Starfsmannamál
Föstudaginn 21. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom felst í þessu frv. réttur opinberra starfsmanna til að vera áfram í þeim stéttarfélögum sem þeir voru í áður en verkaskiptingarlögin tóku gildi.
    Það er auðvitað ljóst að ef þetta frv. nær ekki fram að ganga nú fyrir áramót þá verða æði margir opinberir starfsmenn í lausu lofti og því er nauðsynlegt að það fái samþykki. En það breytir ekki því að þegar sami háttur var hafður á til að leysa vanda þessa fólks á síðasta þingi fyrir síðustu áramót, þá gerðum við kvennalistakonur athugasemd við það hvernig staðið var að málinu og gerum það enn og þá sérstaklega á grundvelli þess að í þeim kjarasamningi sem hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs undirritaði við BHMR í maí 1989 var eftirfarandi bókun með samningnum sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Samningsréttarlögin verði endurskoðuð í samvinnu við öll samtök opinberra starfsmanna. Stefnt verði að því að breytingar þær sem aðilar verða sammála um verði lagðar fram á haustþingi 1989.``
    Þetta hefur ekki enn náð fram að ganga og viljum við mótmæla því og hvetja til þess að þessi lög séu nú tekin upp hið fyrsta en munum að öðru leyti ekki hindra framgang málsins vegna alls þess fjölda starfsmanna sem vera mun, eins og ég sagði áðan, í lausu lofti ef þetta verður ekki samþykkt.