Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og ég gat um þegar við 2. umr. um fjárlagafrv. í síðustu viku stóðum við kvennalistakonur frammi fyrir nokkrum vanda við að leggja fram brtt. við frv. Í raun og veru hefði þurft að stokka það allt upp ef vel hefði átt að vera. Við reyndum að einbeita okkur að því að leggja áherslu á þætti sem við teljum brýnt að taka á og eru konum til hagsbóta. Við stóðum eiginlega frammi fyrir sama vanda þegar ákveðið var hvaða tillögur skyldi draga til baka til 3. umr. til þess að freista þess að hv. fjvn. tæki þær til skoðunar og tæki til þeirra tillit. En svo virðist nú reyndar vera að mestur tími og orka fjvn. hafi farið í að reyna að ná samstöðu um frv. eins og það lítur núna út á borðum okkar þingmanna.
    Auðvitað hefði ekki veitt af að tvöfalda framlög til menningarmála eins og kvennalistakonur hafa oftast lagt til við afgreiðslu fjárlaga. Við hefðum t.d. viljað sjá rekstri Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins borgið, svo að fátt eitt sé nefnt. Það hljóta að vakna spurningar um það hvernig Námsgagnastofnun á að geta sinnt sínu lögbundna hlutverki.
    Ég vil við þessa umræðu minnast aðeins á þær tillögur sem við freistum að flytja hér aftur, en ég minni um leið á tillögur okkar um atvinnumál kvenna sem meiri hl. Alþingis felldi við 2. umr. og tillögu um framlag til Heimilisiðnaðarskóla Íslands. Þessar tillögur voru felldar og ég verð að segja að það vakti með mér nokkra undrun að sjá svo nýjan lið á þeim brtt. sem nú liggja fyrir frá meiri hl. fjvn. um 3 millj. kr. rekstrarstyrk til Skákskóla Íslands. Það er greinilegt ef vel er leitað að það finnst forgangsröð á ákveðnum sviðum. Þar á varðveisla og þróun verkmenningar okkar ekki upp á pallborðið þrátt fyrir öll hljómfögru orðin um stefnu í mennta - og menningarmálum og nauðsyn þess að efla verkmennt með þjóðinni.
    Það er greinilegt af þeim brtt. sem nú liggja frammi frá hv. meiri hl. fjvn. að tillögur okkar hafa þar lítt eða ekki komið til skoðunar. Brtt. þær sem ég mæli fyrir við frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 eru á þskj. 395, en ásamt mér flytja þær allar hv. þingkonur Kvennalistans. Í 1. lið er tillaga um 400 þús. kr. hækkun til Háskóla Íslands við liðinn Aðrar sérstofnanir og verkefni. Er tillagan til þess flutt að til komi framlag til Rannsóknastofu í kvennafræðum sem stofnuð var 7. mars sl. með reglugerð frá menntmrn. Ég er sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frv. um að auka sjálfstæði hinna ýmsu stofnana og minni í því tilliti á stefnu Kvennalistans um aukna valddreifingu og sjálfstæði stofnana. Jafnframt vil ég minna á till. til þál. sem þingkonur Kvennalistans hafa flutt á þessu þingi þess efnis að fræðsluskrifstofur landsins fái til ráðstöfunar þá heildarfjárhæð sem ætluð er til skólamála í hverju umdæmi.
    Hins vegar háttar svo til með þessa tillögu um 400 þús. kr. framlag til Rannsóknastofu í kvennafræðum að beiðni þeirra sem þar starfa lenti fyrir einhvern misskilning milli stafs og hurðar. Þetta framlag er

grundvöllur þess að stofan geti hafið starfsemi sína, en eins og ég minntist á áðan var hún stofnuð með reglugerð 7. mars sl. Eins og hv. þm. eflaust vita hefur verið mikil gróska í svokölluðum kvennarannsóknum á undanförnum árum og miklar vonir eru bundnar við að það ferska og nýja og sú sýn sem konur bera með sér inn á svið vísindanna eigi eftir að leiða okkur inn á nýjar og áður óþekktar brautir.
    Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um það að rektor Háskóla Íslands fagnar því að tilraunir eru gerðar hér á Alþingi til að hækka framlög til Háskólans, þó með þessum hætti sé, þ.e. að tiltekið sé hvert upphæðin skuli renna. Í ljósi þess sem ég hef lýst hér skora ég á hv. þm. að styðja þessa tillögu.
