Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það var nú gagnlegt að hæstv. forsrh. skyldi koma hér upp í pontuna og staðfesta með ótvíræðum hætti hvernig skipbrot ríkisstjórnarinnar er í sambandi við húsnæðismálin. Nú á síðustu stundu á að láta það nægja að koma með yfirlýsingu um það að ráðherranefnd eigi að setjast að störfum og koma með drög að frv. Þetta er nú jólaboðskapur ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum og ég vil biðja menn að taka eftir þessu.
    Hæstv. fjmrh. hafði hér mörg orð vegna þeirra ummæla sem fram komu í ræðu Pálma Jónssonar vegna minnisblaðs sem hafði verið dreift hér fyrr á fundinum. Þetta minnisblað kemur mér býsna mikið á óvart. Fjvn. fjallaði um þessi mál í gær og hafði þá, eins og gjarnan í annan tíma þegar rætt er um tekjuhlið fjárlagafrv., upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun og frá tekjuáætlunardeild fjmrn. Auðvitað voru fulltrúar þessara stofnana mættir á fundinum. En það brá svo við að þessu sinni að það var ekki hægt að gefa upplýsingar um nýja þjóðhagsspá. Hún gat ekki legið fyrir fyrr en á næsta ári þó að ýmislegt væri nú rætt í þeim efnum. Það kom reyndar fram, sem vakti nokkra eftirtekt á þessum fundi, að það sótti í betra horf í tekjum ríkissjóðs en aftur til hins verra horfs í þjóðhagsspá.
    Það var af þessari ástæðu sem ég spurðist fyrir um það hvort ekki væri unnt að fá útreikninga í sambandi við tekjuforsendur fjárlaga er byggðust á þessu mati Þjóðhagsstofnunar þótt ekki lægi fyrir endanleg spá hennar um þjóðhagshorfur á næsta ári. --- Nú vil ég biðja hæstv. fjmrh. að fara ekki á nýjan fund hér því að hann tók sér nú góðan tíma til að fjalla um þessi mál áðan. --- Því var svarað neitandi og hv. formaður fjvn. gekk í lið með embættismönnum til þess að sýna fram á það að slíkir útreikningar væru útilokaðir við þessar aðstæður.
    Ég fór þá fram á það að fá slíka útreikninga bara fyrir mig þó að þeir lægju ekki fyrir þegar gengið væri frá fjárlagafrv. í gærkvöldi. Og það voru öll tomerki á því líka. Þá spurði ég þeirrar einföldu spurningar hvort það væri þá ekki hægt að fá áhrif loðnubrestsins eins og Þjóðhagsstofnun spáði fyrir um hann. Og því var hægt að svara með almennu orðalagi og orðalagið og skýringuna og svarið á ég úti í fjvn. Það var einfaldlega á þá leið að í því mundu felast umtalsverðir brestir í afkomu ríkissjóðs á næsta ári.
    Nú er hins vegar komið minnisblað sem dreift er hér sólarhring eftir að þessi yfirlýsing er gefin þar sem segir að um engin umtalsverð áhrif verði að ræða. Og skyldi nú nokkurn undra þótt fjárveitinganefndarmenn fjölluðu eitthvað um boðskap af þessum toga.
    Fyrr í þessari umræðu var frá því sagt að ef loðnubresturinn yrði svo sem spáð væri fyrir um, dygði ekki einungis að endurskoða tekjuáætlun ríkissjóðs heldur líka gjaldahliðina. Nú hefur það hins vegar fengist hér á blaði frá fjmrn. að þetta muni bara ekki hafa svo sem nein áhrif. Ósköp geta þessi vísindi

breyst mikið, þessi gagnmerku vísindi sem hæstv. fjmrh. talaði hér um áðan, á einum einasta sólarhring. Það hlýtur að vera erfitt að átta sig á 365 dögum ársins þegar svona mikið misræmi kemur fram bara á einum einasta sólarhring. Svo er fjmrh. alveg steinhissa á því að fjárveitinganefndarmenn skuli hafa orð á þessu og talar um árásir á embættismenn þó það sé einungis greint frá því sem þeir sögðu í gær og það sem þeir skrifa í dag.
