Tryggingagjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Lára V. Júlíusdóttir :
    Virðulegi forseti. Í framhaldi af þeirri umræðu sem fram hefur farið hér um afstöðu aðila vinnumarkaðar til frv. til laga um tryggingagjald þá er það rétt eins og hér hefur fram komið að Alþýðusamband Íslands hefur ekki tekið formlega afstöðu til þessa frv., ekki frekar en önnur samtök aðila vinnumarkaðarins utan örfá sem sendu inn umsagnir. Það hefur hreinlega ekki gefist tóm til að fjalla um það á þeim vettvangi sem gert er og nauðsynlegt er þegar Alþýðusambandið sendir frá sér formlegar umsagnir. Það þýðir þó ekki að ekki hafi verið fjallað um frv. og efni þess á vettvangi Alþýðusambandsins. Það hefur verið töluvert fjallað um það óformlega og niðurstaðan þar hefur verið sú að menn setja sig ekki upp á móti frv. eins og það liggur fyrir nú, enda hafi það ekki áhrif á rétt fólks til atvinnuleysisbóta eins og hann er í dag. Það vill segja að það er álit Alþýðusambandsins að frv. kveði fyrst og fremst á um skattlagningu á atvinnureksturinn og að því leyti er hér um verulega einföldun á skattlagningu á atvinnureksturinn að ræða, og því ber að fagna, en skattlagningin sem slík hefur engin áhrif á réttarstöðu fólks varðandi atvinnuleysisbætur eða lög um atvinnuleysistryggingar. Ef það á að verða þá verður að sjálfsögðu að breyta þeim lögum. Það liggur ekki fyrir neitt stjfrv. um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar en þegar það frv. liggur fyrir þá verður að sjálfsögðu tekin afstaða til þess af hálfu Alþýðusambandsins. Ég tel að frv. hv. 17. þm. Reykv. fullnægi ekki þeim sjónarmiðum og þeim skilyrðum sem Alþýðusambandið setur til laga um atvinnuleysistryggingar.
    Ég vil bara ítreka það að Alþýðusambandið setur sig ekki upp á móti frv. til laga um tryggingagjald eins og það lítur hér út, enda hafi frv. ekki nein áhrif á rétt fólks til atvinnuleysisbóta. Þegar slíkar tillögur koma fram þá verður að sjálfsögðu tekin afstaða til þeirra.