Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég vil minna á það sem hefur komið fram fyrr í dag að stjórnarandstæðingar, a.m.k. í Sjálfstfl., hafa flýtt mjög fyrir fundarstörfum þingsins í dag þótt fullt tilefni hafi verið til þess að taka þetta mál fyrir í umræðum um lánsfjárlög fyrir yfirstandandi ár eins og kom lauslega fram í umræðum þá. Þetta var gert vegna þess að samkomulag náðist um að hafa þessa umræðu sem hér hefur verið hafin. Formaður Sjálfstfl. talaði í korter af þeim klukkutíma og 20 mínútum sem nú er liðið á þessa umræðu þannig að stjórnarsinnar hafa þegar talað klukkutíma og 5 mínútur. Tek ég þess vegna undir það sem fram kom hjá þeim sem talaði um þingsköp.
    Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í almennt málfundaþóf sem hæstv. fjmrh. hóf hérna, þó að vissulega væri tilefni til þess. Það er samt í tilefni af ummælum hans full ástæða fyrir okkur til að íhuga það aðeins hvernig hæstv. ráðherra leyfir sér að koma hér í ræðustól og flytja slíka ræðu sem hann flutti, rétt í þann mund sem við vorum að samþykkja fjárlög fyrir næsta ár. Fjárlög sem staðfesta það að skuldir þjóðarinnar, þ.e. skuldir ríkisins, hafa aldrei verið meiri í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, landsframleiðslu, sem stafestir það að vandamálum er ýtt til framtíðarinnar, það er sópað undir teppið, sem sýnir að skattar hafa verið stórlega hækkaðir og þrátt fyrir það er enn bullandi halli á ríkissjóði og gera má ráð fyrir að hann verði álíka mikill á næsta ári eins og í ár og eins og í fyrra. Svo kemur hann hér í ræðustól, ber sér á brjóst og segir að nú sé allt í lagi, nú ætli hann að taka að sér að kenna Sjálfstfl. eitthvað um markaðslögmál. Þetta kallar maður kjarkmann.
    En af því að hæstv. ráðherra var að lýsa því hvað allt væri í góðu lagi og yrði það í framtíðinni þá langar mig í örstuttu máli að lesa hér úr þessari bók, grænu bókinni getum við kallað hana af því að hæstv. viðskrh. nefndi hana það í sinni ræðu. Þar segir m.a.:
    ,,Auk skuldabréfa ríkissjóðs er nú um að ræða verulega aukningu á framboði íbúðalánabréfa, einkum eftir að hin ríkistryggðu húsbréf komu til sögunnar. Er því ástæða til að ætla að lánsfjárþörf ríkissjóðs og útgáfa húsbréfa muni að mestu verða ráðandi um þróun vaxta hér á landi á næstunni.``
    Hér er það staðfest, sem auðvitað skiptir öllu máli fyrir þá sem vilja taka þátt í efnislegri umræðu málsins, að ríkið er afgerandi um raunvaxtahæð á innlenda markaðnum. Og það er viss hætta á því, eins og margoft hefur komið fram og er skýrt tekið fram í þessari skýrslu, að raunvextir fari hækkandi á næsta ári vegna þess að þá þarf atvinnulífið á því að halda að fá fjármagn sem það hefur ekki verið að nota að undanförnu í þeirri lægð og þeim samdrætti sem hér hefur verið. Og þá skiptir öllu máli hvort ríkisvaldið er tilbúið til að gefa eftir, því að það vita allir að er staðreynd að atvinnuvegirnir hafa verið að greiða til baka lánin sín á yfirstandandi ári. Það er þess vegna sem raunvaxtastigið er heldur lægra en undanfarin ár. Og að koma hér upp og stæra sig af því hvernig hlutirnir eru, það er svo óforskammað að ég hélt að þessi kjarkur væri ekki einu sinni til í hæstv. fjmrh.