    Það er mér ánægjuefni að hæstv. landbrh. skuli vera mættur hér til þessarar umræðu. ( Fjmrh.: Hann gerði það nú bara fyrir þig.) Það er hárrétt. Ég óskaði eftir því, hæstv. fjmrh., hér fyrr á þessum degi með nægum fyrirvara til þess að þurfa ekki að tefja þessa umræðu að hæstv. landbrh. yrði viðstaddur þegar ég mælti þessi orð. Því það vill nú svo til að þó að hörmulega hafi tekist til áður með afgreiðslu fjárlaga gagnvart landbúnaðinum og bændum landsins, þá hefur það þó aldrei verið með sama hætti og nú.
    Mér er það fullljóst að það er ekki ýkja stór hópur af alþingismönnum eða áhrifamönnum í þjóðfélaginu sem þykir taka því að tala máli þeirrar stéttar og reyndar held ég að þeir séu miklu fleiri sem setja stolt sitt í það að níða hana niður. En ég ætla samt hér í þessum fáu orðum að ræða svolítið um þau mál, enda hef ég til þess að sjálfsögðu miklar skyldur. Það er líka gott að hér skuli vera staddir tveir þingmenn Framsfl. við þessa umræðu.
    Nú er það svo að afgreiðsla landbúnaðarmála skiptist á tvær umræður eins og annarra málaflokka og við 2. umr. fjárlaga voru afgreidd hér afar þýðingarmikil mál á sviði landbúnaðarins. Það hefur vakið mikla eftirtekt hvernig varaformaður fjvn., hv. 1. þm. Vesturl., talaði um þau mál við þá umræðu. Það vill svo til að fáum alþingismönnum hefur verið fenginn meiri trúnaður á þessu kjörtímabili á þeim vettvangi heldur en þeim hv. þm. Hann hefur setið í nefndum stjórnmálaflokkanna um þessi mál. Hann hefur stjórnað landbn. Nd. og m.a. á þeim vettvangi hefur hann tekið þátt í að leiða erfið mál til lykta, bæði er varða löggjöf sem snertir landbúnaðinn og líka það sem snýr að Búnaðarfélagi Íslands. Hann hefur auk þessa verið mikill og eindreginn stuðningsmaður þess að þessir málaflokkar héldu sínum hlut við fjárlagagerð. Þetta er eini framsóknarmaðurinn á þessu kjörtímabili sem hefur eitthvað látið þessi mál til sín taka og barist í þeim af mikilli hörku og drengskap. Ég hef sjálfur starfað með honum og get borið vel um það með hvaða hætti hann hefur starfað á þessu kjörtímabili að þessum málum. ( Gripið fram í: Er þetta minningarræða?)
Ég er búinn að lesa ræðuna hans frá 2. umr. fjárlaga. Ég held að það væri góður kostur fyrir þá framsóknarþingmenn sem tala gjarnan í prestlegum tón að líta yfir þá ræðu, ( Gripið fram í: Hvaða framsóknarmaður gerir það ekki?) ég tala nú ekki um hæstv. landbrh., með hvaða hætti hv. þm. Alexander Stefánssyni fórust orð í þessum efnum því að hann leiddi að því gild rök og ótvíræð að nálega allt sem hefur verið samið um við núv. hæstv. landbrh. hefur verið svikið. Ég ætla ekki að fara yfir þá umræðu því að sú niðurstaða liggur fyrir og er alveg skýr. En núna við 3. umr. voru afgreidd mikilvæg mál sem snerta landbúnaðinn og ég ætla aðeins að víkja að þeim.
    Þá er það fyrst stolt Alþingis, landgræðsluáætlunin, sú þriðja í röðinni sem nú er að renna sitt skeið á næsta ári. Eins og menn munu væntanlega vita gaf íslenska þjóðin sjálfri sér það í afmælisgjöf árið 1974 að græða upp landið. Alls hafa verið settar þrjár slíkar áætlanir, þrjár landgræðsluáætlanir, og hef ég verið þátttakandi í því ásamt öðrum þremur alþingismönnum að fylgjast með framkvæmd tveggja síðari áætlananna.
