Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Hér hefur nú allmikið verið rætt um landbúnaðarmál og á köflum hélt maður að hér væri verið að ræða búvörusamning. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu þó það sé vissulega spennandi þar sem ég er alfarið á annarri skoðun en þeir sem hér hafa talað og tel að stefna okkar í landbúnaðarmálum sé yfir höfuð kolvitlaus og alröng. ( Gripið fram í: Er þm. ekki sammála 4. þm. Austurl.?) Hann er ekki sammála 4. þm. Austurl. og telur að taka eigi beina stefnu á markaðsbúskap í landbúnaðarmálum og telur þar að auki að allt of miklu fé sé varið til þessa málaflokks í dag og íslenska þjóðin hreinlega ráði ekki við það. (Gripið fram í.) Nú grípur hér fram í fyrir mér maður sem varð fyrir því áfalli fyrir tveim, þrem klukkutímum síðan að formaður hans flokks lýsti yfir beinu vantrausti á hann í sjónvarpsviðtali á Stöð 2. Væri vissulega tilefni til að ræða það og væri vissulega tilefni til að fá hæstv. forsrh. hér í salinn til þess að ræða þá vaxtapólitík sem nú er boðuð af hendi Búnaðarbankans og bankaráðsformaður sem hér er að gjamma fram í stendur fyrir og varð fyrir því að fá beint vantraust af hendi forsrh. í sjónvarpsviðtali fyrr í kvöld. En það verða þeir að eiga við sig, þeir kumpánar í Framsfl., hvernig þeir taka á þeim málum. En eitt er engu að síður ljóst að beint vantraust kom fram á bankaráðið allt og bankaráðsformanninn og yfirlýst af formanni Framsfl. að hann mundi ekki styðja þann mann aftur í þann stól.
    En eins og ég sagði, hæstv. forseti, ætla ég ekki að ræða landbúnaðarmálin hér. Ég er, eins og ég hef áður sagt, algjörlega á öndverðum meiði við þá sem hér hafa talað en það er mál sem minn flokkur þarf að taka upp á innri vettvangi.
    Ég ætla hins vegar að tala hér fyrir þeim brtt. sem ég hef lagt fram. Sú fyrsta er á þskj. 330 og er flutt af mér og hv. þm. Skúla Alexanderssyni og er við 4. gr., liður 02-902 Þjóðminjasafn Íslands, að þar komi nýir liðir:
    a. 102 Búminjasafn á Hvanneyri, rekstur 1,5 millj. kr.
    b. 603 Búminjasafn á Hvanneyri, stofnkostnaður.
    Með samþykkt þessarar tillögu er í raun búið að taka ákvörðun um að stofnsetja búminjasafn á Hvanneyri sem er búið að vera baráttumál þingmanna Vesturlands á þessu kjörtímabili. Þó að það hafi blásið vindar um það mál er það engu að síður sameiginlegt áhugamál okkar að þetta safn verði sett á laggirnar þó okkur hafi greint á um hvernig bæri að standa að því. Það er annars vegar hvort hægt væri að gera það með þáltill., eins og við þrír þm. Vesturl., ég ásamt hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Danfríði Skarphéðinsdóttur, lögðum til og hins vegar frv. sem hv. þm. Alexander Stefánsson og Friðjón Þórðarson báru fram.
    Nú getum við engu að síður slíðrað sverðin. Hér er komin tillaga sem við getum allir tekið undir. Með því að greiða atkvæði með þessari tillögu og koma henni í gegnum þingið er draumur okkar orðinn að

veruleika og búminjasafn getur verið reist að Hvanneyri.
    Annað þarf ekki til því það er heimild fyrir slíkri deild innan Þjóðminjasafnsins í tiltölulega nýsamþykktum þjóðminjalögum. Og ég efast ekki um það þó að hér sé aðeins einn þingmaður Vesturl. fyrir utan þann sem hér talar núna í salnum að þingmenn Vesturl. muni sýna samstöðu um málið og reyna að smita út frá sér og sjá til þess að það komist hér í gegn. Það er óþarfi, hæstv. forseti, að hafa lengra mál um þetta. Ég sé það á kollega mínum af Vesturlandi að þetta verður auðsótt mál.
    Hin till. sem ég mæli fyrir og er á þskj. 359 er við 4. gr., 06-214 Sýslumaður Stykkishólmi:
    a. Við 101 Yfirstjórn. Fyrir ,,24 millj. 630 þús.`` komi: 24 millj. 958 þús.
    b. Við 620 Liðurinn orðist svo: 620 Bygging nýrrar lögreglustöðvar 11 millj. 900 þús. kr.
