Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir hversu ljúfmannlega var orðið við erindi mínu um að fá að taka hér til umræðu vaxtastefnu hæstv. ríkisstjórnar.
    Tilefni þess að ég hef óskað eftir að taka vaxtastefnu hæstv. ríkisstjórnar til umræðu er fyrst og fremst yfirlýsingar hæstv. forsrh. í gærkvöldi og í morgun í fjölmiðlum þar sem hæstv. ráðherra reynir að þvo af sér ábyrgð á vaxtahækkunum sem eru bein afleiðing af efnahags- og fjármálastefnu hæstv. ríkisstjórnar. Hér hefur verið með miklum eindæmum staðið að verki og ég hygg að fá dæmi séu um að ráðherra hafi með þessum hætti reynt að þvo hendur sínar af afleiðingum eigin verka. Það er að vísu ekki fátítt að ráðherrar Framsfl. geri þetta, en ég hygg að það sé með eindæmum að það sé gert með þeim hætti að hnútum sé kastað innbyrðis á milli þingmanna Framsfl.
    Á undanförnum missirum hafa skapast hér skilyrði fyrir betra jafnvægi á lánsfjármarkaði og lækkun raunvaxta. Tvær meginástæður eru fyrir þessu. Fyrri ástæðan er sú sem um getur í nýlegri skýrslu Seðlabankans um þessar aðstæður sem bankinn telur vera straumhvörf er megi rekja til breyttrar vaxtastefnu á undanförnum árum sem hafi örvað innlendan sparnað og dregið úr eftirspurn eftir lánsfé. En það er kunnara en frá þurfi að segja að þessi breytta vaxtastefna hefur verið það atriði í íslenskum stjórnmálum sem hæstv. forsrh. hefur hvað hatramlegast barist gegn. Það er önnur ástæðan fyrir því að hér hafa skapast skilyrði fyrir jafnvægi á lánamarkaði og lækkun raunvaxta. Hitt skilyrðið er þeir kjarasamningar sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í byrjun þessa árs. Með öðrum orðum, í annan tíma hafa ekki verið betri skilyrði til þess að viðhalda hér jafnvægi á lánamarkaði og ná niður raunvöxtum.
    En hvað gerist þegar skilyrðin eru hagstæðari en í annan tíma til þess að ná því markmiði að viðhalda hér jafnvægi á lánamarkaði og lækka raunvexti? Hvað gerist við þessar aðstæður? Á sama tíma hækka raunvextir mjög verulega og afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á þessu ári er veruleg hækkun á raunvöxtum. Ef við lítum á verðtryggð lán er það mat Seðlabankans að þau hafi hækkað að meðaltali frá því að vera 6% á síðasta ári upp í að vera 7,4% á þessu ári og að óverðtryggð lán hafi hækkað frá því að vera 4,7% á síðasta ári upp í að verða 8,6% að meðaltali á þessu ári.
    Menn minnast þess einnig, þegar vextir af spariskírteinum ríkissjóðs voru um 6% í byrjun þessa árs, að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar voru gefin út sver loforð og mikil fyrirheit um að raunvextir af spariskírteinum ríkissjóðs mundu lækka og fara niður í 5%. Í stað þess að lækka hafa vextirnir af spariskírteinum ríkissjóðs hins vegar hækkað og hafa að undanförnu verið rúmlega 7%. Þetta er afleiðing af efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Á þennan veg hefur hæstv. ríkisstjórn notað bestu skilyrði sem hér hafa verið í

langan tíma til þess að viðhalda jafnvægi á lánamarkaði og ná niður raunvöxtum. Þetta er árangurinn af því og samt leyfir hæstv. forsrh. sér að koma fram fyrir þjóðina í fjölmiðlum og freista þess að þvo hendur sínar af afleiðingum þessarar stefnu og af ákvörðunum sem bankaráð Búnaðarbankans hefur tekið, en þar eiga stjórnarflokkarnir á að skipa tryggum meiri hluta. Það er þetta sem að mínu mati er ámælisvert og ástæða til að taka hér til umræðu.
