Jólakveðjur í efri deild
Föstudaginn 21. desember 1990


     Forseti (Jón Helgason) :
    Þessi fundur í Ed. er hinn síðasti fyrir jólahlé. Vil ég leyfa mér að þakka hv. deildarmönnum ágætt samstarf það sem af er þessu þingi og umburðarlyndi í minn garð. Ég þakka varaforsetum og skrifurum fyrir ágæta aðstoð, enn fremur skrifstofustjóra og starfsliði öllu fyrir ágætlega unnin störf á því ári sem nú er að líða og þá ekki síst fyrir hina góðu vinnu sem það hefur innt af hendi þessa síðustu daga í miklum önnum og ávallt aðstoðað forseta svo að hvergi hefur skeikað.
    Ég óska hv. deildarmönnum og starfsliði Alþingis ásamt fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsæls komandi árs. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og heimkomu og vænti þess að við megum öll hittast hér á nýju ári að loknu jólahléi.