Tryggingagjald
Föstudaginn 21. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um tryggingagjald. Eins og hv. þm. er kunnugt kom út fyrir nokkru síðan skýrsla sérstakrar nefndar sem hefur unnið að endurskoðun skattlagningar atvinnulífsins í samræmi við óskir aðila vinnumarkaðarins sem fram voru settar fyrr á þessu ári.
    Á undanförnum árum hafa gengið hér í gegn tvær mikilvægar kerfisbreytingar í skattkerfinu. Í fyrsta lagi staðgreiðslan og í öðru lagi virðisaukaskatturinn. Nú er komið að þriðju kerfisbreytingunni sem er viðamiklar breytingar á skattlagningu atvinnulífs. Þær breytingar þarf að framkvæma í áföngum. Hér er um að ræða fyrsta áfanga þeirrar breytingar þar sem margvísleg launatengd gjöld eru sameinuð í eitt gjald, tryggingagjald.
    Markmiðið með endurskoðun skattlagningar atvinnulífs á Íslandi er annars vegar að styrkja samkeppnisstöðu þess gagnvart alþjóðlegri samkeppni og hins vegar að auka jafnræði milli einstakra atvinnugreina. Í helstu viðskiptalöndum okkar hefur sú breyting orðið fyrir alllöngu síðan að tryggingagjald af því tagi sem hér er lagt til er orðið samræmdur skattstofn í atvinnulífinu og reyndar í flestum löndum mun hærri en hér er lagt til. Aðrir áfangar í þessum breytingum hljóta að verða breytingar á tekjuskatti fyrirtækja og svo einnig afnám aðstöðugjalds sem allir sérfræðingar og forsvarsmenn í atvinnulífi eru sammála um að sé mjög óeðlilegt og óhagkvæmt gjald út frá nútímasjónarmiðum í rekstri atvinnulífs.
    Ríkisstjórnin hefur sett fram þá stefnu sína að vinna beri að afnámi aðstöðugjaldsins. Mér er kunnugt um að Vinnuveitendasamband Íslands er einnig sömu skoðunar og hefur sérstök nefnd á þess vegum unnið að mótun tillagna um það efni. Viðræður hafa farið fram milli félmrh. og fjmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga. Í kjölfarið hefur verið ákveðið að skipa sérstaka nefnd sem gera á tillögur um afnám aðstöðugjaldsins upp úr miðju næsta ári.
    Það frv. sem ég mæli hér fyrir felur í sér að hin ýmsu launatengdu gjöld eru samræmd í eitt gjald og lögfest er fyrsta þrepið í þeim breytingum, 2,5% á ákveðnar atvinnugreinar og 6% á aðrar. Sú skoðun hefur komið fram í meðferð málsins í þinginu að breyting er gerð frá hinum upphaflega búningi frv. þar sem allir áfangarnir voru lögfestir en nú er aðeins lögfestur þessi fyrsti áfangi. Síðan yrði lögfesting næstu áfanga tengd afnámi aðstöðugjalds í áföngum á næstu tveimur til þremur árum. Þannig yrði tengd saman sú breyting að færa tryggingagjaldið í eina tölu og samræma það þannig algerlega milli atvinnugreina og hins vegar að afnema aðstöðugjaldið stig af stigi. Markvisst verður unnið að tillögum um þetta efni á næstu mánuðum.
    Ég vona, virðulegur forseti, að þessi orð mín skýri þau grundvallaratriði sem er að finna í þessu frv. og mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.