    Ef fjmrh. getur hins vegar sýnt fram á það á næsta ári að hann dragi svo saman í útgáfu bréfa á vegum ríkisins að það verði pláss fyrir atvinnulífið að taka lán til að byggja sig upp til að geta haldið úti atvinnulífinu, þá fyrst væri hægt að tala um möguleika á að hæla hæstv. ráðherra. En ég veit að tilgangur hæstv. fjmrh. var að fela það sem gerðist í þessari umræðu hér, tilgangurinn var ekki sá sem hann lét í veðri vaka, enda heyrðu það flestir sem þekkja til málsins. Hann var að fela það sem gerðist hérna og hefur ekki farið fram hjá nokkrum manni, að hæstv. viðskrh. kom hér í ræðustól og --- ja, ég vil leyfa mér að segja, rassskellti hæstv. forsrh. opinberlega. Það var að vísu gert með mjúkum hætti, með boxhönskum til þess að menn meiddu sig ekki. En það sem hæstv. viðskrh. sagði var ósköp einfaldlega þetta: Hækkunin sem átti sér stað í Búnaðarbankanum og í Íslandsbanka og hjá sparisjóðunum er hækkun til þess að samræma vexti og byggir á svokallaðri þjóðarsátt. Ég votta hæstv. forsrh. samúð mína því að hann situr eftir með sárt ennið því að hér hefur hann lent í umræðum þar sem menn hafa svipt hulunni af því sem hefur verið að gerast.
    Hæstv. viðskrh. tók ekki undir það sem hæstv. forsrh. sagði að eitthvað væri ólöglegt hjá bankaráðunum þegar þau hækkuðu nafnvexti á óverðtryggðum lánum. Hann tók ekki undir það sem forsrh. gerði að aðalmáli í sinni ræðu og hann minntist heldur ekkert á það að Seðlabankinn ætti nú að beita valdi samkvæmt lögum til þess að hafa áhrif á vexti. Þetta var þvert á það sem hæstv. forsrh. sagði þegar hann sagði að kominn væri tími til að gera slíkt. Ég vek athygli á því að forsrh. er ekki bankamálaráðherra heldur er það hæstv. viðskrh.
    Mig langar til að segja hæstv. forsrh. það enn fremur að í Bandaríkjunum eru markaðsvextir. Það er engin hávaxtastefna eða lágvaxtastefna rekin í Bandaríkjunum. Það er markaðsvaxtastefna og vextir færast upp og niður eftir markaðslögmálum. Það að tala um hávaxtastefnu í Bandaríkjunum á einhverjum tilteknum tíma er því einhver misskilningur. Ég veit ekki hvað það er sem gengur að hæstv. forsrh. en hann alla vega skilur ekki, hvort sem hann vill ekki skilja eða hvort hann þykist ekki vilja skilja, um hvað umræðuefnið snýst. Því miður verður að segja þetta nákvæmlega eins og það er.
    Árið 1984 stóð hæstv. forsrh. að því að koma á markaðsvaxtakerfi hér á landi, a.m.k. að verulegu leyti. Það er eins og réttilega hefur komið fram hjá hæstv. viðskrh. undirstaða þess að hér jókst sparnaðurinn og hægt er að selja skuldabréfin sem hæstv. fjmrh. var að minnast á. Ef þessi breyting hefði ekki átt sér stað, hvernig halda hv. þm. að þetta hefði þá litið út í dag þegar þarf að fjármagna halla á ríkissjóði og húsbréfin á innlendum markaði?
    Þá kem ég að því sem hæstv. forsrh. sagði, að þetta væri versta aðför að þjóðarsáttinni, versta aðför að þjóðarsáttinni, sagði hann um hækkunina hjá Búnaðarbankanum og sparisjóðunum. Hann hélt síðan áfram og kallaði starfsmenn bankans sem sæti eiga í bankaráði þræla. Hann notaði bókstaflega orðið þrælar bankastjóranna. Það hlýtur að vera einsdæmi þegar svona lagað gerist. Við skulum aðeins skoða það hver hefur brotið og hafið aðför að þjóðarsáttinni.
    Það hefur verið rifjað upp hér að á sínum tíma var gert samkomulag á milli bankanna og aðila vinnumarkaðarins og ríkisins í þessum málum. Það hefur verið rifjað upp að bankarnir breyttu viðmiðun sinni. Það segir orðrétt í yfirlýsingu sem bankarnir senda Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja: ,,Ákvörðun þessi er miðuð við forsendur um þróun lánskjaravísitölu skv. þeim drögum að kjarasamningi sem fyrir liggja og er byggð á þriggja mánaða hreyfingum þar sem tveir mánuðir eru áætlaðir fram á við auk þess sem litið er til eins mánaðar rauntalna.`` Það er nákvæmlega þetta sem bankarnir hafa verið að gera allan tímann. En auðvitað verður þessi regla að gilda bæði þegar verðbólga fer niður og eins þegar verðbólga fer upp. Bankarnir hafa farið miklu hægar í að hækka nafnvextina þegar verðbólgan hefur farið upp heldur en þegar verðbólgan fór niður.
