Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka fjvn. fyrir mjög gott starf við erfiðar aðstæður. Á tímum aðhalds og sparnaðar er það erfitt verkefni fyrir fjvn. að vísa á bug fjölmörgum óskum um viðbótarfjárframlög og vega og meta hvaða beiðnum á að hafna og hverjum á að taka jákvætt. Ég tel að við þessar kringumstæður hafi fjvn. unnið mjög gott starf. Sýnt bæði dugnað og sanngirni í sínum störfum. Niðurstaðan er sú að hækkanir á fjárlagafrv. eru ekki miklar þegar horft er til liðinna ára og þeirrar reynslu sem þar kom fram. Ég vil þakka sérstaklega formanni fjvn. fyrir það mikla starf sem hann hefur unnið við að hafa forustu fyrir nefndinni á þessum tímum og þá samvinnu sem ég hef átt við hann og nefndina alla á undanförnum vikum.
    Það er að mörgu leyti merkileg tilraun sem gerð hefur verið hér á undanförnum árum í ríkisfjármálum hvað snertir samstarf fjvn. og fjmrh. Vegna þess, eins og alkunnugt er, komst sú skipan á þegar skipt var um ríkisstjórn 1988 að fjmrh. og formaður fjvn. voru úr sitt hvorum flokknum. Ég held að hægt sé að segja með sanni þegar mælt er fyrir og afgreitt síðasta fjárlagafrv. á þessu kjörtímabili að sú skipan mála hafi tekist vel. Fyrir það er ég þakklátur og vil færa formanni nefndarinnar og nefndinni allri sérstakar þakkir fyrir þá samvinnu.
    Ég vil síðan víkja hér fáeinum orðum, sem ekki var nú ætlun mín, að þeim hluta í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar þar sem vikið var að verkum hagdeildar fjmrn. við að meta þróun tekjustofna fjárlaga á næsta ári. Það er tiltölulega auðvelt verk að koma því inn hjá almenningi og fjölmiðlum að embættismenn fjmrn. eða annarra ráðuneyta geri bara það sem ráðherrann segir. En hv. þm. veit að það er ekki rétt mynd. Hv. þm. veit að starfsfólk ráðuneytanna og í þessu tilviki hinir virtu fræðimenn sem starfa í hagdeild fjmrn. er fólk með langa reynslu á þessu sviði og fólk sem kappkostar fagleg vinnubrögð. Enda er aðstaða þess fólks með þeim hætti að falsanir af því tagi til að þóknast ráðherranum, svo að vikið sé að þeim texta sem hv. þm. fór hér með, væru skammgóður vermir vegna þess að embættismenn hagdeildarinnar búa við það að reynslan kveður upp dóm yfir þeirra verkum. Vegna þess að í lok hvers árs er hægt að bera saman þá áætlun sem þeir leggja fram og niðurstöðuna. Það er t.d. athyglisvert að þó að sami maður og aðrir hafi fullyrt fyrir rúmu ári síðan að tekjur fjárlaganna fyrir árið í ár væru ofáætlaðar hefur reynslan sýnt að þær voru lágt áætlaðar. Það var varlega farið í það mat og þær hafa reynst meiri í ár en áætlað var í tekjuáætlun fjárlagafrv. í fyrra. Ég vara eindregið við því að verið sé að sá hér tortryggni í garð embættismanna sem vinna störf sín af faglegum metnaði. Ég get borið vitni um það að ég hef aldrei reynt annað af því ágæta fólki sem þetta verk hefur unnið heldur en mikinn faglegan metnað.
    Það kemur reyndar fram í nýrri tekjuáætlun hagdeildarinnar að það eru ítarleg og skýr rök fyrir því

hvers vegna tekjuhliðin hækkar. Í fyrsta lagi er hækkun á því sem tekjuskattur fyrirtækja á að skila. Hvers vegna? Vegna þess að hvert fyrirtækið af öðru á síðustu mánuðum hefur verið að sýna vaxandi hagnað á þessu ári. Reyndar hafa forustumenn samtaka atvinnulífsins í mín eyru fullyrt að þessi áætlun um hagnað fyrirtækjanna og þar með tekjuskatt fyrirtækjanna sé of lág. Hagnaðurinn verði meiri og tekjuskattur fyrirtækjanna enn meiri en þarna er áætlað í ljósi þeirrar uppsveiflu og betri rekstrarstöðu sem fyrirtækin búa nú við.
