Fjárlög 1991
Föstudaginn 21. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 419 við 6. gr. fjárlaga en liður þar undir yfirskriftinni ,,Fjármálaráðherra er heimilt`` hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt: Að stofna til tímabundins yfirdráttar á viðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum á árinu 1991 vegna árstíðabundinna sveiflna í fjármálum ríkisins og semja ef með þarf um greiðslu yfirdráttarskuldar og um lánskjör.``
    Ég hef áður sagt það, hæstv. forseti, að ég er algerlega ósammála því að þessi grein standi þarna. Ég tel hana vera framsal á valdi sem Alþingi hefur. Valdið á að vera þrískipt í landinu, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, og ég tel algerlega út í hött að löggjafarvaldið feli fjmrh. opna lánsheimild án takmörkunar með þessum hætti. Hvorki samrýmist það stjórnarskránni né heldur er æskilegt að fjmrh. sé gefin opin heimild til þess að eyða eins miklum fjármunum og honum nánast dettur í hug. Með geðþóttaákvörðun getur ráðherra þess vegna tekið upp á því að kaupa stórhýsi í New York og hefur til þess fulla heimild. Sú brtt. sem ég flyt hljóðar svo: ,,Liðurinn fellur brott.``
    Ég vil ítreka það að ég hef sagt það áður í sambandi við fjáraukalög og flutti sams konar tillögu þá að þessi heimild héti réttu nafni Ógæfuheimild íslensku þjóðarinnar. Þessi heimild hefur gert fjmrh. mögulegt að borga nánast hvað sem er úr ríkissjóði hvenær sem er án þess að hafa til þess heimild og tel ég það öðru fremur hafa leitt af sér verðbólgu og háa vexti, óráðsíu og alls konar eignatilfærslu í þjóðfélaginu. Rétt lýsing á slíku er sukk og svínarí. Hér eru afgreidd fjárlög og lánsfjáráætlun á hverju ári og það er alger óþarfi að vera að ómerkja þessi fjárlög og lánsfjárheimildir með því að skilja eftir opnar heimildir í fjárlögum sem ómerkja lánsfjárlög og fjárlög.
    Ég tel það algert grundvallaratriði að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands virði grundvallaratriði í stjórnskipun landsins um hlutverk löggjafar- og framkvæmdarvalds. Þetta er alveg ljóst. Stundum er talað um að setja Alþingi í eina málstofu. Það á að vera til góðs, segja menn. Hvernig væri nú að dusta rykið af öllum þessum ágætu lögum sem við eigum um samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og reyna að koma þeim í framkvæmd? Haldi þetta sukk og þessi óráðsía áfram eins og verið hefur hér undanfarin tvö og hálft ár sem ég hef setið á þingi, þá er ég hræddur um að það verði lítið eftir af fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar um aldamót því að svo er hægt að spenna bogann nú um þessar mundir að það kvikni í öllu saman. Ég vil skora á hæstv. ráðherra að gefa þjóðinni það í jólagjöf að afnema þessa ógæfuheimild.
    Eftir að ég lagði þessa tillögu fram í dag gerðist dálítið merkilegt. Hæstv. fjmrh. lagði hér fram brtt. við 6. gr., sem er náskyld þessari, og ætlar að fá enn þá meiri heimildir heldur en hann hefur nú þegar með þessari framsalsheimild. Brtt. hans við 6. gr. hljóðar

svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt að gefa út fyrir hönd ríkissjóðs til sölu innan lands á árinu 1991 verðbréf, spariskírteini, ríkisbréf og ríkisvíxla að fjárhæð allt að 8.000.000 þús. kr.``
    Þetta gerist bara í dag. Þetta hefur aldrei verið tekið fyrir í hv. fjvn. Það munar ekkert um 8 milljarða, þeir koma bara fljúgandi ofan úr loftinu niður í deild, bara í eftirmiðdaginn og eiga að renna í gegn í fyrramálið. Hvað munar um 8 milljarða í öllu þessu sukki og svínaríi? Ég varð alveg forviða þegar ég sá þetta. Hæstv. fjmrh. gaf mér þá skýringu hér úti á gangi að þetta væri nauðsynlegt vegna þess að lánsfjárlög færu ekki í gegnum þingið fyrir áramót. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því að það fari svo, því að slíkt er náttúrlega lögbrot. Hæstv. fjmrh. reynir eitthvað að krafsa, hann er vanur því þegar hann er að brjóta lögin, þá er það allt auðvitað sjálfstæðismönnum að kenna. ( Fjmrh.: Ja, það er bara alveg rétt, hann bað um þetta.) Enda er maðurinn þekktur fyrir það að vera snöggur að gera svart hvítt eða hvítt svart, enda sérstaklega til þess menntaður.
