Tryggingagjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég heimilaði framlagningu þess frv. sem hér er til afgreiðslu og mun standa að samþykkt þess en neyðist engu að síður til að lýsa yfir miklum vonbrigðum. Þau vonbrigði felast í því að það sem þá var kynnt að ætti að gera var að aðstöðugjald yrði lækkað verulega. Nú virðist sú staða upp komin að því máli er drepið á dreif, svo ekki sé meira sagt, sennilega er verið að svæfa það, en nú eiga laun í atvinnulífinu að sitja ein eftir.
    Ég tel að það sé ærið umhugsunarefni fyrir Alþingi Íslendinga, ef við ætlum að auka okkar samstarf við Efnahagsbandalag Evrópu og búa okkar atvinnuvegi undir samkeppni við þetta bandalag, ef við treystum okkur ekki til að breyta þeirri skattlagningu sem verið hefur á fyrirtækin í landinu til samræmis. Aðstöðugjaldið er skattur sem hlýtur að hverfa í framtíðinni. Og mér finnst það dálítið skrýtið að sú niðurstaða skuli hafa orðið í ríkisstjórninni að menn skyldu gefast upp við að ná því máli fram og vísa því aðeins til nefndar og nú seinast samstarfsnefndar um nýja skattheimtu.
    Ég lýsi andstöðu við svona vinnubrögð og vil að það komi skýrt fram að mér finnst þetta flótti frá markmiði sem ég kann lítt að meta.