Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá næsta ræðumanni á undan mér væri velkomið að ræða stefnuna í vaxtamálum og árangur efnahagsstefnunnar og hefði þurft að hafa til þess betri tíma en gefst nú undir lok þings fyrir jólahlé. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá málshefjanda, hv. 1. þm. Suðurl., að betri skilyrði hafa skapast fyrir jafnvægi á lánamarkaði og hóflegum raunvöxtum en um mjög langan tíma. Hv. þm. vitnaði til skýrslu Seðlabankans, um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum, sem birt var í byrjun þessa mánaðar. Honum varð tíðrætt um orð sem hrotið hefur úr penna eins skýrsluhöfundar í þessari 150 síðna bók. Það var orðið ,,svikalogn``. Ég vildi leyfa mér að benda hv. þm. á það í allri vinsemd að þar fann hann eitt fölnað laufblað í grænum skógi góðra tíðinda af efnahagsmálum Íslendinga því sjaldan hefur jafnloflegur vitnisburður verið fram borinn af Seðlabankanum um stöðu íslenskra efnahagsmála og er enda samhljóða álitsgerðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Efnahagssamvinnu - og framfarastofnunar Evrópu sem fyrir ekki löngu hafa látið í ljós álit sitt á því sem hér hefur til tíðinda dregið á því sviði.
    Ég get tekið undir það með hv. 1. þm. Suðurl. að ástæðan fyrir þessu sé m.a. sú að hér hafi ríkt frjálslyndari, sveigjanlegri vaxtastefna en fyrr í framhaldi af lagabreytingum á árunum 1985 -- 1987. Undir það tek ég.
    Í öðru lagi vil ég nefna að það er rétt að gæfusamlegar hafi tekist með kjarasamninga á þessu ári en mörg, mörg undanfarin ár. Hann gleymdi þó því sem í þriðja lagi þarf að nefna og er farsæl stjórn ríkisfjármála. Þótt margt sé þar vandasamt og mætti betur fara hefur þó tekist mun skár en fyrr. Vitnisburður um það eru fjárlögin sem við vorum að afgreiða. Þótt í þeim mætti margt betur fara, og ég veit að fjmrh. tekur undir það með mér, hefur okkur þar miðað til réttrar áttar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Verðbólgustig er nú lægra en verið hefur í 20 ár. Fyrsti dagur nóvember ætti að vera rauður dagur í almanaki íslenskra efnahagsmála vegna þess að þann dag fór verðbólgan miðað við sl. 12 mánuði undir 10% sem ekki hefur gerst frá árinu 1971. Það verður framhald á þessari þróun. Hér er m.a. að þakka vaxtastefnunni sem að sjálfsögðu er samslungin stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum að öðru leyti og farsælu samstarfi aðilanna á vinnumarkaðinum. En það þarf að skapa skilyrði fyrir svo farsælli niðurstöðu sem þar náðist með því sem gert er á hinum opinbera vettvangi, þótt opinberi geirinn ráði þar alls ekki einn för og kannski minna en margur heldur. Ég segi alls ekki minna en margur vildi því það er einmitt aðalsmerki góðra stjórnarhátta að þar sjáist lítt það sem hið opinbera gerir heldur séu þar lagðar fastar leikreglur fyrir farsælar ákvarðanir frjálsra aðila, samningsaðila, bæði á vinnumarkaðnum og vöru - og þjónustumarkaðnum. Þetta er einmitt það sem hefur gerst.
    Það er rétt að það hefur orðið nokkur hækkun

raunvaxta á verðtryggðum skuldbindingum á þessu ári. Það kemur reyndar fram í skýrslu Seðlabankans sem ég nefndi. En ég bendi á að lánamarkaðurinn hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu missirum. Verðbréfaviðskipti, frjáls markaðsákvörðun vaxta skiptir þar meira máli og ríkissjóði hefur lánast það sem ekki hefur áður lukkast, að fjármagna að mestu leyti fjárþörf sína innan lands með útgáfu spariskírteina og ríkisvíxla, að stórum hluta til innlánsstofnana og verðbréfasjóða. Og þetta hefur tekist án verulegrar útlánaþenslu og peningamyndunar um leið og verðbólga hefur hjaðnað.
