Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð við þessa umræðu þar sem rætt var um að reyna að hraða þingstörfum og hafa þingfundi ekki langt fram á nótt fjórða kvöldið í röð. Kannski hefur aðallega verið rætt við okkur stjórnarandstöðuþingmenn en ekki stjórnarliða í þessu sambandi miðað við þær ræður sem hér hafa verið haldnar. Mér þótti hæstv. landbrh. fara með langt mál miðað við það að hér ætti að reyna að stytta mál sitt. Ég ætlaði ekki almennt að hafa mörg orð um fjárlagafrv. í heild þar sem tvær hv. þingkonur Kvennalistans hafa gert grein fyrir afstöðu Kvennalistans til fjárlagafrv. og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Ég ætlaði aðallega að ræða um samvn. samgm. sem ég á sæti í nú í fyrsta skipti. Þótti mér ákaflega fróðlegt að sitja þar þar sem ég hef ekki komið þar að áður. Það sem mér þótti kannski eftirtektarverðast við þá vinnu og kannski síst til eftirbreytni var hve lítill tími var til að fara yfir málin af þeirri kostgæfni sem þessi mikilvægu mál eiga þó skilið.
    Eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Vestf. hefur samvn. samgm. ákveðið að koma saman eftir áramótin til að fjalla frekar um málin, sérstaklega um bátana og stóru þættina til þess að undirbúa frekar þau mál sem koma fyrir nefndina næst þó svo það verði e.t.v. ekki margir þeir sömu sem munu koma að málunum þá.
    Mig langar til að gera að umtalsefni örfá atriði, virðulegur forseti. Fyrst vil ég minnast á 56. lið brtt. á þskj. 389 en það er styrkur til Mýrdalshrepps. Samvn. samgm. barst bréf frá Mýrdælingi hf. þar sem sótt er um styrk til kaupa á bátum og langar mig, með leyfi forseta, til að lesa það bréf. Það hljóðar svo:
    ,,Fyrir hönd Mýrdælings hf., Vík í Mýrdal, sæki ég hér með um stofnframlag á fjárlögum vegna kaupa á tveim hjólabátum. Þessir bátar voru keyptir á árunum 1986 og 1987 og er framreiknað kaupverð þeirra nú 8 millj. 285 þús. kr. án alls búnaðar og veiðarfæra. Þeir hafa verið notaðir til fiskveiða, löndunar á fiski, til að sjósetja og taka á land trillu sem gerði út héðan og til skemmtisiglinga fyrir ferðafólk. Hafa þeir þannig verið undirstaða fiskverkunar sem hefur gefið nokkra tímabundna atvinnu nú síðustu árin því auk eigin afla hefur Mýrdælingur hf. keypt fisk úr handfærabátum frá Vestmannaeyjum og víðar sem sótt hafa veiðar austur fyrir Dyrhólaey og fært þeim vistir í staðinn og hefur það sparað þeim siglingu til Vestmannaeyja. Þá hefur skemmtisigling úr fjörunni frá Vík út fyrir Reynisdranga og gegnum gatið á Dyrhólaey notið vaxandi vinsælda ferðafólks og er mikilvægur þáttur í þeirri ferðaþjónustu sem verið er að byggja upp í Mýrdal og hefur orðið umfangsmeiri með hverju ári. Starfsemi Mýrdælings hefur því haft mikil bein og óbein áhrif til að vega nokkuð á móti þeim samdrætti sem orðið hefur í öðrum atvinnugreinum síðustu árin í Vík.
    Þar sem þessi rekstur er algjörlega háður tíðarfari hefur afkoman ekki verið nægilega góð til að greiða

niður stofnkostnað. Það gerir reksturinn líka erfiðari að af öryggisástæðum er nauðsynlegt að hafa báða bátana til taks þegar farið er á sjó þar sem ekkert hafnarmannvirki er á ströndinni frá Höfn í Hornafirði til Stokkseyrar eða Þorlákshafnar. Það mun því ráða úrslitum um hvort Mýrdælingur getur haldið áfram að auka fjölbreytni atvinnulífs í Vík að stuðningur fáist til þess að lækka stofnkostnað hjólabátanna.``
    Undir þetta ritar svo Reynir Ragnarsson fyrir hönd Mýrdælings hf.