    Í öðru lagi eru áætluð hækkuð skil á virðisaukaskatti miðað við það sem áður var. Hver er meginástæða þess? Hún er einfaldlega sú að í ljós kom að á síðasta innheimtutímabili þessa árs beittu fyrirtæki í meira mæli en talið var heimildum virðisaukaskattslaga til þess að nota sem innskatt til frádráttar ákveðin útgjöld og ætla sér síðan að skila tekjunum eftir áramótin. Það er einnig ljóst af þeirri reynslu sem við höfum haft af innheimtuaðgerðum á rúmu ári að þær skila viðbótartekjum og það hefur Ríkisendurskoðun staðfest.
    Í þriðja lagi hefur sú breyting orðið á síðustu tveimur mánuðum að vaxandi kaup hafa orðið á bílum eftir u.þ.b. tveggja ára stöðnun. Það er álit fyrirtækjanna á þessum vettvangi, innflytjendanna sjálfra, að það muni fara mjög vaxandi á næsta ári. Staðreyndin er nefnilega sú að sérfræðingar hagdeildarinnar byggja sitt mat ekki bara á því að þeir rýni í einhverja glerkúlu heldur á víðtækum gögnum frá viðskiptalífinu, frá forsvarsmönnum fyrirtækja og öðrum sérfræðingum úti í þjóðfélaginu.
    Í fjórða lagi er um að ræða aukningu á tekjuskatti einstaklinga miðað við það sem áætlað var í ágúst eða septembermánuði. Hvers vegna? Vegna þess að innheimtur tekjuskattur einstaklinga á þessu ári hefur verið meiri en áætlað var. Þannig er áfram hægt að telja skýr og ítarleg fagleg rök fyrir því hvers vegna tekjurnar eru metnar með þeim hætti sem hér hefur fram komið.
    Þessu til viðbótar eru svo tvær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Önnur er sú að breyta prósentu í frv. um jöfnunargjald sem hér liggur fyrir þinginu á þann veg að það skili 100 millj. kr. meiri tekjum á næsta ári og sú stefnuákvörðun ríkisstjórnarinnar að afla 500 millj. kr. á næsta ári með t.d. tveimur leiðum. Annars vegar í gegnum verðlag á áfengi og tóbaki og hins vegar með því að fara að innheimta jöfnunargjöld af innfluttum matvælum sem er full heimild til og talið eðlilegt í alþjóðlegum viðskiptasamningum okkar til þess að styrkja samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu, m.a. með því að leggja á þær vörutegundir, sem hv. þm. nefndi, sérstök gjöld til að framleiðendur á pizzum og öðrum matvælum hér innan lands byggju við betri samkeppnisstöðu.