    Ég ætla að leyfa mér að lesa aftur fyrir hæstv. fjmrh. lög um fjárfestingar og lánsfjáráætlanir ríkisstjórnarinnar sem eiga að fylgja fjárlagafrv. en gera ekki og er það lögbrot. Hvað gerir hæstv. fjmrh. við þá sem ekki greiða virðisaukaskatt? Hann lætur innsigla hjá þeim. Hann lætur draga þá fyrir dóm, hann lætur setja þá í tugthúsið. En sjálfur má hann brjóta þetta allt í bak og fyrir. Með leyfi hæstv. forseta hljóða þessi lög svo:
    ,,Ríkisstjórnin skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar - og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn og skulu þær fylgja fjárlagafrv.`` Þetta er hvergi til. ,,Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til. Markmið áætlananna er að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum.``
    Hver eru þessi þjóðhagslegu markmið í dag, hæstv. forseti? Er það ekki þjóðarsátt? Það er ekki stafkrókur um þetta. Þetta eru gildandi lög hér í landinu. Og áfram, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í fjárfestingar - og lánsfjáráætlunum skulu m.a. eftirtalin atriði koma fram:
    1. Heildaráætlun um opinberar framkvæmdir og fjármögnun þeirra með framlögum á fjárlögum, eigin fjármögnun opinberra fyrirtækja og lánsfé, enn fremur um framkvæmdir annarra aðila. ...
    Enn fremur skal gera grein fyrir þróun og horfum um fjárfestingu í einstökum atvinnuvegum. Þá skal greina frá áætlun um lánamarkaðinn í heild, þar með áætlun um erlendar lántökur og markmið í peningamálum og þeim tækjum sem beita skal til þess að þeim verði náð.``
    Hæstv. fjmrh., þetta er allt saman hér svart á hvítu hvernig á að stjórna þessum málum. En það er alveg gersamlega óþolandi að horfa upp á þennan sóðaskap í fjármálum sem maður horfir hér á. Það getur vel verið að þessi tímarit sem hæstv. fjmrh. er að lesa séu

meira spennandi en þau lög sem ég er að lesa fyrir hann, en ég held að það væri hollt fyrir hann að kynna sér þessi lög. Það fara að verða síðustu forvöð að virða landslög í fjmrn. Hvað eiga hv. alþm. að gera þegar ráðherrar haga sér með þeim hætti sem hér er? Láta eins og þá varði ekki neitt um hvaða reglur gilda í landinu og hvaða lög. Hvort sem það eru fjármálaákvæði stjórnarskrár landsins eða þau lög sem gilda um gerð fjárlaga þá er ekkert farið eftir því. Fyrir svo utan það að fjárlög eru ekki virt og fyrir svo utan það að lánsfjárlög eru ekki virt heldur farið fram úr öllu saman. Hvað skyldi hæstv. fjmrh. núna á þessari stundu vera kominn langt fram úr heimildum annars vegar á fjárlögum og hins vegar á lánsfjárlögum?
    Við þessum spurningum, hæstv. forseti, er ekki hægt að fá svör. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að það er ekki hægt að fá svör við því hér á hv. Alþingi hvað fjmrh. er kominn langt fram úr heimildum, annars vegar á fjárlögum og hins vegar á lánsfjárlögum. Þrátt fyrir alla tölvutækni í desember 1990 er ekki hægt að fá nein svör við þessu fyrr en kannski í mars 1991. Hvers konar bókhaldsþjónusta er það sem hæstv. fjmrh. stjórnar?
    Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að minna hæstv. fjmrh. aftur á að það eru til lög um ráðherraábyrgð frá árinu 1963. 1. gr. þeirra hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem fyrir er mælt í stjórnarskrá og lögum þessum. Ákvæði almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi taka einnig til ráðherra eftir því, sem við getur átt.
