Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Á deildarfundi í gærkvöldi urðu töluverðar umræður um stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og fjárhagsvanda húsnæðiskerfisins frá 1986 og ýmsir sem óskuðu að fá að vita hvernig ríkisstjórnin hygðist halda á þeim málum. Mér þykir því rétt að gera grein fyrir því nú.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela ráðherranefnd stjórnarflokkanna fjögurra að gera tillögur um uppgjör húsnæðislánakerfisins frá 1986 og fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins. Byggt mun verða á þeim mjög ítarlegu athugunum sem hafa verið gerðar nú í vetur á þessu kerfi öllu og á þeim tillögum sem þegar hafa verið lagðar fram. Jafnframt gerir ríkisstjórnin ráð fyrir því að drög að frv. verði lögð fyrir ríkisstjórnina fyrir lok janúar nk.
    Þetta þótti mér rétt að kæmi hér fram því að ég vil taka undir það með hv. þm. að það er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig þarna hefur stefnt árum saman og á því verður fyrr eða síðar að taka.