    Það er svigrúm fyrir þessa ákvörðun vegna þess að þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru framlengdir var gefið út það fyrirheit að verðákvarðanir af skattabreytingum ríkisstjórnarinnar yrðu á bilinu 0,0 -- 0,4% í framfærsluvísitölu. Eins og fram hefur komið eru

þegar ákvarðaðar breytingar aðeins 0,1% í framfærsluvísitölu. Þessar breytingar munu því ekki leiða til verðhækkana umfram það sem fyrirheit var gefið um þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru framlengdir. Það eru því full fagleg rök fyrir því að sérfræðingar ráðuneytisins, sem hafa verið sérfræðingar ríkisstjórna og ráðherra í þessum efnum um langt árabil á undan mér, leggja fram þetta mat. Og ég get sagt hv. þm. það að ég hef aldrei í eitt einasta skipti orðað það við slíka embættismenn að þeir fari að búa til einhverjar falsaðar tölur. Og sú leikræna lýsing sem hv. þm. gaf á því að ég hefði komið og afhent honum plagg um álit Þjóðhagsstofnunar varðandi minnkandi loðnuafla og þar með verið að gefa til kynna að ráðherrann hefði nú sérstaklega komið með þetta, eins og þingmaðurinn sagði, réttandi þetta skjal og gefið til kynna að þar með væri verið að falsa eitthvað myndina. Hver var ástæðan fyrir því að ég náði í hv. þm.? Ástæðan var sú að 3. umr. fjárlaga var að hefjast hér. Fjvn. hafði beðið um þetta álit. ( EgJ: Og fengið synjun um það.) Það veit ég ekkert um. Mér var ekki kunnugt um þá bón en embættismaður ráðuneytisins var hér frammi á gangi og vildi koma þessum skjölum til fjvn. áður en umræðan hófst. Ég fór því inn í þingsalinn og náði í oddvita Sjálfstfl. í nefndinni, Pálma Jónsson, og formenn nefndanna til þess að þeir gætu fengið þetta skjal frá embættismanninum sem þeir höfðu beðið um. Það var eina hlutdeild mín í þessu máli. Og fara að gera úr því einhverja leikræna frásögn hér í ræðustól til að sá tortryggni í garð þessara embættismanna, að þeir hafi verið að semja einhverja álitsgerð að beiðni ráðherrans er gjörsamlega út í hött. Ég hafði ekki hugmynd um að þeir væru að vinna þetta verk.
    Hvað segir svo í þessu áliti? Það segir einfaldlega það sem flestir vita, að þegar ákveðinn brestur verður í forsendum tekjuöflunar í okkar þjóðfélagi þá tekur tíma að áhrifa þess gæti út í hagkerfinu. Þetta er á erlendu hagfræðimáli kallað time lag. Það er alþekkt fyrirbæri í hagfræðilegum rannsóknum og hagfræðilegum umfjöllunum. Ég man nú bara ekki í svipinn hvað það heitir hjá íslenskum hagfræðingum. ( GHH: Tímatöf.) Það heitir tímatöf. Þakka þér fyrir, hv. þm. Geir H. H aarde. Ég veit að hann þekkir þetta vel eins og frammíkallið sýnir rækilega. Og það sem sérfræðingur ráðuneytisins er einfaldlega að benda á er að það eru meiri líkur á því að slík áhrif komi fram í tekjum ríkissjóðs á árinu 1992 en á árinu 1991.
    Þar að auki er rétt að benda á það að í forsendum fjárlaganna er ekki miðað við það að álversframkvæmdir hefjist hér. Þannig að ef álversframkvæmdir hefjast hér munu áhrifin á tekjuöflun ríkissjóðs verða mjög jákvæð umfram það sem hér er gert ráð fyrir.
    Í forsendum fjárlaganna er heldur ekki miðað við það að friður skapist í Persaflóa og olíuverð fari í fyrra horf. Þvert á móti er í forsendum fjárlaganna miðað við það að það gæti áfram áhrifa af þeim vandamálum sem þar hafa skapast og áhrifum þess á olíuverð í heiminum.

    Í þriðja lagi er í forsendum þessa frv. ekki miðað við það að verðlag á útflutningsvörum okkar muni hækka sem þó margt bendir til að þær kunni að gera. Það eru þess vegna svartsýnar forsendur í ýmsum meginþáttum þessa frv. sem að öllum líkindum geta fært tekjuhliðina upp umfram það sem kemur fram í þeirri áætlun sem hér hefur verið lögð fram.
    Ég get hins vegar vel skilið það að hv. þm. Pálmi Jónsson, sem í viðtali við fjölmiðla undanfarna daga hefur látið hafa það eftir sér að hallinn á fjárlagafrv. yrði 6 -- 7 milljarðar, sé dálítið súr yfir því að það reynist vera rangt. En það er óþarfi að koma hér með dylgjur í garð embættismanna ráðuneytisins vegna þess. Það er nóg að skamma mig.