    Það bregður nú svo við hér við 3. umr. að fjárlagatala landgræðsluáætlunar er stórlega færð niður. Hv. formaður fjvn. og frsm. meiri hl. kemur með skýringu á þessu í ræðu sinni áðan. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjmrn. sendi fjvn. upplýsingar sem bentu til þess að vegna mistaka hefðu menn frá byrjun ekki miðað við þá ákvörðun sem tekin var á Alþingi, en í þáltill. sagði í síðasta málslið að við framreikning skyldi stuðst við landgræðsluáætlunina á verðlagi ársins 1987.``
    Þarna voru menn sem sagt að finna fimm ára gömul mistök. Það er kannski vert að geta þess sérstaklega að einn af þeim nefndarmönnum sem sömdu þennan texta er einn reyndasti fjárlagagerðarmaður á Alþingi, Geir Gunnarsson. Þegar önnur áætlunin var sett var hann meira að segja formaður fjvn. Maður gæti haldið að hann kynni að framreikna þessar stærðir og setja þær þannig upp að það skildist hvað við væri átt.
    Út af því sem kemur hér fram hjá hv. formanni fjvn. er þessi tilvitnun í þál. röng. Síðasti liður ályktunarinnar er ekki orðaður með þeim hætti sem formaður fjvn. segir að sé. Með leyfi hæstv. forseta er hann með þessum hætti:
    ,,Fjárhæðin er miðuð við verðlag í desember árið 1986. Á framlög áranna 1988`` þ.e. fjögurra ... ( SighB: 1987.) Nei. ,,Á framlög áranna 1988 -- 1991 greiðast verðbætur er miðast við framlög ársins 1987.`` Það er ekki sagt orð um það hvernig eigi að framreikna þessi framlög. Það er sagt að það eigi að miða tekjustofninn við framlögin á árinu 1987, fyrir fjögur seinni ár áætlunarinnar. Þetta er sagt. En það segir hvergi með einu einasta orði að það eigi að framreikna hana með verðlagi ársins 1987. Þetta er grundvallaratriði. Og auðvitað eru tekin af öll tvímæli í þessum efnum því fyrir hendi var nokkuð góð æfing, ég held tólf ára æfing, í því að finna þennan framreikning. Hagstofa Íslands var búin að reikna þetta fram alveg frá árinu 1974. Þar kunnu menn þessa útreikninga, enda er þetta staðfest í bréfi Hagstofu Íslands til fjvn. frá 7. des. 1987. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að beiðni landbrn. fer hér á eftir framreikningur á fjárhæðum landgræðsluáætlunar fyrir árin 1987 -- 1991. Tekið skal fram að eftir fyrirsögn ráðuneytisins er miðað við vogir skv. kostnaðarskiptingu

við fyrri áætlun og við verðlagsbreytingar frá sumarinu 1986 til sumarsins 1987, svo sem verið hefur.`` ( SighB: Þetta eru mistökin sem gerð voru.) Þetta eru náttúrlega ekki nokkur einustu mistök vegna þess að þegar gengið var frá þessari áætlun, þegar hún var samþykkt á Alþingi --- og ég hygg að það sé hægt að finna það í bókunum landgræðslunefndarinnar sem ég hef nú reyndar ekki þegar farið yfir --- þá var gengið út frá þessum vinnubrögðum. Hagstofustjóri staðfesti þetta 7. des. 1987. Svo einfalt er nú málið. Og þetta er reiknireglan sem sýnir það frá ári til árs við hvað hefur verið miðað, allan þennan tíma frá 1974. Hafi orðið einhver mistök árið 1987 í þessum efnum þá hafa þau alveg eins verið 1974 þegar var byrjað á þessari áætlun, þegar ákvörðun var tekin um hana á þingfundi á Þingvöllum. Það stóð ekki til að breyta verðbótareglunum við gerð þessarar síðari áætlunar, enda eru þessir útreikningar þeir sömu allan tímann.
