Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Austurl. var svo vinsamlegur að gera mér aðvart um það að hann vildi eiga við mig orðastað. Það gerði hann síðan. Þó svo tækist til að hann yrði að skipta ræðu sinni í tvennt kom það ekki að sök. Ég vona að ég hafi náð að nema þær spurningar sem hann vildi til mín beina og sömuleiðis hlýða á þær efnislegu athugasemdir sem hann hafði fram að færa. Voru þær, eins og ég kýs að taka þær fyrir, þríþættar í raun og veru. Í fyrsta lagi fullyrti hv. þm. að útkoma landbúnaðarins í þessu fjárlagafrv. og væntanlega verðandi lögum væri óvenju slæm. Gott ef hann hafði ekki þau orð uppi að hörmulega hefði til tekist. Því get ég ekki verið sammála og hlýt að mótmæla því að svo sé umfram venju eða aðra málaflokka. Hitt er vissulega rétt að á sviði landbúnaðarins og í þeim liðum fjárlagafrv. sem að landbúnaðinum lúta eru að sönnu atriði sem mættu vera betri og víða er þörf fyrir meiri fjármuni en orðið hefur niðurstaðan að ráðstafa samkvæmt þessu frv. En ætli það eigi ekki við um flest svið sem í þessari bók eru, fjárlagafrv., og þó svo að til komi þær brtt. sem ýmist hafa verið afgreiddar eða liggja hér fyrir þinginu?
    Ég ætla að ræða svo nánar um þá tvo liði sem hv. þm. gerði sérstaklega að umtalsefni, þ.e. fjárveitingar til landgræðsluáætlunar og jarðræktar- og búfjárræktarlaga. En fyrst vil ég segja að ég tel og það er mat embættismanna í landbrn. að eftir atvikum sé útkoman fyrir velflesta liði landbúnaðarins í þessu fjárlagafrv. ekki lakari en gerist og gengur í frv. miðað við það framkvæmdarstig og það fjárveitingastig til rekstrar eða framkvæmdar sem almennt er þar að finna. Ég hygg að það megi færa fyrir því nokkuð traust rök að ýmsar af stofnunum landbúnaðarins fái samkvæmt þessu frv. sanngjarnari fjárveitingar og eðlilegri en þær hafa sum undangengin ár fengið. Ég vænti þess að hv. 4. þm. Austurl. geti orðið mér sammála um það að sum undangengin ár hafi ýmsar einstakar stofnanir landbúnaðarins fengið harkalegri meðferð en hér er á ferðinni. Ég vil til að mynda spyrja hv. þm. hvort hann telji útkomu velflestra stofnana landbúnaðarins, eða a.m.k. ýmissa þeirra, lakari nú en urðu í fjárlögum fyrir árið 1988. Er hv. þm. búinn að gleyma umræðum sem urðu um harkalegan og fyrirvaralítinn niðurskurð á fjárframlögum til ýmissa stofnana landbúnaðarins í því frv. sem reynt var að afgreiða hér rétt fyrir jólin og áramótin 1987 -- 1988? Og ætli það hafi ekki tekið nokkurn tíma í ýmsum tilvikum að fá fram eðlilegar lagfæringar á fjárveitingum til þessara stofnana síðan og sé svona í ýmsum tilvikum rétt að komast í skikkanlegt horf aftur í þessu frv. eða þeim fjárlögum sem við búum við á þessu ári?
    Ég vil síður nefna í því tilviki einstakar stofnanir en mér koma í hug Búnaðarfélag Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins, svo dæmi séu tekin. Ef ég man rétt þótti mönnum hagur þeirra ekki sérlega upplífgandi á því herrans ári 1988 við fjárlög þess árs.

Ég leyfi mér að fullyrða að með tiltölulega sanngjörnum og eðlilegum hætti hafi verið farið yfir fjárveitingabeiðnir stofnana landbúnaðarins og til reksturs þeirra sé í flestum tilvikum um eðlilegar fjárveitingar að ræða þó auðvitað sé það svo að flestir þættust geta komið meiru í lóg og haft fyrir það fulla þörf. Ekki dreg ég úr því.