Og svo segir hérna í þessu samkomulagsplaggi sem er hluti af þjóðarsáttinni svokölluðu, og ég bið hæstv. forsrh. að hlusta. Hér stendur: ,,Vaxtaákvarðanir síðar á árinu munu verða miðaðar við að ávöxtun verðtryggðra og óverðtryggðra útlána verði sem jöfnust yfir árið`` o.s.frv. Það er einmitt þetta sem bankarnir hafa verið að gera og það er þetta sem Búnaðarbankinn var að gera nú og ég býst við að bankar muni halda áfram að gera á næstu mánuðum.
    En það var annar hluti af þessu samkomulagi sem menn hafa ekki rætt hér, og skiptir miklu máli að menn átti sig á, að gert var samkomulag við hæstv. ríkisstjórn. Það samkomulag byggðist á því að viðskrh. lét kveðja til hóp manna til þess að skoða ákveðið viðfangsefni. Þetta voru menn frá fjmrn. og viðskiptabönkunum og Seðlabanka og samkvæmt minnisblaði átti að skoða ákveðna hluti og breyta þeim. Þetta er talið vera forsenda fyrir bankana til að taka þátt í þjóðarsáttinni. Starfshópurinn átti síðan að skila áliti 1. febr. Þetta er staðfest með bréfi sem skrifað er til viðskrn. 28. jan.
    Hinn 12. mars gerðist það að Björn Friðfinnsson skrifaði bréf til Magnúsar Péturssonar, ráðuneytisstjóra fjmrn. Í þessu bréfi er fjallað um breytingu á bindiskyldu, um skattalegan afskriftareikning útlána o.s.frv. En einn stærsti þátturinn í því sem bankarnir fóru fram á og hafði verið rætt um frá upphafi var svokallaður gjaldeyrisskattur. Nú er frá því að segja að aðeins brot af þessum málum hefur komist í framkvæmd. Ég veit að viðskrh. hefur áhuga á því að koma þessu fram en hæstv. fjmrh. hefur staðið í vegi fyrir því. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram vegna þess að menn eru að tala um að einhver hafi rofið þjóðarsáttina og ég held því fram að því miður eigi hæstv. ríkisstjórn sök á því í þessum málum.
    Hér fyrr hefur verið minnst á greinargerðina og afskipti ríkisvaldsins af vaxtaákvörðun bankanna. Það

er kannski athygli vert fyrst menn eru að vitna til þessarar bókar að átta sig á því hvað segir um þetta atriði í skýrslunni. Þar segir á bls. 8 undir kaflafyrirsögninni ,,Viðbrögð vegna vaxtabreytinga``:
    ,,Það er umhugsunarefni að vaxtahækkanir sem fram koma vegna aukningar verðbólgu eða lánsfjáreftirspurnar valda gjarnan mikilli andstöðu. Þessi viðbrögð eru dæmi um að hlutverk bankanna sem er að stuðla að jafnvægi m.a. með því að breyta vöxtum nýtur ekki enn þeirrar viðurkenningar hér á landi sem í nágrannalöndunum. Þetta er ekki síst áhyggjuefni nú þegar ákveðið hefur verið að opna fyrir frjálsari gjaldeyrisviðskipti. Eitt grundvallaratriði frjálsra gjaldeyrisviðskipta er að vextir innan lands séu hreyfanlegir og fái að leita jafnvægis í takt við framboð og eftirspurn eftir lánsfé. Útilokað er að tryggja jafnvægi í peningamálum öðruvísi en vextir fái að hreyfast í takt við aðstæður á lánsfjármarkaði.``
    Þetta eru varnaðarorð Seðlabankans til hæstv. ríkisstjórnar. Og ég bið nú hæstv. forsrh. að skoða það vandlega hvort hann tekur þátt í því að undirbúa okkur undir þá auknu samkeppni í íslenskum peningamálum sem vænta má þegar erlendum bankastofnunum verður hleypt inn í landið, en það er eitt af áhugamálum hæstv. ríkisstjórnar. Það er áreiðanlega rétt hjá Ásmundi Stefánssyni að ríkisstjórnin á stærstan hlut að því máli þegar vextir hækka hér á landi með því að auka eftirspurnarþáttinn jafnmikið og ríkisstjórnir hafa gert.