    Virðulegi forseti. Það er að vísu ein ákvörðun sem ég á varðandi tekjuhlið frv. síðustu daga. Ég skal fúslega segja frá henni. Hún er sú að endurmat á tekjuhliðinni kæmi ekki fram fyrr en útgjaldadæminu væri lokað til þess að það væri alveg skýrt að það mundi ekki gæta tilhneigingar til þess að sækja tekjur sem væru kannski meiri en menn hefðu haldið til að auka útgjöldin. Það eru einu afskiptin sem ég hef haft af þeirri tekjuáætlun sem hér er lögð fram.
    Virðulegi forseti. Mér fannst nauðsynlegt að láta þetta koma hér fram vegna þess að þeir ágætu embættismenn sem þetta verk hafa unnið setja verk sín undir dóm reynslunnar. Það mun koma í ljós undir lok næsta árs, lið fyrir lið, tekjuöflun fyrir tekjuöflun, skatt fyrir skatt, hvort mat þeirra hefur verið rétt eða rangt.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Pálmi Jónsson las hér upp grg. frá fulltrúum Sjálfstfl. í fjvn. Hún er fróðleg fyrir margra hluta sakir. Hún er þó sérstaklega fróðleg fyrir það að þar er ekki að finna eina einustu till. um það hvernig Sjálfstfl. hyggst taka á ríkisfjármálavandanum ef hann kemst hér til valda. Í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar var heldur ekki ein einasta setning um það. Sjálfstfl. ætlar ekki að auka skattana. Margir forustumenn Sjálfstfl. hafa játað því í aðdraganda þessara kosninga að þeir ætli að lækka skattana en þeir hafa ekki nefnt eina einustu niðurskurðartillögu. Ég virði það hins vegar að þeir hafa við afgreiðslu þessara fjárlaga ekki flutt neina hækkunartillögur. En það dugir hins vegar ekki til þess að koma þessari svokölluðu stefnu Sjálfstfl. upp þannig að hún standist. Það þarf þá að koma með till. um niðurskurð um a.m.k. 15 -- 20 milljarða ef það á að verða samhengi í því sem hér er sagt. Og fyrr en þær koma fram er þessi málflutningur Sjálfstfl. botnlaus tunna, botnlaus tunna. Það er enginn vandi að birta línurit af því tagi sem hv. þm. Pálmi Jónsson birtir með þessari grg. Ég bendi honum á að búa til samsvarandi línurit yfir útgjöld og skattheimtu Reykjavíkurborgar.
Ég bendi honum á að gera sams konar línurit yfir það þannig að hann fái þá samanburð í þeirri þróun við þá fjármálastjórn sem nýkjörinn varaformaður Sjálfstfl. hefur beitt sér fyrir.
    Virðulegi forseti. Það voru nokkur efnisatriði sem hér var vikið að hjá hv. þm. sem ég sé kannski ekki ástæðu til þess að víkja mikið að. Auðvitað er það

þannig að það getur ýmislegt breyst á nýju ári. Það vita allir, það kennir reynslan okkur. Sumt af því sem hér kemur fram er byggt á áætlunum og útreikningum á því. Ég nefni t.d. það sem gerst hefur í meðferð þingsins á landgræðsluáætlun. Hún hefur verið reiknuð upp á nýtt, gerðar breytingar á fjárframlögum ríkisins í þeim efnum. Það er hægt að framkvæma útreikninga með ýmsu móti á því sviði. Sumir telja að yfir það þurfi að fara aftur og meta það hvort í reynd sé það þannig að fjárframlag til landgræðslumála eigi að minnka samkvæmt ályktun þingsins á sínum tíma.
    Reynslan sýnir okkur líka varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna að það er erfitt að áætla fyrir fram hver fjárþörf þess sjóðs kann að vera, m.a. vegna þess að við búum í frjálsu þjóðfélagi þar sem námsmenn hafa frjálsan rétt til að hefja nám og það sem gerst hefur á þessu ári, hvort sem það gerist á næsta ári eða ekki, var að mikil aukning varð á fjölskyldufólki hvað snertir námslán. Þannig geta verið miklar sveiflur hjá stórum sjóðum frá einu ári til annars hvað þetta snertir. Þá verða menn að mæta því þegar þar að kemur.