    Það hefur ekki farið fram hjá nokkru mannsbarni að að undanförnu hafa hagfræðingar bent á að verulegar veilur séu í efnahagsstefnu stjórnarinnar, peningamagn í umferð hafi aukist langt umfram almennar verðlagshækkanir og afleiðingin af því kyndi undir verðbólgu. Í skýrslu Seðlabankans sem birtist í byrjun þessa mánaðar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Vissar líkur benda því til þess að nú sé svikalogn á lánamarkaðnum og það geti breyst skyndilega þegar efnahagslífið kemst upp úr lægðinni. Því er afar brýnt að dregið verði úr lánsfjárþörf hins opinbera og einnig heimila svo að rúm skapist fyrir óhjákvæmilega lánsfjármiðlun til atvinnulífsins á ný. Hætt er við að stjórntæki á sviði peninga- og lánamála nægi ekki til að viðhalda jafnvæginu þegar efnahagshjólið fer að snúast hraðar, heldur verði að treysta á verulegt framlag ríksfjármála í þeim efnum.``
    Og á öðrum stað segir, með leyfi forseta:
    ,,En hér þarf ekki mikið út af að bera til að aðstæður breytist verulega svo að hið opinbera eða aðrir geirar þurfi að sætta sig við meiri erlend lán en að er stefnt. Slík staða kynni einnig að leiða til þess að vextir á innlendum lánamarkaði hækkuðu.`` Hækkuðu enn frá því sem þeir eru í dag og hafa þeir þó stöðugt verið að hækka á þessu ári.
    Með öðrum orðum, Seðlabanki Íslands hefur í byrjun þessa mánaðar gefið út mjög alvarlega aðvörun í þessu efni. Og hann hefur beint spjótum sínum að hæstv. ríkisstjórn og bent á að nauðsynlegt sé að draga úr eftirspurn ríkissjóðs eftir lánsfjármagni. En við höfum hér í dag, eða stjórnarmeirihlutinn réttara sagt, verið að taka ákvarðanir um fjárlög næsta árs með verulegum halla þar sem fleiri milljörðum er sópað undir teppið og þeir faldir með ýmsum hætti og ákvarðanir hafa verið teknar hér í dag af stjórnarmeirihlutanum um að stórauka lánsfjáreftirspurn ríkissjóðs á næsta ári. Það eru þessar ákvarðanir sem leiða til þess að vextir munu enn hækka á næsta ári, ákvarðanir sem stjórnarmeirihlutinn hefur tekið undir forustu hæstv. ríkisstjórnar og verkstjórn hæstv. forsrh.
    Í útvarpinu í dag sagði forseti Alþýðusambands Íslands um ákvörðun bankaráðs Búnaðarbankans að það væri ekki hún ein og sér sem ylli verkalýðshreyfingunni mestum áhyggjum. Það væri hækkun raunvaxta sem þegar væri orðin og hann óttaðist að toppinum væri ekki náð, heldur yrði um meiri hækkanir að ræða á næsta ári. Og vegna hvers? Það var álit forseta Alþýðusambands Íslands að það væru tvær meginástæður fyrir þeim hækkunum sem orðið hafa og þeim hækkunum sem í vændum væru. Það væri hallinn á

ríkissjóði og útgáfa húsbréfa. Með öðrum orðum, hvor tveggja þessara meginástæða er afleiðing af ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið. Sá ótti sem forustumaður verkalýðsfélaganna í landinu ber í brjósti vegna þeirra vaxtahækkana sem orðnar eru og þeirra vaxtahækkana sem í vændum eru stafar af því að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir sem leiða þetta af sér. Það er því deginum ljósara og kristaltært að það sem gerst hefur í þessum efnum er afleiðing af ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar sem hún getur ekki þvegið hendur sínar af og hún minnkar sjálfa sig af því að gera tilraunir til þess að þvo hendur sínar.
    Pétur Benediktsson bankastjóri orðaði það einhvern tíma svo, þegar framsóknarmenn voru að glíma við afleiðingar eigin ákvarðana, að það læknaði enginn rauða hunda með því að velta sér upp úr hveiti. Og mér sýnist að af hálfu hæstv. forsrh. eigi nú að reyna að endurtaka þennan leik með því að gera afleiðingarnar af eigin ákvörðunum að ádeiluefni og reyna að þvo hendur sínar með þeim hætti.