    Ég tel að til rekstrar og til stórra liða, eins og útflutningsuppbóta, til Framleiðnisjóðs, til niðurgreiðslna, sé eftir atvikum vel ásættanlega veitt í þessu fjárlagafrv. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mönnum t.d. að það reyndist óhjákvæmilegt að hækka verulega raungildi fjárveitinga til útflutningsuppbóta. Hvers vegna ætli það sé, hv. þm., þrátt fyrir það að birgðastaðan í þeim greinum sem enn flytja út er betri en nokkurn tímann fyrr, mun betri og hefur stórlagast milli ára, tvö undangengin ár? Jú, ástæðan er m.a. sú að við neyðumst til þess á næsta ári að verja verulegum fjárhæðum af þessum lið til að greiða upp gamlar skuldir. Ef fara ætti út í samanburð um fjárveitingar til þessara liða undanfarin ár þá gæti ég haft um það þó nokkra tölu, hæstv. forseti, og glatt menn með því í kvöld. En ætli ég reyni ekki að greiða fyrir mitt leyti fyrir þingstörfum með því að neita mér um það að fara mikið út í þá sálma.
    En sem dæmi að taka, af því að ég nefndi hér liðinn ,,útflutningsuppbætur``, var afkoman þannig fyrir þessa ríkisstjórn eða öllu heldur fyrra ráðuneyti nafna míns, hæstv. forsrh., á þessu kjörtímabili, sem tók við völdum í septemberlok 1988, að nokkrum dögum áður hafði verið tekið 550 millj. kr. lán vegna fjárvöntunar á liðnum ,,útflutningsuppbætur``. Þá er ég að tala um verðlag þess tíma á nafnvirði verðlags haustið 1988. Það er af þessu láni m.a. sem við erum að borga núna. Þetta er því miður ekki eina dæmið um það bú sem við var tekið á þessum haustdögum. Hvers vegna heldur hv. þm., og reyndar veit hann það vel, að erfiðleikarnir séu eins og raun ber vitni í sambandi við jarðræktar- og búfjárræktarframlögin? Ætli ástæðan sé ekki sú að einmitt þegar þetta nefnda ráðuneyti, fyrra ráðuneyti Steingríms Hermannssonar á þessu kjörtímabili, tók við hafði myndast vegna ónógra fjárveitinga til þess liðar undanfarin ár mörg hundruð millj. kr. skuldahali, sennilega að raunvirði á núgildandi verðlagi á milli 400 og 500 millj. kr. sem safnast höfðu upp í skuldir vegna þess að ekki hafði verið veitt nóg fé til að framkvæma jarðræktar- og búfjárræktarlög undanfarin ár?
    Það er við þann vanda m.a. sem verið er að glíma núna. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þær upphæðir sem eru til framkvæmda, til að veita nýja styrki á næsta ári, munu ekki baka mér miklar vinsældir út af fyrir sig ef menn leggja þann mælikvarða einan yfir. En ég fullyrði hins vegar að það er verið að reyna að gera og er verið að koma skikk á þessa hluti. Það er verið að borga upp skuldirnar frá óráðsíudögunum og koma þessum hlutum í skil. Auðvitað er það erfitt meðan á því stendur því ekki verður gert hvort tveggja með sömu krónunni, greiddar upp gamlar skuldir og greiddir út nýir jarðræktarstyrkir. Svo

einfalt er nú það mál.