    Þá fá menn þessa niðurstöðu, að fyrir þetta ár hafi verið búið að greiða 7,5 millj. kr. fram yfir það sem menn fá nú út, 7,5 millj. kr. á fjórum árum. Það vil ég segja að sé innan skekkjumarka þó ekkert væri annað. Þetta er allt slysið sem formaður fjvn. var að tala um áðan og allar skekkjurnar sem fjmrn. hefur verið að reikna út. En skyldi það þó vera? ( SighB: Ríkisendurskoðun staðfestir það.) Það er reyndar rangt, hún staðfestir það ekki. Það kemur einmitt ekki staðfesting fram hjá Ríkisendurskoðun. Ég er með hennar yfirlit hér og ég hef farið yfir það. Hún reiknar þetta út með tvennum hætti, með sama hætti og fjmrn. gerði og með sama hætti líka og hefur verið gert frá árinu 1974. ( Forseti: Forseti vill aðeins vekja athygli hv. 4. þm. Austurl. á því að það stendur til að fresta þessum fundi nema hv. þm. sé að ljúka ræðu sinni. Annars verður forseti að biðja hann um að fresta henni þar til síðar í kvöld.) Guðvelkomið. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. landbrh. skuli ekki vera mættur hér. Hann fylgdist með umræðunni fyrr í kvöld og það er auðvitað ekkert út á það að setja ef ráðherrann er vant við látinn. Ég ætla ekki að gera það að erfiðleikamáli hér, en ég vildi ítreka, virðulegi forseti, mína fyrri ósk að ráðherrann fylgdist með máli mínu. ( Forseti: Forseti hefur þegar kallað á þingvörð til að athuga hvort hæstv. landbrh. sé að koma í húsið.) Í sannleika sagt á ég hér ekki mjög mikið erindi til þess að vera að halda langa ræðu ef ráðherrann er ekki viðlátinn. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. 4. þm. Austurl. um að hæstv. landbrh. er rétt ókominn í húsið.) Þakka þér fyrir það.
    Þar lauk ég ræðu minni fyrr í kvöld, virðulegi forseti, að ég hafði leitt rök að því að sú talnalega niðurstaða sem Ríkisendurskoðun fékk um 7,5 millj. kr. ofreikning á landgræðsluáætlun fram til þessa árs er út af fyrir sig trúverðug. Ég hygg að hægt sé að fullyrða að þar sé rétt með tölur og aðferðir farið. En þar með er ekki öll sagan sögð. Ástæðan fyrir því er sú að uppgjöri á landgræðsluáætlun er alls ekki lokið. --- Menn eru hér á fjórum fundum, virðulegi forseti, og ég ætla að doka við þar til þeim lýkur. Hér

er ríkisstjórnarfundur og Alþb. er að halda sáttafund á bak við mig og sjálfsagt eru fleiri á fundahöldum þannig að ég bíð bara rólegur, virðulegi forseti. ( Fjmrh.: Halldór er að tefla.) ( Forseti: Forseti vill áminna hv. þm. um að hlýða á ræðu hv. 4. þm. Austurl.)
    Þá vildi ég taka sérstaklega fram í sambandi við þetta mál að hvergi í landgræðsluáætlun og hvergi í umræðum sem henni eru tengdar hef ég orðið var við það að því fylgi einhverjar hegningar þótt einhvers staðar kunni að verða yfirborgað á áætlunartímabilinu. Og ég get leitt að því rök að það hefur verið gert og það hafa verið teknar ákvarðanir um það af þeim aðilum sem hafa farið með fjárveitingavaldið á ýmsum tímum. Þannig var það þegar Pálmi Jónsson var formaður fjvn. Ég átti þá sæti í fjvn. og að sjálfsögðu í meiri hl. Það voru teknar ákvarðanir um það þá að greiða meira til þessara verkefna en kannski ströngustu fyrirheit sögðu fyrir um. Það var ekki gert með það í huga, og reyndar hefur sú umræða farið fram, að það kæmi síðar meir til frádráttar á áætlunartímabilinu. Ég hygg að það megi finna fleiri skýringar á því að menn hafa í einstökum tilvikum tekið ákvarðanir um það að fara fram úr landgræðsluáætlun þegar svo hefur þurft að vera. Það er þess vegna fullkomlega óeðlilegt og reyndar siðlaust að vera að færa slíkar ákvarðanir frá fyrri árum til frádráttar þegar gengið er frá þessum málum við fjárlagagerð núna. Það er fullkomlega óeðlilegt. Og það er náttúrlega mesta smánin við þessar ákvarðanir allar að þessar 7,5 millj. kr. skuli vera dregnar frá því sem menn telja að ætti að vera í þessum efnum.