    Það er hins vegar rangt hjá hv. þm. að tillögur heilbrrh. um sparnað í lyfjakostnaði hafi ekki skilað árangri. Hæstv. heilbrrh. hefur unnið mjög dyggilega við erfiðar aðstæður og sætt ósanngjarnri gagnrýni fyrir
margvíslega viðleitni sína til að stuðla að auknum sparnaði og aðhaldi í heilbrigðiskerfinu. Þær tillögur sem hann lagði fram um lyfjakostnað skiluðu vissulega sparnaði á því ári sem nú er að líða. En það bættust bara önnur útgjaldatilefni við af þeim orsökum sem við höfum rætt hér áður í þinginu. Hins vegar hefur verið unnið af hálfu heilbrrn. að ítarlegri tillögugerð um sparnað í lyfjasölu, lyfjakostnaði í landinu. Það liggja fyrir tillögur nefndar um endurskipulagningu lyfsölumála í landinu og ég bendi hv. þm. á að lesa Morgunblaðið. Í Morgunblaðinu, annaðhvort í dag eða í gær eru talin upp allt að 10 fyrirtæki sem einn eigandi stærstu lyfjaverslunarinnar á Íslandi, maður sem mikið hefur haft sig frammi í fjölmiðlum til að verja þetta lyfsölukerfi, hefur keypt á þessu ári, laxeldisstöðvar, gosdrykkjaverksmiðjur og hvað það heitir allt saman, sem hann hefur verið að kaupa fyrir ágóða sinn af lyfjasölunni og er stoltur af. Við eigum ekki að reka hér lyfsölukerfi sem menn kaupa gosdrykkjaverksmiðjur, laxeldisstöðvar og hvað eina fyrir ágóðann af því að selja sjúku fólki á Íslandi lyf. Heilbrrh. hefur unnið ötullega að því að móta tillögur um breytingar í þeim efnum og það er óþarfi að vera að gera lítið úr þeirri viðleitni hér í ræðustólum Alþingis vegna þess að það eru mjög viðkvæm mál að vinna að sparnaði í heilbrigðiskerfinu og ég veit af eigin reynslu að heilbrrh. hefur búið þar við mjög erfið skilyrði en er hins vegar að vinna mjög þarft verk í mjög viðkvæmum málaflokki.
    Hv. þm. gagnrýndi einnig að lánsfjárlögin væru ekki afgreidd fyrir áramót. Ég kallaði fram í af því tilefni og vil aðeins segja það hér að það kom fram fyrr í dag þegar ég mælti fyrir frv. til lánsfjárlaga að

fulltrúi Sjálfstfl. í þeirri umræðu taldi nauðsynlegt að þetta mál yrði athugað betur í meðferð Nd. og yrði ekki afgreitt fyrir áramót. Um það hefur verið rætt milli flokkanna og ég hef fallist á það í góðum friði með fulltrúum allra flokka að geyma afgreiðslu lánsfjárlagafrv. þar til eftir áramót. Ég hef þess vegna flutt sérstaka brtt. sem var kynnt hér áðan úr forsetastóli og ég hef tekið eftir að ýmsir þingmenn hafa ekki almennilega áttað sig á. Ég vil þess vegna segja það hér að lokum að hún er flutt eingöngu til þess að hafa heimildir á næsta ári til að geta selt spariskírteini ríkisins, ríkisvíxla og ríkisbréf á innlendum markaði til að standa undir lánsfjárþörf ríkissjóðs þar til frv. til lánsfjárlaga verður samþykkt.
    Virðulegi forseti. Ég vil svo að lokum endurtaka þakkir mínar til fjvn. og sérstaklega forustu nefndarinnar fyrir það starf sem hún hefur unnið við erfiðar aðstæður. Hún býr að hluta til við sama vanda og fjmrh.: Tekjurnar eru af skornum skammti, en kröfurnar um útgjöldin eru óteljandi.