    Í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi vék hæstv. forsrh. aðspurður að ákvörðun Búnaðarbankans. Sérstök ástæða er til þess að ræða hér um vísitöluviðmiðanir þær sem hæstv. forsrh. vitnaði til. Í viðtalinu segir hann: Og nú kemur út lánskjaravísitala sem er lægri jafnvel en þetta, framfærsluvísitala frá því lægsta sem hefur verið samið um. --- Það er athyglisvert að skoða þessi ummæli í ljósi skýrslu Seðlabankans sem nú er nýkomin út. Þar er vissulega á það bent að lánskjaravísitalan fram til 1. jan. verði 5,7 -- 6,7%, en þegar litið er til fyrstu mánaða næsta árs verði verðbólga enn meiri eða 7 -- 10%. Þetta eru þær nýju niðurstöður sem koma frá Seðlabankanum og hæstv. forsrh. lét kyrrt liggja að vitna til. Það er líka ástæða að vitna til þess og rifja það upp að nú er verið að tala um breytta lánskjaravísitölu þar sem vægi launa er meira en áður. Og þegar laun hækka hækkar lánskjaravísitalan meir og hún kemur með meiri þunga niður á skuldurum. En hver skyldi hafa beitt sér fyrir því að þessi breyting var gerð sem nú er að koma fram í meiri vaxtabyrði en ella hefði orðið? Skyldi það ekki vera hæstv. forsrh.? Og samt kemur hæstv. ráðherra fram fyrir þjóðina og reynir að þvo hendur sínar.
    En hæstv. ráðherra hélt áfram aðspurður í nefndu viðtali. Með leyfi forseta sagði hæstv. ráðherra: ,,Og ég vil segja það að það að hækka svona vexti eftir einhverri sjálfvirkri formúlu er andstætt bankalögum, er beinlínis ólöglegt og þeir menn sem veljast þarna í bankaráð eru ekki vanda sínum vaxnir.`` Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir, í fyrsta lagi, að bankaráð Búnaðarbanka Íslands hafi tekið ákvarðanir sem brjóti bankalögin. Með öðrum orðum, að kjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga til þess að stjórna Búnaðarbankanum hafi gerst lögbrjótar. Þetta er yfirlýsing hæstv. forsrh. og er býsna alvarlegt mál og útilokað annað en að Alþingi sýni einhver viðbrögð við svo alvarlegri ásökun gagnvart mönnum sem þingið hefur sýnt þann trúnað að sitja yfir Búnaðarbankanum og fara þar með æðstu stjórn. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi í sögunni að trúnaðarmenn Alþingis, þar á meðal fulltrúar meiri hlutans á hv. Alþingi, séu bornir slíkum sökum af hæstv. forsrh. Hann heldur því enn fremur fram að bankaráðsmennirnir séu ekki vanda sínum vaxnir. Fyrir utan það að saka þá um lögbrot lýsir hann yfir fullu vantrausti á bankaráðsmönnunum. Og þegar hæstv. ráðherra er að því spurður hvort þetta séu ekki ríkisbankar og hvort stjórnarmeirihlutinn beri ekki nokkra ábyrgð á kjöri meiri hluta fulltrúa í bankaráðinu svarar hæstv. ráðherra með þessum orðum, með leyfi forseta: ,,Við kjósum það. Ég mundi ekki kjósa þá sömu bankaráðsmenn aftur ef hér væri kosið á morgun.`` Vantraustsyfirlýsingin er svo algjör að formaður Framsfl., hæstv. forsrh., lýsir því yfir að jafnvel sá fulltrúi sem Framsfl. hefur kosið í bankaráðið og gegnir þar formennsku fái þá vantraustsyfirlýsingu að jafnvel þótt kosið yrði á morgun yrði hann ekki endurkjörinn. Þetta er einsdæmi og engin önnur dæmi um yfirlýsingar af þessu tagi af hálfu stjórnvalda og hljóta enn fremur að kalla á viðbrögð af hálfu Alþingis.
