á pappírnum einhverja aðra útkomu en raunveruleikinn segir til um. Og þetta er ekki nýtt í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég tel að svo purkunarlaust sé nú gengið fram í þessum skollaleik að afgreiðsla Alþingis á því fjárlagafrv. sem hér er til lokaafgreiðslu sé að verulegu leyti sýndarmennska, raunar skrípaleikur sem settur er á svið til þess að dylja raunverulegan halla ríkissjóðs á næsta ári sem fullyrða má að sé eigi minni en 7 milljarðar kr. og er þá varlega talið. Enn á því að bæta við þann vanda sem velt er á herðar framtíðarinnar og ég skýrði við 2. umr. Það efnahagslega kviksyndi sem við blasir í fjármálum ríkissjóðs í lokin á stjórnartíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar kallar auðvitað enn fram einkunnarorðin sem ég hef sum hver farið með hér í þessum ræðustól áður, en þau eru skattaálögur,sóun, hallarekstur og blekkingaleikur. Þennan blekkingaleik og allt þetta efnahagslega kviksyndi fær þjóðin í arf frá þeirri ríkisstjórn sem allt of lengi hefur setið.