Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mundi fagna þessari umræðu ef hún væri á öðrum degi en nú þegar við erum að reyna að ljúka þingi eftir ágætis samkomulag síðustu sólarhringa. Ég tek undir þau orð virðulegs forseta að það ber að gefa starfsliði tækifæri til að komast heim sem fyrst. Ég mun því ekki hafa orð mín mörg.
    Ég ætla fyrst að fara yfir lög sem um bankastarfsemina gilda að þessu leyti. Í lögum um viðskiptabanka segir:
    ,,Bankaráð mótar stefnu bankans í vaxtamálum. Bankaráð setur, að fenginni umsögn bankastjórnar, almenna reglu um lánveitingar bankans sem sendar skulu bankaeftirlitinu.`` Síðar segir, með leyfi forseta, í 22. gr.: ,,Við ákvörðun vaxta - og þjónustugjalda er viðskiptabanka óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir.``
    Svipað segir um sparisjóði. Í 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands segir: ,,Seðlabankinn getur, að fengnu samþykki ráðherra, bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn - og útlána.``
    Hvernig er þessu háttað nú? Að því ætla ég að koma hér á eftir. En ég vil þó segja áður að því fer víðs fjarri að ég sé að þvo mínar hendur, ég get það ekki, því að því miður tók ég þátt í því með hv. þm. sem hér talaði áðan, hinum skörulega formanni Sjálfstfl., að hækka vexti 1984. Þá var samþykkt í ríkisstjórn að hækka vexti um 2% eftir mikið þjark. Þá vorum við framsóknarmenn fullvissaðir um að vextir mundu verða um það bil 5 -- 5,5%. Og það reyndist líka vera í þeirri ríkisstjórn. Í júlí 1984 urðu þeir 5,5%. Síðan haldast þeir 5% nokkurn veginn út árið 1986, hækka lítillega í lok ársins. En það er svo á árinu 1987 þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar tekur við að sprengingin verður. Þá hækka raunvextir upp í 8,2% á þriðja ársfjórðungi, síðan upp í 9,3% og verða 7,7% að meðaltali það ár. Og á árinu 1988 eru raunvextir að meðaltali 9,2%. Það er síðan þegar ríkisstjórn mín tekur við í september 1988 sem raunvextir byrja að lækka aftur og verða 6% á árinu 1989 og síðan 7,3% þegar skýrsla Seðlabankans er skrifuð í nóvember í ár. Því verður alls ekki haldið fram að ekki hafi tekist að lækka raunvextina eftir þá sprengingu sem varð í tíð Þorsteins Pálssonar sem forsrh.
    Nei, ég get ekki þvegið hendur mínar af þessu því að ég tók þátt í því 1984, í góðri trú vissulega, að það væri óhætt að gefa samþykki fyrir vaxtahækkunum um 2% og það tókst í þeirri ríkisstjórn að halda vöxtum í 5%. En það sannaðist þó enn einu sinni að þegar skrattanum er réttur litli fingurinn þá tekur hann höndina alla. Þessu fylgdi síðan að okurlögin voru afnumin og að eftirlit Seðlabankans með vaxtaákvörðunum viðskiptabankanna varð nánast ekkert.
    En hvernig er mætt þeim skilyrðum sem sett eru hér í lögum fyrir vaxtahækkunum eins og ég las

áðan? Og hvernig sinnir þá Seðlabankinn sínu verkefni sem honum er treyst til skv. 9. gr. seðlabankalaganna? Hér hefur það tíðkast um nokkurt skeið að bankarnir bera saman bækur sínar. Því verður held ég alls ekki á móti mælt. Það er meira að segja svo langt gengið að þeir fara eftir ákveðinni formúlu í sambandi við lækkun og hækkun vaxta. Það var ekki með samþykki ríkisstjórnarinnar sem sú formúla var ákveðin. Það voru samningar á milli aðila vinnumarkaðarins og viðskiptabankanna sem leiddu til þess að viðskiptabankarnir féllust á að lækka nafnvextina, sem voru satt að segja ákaflega háir í byrjun ársins, einhvers staðar í kringum 12 -- 13%, langtum hærri en raunvextir af verðtryggðum bréfum. Bankarnir féllust á að leiðrétta þessa nafnvexti eftir ákveðinni formúlu sem þeir komu sér saman um. Það þýðir vissulega ekki að einhver formúla eigi að gilda til eilífðarnóns um vaxtaákvarðanir bankanna þannig að þeir gangi þar allir í takt. Vitanlega verða bankaráðin að gæta hagsmuna bankanna og þau eiga að gera það með því að skoða efnahagsreikning bankanna og athuga hvernig hann kemur út. Það er á þeim grundvelli sem bankarnir hljóta að ákveða hvort nauðsynlegt sé fyrir þá að hækka vexti.
    Ég hef hér undir höndum efnahagsreikning fyrir fyrstu níu mánuði ársins hjá öðrum ríkisbankanum. Mér er ekki heimilt að lesa þær tölur hér. En ég get fullvissað hv. þm. um að það eru ekki slæmar tölur. Eftir að búið er að afskrifa og leggja í varasjóði milljónahundruð, þá er það sem eftir er líka ansi glæsileg tala. ( FrS: Hvor ríkisbankinn er það?) Það er Landsbankinn, fyrst hv. bankaráðsmaður Landsbankans spyr um það.
