Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 21. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Sjálfstæðismennirnir í fjh. - og viðskn. hafa ekki skrifað undir þetta nál., enda er þetta álit eingöngu frá meiri hl. nefndarinnar. Minni hl., þ.e. fulltrúar Sjálfstfl., munu ekki skila sérstöku nál., enda var lögð mikil áhersla á það að þetta mál fengi afgreiðslu núna, og ég segi, án skoðunar í nefnd. Ég vil að það komi skýrt fram að nefndin skoðaði þetta frv. ekki nokkurn skapaðan hlut. Það var fyrir orð hæstv. ráðherra sem þetta mál náði fram að ganga því að hann lagði mikla áherslu á að sú venja skapaðist að lánsfjárlög fyrir yfirstandandi ár væru afgreidd á því sama ári.
    Þetta mál er reyndar sáraeinfalt. Hér er verið að gefa hæstv. ríkisstjórn heimild til þess að afla fjár á íslenska lánsfjármarkaðnum, ef ég man rétt, um 6 milljarða kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í samþykktum lánsfjárlögum fyrir yfirstandandi ár og enn fremur nýjar lánaheimildir fyrir tvo aðila, annars vegar Lánasjóð ísl. námsmanna og hinn aðilinn er Alþjóðaflugþjónustan, ICAO.
    Þetta eru einföld atriði. Kannski þarf ekki að skoða þau mjög náið en það hefði verið full ástæða til þess að ræða um vexti og ræða um það hverjir bera ábyrgð á mjög háu vaxtastigi á Íslandi en þar sem fallist hefur verið á að taka þá umræðu upp utan dagskrár í ótakmarkaðri umræðu hér á eftir í Sþ. þá skal ég ekki gera það að umtalsefni í þessari umræðu.
    Þetta frv., sem hér er verið að samþykkja, er í raun og veru sönnunarvottorð þess að það er hæstv. ríkisstjórn með hæstv. forsrh. þjóðarinnar í broddi fylkingar sem stendur fyrir því að auka þrýstinginn á íslenska lánsfjármarkaðinn með þeim hætti að vextirnir eru sífellt að hækka. Þetta sést í húsbréfakerfinu þar sem afföll hafa aukist og nú er verið að taka hér nýtt skref. Ég segi ekki annað en þetta, að menn ættu að skammast sín, hvort sem þeir eru forsætisráðherrar eða í öðrum stöðum í þjóðfélaginu, áður en þeir hlaupa í fjölmiðla með tómt gaspur og vitleysu og skoða málin í eigin garði áður en þeir ráðast á aðra jafnvel þótt það séu nákomnir aðilar. Þessi umræða fer hér fram á eftir og ég skal ekki hafa þessa umræðu lengri að sinni. En þetta dæmi hér er prófvottorð ríkisstjórnarinnar um það hver ber ábyrgð á háu vaxtastigi hér á landi. Það er sá sem næstur talar.