    2. gr. Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.``
    Nú ætla ég ekki að segja að hæstv. fjmrh. hafi stofnað ríkinu í fyrirsjáanlega hættu, en það er ekki kjarni þessa máls. Kjarni þessa máls er sá að ef ríkissjóður Íslands heldur áfram að haga sér eins og hann hefur gert, þá er verið að stofna hagsmunum ríkisins í hættu.
    Hæstv. forseti. Ríki hafa misst fjárhagslegt sjálfstæði sitt á sukki og óráðsíu svipaðri þeirri sem við erum vitni hér að.
    Hæstv. forseti. Ég tel að fjmrh. sé skylt að leggja þessar áætlanir fyrir þetta þing, og ég hef minnt hann áður á þessi lög hér í Alþingi. Það var þegar hann kom og ætlaði að fara að gera einhverja voðalega stóra og fína hluti, tímamótaaðgerðir, stórkostlegar aðgerðir. Það átti meira að segja að fara að breyta fjárlagaárinu og ég veit ekki hvað við upphaf fjárlagaræðu í fyrra. Þá ætlaði hann að fara að búa til einhverjar nýjar reglur. Ég var að benda honum á að þessi lög væru til, þetta er allt saman til. Samt hefur

hann ekki heyrt neitt af þessu. Ég skil það satt að segja ekki hvers vegna ekki er hægt að fara eftir þeim lögum og fjármálaákvæðum stjórnarskrár landsins vegna þess að það er ekkert verra fyrir hæstv. ráðherra. Það er auðveldara hæstv. ráðherrum að reyna að komast til botns í því hvernig best sé að stjórna fjárhagsmálum landsins, að virða þessi lög en ekki vera með þetta allt saman utan heimilda og á yfirdrætti og utan fjárlaga o.s.frv. þannig að það botnar ekki nokkur maður í þessu og allra síst hæstv. ráðherrar úr því að þeir vilja ekki einu sinni vita hvernig á að framkvæma þessi lög.
    Ég væri út af fyrir sig sáttur, hæstv. forseti, við þá tillögu sem fjmrh. er með um verðbréf, spariskírteini og ríkisvíxla allt að fjárhæð 8 milljarða, ef hann vildi fallast á það að sú grein félli út sem ég var að minnast á áðan, sem er yfirdráttarheimildin í Seðlabankanum, ógæfuheimild íslensku þjóðarinnar. Það væri vel til fundið eins og ég sagði áðan að gefa íslensku þjóðinni það í jólagjöf að þurrka þennan óskapnað út.
    Ég las, hæstv. forseti, um daginn upp úr dómi Hæstaréttar sem féll árið 1986, um framsal á valdi. Í því máli sem þar um ræðir framseldi Alþingi fjmrh. leyfi til að gefa út reglugerð og ákveða þannig þungaskatt. Þetta var dæmt ólöglegt af Hæstarétti. Alþingi getur ekki framselt það vald sem því er ætlað samkvæmt stjórnskipun landsins. Þess vegna er þetta framsalsákvæði um yfirdrátt ólöglegt. Ég bið hæstv. forseta að skoða þessi lög og skoða ákvæði stjórnarskrár, ráðfæra sig við lögfróða menn um það hvort þetta er ekki rétt. Ég tel það vera skyldu hæstv. forseta að ganga úr skugga um það þegar svona lagað er sagt hvort það eigi við rök að styðjast og breyta síðan í samræmi við niðurstöðu þeirrar umræðu. Alþingi er ekki afgreiðslustofnun fyrir ráðuneyti. Hér kemur ný tillaga frá hæstv. fjmrh. miðdegis í dag sem leyfir honum að selja spariskírteini, ríkisvíxla og fleira upp á 8 milljarða. Menn hafa stundum sagt að það muni ekkert um einn kepp í sláturtíðinni, en er þessi ekki nokkuð stór svona, bara á nokkrum klukkutímum? Og í hvað eiga þessir peningar að fara? Það er ekki stafur um það, hæstv. forseti, ekki stafur.
    Ég ætla að lokum, hæstv. forseti, að ítreka að það er skylda alþingismanna að sjá til þess að hæstv. ráðherrar framkvæmi þau lög sem eru í gildi í landinu. Alþingi setur leikreglurnar og ráðherrarnir framkvæma. Ef ráðherrarnir framkvæma ekki eins og lögin segja til um á Alþingi að taka þá á teppið samkvæmt lögum um landsdóm. Það er kannski kominn tími til að látið verði á það reyna hvort það sé hægt.