    Ég endurtek það sem ég hef sagt, hér á þjóðarsáttartíma eins og um er talað, og vitanlega á það alltaf við, ekki síst um ríkisbankana, að það mun hrikta í ef afkoma ríkisbankanna verður eins og virðist stefna í með þessum reikningum sem ég hef hér undir höndum. Það er áreiðanlega mikið satt í því sem margir verkalýðsforingjar hafa sagt að það samræmist ekki þeirri viðleitni launþeganna í landinu að halda niðri launum til að ná niður verðbólgu. Og vitanlega er það algerlega rangt að hávextir hafi ekki áhrif á verðbólgu þó að hér hafi því verið haldið fram um árið. Ég endurtek því allt sem ég hef sagt um það að hér er um hið alvarlegasta mál að ræða.
    Og það er fleira að sjálfsögðu sem verður að geta í sambandi við þessa ákvörðun bankanna um taktgöngu í vaxtahækkunum. Ég las áðan líka reglur þær sem Seðlabankanum ber að fara eftir. Samkvæmt þessari skýrslu Seðlabankans frá því í nóvember kemur fram að raunvextir hér á landi eru nú þeir hæstu sem finnast eða jafnháir og á Norðurlöndunum, segir hér í samantekt frá viðskrn. sem er best að ég lesi orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Sé litið á raunvexti erlendis af skammtímalánum fyrirtækja og þeir bornir saman við raunvexti af verðtryggðum skuldabréfum hér á landi kemur í ljós að raunvextir hér á landi eru svipaðir og á hinum Norðurlöndunum, 8,5%, eilítið hærri en í öðrum Evrópulöndum, 7,2% en mun hærri en í Bandaríkjunum, 3,2%.``
    Hvar eru okkar helstu viðskiptalönd? Þau eru að sjálfsögðu ekki á Norðurlöndunum. Í 9. gr. segir að Seðlabankanum sé heimilt að grípa til aðgerða til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga. Norðurlöndin eru ekki okkar helstu viðskiptalönd. Okkar helstu viðskiptalönd eru önnur lönd Vestur - Evrópu þar sem raunvextir eru 7,2% og Bandaríkin þar sem raunvextir eru 3,2%. Og af því að hv. þm. spurði að því hvernig ég hyggist fylgja eftir mínum orðum, þá verður það gert með því að beina þeirri fyrirspurn til Seðlabanka Íslands hvernig hann hyggist framkvæma þá grein sem er í lögum og tryggja að hér á landi verði raunvextir svipaðir og þeir eru í okkar helstu viðskiptalöndum. Hv. þm. vill gjarnan kenna ríkissjóði um að vextir hafi farið hér upp. Hæstv. fjmrh. mun eflaust ræða um það á eftir.
    Hann minnist á einn lánaflokk sem boðinn var út með 7,05% vöxtum, bréf sem voru boðin út með alveg sérstökum kjörum. En staðreyndin er sú, eins og fram mun eflaust koma í orðum hæstv. fjmrh., að sú vaxtalækkun sem ég fór yfir áðan var leidd af ríkissjóði, af ríkisvaldinu. Hún var fyrst og fremst leidd, þessi vaxtalækkun, af ríkisvaldinu.
    Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki að hafa um þetta allt of mörg orð á þessum síðasta degi Alþingis fyrir jól. En ég fagna því að þessir menn sem ætíð hafa verið trúir og dyggir stuðningsmenn hávaxta skuli hér hafa kvatt sér hljóðs. Ég vona að okkur Íslendingum takist að vinna okkur út úr þessari hávaxtastefnu áður en svo fer hér eins og t.d. blasir við í Bandaríkjunum. Hvað hefur gerst þar? Þar blasir við kreppa. Og Bandaríkjamenn fara ekkert leynt með það að hávaxtastefnan sem ríkti í Bandaríkjunum á síðasta áratug á gríðarlega stóran þátt því sem þar er að gerast. Þar hafa vextir frá 1986 nú, með aðgerðum þeirra seðlabanka m.a., verið lækkaðir úr 6,2% ef ég man rétt niður í 3,2%. Þeir eru að reyna að bjarga frá stærri skakkaföllum en þar eru þegar orðin.
    Ég held því miður að við hv. þm. höfum verið seinheppnir árið 1984 þegar við féllumst á að losa um vaxtahöftin hér á landi. Ég er sannfærður um að það er rétt að það verður að hafa hönd þar á og stjórnvöld verða, eins og þeir eru nú að gera sér grein fyrir í Bandaríkjunum, að hafa hönd á og koma í veg fyrir allt það brask og öll þau gjaldþrot sem fylgt hafa þessari hávaxtastefnu. Því miður hafa íslenskir atvinnuvegir liðið af þeirri stefnu sem þarna var tekin upp og það er ekki nokkur vafi á því, eins og kemur fram hjá forustumönnum atvinnuveganna, að hávaxtastefnan á árunum 1987 -- 1988 átti hvað stærstan þátt í þeim stórkostlegu erfiðleikum sem þessi ríkisstjórn hefur síðan verið að vinna atvinnulífið út úr. Og það mun takast.