    Það er sama tala og gert er ráð fyrir í frv. en orðalagsbreyting á texta sem hefur verulega þýðingu í þessu máli.
    Til þess að rökstyðja brtt. finnst mér alveg
nauðsynlegt að eyða svolitlum tíma í að fara yfir gang mála, hvað hefur verið að ske í þessu máli og af hverju ég flyt þessa brtt. Þannig var að aðbúnaður lögreglunnar í Stykkishólmi var til margra ára mjög bágborinn og svo bágborinn að í janúar á þessu ári lýsti Vinnueftirlit ríkisins því yfir að lögreglustöðinni yrði lokað frá og með 25. jan., ekki væri lengur hægt að una við það ástand sem þar var boðið upp á.
    Þegar þetta kom fram bað hv. þm. Eiður Guðnason um utandagskrárumræðu um þetta málefni og krafði dómsmrh. svara um hvað hann hygðist gera til þess að tryggja að eðlileg starfsemi löggæslunnar í Stykkishólmi gæti farið fram. Það er skemmst frá því að segja að hæstv. dómsmrh. tók mjög karlmannlega á því máli strax, lýsti því strax yfir í þeirri umræðu að þetta vandamál yrði leyst fljótt og vel og lýstu að sjálfsögðu þingmenn Vesturl. yfir mikilli ánægju með viðbrögð ráðherra. Það kom fram hjá ráðherra að hugmyndir væru um að leigja húsnæði en alla vega tók hann enga beina afstöðu á þeim tímapunkti. Það kom því nokkuð á óvart þegar nokkrum dögum eftir þetta svar ráðherra birtist frétt í Dagblaðinu þar sem haft er eftir aðila í ráðuneytinu og staðhæft að ráðuneytið hafi tekið ákvörðun um að lögreglustöðin og lögreglan yrði flutt í einingahús sem staðsett yrði í bæjarfélaginu. Þessi ákvörðun kom fyrst og fremst á óvart vegna þess að það fylgdi fréttinni að þetta einingahús ætti að koma annars staðar frá. Það sem vekur furðu í því efni er að í Stykkishólmi þá og í dag eru tveir framleiðendur einingahúsa og hefði að sjálfsögðu verið eðlilegast að við þá hefði verið talað en ekki leitað út fyrir bæjarfélagið.
    Þegar þetta kom fram lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um hverju þetta sætti og spurði hann um þessa frétt í Dagblaðinu. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að lesa hluta af svari ráðherra. Spurningarnar sem ég lagði fyrir hann voru nokkrar, til að mynda eftirfarandi:

    ,,Hvaðan kemur það 100 fermetra einingahús sem fyrirhugað er skv. blaðafregnum 10. febr. sl. að reisa fyrir lögregluna í Stykkishólmi? Var leitað tilboða hjá framleiðendum einingahúsa og ef svo er, hjá hverjum og hvert þeirra var hagstæðast? Hver er áætlaður heildarkostnaður við hina nýju lögregluvarðstofu í Stykkishólmi?``
    Ráðherra svarar á eftirfarandi hátt m.a.:
    ,,Eins og hv. þm. er vitaskuld kunnugt er ekki fjárveiting á fjárlögum 1990 til byggingar lögreglustöðvar í Stykkishólmi. Af því leiðir að ekki er önnur leið til lausnar í þessu efni en leiga húsnæðis, eins og raunar hefur komið fram fyrr hér á Alþingi í umræðum um þetta mál.
    Nokkur hús hafa komið til álita í þessu sambandi en ekkert hefur verið talið nægilega gott til að viðunandi væri. Einn kostur``, og ég bið menn að muna þetta, ,,sem til álita hefur komið er leiga á færanlegu einingahúsi sem hugsanlega gæti nýst til bráðabirgða fyrir lögregluna í Stykkishólmi. Þennan kost, sem einingahúsaverksmiðja á Selfossi hefur boðið fram, er nú verið að athuga nánar og möguleika á að hrinda honum í framkvæmd. Af eðlilegum ástæðum hefur tilboða ekki verið leitað í þessu sambandi og kostnaður þessu samfara liggur heldur ekki fyrir.``
    Við þetta svar er auðvitað ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er mjög gott til þess að vita að það einingahús sem þarna var til umræðu og var svo endanlega tekið er færanlegt. Það er mikilvægur punktur í þessu máli og eins að það var staðfest af ráðherra að þetta hús var aðeins til bráðabirgða, færanlegt hús til bráðabirgða. Það er einnig athyglisvert að í niðurlagi svars segir ráðherra: ,,Af eðlilegum ástæðum hefur tilboða ekki verið leitað í þessu sambandi`` o.s.frv. Það getur engan veginn talist eðlilegt að tilboða sé ekki leitað annars staðar og sérstaklega ekki í ljósi þess að tveir framleiðendur eru á staðnum. Það er ekki nokkur einasta leið, engin leið, hvorki hér eða einhvers staðar annars staðar að reyna að segja það við fólk að það sé eðlilegt að leita ekki tilboða annars staðar. Þannig svaraði ráðherra þeirri spurningu og bætti svo við í síðara svari sínu eftir að ég hafði gert athugasemdir við svör hans og bent á að það væri í hæsta máta óeðlilegt að ráðherra leitaði í sinn heimabæ, Selfoss, og tók nú kannski fullsterkt til orða og þó ekki því ég sagði að það lyktaði verulega af þessu.