    Það er reyndar ýmislegt fleira sem er óuppgert. Það er t.d. tekið fram í greinargerð fyrir þál. frá árinu 1987 að fyrir því verði séð að aðrar fjárveitingar til þessarar starfsemi, til Landgræðslu ríkisins, til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og til Skógræktar ríkisins, haldi sínu verðgildi. Það hefur ekki verið reiknað út enn þá hvort svo hefur verið. Það má ekki gleyma því sem er nærtækast í þessum efnum að inn í gjaldahlið Landgræðslu ríkisins hefur komið virðisaukaskattur á þessa starfsemi og þar af leiðandi mega menn alls ekki gleyma því að á fjáraukalögum, sem voru afgreidd núna fyrir fáeinum dögum, var veitt sérstök fjárveiting til þess að mæta þeim aukakostnaði, þeirri framkvæmdarýrnun hjá Landgræðslu ríkisins sem af þessari skattlagningu hlaust. Sá kostnaður á næsta ári, sú framkvæmdarýrnun, nemur einhvers staðar á bilinu 8 -- 10 millj. kr. Þetta eru allt saman grundvallaratriði og þetta eru allt saman þýðingarmikil atriði sem auðvitað koma inn í þetta uppgjör.
    Svo má heldur ekki gleyma því að endanlegt uppgjör á sér ekki stað fyrr en um mitt næsta ár því að landgræðsluáætlunin er miðuð við það að halda verðgildi sínu á þeim tíma sem framkvæmdirnar eiga sér stað. Og landgræðsluframkvæmdirnar eiga sér stað eftir mitt næsta ár. Það er þess vegna alveg óskiljanlegt þegar litið er á þetta mál í heild að núna skuli vera ráðist til atlögu við landgræðsluáætlunina með því að lækka þau framlög sem þar er getið.
    Ég spyr nú um stóru orðin og miklu fyrirheitin um

að græða upp landið þegar svona er farið að við þessa fjárlagagerð. Ég hef reyndar ekki orðið annars var en að hér á Alþingi ríkti nokkuð almennur vilji fyrir því að bæta landið okkar. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. landbrh. er þar mikill áhugamaður, mjög mikill áhugamaður. Ég hef heyrt hann flytja skoðanir sínar í þeim efnum af mikilli sannfæringu. Hann hefur meira að segja vald á því að tala um þau mál án þess að vera með sífelldar árásir á búsetuna í landinu og á bændur landsins og er því öðruvísi farið en með ýmsa aðra ráðherra í núv. hæstv. ríkisstjórn. En samt skeður þetta. Samt gefur hæstv. landbrh. út bréf þar sem hann leggur til að þær tölur í fjárlagafrv. sem þar voru skráðar verði lækkaðar. Og svo er þessi flumbruháttur allur mikill og einstæður að það eru teknar til baka afar smávægilegar fjárveitingar í sambandi við framræslu á m.a. ósum hér við suðurströndina. Þær eru bara látnar hverfa. Ég segi bara eins og er, hvað á svona flumbruháttur að þýða? Ég trúi ekki öðru en að menn noti tímann til morguns og fari yfir þessi mál því að ég er alveg sannfærður um það að menn eiga eftir að sjá eftir þessari niðurstöðu ef hún verður að raunveruleika. Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta mál, vænti þess að ég hafi gert því nægileg skil til þess að það liggi nokkuð skýrlega fyrir hér.