    Það væri gaman ef hér væri komin sú tækni, hæstv. forseti sameinaðs Alþingis, að það væri hægt að bregða upp skyggnum máli manna til skýringar hér úr ræðustóli og væri eiginlega nauðsynlegt að biðja forseta að hugleiða hvort ekki sé rétt að taka slíka tækni í þjónustu þingsins þannig að menn geti máli sínu til skýringar hér úr ræðustólnum sýnt myndir einhvers staðar á veggjum í hliðarsölum. ( Forseti: Forseti mun ræða það við húsfriðunarnefnd við fyrsta tækifæri.) Ég hygg að frú forseti geri rétt í því að hefja umfjöllun um það mál þannig að ræða það við húsfriðunarnefnd og kannski má taka skjaldarmerkjamálið fyrir í leiðinni. Hér er ég t.d. með eina mynd sem hv. þm. sér kannski af því að hann sér vel. Hvað sýnir hún? Hún sýnir niðurgreiðslurnar og hvernig þær þróuðust á undangengnum árum. Ætli hv. þm. verði ekki að viðurkenna það að frammistaða þeirrar ríkisstjórnar eða stjórna sem ákvörðuðu fjárveitingar á árunum 1984 til 1987 og glöggt kemur fram hér er ekki til að hrósa sér af. Þeir sem studdu þá ríkisstjórn ættu að gæta sín mjög þegar þeir fara hörðum orðum um frammistöðu annarra hvað snertir fjárveitingar til landbúnaðarmála. Gæti það hugsast, hv. þm., að sá vandi sem við höfum m.a. verið að glíma við og skapast af sölutregðu kindakjöts stafi að einhverju leyti af því að niðurgreiðslur hrundu á þessum árum, stóðu í stað í krónum ár eftir ár í bullandi verðbólgu? Gæti það hugsast að sú staðreynd að niðurgreiðslurnar á verðlagi ársins 1990 voru 6.199 millj. kr. árið 1982 en voru komnar niður í 2.389 á sama verðlagi árið 1985 hafi haft einhver áhrif? Er mögulegt að það sé kannski að hluta til skýringin á því við hvað við höfum verið að glíma undanfarin ár og hefur m.a. kostað stórauknar fjárveitingar til útflutningsuppbóta á undanförnum árum?
    Svo ég víki að þeim tveim liðum sérstaklega sem hv. þm. nefndi og byrja á fjárveitingum til landgræðsluáætlunar. Ég hlustaði að sjálfsögðu með athygli á það sem hv. 4. þm. Austurl. ræddi um það mál. Ég tel óhjákvæmilegt, m.a. í ljósi þeirra upplýsinga sem hann var hér með, enda stóð það til hvort eð var, að fara rækilega yfir alla þá útreikninga sem þarna hafa verið framkvæmdir, bæði af Hagstofu Íslands gegnum tíðina, skv. þál. um landgræðsluáætlun en það er gert ráð fyrir því í þeirri þál. að Hagstofan annist útreikninga og framreikning á þeim efnum, en einnig yfir þá útreikninga sem Ríkisendurskoðun, fjmrn. og landbrn. hafa verið að senda á milli sín undanfarna daga. Við höfum að sjálfsögðu ekki áhuga á öðru en að fá fram það sem réttast er um þessi mál og hafa fjárveitingarnar í samræmi við það. Ég vona að hv. þm. skilji það vegna þess að í till. landbrn. var ekki annað á ferðinni hvað landgræðsluáætlunina snertir en ósk um að fjárveitingar yrðu í samræmi við hana. Það var okkar till. Þess vegna var naumast um annað að ræða, vildi landbrn. vera sjálfu sér samkvæmt, en að una þá þeim útreikningum í því sambandi sem menn töldu réttasta. Sé hins vegar einhver hætta á því að menn hafi farið þar feilt, þá munum

við beita okkur fyrir því að fá það leiðrétt. Það hef ég þegar rætt við hæstv. fjmrh. og reyndar gaf hann það í skyn í máli sínu hér áðan að að sjálfsögðu þyrfti þá að fara yfir þá útreikninga og leiðrétta þá ef menn hafa þar ekki rétta tölu fyrir sér.
    Það er auðvitað ýmislegt fleira sem þá er eðlilegt að taka tillit til og fara yfir, svo sem hvernig kostnaðarþættir við landgræðslustarfið hafa þróast síðan áætlunin var samin því væntanlega hefur það verið vilji Alþingis og ætlun hv. alþm. að viðhalda u.þ.b. því raungildi fjárveitinga til framkvæmda sem áætlunin byggði á. Þá er rétt að fara yfir hluti eins og þróun áburðarverðs, launa og annarra kostnaðarliða, áhrif skattlagningar og reyna svo að haga fjárveitingum þannig að svipað raungildi verði til framkvæmda skv. landgræðsluáætlun. Það held ég að sé hinn eini rétti mælikvarði og vil gefa þá yfirlýsingu að landbrn. mun vinna að því á fyrstu vikum næsta árs að rækilega verði farið ofan í saumana á þeim hlutum. Einnig vegna þess, eins og ég veit að hv. 4. þm. Austurl. er kunnugt, að þegar hefur hafið störf nefnd til að undirbúa næstu langtímaáætlun um landgræðslu sem við á að taka að þessari lokinni. Menn þurfa að sjálfsögðu að byggja þá áætlun á traustum verðlagsforsendum eins og að öðru leyti.