    Ráðherra svaraði því til að hvaðan einingahús kæmi, ef sá kostur væri framkvæmanlegur, gæti hann ekki séð að skipti neinu meginmáli í þessu efni frekar en öðrum.
    Við vorum enn með hugann við þetta mál, hæstv. forseti, og gátum engan veginn unað því. Það varð alltaf ljósara og ljósara eftir því sem tíminn leið að ráðherrann ætlaði sér alveg frá upphafi að versla við kunningja sína á Selfossi, SG - einingahús, og kaupa húsið þaðan og, ég minni enn á, þrátt fyrir að tveir framleiðendur séu í Stykkishólmi, þrátt fyrir að atvinnuástand í Stykkishólmi sé með þeim hætti að þeim hefði ekki veitt af þeim verkefnum.
    29. mars lagði ég aftur fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra og spurði m.a.: ,,Hefur verið leitað tilboða frá öðrum húsaverksmiðjum í ,,færanlegt einingahús``, t.d. frá heimamönnum? Ef svo er ekki, hvers vegna?`` Svar ráðherra er allítarlegt: ,,Það hefur ekki verið gert, einfaldlega vegna þess að athugun á þessu eina tilboði í þessu efni sem borist hefur stendur enn yfir.``
    Mér finnst það ári harður dómur yfir starfsfólkið í dómsmrn. að það sé ekki fært um að skoða fleiri en eitt tilboð í einu. Og guði sé lof að hæstv. ráðherra er þó ekki með iðnrn. sem þarf kannski að skoða fleiri, fleiri tilboð vegna álverksmiðju sem hugsanlegt er að komi upp. Það tæki sennilega 50 -- 100 ár að taka ákvörðun um það ef aðeins er hægt að líta á eitt tilboð í einu.
    Hæstv. forseti. Töluvert hefur verið rætt um siðferði stjórnmálamanna að undanförnu og alls ekki að ástæðulausu. Menn hafa gefið á sér höggstað dag eftir dag í þeim efnum. Mér finnst framganga og framkoma hæstv. ráðherra í þessu máli algert siðleysi. Það er hreinlega tekið í nefið á heimamönnum í Stykkishólmi og þeim er gersamlega snýtt til blóðs. Og ég gagnrýni fjölmiðla fyrir það að hafa ekki tekið þetta mál upp, að hafa gefið ráðherranum frið í slíku máli sem þessu. Það er gagnrýni vert og má velta fyrir sér fréttamati fjölmiðlanna því að annað eins taka þeir nú upp og minna mál en þetta. Það er algert siðleysi með tvo framleiðendur í Stykkishólmi að vaða í kunningja sína á Selfossi. Þess vegna, hæstv. forseti, er þessi brtt. fram komin.
    Það er reyndar rétt, hæstv. forseti, að ég fari yfir enn eina fyrirspurn út af þessu máli, sem var núna í haust. Þá leitaði ég skriflegra svara frá ráðherra vegna þess að mér hefur þótt svör hans hingað til allmögur og lítið bitastæð. Hann hefur smeygt sér mjög lipurlega undan því að svara á rökrænan hátt þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint, að sjálfsögðu í skjóli þess að í fyrirspurnatíma er tíminn svo lítill að menn skýla sér gjarnan á bak við það. Ef menn t.d. lesa svör hæstv. ráðherra við munnlegum fyrirspurnum sjá þeir fljótt að taktík ráðherrans er sú að byrja á því að lesa allar fyrirspurnirnar upp. Þá er hálfur tíminn farinn. Svo kemur bjallan og þá því miður ráðum við ekki við að klára svarið. Þess vegna fór ég þá leið að hafa nú skriflega fyrirspurn. Það er nú sennilega hægt að telja svar ráðherra hér á fingrum sér, línurnar, ekki var það mikið meira. Ég spurði hann:
    ,,1. Var leitað tilboða hjá framleiðendum einingahúsa í Stykkishólmi í húsnæði handa lögreglunni á staðnum? Ef svo var gert, hvernig voru þau tilboð? Ef það var ekki gert, hverjar voru ástæður þess?``
    Þessi spurning var í þremur liðum. Það er ein og hálf setning sem fer í svarið frá hæstv. ráðherra. Það er boðskapurinn vestur í hérað. Svar: ,,Ekki var leitað tilboða í smíði einingahúss til nota sem lögreglustöð í Stykkishólmi. Ástæða fyrir því var sú að engin fjárveiting var á fjárlögum 1990 til þessa verks.`` Samt eyddi ráðherra á fjórðu millj. á þessu ári í grunn og frágang á lóð. Hvaðan komu þeir peningar? Hvar hefur það komið fram? Það var ekki á fjárlögum.

