Lánsfjárlög 1990
Föstudaginn 21. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forsrh. skyldi taka til máls og skora á hæstv. ráðherra að vera viðstaddan hér umræðu á eftir sem fer fram utan dagskrár um vaxtamálin og sjá til þess einnig að hæstv. viðskrh. verði hér. (Gripið fram í.) Og formaður bankaráðs Búnaðarbankans sem er í þingflokki með hæstv. forsrh. Mér líst þannig á þessi mál og þau orðaskipti sem hafa nú farið fram að full ástæða sé til þess að taka hér nokkurn tíma í dag og ræða það sem hefur verið að gerast í þessum málum. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það að sinni en vænti þess að hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, verði við þá tímabæru umræðu sem fer fram hér á eftir.