Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 21. desember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir hluta af máli hv. 1. þm. Reykv., þ.e. þann hluta sem varðar afgreiðslu þessa máls. (Gripið fram í.) Ég vel sjálf mín orð.
    Það er rétt sem fram kom að mál þetta var afgreitt á líklega innan við mínútu frammi í stigaherbergi áðan. Umfjöllun um málið var því engin og gafst ekkert ráðrúm til nál. eða annarra viðbragða. Hér er um að ræða breytingar á lánsfjárlögum þar sem farið er fram á heimild til aukinnar lántöku ríkissjóðs um 6 milljarða.
    Það vekur nokkra furðu að það skuli hafa ríkt svo mikið óraunsæi í áætlun um fjölda námsmanna í Háskóla Íslands að það hafi skakkað 500 nemendum og því þurfi að auka framlag til sjóðsins um 450 millj. Þetta er nú hvorki meira né minna en nemendafjöldi heils framhaldsskóla og furðulegt að það skuli hafa farið fram hjá ráðamönnum.
    Það er líka nokkuð sérkennilegt að það þarf að afla fjár til þess að greiða skammtímaskuld við Seðlabanka Íslands að upphæð 2 milljarðar. Það sama gildir um þetta. Það er eins og víxillinn hafi gleymst niðri í skúffu og fundist skyndilega. Það getur ekki hafa komið neinum á óvart að það þyrfti að borga þessar skuldir um áramót. Líklega ber hvort tveggja, sem ég hef nefnt, vitni um að verið var í upphafi að reyna að fela staðreyndir en reyndist svo ekki unnt að halda þeim lokuðum ofan í skúffum allt til áramóta.