Hvaðan kemur það? Þetta er áleitin spurning. Þetta er spurning sem okkur ber að fá svar við. En svarið var nákvæmlega ekki neitt.
    Í öðru lagi var spurt: ,,Hvort var það einingahús, sem upp var sett fyrir lögregluna í Stykkishólmi, keypt eða leigt og á hvaða kjörum var það?`` Svar: ,,Frá fyrirtækinu SG - einingahús kom tilboð um lausn á þeim vanda sem húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi voru í, án þess að leitað væri tilboða, sbr. svar hér að framan. Tilboðið hljóðaði upp á smíði húss af tiltekinni gerð.`` Það er ekki hægt að leita tilboða en það er hægt að taka við tilboðum. Samt var það ekki gert. Ég veit til þess að framleiðendur vestur í Stykkishólmi höfðu samband við ráðuneytið en þeim var ekki gefinn kostur á því. En SG - einingahúsum á Selfossi var gefinn kostur á því. ,,Tilboðið hljóðaði upp á smíði húss af tiltekinni gerð, að stærð rúmlega 103 fermetrar, sem hentaði vel sem lögreglustöð. Í tilboðinu var gengið út frá því að húsið yrði leigt á 41 þús. kr. á mánuði.`` Og svo rétt neðar, hæstv. forseti: ,,Þessu tilboði tók ráðuneytið að því er leiguþáttinn varðar.`` Og þetta er mjög mikilvægt, ,,að því er leiguþáttinn varðar.`` Tilboðinu var tekið á þeim grunni sem leiguhúsnæði, færanlegt einingahús var leigt.
    Nú er náttúrlega komið fram eins og allir vissu, ráðherrann ætlaði aldrei að leigja þetta hús nema fram að fjárlögum, þangað til hann var búinn að ná sér í heimildina til þess að kaupa það. Það var allan tímann stefnan að kaupa húsið. Og nú er ég kominn að þeirri breytingu sem ég er að gera hér við fjárlögin.
    Í fyrsta lagi að hækka liðinn Yfirstjórn sem nemur 10 -- 12 mánaða leigu þannig að á meðan heimaaðilar byggja nýja lögreglustöð er fjármagn til að borga leiguna. Ég krefst þess að þetta verði gert og að ráðherrann standi við það sem hann hefur marglýst yfir að færanlega, leigða einingahúsið fari heim. Þess vegna er þessi tillaga sett fram.
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að klára þetta. Það væri vissulega ástæða til að taka smárispu á sjálfum fjárlögunum en það hefur fulltrúi Sjálfstfl., Pálmi Jónsson, gert mjög myndarlega og af alkunnum skörungsskap. Ég vil samt segja það að í mínum huga eru þessi fjárlög, alveg eins og fjárlögin í fyrra og hittiðfyrra, gersamlega marklaust plagg. Skattakóngur síðustu tveggja ára slær enn eitt persónulegt metið. Það er kallað hat trick í fótbolta. Bæði í skattlagningu og einnig í útgjaldaaukningu.
    Ég held að fjmrh. ætti að koma hér upp og reyndar allir ráðherrarnir og óska þjóðinni gleðilegra jóla, þeim sem núna þjást af þeirra völdum, af völdum þeirrar skattastefnu sem þeir hafa lagt á þjóðina, fjölskyldunum með börnin sem ekki geta átt hátíðleg og gleðileg jól vegna þeirra gerða. Þeir ættu að koma hér upp. Þá fýsir það mikið að komast í fjölmiðla. Þeir ættu að koma hér upp og segja við þjóðina: Það er okkur að þakka að þið eigið ekki gleðileg jól.