    Það er alveg rétt að fram undan getur verið enn meiri vandi en undanfarið þegar samkeppni milli hins opinbera og atvinnulífsins verður meiri á lánamarkaðnum vegna þess að fram undan kann að vera, vonandi, hagvaxtarskeið. Það er ánægjulegt viðfangsefni við að fást en ekki neitt til að bera kvíðboga fyrir. Það er eðlilegt viðfangsefni íslenskra stjórnmála að glíma við þann vanda sem hlýst af því að þjóðfélagið vill vaxa, að atvinnuvegunum fer fram, að við erum að fást við hluti sem skipta máli og geta þar af leiðandi valdið þenslu, eins og það er stundum kallað þótt sumir vilji kalla það góðæri. Ég ætla ekki að tala um að góðæri sé hafið vegna þess að það eru margar blikur á lofti, ekki síst
til sjávarins, en við höfum, eins og hv. þm. komst að orði, forsendur til þess að gera vel og við höfum líka viljann til þess. Ég vil líka meina að við höfum getuna til þess.
    Það er rétt sem fram kom að spariskírteinavextirnir hafa hækkað úr 6% í upphafi þessa árs í 7%. En það er líka rétt sem kom fram hjá forsrh. að í stjórnartíð þessarar stjórnar hafa vextirnir, raunvextirnir sem aðrir, lækkað mjög verulega. Hv. 1. þm. Suðurl. nefndi ekki að raunvextir óverðtryggðra skuldabréfa hafa lækkað úr 13% í lok sl. árs í um það bil 5% í lok þessa árs. Þar er mjög mikil lækkun.
    Þar vík ég að einni spurningu hans, hvort þær breytingar í vaxtakjörum viðskiptabankanna sem hér hafa orðið mönnum að umtalsefni séu í samræmi við það sem menn settu sér þegar þjóðarsáttin var gerð í byrjun ársins. Ég svara því eftir atvikum já, set mig þó ekki í dómarastól þar, því hér erum við að tala um frjálsar ákvarðanir. Mér finnst undarlegur tvískinnungur í málflutningnum. Annars vegar á þetta, eins og lög mæla fyrir um, að ráðast með sjálfstæðum, frjálsum ákvörðunum. Hins vegar er því haldið fram að allt þetta hljótist af því sem ríkið hefur ráðið, ákveðið sjálft. Einhvers staðar er brotalöm í þessum málflutningi. En kyndugast af öllu þótti mér þegar hv. 1. þm. Suðurl. kallaði frjálsa vexti rauða hunda, því það var það sem maðurinn sagði. Afleiðingar hins frjálsa vaxtafyrirkomulags væru menn nú að reyna að dylja. Er það orðið svo? Það er merkilegt til ígrundunar og ég er viss um að þetta hefði orðið Pétri Benediktssyni að yrkisefni eins og honum var lagið.
    Ég kem svo að því sem hér var spurt um í öðru lagi. Var ákvörðun bankaráðsins að lögum? Hvernig féllu atkvæði? Byrjum á því hvernig atkvæðin féllu.