    Þá skal ég, virðulegi forseti, víkja að öðru máli sem snertir út af fyrir sig bændur landsins miklu meira og það er framkvæmd jarðræktarlaganna. Þá minni ég á það sem ég sagði í upphafi máls míns að mikil umræða fór fram sem var tengd setningu núverandi jarðræktarlaga. Í þeirri umræðu náðist afar mikilvægt samkomulag. Ég ætla ekki að rekja þau vinnubrögð öll því að bæði er það að ég hygg að þau séu flestum hv. þm. í fersku minni og svo líka hitt að við 2. umr. voru þeim málum gerð góð skil. Það urðu bændum landsins, og þar á meðal mér, mikil vonbrigði hvernig þau lög voru framkvæmd á þessu ári. Ég hef reyndar orðið þess var, m.a. á þeim fundi sem hæstv. landbrh. átti með fjvn. Alþingis, að hann hefur nokkuð aðra skoðun á framgangi þeirra mála en ég og, ég fullyrði, allir þeir sem tóku þátt í afgreiðslu þeirra laga.
    Nú vill svo til að fyrir liggur álit Ríkisendurskoðunar á þessum málaþætti. Reyndar er það álit nýlega komið fram. Frá því var gengið 19. des. og í því er býsna nákvæm úttekt á því hvernig þróun þeirra mála var. Það sem gerir gæfumuninn í þessum efnum er að hæstv. landbrh. framkvæmdi lögin eftir frv. sem hann lagði fram, fyrst á búnaðarþingi og síðan á Alþingi. Í framkvæmdinni er ekki tekið tillit til þeirra breytinga sem voru gerðar á frv. við afgreiðslu málsins hér á Alþingi. Nú ætla ég að segja hæstv. landbrh. það til málsbóta að því miður tók Búnaðarfélag Íslands að sér að framkvæma lögin með þessum afar óeðlilega hætti, svo það er við fleiri að sakast en hæstv. landbrh. um þessi mál. En niðurstaða í áliti Ríkisendurskoðunar er alveg skýr hvað þessi mál varðar. Og ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þann kafla úr áliti Ríkisendurskoðunar. Þar segir:

    ,,Niðurstaða mín er því í stórum dráttum sú að frv. að lögum nr. 65/1989 hafi í upphaflegri mynd sinni falið í sér að réttur til jarðræktarframlaga gæti aldrei orðið meiri en fjárlög kvæðu á um hverju sinni.`` Og nú bið ég menn að taka vel eftir. ,,Breytingar þær sem urðu á frv. í meðförum þingsins verða á hinn bóginn tæplega skýrðar á annan veg en þann að þeim hafi verið ætlað að tryggja tiltekin árleg framlög til veigamestu framkvæmda á sviði jarðabóta eins og áður hafði tíðkast, sem þó mundu verða lægri og háð strangari skilyrðum en áður.``
    Þetta er grundvallaratriði. Á þrjá tiltekna framkvæmdaflokka voru sett ákveðin þök, á opna framfærsluskurði, á klóræsi og á endurræktun. Þessu hefur ekki verið fylgt fram og fjárveitingar á fjárlögum núna til þessa málaflokks eru alls ekki í samræmi við þann rétt sem bændur landsins eiga í þessum efnum. Þetta er grundvallaratriði. Mér þykir það þýðingarmikið að Ríkisendurskoðun segir það hér með afar skýrum hætti, sem reyndar þarf ekki að koma neitt á óvart, að þessar heimildir eru ekki háðar því hvað stendur í fjárlögum. Meira að segja var það skýrlega gengið frá þessum málum hér á Alþingi að það sem ekki er hægt að greiða á tilteknum tíma fyrir 1. nóv. tekur á sig verðlagsbreytingar. Það fer þess vegna ekkert á milli mála hvaða rétt bændastéttin á í þessum efnum. Og það er alveg nóg að gert, hæstv. landbrh., af núv. ríkisstjórn, hvernig hún brýtur lög á bændum landsins, og ætla ég ekki að fara út í það hér, en fyrir því get ég nefnt mörg dæmi, þótt menn taki sér það ekki fyrir hendur að brjóta jarðræktarlögin með þeim hætti sem gert hefur verið og að er stefnt í þessari fjárlagagerð. Og sérstaklega vegna þess að landbn. beggja deilda tóku þátt í því samkomulagi og gerðu það samkomulag við bændur landsins sem þessi löggjöf byggist á. Það er alveg ólíðandi með öllu að frá því samkomulagi verði horfið, enda varðar það við lög.