    Í nefndinni urðu nokkrar umræður um þetta erindi, ekki vegna þess að nefndarmenn teldu almennt að ekki væri þörf á aðstoð við Mýrdalshrepp heldur vegna þess að margir töldu, og þar á meðal ég, að umsóknin ætti kannski fremur heima annars staðar en hjá samvn. samgm. Ég er enn þeirrar skoðunar að þetta erindi hefði átt að berast annað. Þó eru þarna nokkrir þættir sem hægt er kannski að líta til að falli undir verkefni nefndarinnar og féllst ég því á það að Mýrdalshreppur fengi 1 millj. kr. til að styrkja þessa báta þar sem þeir tengdust að hluta til því verkefni sem nefndin hefur. Ég tel þó að þetta sé það mikið fyrir utan verksvið nefndarinnar að ekki komi til greina að þetta eigi heima frekar á verksviði þessarar nefndar og vona að þeir sem nú fá þó styrk frá Alþingi sjái að eðlilegra sé að sækja annars staðar, annaðhvort beint til fjvn. eða til Byggðastofnunar því hér er vissulega mjög mikilvægt mál á ferðinni.
    Það er annað sem mig langar til að gera að umtalsefni, virðulegur forseti, og það er styrkur til handa Stykkishólmsbátnum Baldri. Þar hefur kostnaður við reksturinn farið langt fram úr áætlun fyrst og fremst vegna þess að báturinn eyðir miklu meiri olíu en gert var ráð fyrir. Til samanburðar má geta þess að gamli Baldur eyddi 80 lítrum á klukkustund en nýja ferjan eyðir um 200 lítrum á klukkustund. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að það þurfti að þyngja bátinn verulega eða um 30%. Eftir því sem mér skilst er það einkum vegna þess að hönnuninni var eitthvað ábótavant og þurfti því að þyngja og setja ballest í bátinn. Hann er þess vegna miklu þyngri og þar af leiðandi miklu óhagkvæmari í rekstri en annars hefði verið. Það fara miklu fleiri farþegar með bátnum en áætlað var. Nú stefnir í að tæplega 14.000 farþegar verði fluttir yfir fjörðinn en í áætluninni var einungis reiknað með um 6.000 farþegum. Dæmið væri því enn óhagstæðara ef áætlun hefði staðist. Þarna er mjög slæmt dæmi um hvernig slys geta orðið ef ekki er vandað nógu vel til hönnunar og ekki athugað nógu vel hver þörfin raunverulega er.
    Ég geri þetta að umtalsefni ekki síst vegna þess að samvn. samgm. er kannski stillt á vissan hátt upp við vegg þar sem augljóst er að þarna er um ákveðinn halla að ræða sem er mjög erfiður fyrir reksturinn á bátnum. Það er mjög erfitt og enn dýrara að láta reksturinn stöðvast en styrkja hann til áframhaldandi flutninga.
    Ég minnist ekki síst á þetta vegna þess að nú stendur fyrir dyrum að smíða nýjan bát, Herjólf, til Vestmannaeyja sem er mjög mikilvægt mál fyrir Vestmanneyinga þar sem Herjólfur er þjóðbraut til Eyja og því þýðingarmikið að vandað verði til verksins og vel að málum staðið. Eins og fram kemur í greinargerð sem nefndinni barst verða farþegar til Vestmannaeyja á þessu ári u.þ.b. 46.000. Samkvæmt því sem kom fram í nefndinni er miðað við að nýr Herjólfur geti flutt 460 farþega. Það þýðir að hægt er að flytja alla þá farþega sem fóru með Herjólfi í ár í hundrað ferðum. En gert er ráð fyrir að Herjólfur fari tvær ferðir á dag nánast alla daga ársins á milli lands og Eyja. Við skulum áætla að það séu um 700 ferðir sem skipið fari á ári þannig að það tekur aðeins 100 ferðir að flytja þessi 46.000 manns og þá eru að meðaltali um 600 ferðir sem hann er tómur. Þetta finnst mér mjög einkennilegar áætlanir ef gengið er út frá að smíða svo stórt skip að þó að helmingi fleiri farþegar fari með skipinu en fara í ár þá mun það samt verða að stórum hluta tómt þegar það fer ferðirnar milli lands og Eyja.
    Ég vek athygli á þessu til þess að ekki verði rasað um ráð fram og athugað verði vel hvers konar skip verði smíðað fyrir ferðir til Vestmannaeyjar. Það er mjög mikilvægt að vel takist til og ekki verði verr af stað farið en heima setið. Vestmannaeyjar eiga það skilið að vel verði að þessu máli staðið og frekar verði farnar fleiri ferðir en færri og ekki þannig að nokkrar hræður hringli í skipinu í hverri ferð og þurfi stórar styrkveitingar til að halda skipinu gangandi. Það er engum til góðs, hvorki Vestmanneyingum né öðrum.