Það voru þrír með heimildinni sem bankastjóranum var veitt til þess að breyta nafnvöxtunum í samræmi við verðbreytingar til þess að tryggja sem jafnasta raunvexti milli verðtryggðra og óverðtryggðra kjara sem var samkomulagsmálið, sammælið frá því í byrjun ársins. Það sat einn maður hjá og annar var á móti, að mér skilst fyrir misskilning. Ég ætla ekki að segja um það. Þetta er skýrslan. Ég tel að þetta hafi verið löglega tekin ákvörðun, en ég endurtek, það er ekki ríkisins að ráða þessum vöxtum. Ríkisins er að setja um það reglurnar. Ég ætla ekki að gagnrýna menn fyrir það að gæta hagsmuna þeirrar stofnunar og þeirra almannahagsmuna um leið sem þeim hafa verið fólgnir. Ég tel að þar hafi ekki verið farið offari. Ég tel að samkomulagið sem gert var í byrjun ársins á vettvangi vinnumarkaðarins í viðræðum fulltrúa þeirra aðila og bankanna, þar sem menn komu sér saman um í upphafi lækkun almennra skuldabréfavaxta um 7% þegar þann 1. febr., úr 29,3% niður í 22,3, hafi verið framkvæmt. Einn liðurinn í þessu samkomulagi var á þessa leið, og með leyfi forseta ætla ég að lesa hann: ,,Vaxtaákvarðanir síðar á árinu munu verða miðaðar við að ávöxtun verðtryggðra og óverðtryggðra útlána verði sem jöfnust yfir árið.``
    Það hefur ekki alveg tekist að halda henni jafnri. Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur fram. Raunvextir óverðtryggðra lána lækkuðu fyrst, þurftu að gera það til þess að komast í samræmi við verðtryggðu vextina, en svo fóru þeir upp yfir laxveiðitímann. Ég veit ekkert af hverju það var, það var þannig. Þriðji ársfjórðungurinn sker sig úr. Þá urðu raunvextir á óverðtryggðu pappírunum of háir. Síðan voru þeir lækkaðir. Svo var það komið svo djúpt að sumir bankanna töldu hver hjá sér, og ég tel að þeir hafi ekki haft ólögmæt samráð sín á milli um þessar ákvarðanir, þvert á móti finnst mér flest til þess benda að þeir hafi ákveðið þetta hver fyrir sig. Bendi á að Íslandsbanki fór fram nokkuð fljótt, að sumra áliti kannski helst til fljótt og byggði á spám sem e.t.v. hafa ekki staðist í öllum greinum. Það verður leiðrétt síðar. Nú kemur Búnaðarbankinn með sína takmörkuðu breytingu. Landsbankinn hefur enn ekki gert upp sinn hug. Ekki sé ég í þessu neina samstillingu svo orð sé á gerandi. (Gripið fram í.) Ég er að lýsa málinu eins og ég sé það, virðulegi þm. Þannig er þetta í mínum augum. Þannig er þetta í mínum huga. Ég hlýt að skýra frá málinu eins og ég sé það.
    Hitt er svo annað mál að þeim hefur ekki tekist í bönkunum að tryggja alveg þessa jöfnu þróun. Það sem nú er verið að gera tel ég í samræmi við það sem menn settu sér í upphafi. Ég minni á tölurnar sem ég nefndi áðan. Raunvextir nafnvaxtabréfa voru tæplega 13% í lok sl. árs, voru það áfram í byrjun árins, lækkuðu niður í 5% tæplega á öðrum fjórðungi ársins, fóru upp fyrir 12 á þeim þriðja, og niður fyrir 5 á þeim fjórða miðað við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ég sé ekkert í efninu sem bendir til þess að þarna séu vaxtakjörin hærri en á verðtryggðu kröfunum né að þetta sé hærra en gerist í löndunum í kring. Það er hins vegar ekki einfalt mál að bera

þetta saman milli landa og ég tek undir með hæstv. forsrh. að það er ástæða til þess að huga að því hvernig þessi samsvörun er í víðara samhengi.
    Þegar þetta er allt saman tekið finnst mér satt að segja ekki ástæða til þess að hafa uppi stór orð um að peningamálastefnan sé mislukkuð. Þvert á móti er hún næsta vellukkuð. Og ég vil líka leyfa mér að skýra frá því að í dag hafa ríkisstjórnin og Seðlabankinn einmitt orðið sammála um stefnumótun fram til byrjunar ársins 1993 um stigminnkandi vægi verðtryggingar á fjárskuldbindingum og opnun lánamarkaðarins. Þessari stefnu verður hrint í framkvæmd á næstu tveimur árum til þess að samræma okkar lánamarkað þeim alþjóðlega lánamarkaði sem við nú tengjumst stöðugt nánari böndum.
    Ég skil vel að hv. þm. Sjálfstfl. finnist þessi vínber næsta súr sem þeir nú ekki ná til, hversu hátt sem þeir reyna að hoppa, þau eru handan við það sem þeir ná. Þannig er nú það.