    Ég hef lofað virðulegum forseta að tefja ekki þessa umræðu að óþörfu. Þar af leiðandi ætla ég að stytta mál mitt. Ég hef fjallað um afgreiðslu tveggja mála, landgræðsluáætlunar og jarðræktarlaganna, og ég hef sýnt fram á það að þar er ekki farið fram svo sem eðli málsins stendur til. Ég vona það satt að segja að gæfuleysi hæstv. landbrh. verði ekki það mikið að hann virði ekki þær ábendingar sem hér hafa komið fram því það er náttúrlega sannmæli að bændastéttin á í meira en nógri baráttu fyrir rétti sínum og kjörum þótt þeir bregðist ekki sem þar eru kvaddir til forustu hverju sinni. En það gera menn ef þeir brjóta lög, brjóta samninga og samkomulag sem m.a. er gert hér innan þingsins, án tillits til þess hvernig menn skipa sér í kringum ríkisstjórn hverju sinni. Það er grundvallaratriði að þeir sem eiga samleið í þessum efnum, og það án tillits til stjórnmálaskoðana, breikki ekki bilið á milli sín með því að ganga á snið við lög, samninga og rétt þess fólks sem hefur enn þá kjark og vilja til þess að byggja sveitir landsins. Það fjárlagafrv. sem hér er til afgreiðslu ber þess sár merki að svo verði gert. Og raunar held ég að í þeim

efnum verði ekki miklu borgið héðan af.
    Það hefur verið einkennandi fyrir þessa fjárlagagerð hversu völdin hafa í ríkum mæli verið færð til ríkisstjórnarinnar. Meiri hl. fjvn. hefur sent mörg af stærstu málunum og erfiðustu til umfjöllunar hjá ríkisstjórn. Hún er eins konar yfirfjárveitinganefnd hjá meiri hlutanum. Auðvitað bera þessar afgreiðslur á vettvangi landbúnaðarmálanna þess merki að þar hafa ákvarðanirnar verið teknar á æðstu stöðum. Þetta er náttúrlega sú sorglega niðurstaða sem við blasir þegar menn virða fyrir sér þau störf sem unnin hafa verið við þessa fjárlagaafgreiðslu. Niðurstaðan er vissulega með þeim hætti að þar eru mörg og stór víti til varnaðar. Ég held að það sé fullkomlega óeðlilegt að hæstv. fjmrh. stjórni fjvn. eða meiri hl. hennar með sama hætti og hann hefur gert og greinilega má sjá á afgreiðslu meiri hl. nefndarinnar.
    Það haggar svo ekki hinu að samkomulagið milli meiri hl. og minni hl. hefur verið með eðlilegum hætti í nefndinni. Það hefur verið gott að eiga samstarf við meirihlutamennina, formann og varaformann og aðra nefndarmenn, og á margan hátt hefur minni hl. verið sýnd full tillitssemi í störfum nefndarinnar þótt niðurstaðan sé eðlilega með allt öðrum hætti en verið hefði ef völdin hefðu verið með öðrum hætti. En það breytir ekki hinu að auðvitað er það þýðingarmikið hér í þinginu, hvort heldur sem er í fjvn. eða á öðrum vettvangi, að menn rækti garðinn sinn með bærilegum hætti þannig að sæmileg sátt sé á milli manna við störf og ákvarðanir.
    Ég lýk máli mínu með því að þakka ágætt samstarf í fjvn. og skora á hæstv. landbrh. að taka á sig rögg áður en dagur rennur og koma fram með tillögur til þess að bæta úr fyrir þau mistök sem hér liggja fyrir að gerð verði ef ekki verður úr bætt áður en þetta fjárlagafrv. verður gert að lögum.