    Það eru einnig í athugun, bæði á vegum Landgræðslu og ráðuneytis, ýmis sérstök verkefni á þessu sviði. Ég vil þar nefna eitt. Það eru brýnar og óumflýjanlegar aðgerðir í landgræðslu á Hólsfjöllum og í upplandi Öxarfjarðar og kemur að mínu mati vel til álita að veita utan við landgræðsluáætlunina sérstaklega til slíkra verkefna fjármagni og gæti það þá komið til aukningar á því fé sem Landgræðslan hefur að öðru leyti.
    Ég fullvissa hv. þm. um að ofan í saumana á þessum hlutum verður farið og upplýsingar hans og vitneskja um þessi efni eins og annarra þar tekin til greina. Ég veit að hv. þm. gengur gott til. Hann er einlægur áhugamaður og stuðningsmaður landgræðslumálanna og ég virði og met þann stuðning.
    Hvað hið síðara snertir, þ.e. framkvæmd jarðræktarlaga sem afgreidd voru hér á Alþingi fyrir einu ári síðan, er ljóst að þar er nokkur skoðanamunur á ferðum á milli mín og hv. þm. Ég hef í fjvn. lýst þeim skilningi mínum að með lagabreytingu sem þarna varð hafi það verið ákvörðun að jarðræktarstyrkjum á hverjum tíma yrði að haga í samræmi við þær fjárveitingar sem hv. Alþingi hefði ákveðið að leggja til jarðræktarmála og að ekki mundi með jarðræktarframkvæmdum né öðrum styrkhæfum framkvæmdum, sem ekki hefðu hlotið samþykki og uppáskrift, myndast réttur til styrkja eftir á. Þetta er auðvitað grundvallaratriði sem ekki er þolandi að nein óvissa ríki um. Ég veit að hv. þm. er mér sammála um það að ef einhver réttaróvissa er uppi um þetta efni verður að fá úr henni skorið. Það er álit lögfræðinga landbrn. að svo sé ekki en hér las hv. þm. upp nýframkomið álit frá Ríkisendurskoðun sem ég var að heyra í fyrsta sinn og hef auðvitað engar aðstæður haft til þess að skoða. Ég óska eftir því að fá það álit í hendur og

mun að sjálfsögðu láta fara yfir það. Sé svo að einhver vafi leiki á því hvort þarna myndast krafa á hendur ríkinu af hálfu þeirra bænda sem staðið hafa í jarðræktarframkvæmdum þá verður að fá úr því skorið. Ég hef litið svo á að svo væri ekki
og eingöngu það fé sem á fjárlögum stæði hverju sinni væri til ráðstöfunar til að styrkja byggingar- og jarðræktarframkvæmdir hvers árs. Hafi þær breytingar sem gerðar voru á frv. í meðförum Alþingis breytt þessari grundvallarhugsun laganna og frv. eins og það var þegar það var lagt fram verður að fást úr því skorið.
    Það er hins vegar ekki rétt, og með því vil ég ljúka máli mínu, herra forseti, að mínu mati að þó svo væri þá væri þar á ferðinni lögbrot. Heldur mundi það gerast, sem áður var, að það myndaðist skuld, skuld ríkisins við þessa bændur og þá væri aftur verið að fara út á þá sömu braut að skuldahali væri að safnast upp sem gera yrði upp eftir á. Það væri vissulega slæmt en ég er ekki sammála hv. þm. um það að þar væri lögbrot á ferðinni. Væri svo þá hefði öll framkvæmd jarðræktar- og búfjárræktarlaga um langt árabil verið eitt samfellt lögbrot. Því hef ég ekki heyrt haldið fram og mér finnst reyndar miður að hv. þm. skuli kjósa að viðhafa svo oft orðin svik og lögbrot í sínu máli þó hann sé hér með að öðru leyti ágætar og efnislegar athugasemdir sem sjálfsagt er að taka fullt tillit til. Ég vona að þetta hafi svarað hv. þm. og fulvissa hann um að af hálfu landbrn., og ég tel allra aðila sem hér eiga hlut að máli, gengur mönnum ekki annað til en að hafa það sem sannara reynist.