    Önnur brtt. sem ég mæli fyrir er einnig við 4. gr., þ.e. liður 03 391 Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, undirliður 121 Hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndunum, UNIFEM. Þar leggjum við til að 1,1 millj. kr. sem lagt er til að þessi sjóður fái verði hækkuð upp í 9 millj. 816 þús. kr. Þó að framlög til þróunarmála séu í þessu fjárlagafrv. örlítið hærri en undanfarin ár erum við enn víðs fjarri því takmarki sem við settum okkur árið 1985 þegar við gáfum okkur það loforð að við skyldum láta 0,7% af þjóðartekjum okkar renna til þróunarmála. Ég vil minna á það hér að um það mál ríkti mikil samstaða og hlaut þáltill. einróma stuðning á Alþingi. Í ljósi þeirrar breiðu samstöðu sem um málið ríkti er dapurlegt að horfa á hvernig til hefur tekist með efndirnar. Það er skemmst frá því að segja, eins og hv. þm. er eflaust öllum kunnugt um, að við höfum aldrei náð upp í 0,1% af þjóðartekjum.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur reyndar séð sitt óvænna nú milli 2. og 3. umr. og hækkað fjárframlag til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um 5 millj. kr. Kemur sú hækkun væntanlega í kjölfar sameiginlegrar máltíðar og ráðstefnu ríkisoddvita Sameinuðu þjóðanna um málefni barna í þriðja heiminum. Það er alveg ljóst að þessi upphæð sem gert er ráð fyrir að leggja til Barnahjálparinnar er aðeins örlítið tákn um að hæstv. ríkisstjórn hafi í kjölfar barnaráðstefnunnar e.t.v. vaknað til vitundar um þann vanda sem við er að etja. En ljóst er að miklu meira þarf til.
    Við 2. umr. fjárlagafrv. lýsti ég nokkuð stöðu kvenna í þróunarlöndunum og hve mikilvægt það er að gera þeim kleift að afla sér þekkingar, útvega þeim lán og styrki til kaupa á áhöldum og tækjum sem geta létt þeim störfin. Það þarf auðvitað ekki að tíunda það hversu vel hver króna nýtist sem varið er til aðstoðar við konur. Það er ljóst að þeir tveir sjóðir sem ég hef nú nefnt eru afar mikilvægir og þeir sem gerst þekkja til telja rekstur þeirra og starfsemi til fyrirmyndar. Hvet ég því hv. þm. til þess að styðja þessa hógværu tillögu okkar sem ljóst er að mun koma sér afar vel fyrir konur í þróunarlöndunum og alla þá einstaklinga sem þær hafa á sínu framfæri.
    Þriðja tillagan sem ég flyt hér er einnig við 4. gr., liður 07 999 Félagsmál, ýmis starfsemi, undirliður 140 Kvennaathvarf í Reykjavík. Það er með öllu óþolandi að þær konur sem í Kvennaathvarfinu starfa þurfi í

lok hvers árs að óttast um afdrif þessarar mikilvægu stofnunar sem því miður hefur sýnt sig að er nauðsynleg. Það er ljóst að ofbeldi fer vaxandi í þjóðfélaginu og það er einn svartasti blettur á samfélagi okkar. Árið 1989 hringdu 200 manns til Kvennaathvarfsins til þess að biðja um upplýsingar og aðstoð. Fólk spyr um sifjaspell, kvennaráðgjöf og allt mögulegt. Flestir hringja bara til að fá ráð og huggun. Á þeim tíma sem við ræddum fjárlagafrv. hér í fyrra höfðu 794 hringt í Kvennaathvarfið á móti 200 árið áður og segir það eitt sína sögu. En sú saga er ekki öll sögð
því þær tölur sem nú eru haldbærar um símtöl til Kvennaathvarfsins segja að þangað hafi á þessu ári til þessa dags hringt rúmlega 1600 manns þrátt fyrir aukna þjónustu með stofnun Stígamóta sl. vor.
    Ég vil sérstaklega beina því til hv. þm. að þeir hugleiði þessa till. vel. Það hefur sýnt sig á hverju ári að starfskonur Kvennaathvarfsins í Reykjavík hafa lagt fram raunhæfar áætlanir um starfsemi athvarfsins. Þær áætlanir hafa staðist og hafa verið mjög hógværar. Það sem þær fara fram á frá Alþingi eru 70% af rekstrarfé til athvarfsins. Annað rekstrarfé kemur frá öðum sveitarfélögum eða frjálsum framlögum einstaklinga.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða nánar um þessar till. Ég tel orðið mjög brýnt að við þingmenn og þá ekki síst þeir sem stjórna fundarhöldum fari að gera áætlanir um hvenær jólaleyfi hefst hér. Vil ég sérstaklega minna á að þetta er fjórði kvöldfundurinn í röð og finnst mér það í raun og veru óverjandi og tillitsleysi gagnvart starfsfólki þingsins. Ég hefði viljað fjalla nánar um þessar till. og einnig um ýmislegt annað sem þessu fjárlagafrv. tengist en ég held að brýnt sé orðið að við förum að hraða hér störfum eins og auðið er. Hvet ég þingmenn þess í stað til að kynna sér þessar till. rækilega og vænti stuðnings við þær þegar þar að kemur.