    Ég vil því varpa þeirri spurningu fram til hæstv. forsrh. hvernig hann ætli að fylgja þessari yfirlýsingu eftir. Eða er hún kannski bara marklaus? Ætlar hæstv. ráðherra að koma hér upp og segja: Ég meinti þetta ekki? En ef mark á að taka á þessari yfirlýsingu, hvernig á að fylgja henni eftir? Ég get lýst því yfir hér að ég er reiðubúinn til þess að beita mér fyrir því, eða a.m.k. að taka þátt í því ef hæstv. forsrh. óskar, að kjörtímabili bankaráðs Búnaðarbankans verði breytt með lögum þannig að það verði án tafar hægt að kjósa til þess á ný og þá komi í ljós hvaða fulltrúar í bankaráðinu njóta enn trausts Alþingis og hverjir ekki. ( Menntmrh.: Samþykkti Halldór Blöndal ekki hækkunina?) Ég er reiðubúinn til þess að leggja mitt lið til þess að þetta verði gert ef hæstv. forsrh. óskar eftir. Ég sé hins vegar ekki að orð hans geti staðið nema hann fylgi þeim eftir með einhverri ákvörðun af þessu tagi. Og ég vil enn fremur inna hæstv. ríkisstjórn eftir því til hvaða ráða hún ætlar að grípa til þess að nýta þau óvenjugóðu skilyrði sem nú eru og hafa ekki verið betri í annan tíma til þess að viðhalda hér jafnvægi á lánamarkaði og halda niðri raunvöxtum. Við höfum varpað þessum spurningum fram í umræðum hér undanfarnar vikur hvað eftir annað án þess að nokkur svör hafi fengist frá hæstv. ríkisstjórn. Við höfum bent á hver þróunin hefur verið og hvert stefnir í þessu efni. Og við höfum óskað eftir því að hæstv. ríkisstjórn sem hefur verið að reyna að þvo hendur sínar af þessari þróun svari þessu: Hvað er það sem hún vildi gera? Hver er ágreiningur hennar við Seðlabankann sem hún er jafnan að saka um að bera á þessu ábyrgð? Hverjar eru tillögur hæstv.
ríkisstjórnar? Það er óhjákvæmilegt að þjóðin fái skýr svör við þeirri spurningu hér og nú eftir að hæstv. forsrh. hefur með svo einstæðum hætti reynt að þvo hendur sínar af afleiðingum efnahagsstefnu sinnar eigin ríkisstjórnar.
    Það er líka ástæða til þess að spyrja hæstv. viðskrh. hvaða augum hann lítur þá ákvörðun sem bankaráð Búnaðarbankans tók. Því hefur verið haldið fram,

þar á meðal af formanni bankaráðsins, að þessi ákvörðun sem var tilefni upphlaups hæstv. forsrh. sé einungis í samræmi við samkomulag sem gert var á milli bankanna og aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um að halda raunvöxtum á nafnvaxtabréfum í samræmi við raunvexti á verðtryggðum lánum. Er þessi fullyrðing bankaráðsmanna og bankastjórnar Búnaðarbanka Íslands röng eða er hún rétt að mati hæstv. viðskrh.? Er hæstv. viðskrh. sammála því sem hæstv. forsrh. hefur sagt, að bankaráðsmenn Búnaðarbankans hafi gerst brotlegir við lög?
    Enn fremur er nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. greini Alþingi frá því, vegna þess að hæstv. forsrh. hefur sakað alla fimm bankaráðsmennina sem sæti eiga í bankaráðinu um að brjóta lög, hvernig atkvæði féllu í atkvæðagreiðslu um þessa vaxtabreytingu. Tóku allir bankaráðsmenn þátt í henni? Greiddu þeir allir atkvæði með? Greiddu einhverjir þeirra atkvæði á móti eða sátu einhverjir hjá? Vegna hinna þungu ásakana sem hæstv. forsrh. hefur borið á þá menn sem Alþingi hefur treyst til þessara starfa og sakað þá um lögbrot verður ekki hjá því komist að hæstv. viðskrh. svari þessum spurningum og upplýsi Alþingi um þetta efni.
    Vera má að hæstv. forsrh. komi hér upp enn einu sinni og freisti þess að draga þá mynd upp af þessu máli og þessu upphlaupi að hér sé um enn einn tvískinnunginn að ræða af hálfu Framsfl. Sumir eigi að halda uppi vöxtunum af því að það sé nauðsynlegt, en aðrir eigi að vera á móti því af því að það sé vinsælt. Vel má vera að það staðfestist hér í umræðunni sem formaður bankaráðs Búnaðarbankans hefur sagt og gefið sem skýringu á þessu upphlaupi að hæstv. forsrh. skilji einfaldlega ekki hvað nafnvextir eru og hver munurinn sé á nafnvöxtum og raunvöxtum. Vel má vera að það verði niðurstaða þessarar umræðu. En það kann líka að vera að þriðja skýringin komi hér í ljós að það sé í raun og veru ágreiningur innan Framsfl. í þessu efni.
    En kjarni málsins, frú forseti, er sá að hæstv. forsrh. hefur með ósmekklegum hætti í yfirlýsingum í fjölmiðlum reynt að þvo hendur sínar af afleiðingum eigin efnahags - og fjármálastefnu og ákvörðunum í bankaráði þar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa hreinan meiri hluta.