    Þá kem ég að öðru sem ég tel vera eitt alvarlegasta málið í þessu uppþoti hæstv. forsrh. Það er þegar hann heldur því fram að lög hafi verið brotin og segir að í raun hafi bankarnir sammælst um vaxtaákvarðanir. Hæstv. viðskrh. benti reyndar á það í sínu máli að svo hefur ekki verið. En ég bið þingheim um að hlusta núna vel á. Hæstv. forsrh. Íslands lýsir því yfir að hann hafi beint tilmælum til bankaráðsmanna í viðskiptabönkunum úr sínum flokki og fer ekki leynt með það að ætlast til þess að þeir verði samferða um vaxtaákvarðanir í sínum bönkum. Og hann hefur gert meira. Hann hefur sagt að hann hafi ætlast til að hæstv. samráðherrar hans geri slíkt hið sama. Ég ætla að endurtaka þetta. (Gripið fram í.) Já, já, ég skal endurtaka þetta, hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hefur farið fram á það að bankaráðsmenn í tveimur bönkum ákveði að hækka ekki nafnvexti á óverðtryggðum lánum þrátt fyrir það að verðbólgan hafi hreyfst og gefi fullt tilefni til þess að vextir hækki. Og það er ákvörðun út af fyrir sig að hækka ekki nafnvexti á óverðtryggðum skuldbindingum þegar verðbólgan hreyfist. Hafi einhver brotið lög og farið gegn anda þeirra laga sem í gildi eru, þá situr hann hér. Það er sjálfur hæstv. forsrh. Íslands. Þetta er alvarleg ásökun en þetta er það sem eftir stendur í þessari umræðu.
    Hann gerir meira. Hann segir í blaðaviðtali að formaður bankaráðs Búnaðarbankans, sem er samflokksmaður hans, sé þræll bankastjóra og hafi kannski brotið lög. En hann hælir öðrum sinna manna, Kristni Finnbogasyni, sem á sæti í bankaráði Landsbankans, og segir að hann hafi staðið sig vel þegar hann stóð

gegn vaxtahækkun að sinni. Nú hef ég spurt Kristin Finnbogason að því hvort ég megi segja frá því opinberlega og hann hefur sagt mér að það sé óhætt, að hann hefur sagt mér það og ég hef sagt öðrum og hef fullt leyfi til að segja frá því að það hefur aldrei verið talað við hann um það að hækka ekki vexti, aldrei. Með öðrum orðum, hæstv. forsrh. heldur þessu fram, ekki vegna þess að hann hafi í alvöru fylgt þessu eftir heldur vegna þess að hann vill láta þjóðina trúa því að það sé honum að þakka ef vextir verða ekki hækkaðir. Og það er þetta sem er sá alvarlegi skollaleikur og tvískinnungur sem auðvitað ber að gagnrýna og hefur verið gert hér í dag.
    Ég gæti lesið upp úr gömlum ræðum og reyndar kennt hæstv. forsrh. með orðum hæstv. viðskrh., sem hefur skrifað ágætlega um þessi mál, ég gæti sent hæstv. forsrh. þá grein við tækifæri, en ætla ekki að tefja tímann hér með því að ræða hana sérstaklega. Ég vil aðeins undirstrika það að verið er að samræma vexti og samræmingin á þessum vöxtum er ekki bara á útlánum heldur líka á innlánum. Bankarnir eru því ekkert að græða á þessari ákvörðun, það er mikill misskilningur. Og svo ruglar forsrh. því saman að afkoma sé góð eða slæm og það hafi eitthvað með vaxtaákvarðanir að gera. Þetta er rangt. Afkoma bankanna fer eftir vaxtamuninum fyrst og fremst. Ef maður hækkar bæði innláns - og útlánsvexti þá vex ekki vaxtamunurinn. Menn verða að átta sig á þessu fullkomlega því að það sem Búnaðarbankinn var að gera og það sem Landsbankinnn mun gera á næstunni er að hækka bæði útláns - og innlánsvexti að sjálfsögðu. Bankarnir eiga samkvæmt lögum að sjá til þess að það sé jafnvægi á markaðinum. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Guðna Ágústssyni að afkoma bankanna er því miður ekki nógu góð. Hún er allt of slæm. Efnahagurinn er svo slæmur að það horfir til stórhættu þegar við lendum í samkeppni við erlendar bankastofnanir. Þetta ætti hæstv. ríkisstjórn aðeins að hugleiða því að þetta er verulegt áhyggjuefni.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að misnota meira tíma þingsins. Það hafa stjórnarsinnar gert í stórum stíl. Fleiri þurfa að tala um þetta mál. Hæstv. forsrh. hefur af einhverjum ástæðum þurft að bregða sér úr þingsal en ég ætlaði satt að segja að hafa nokkuð stór orð um það sem ég vil kalla ófyrirleitnar yfirlýsingar af hans hálfu. Ég tel að hann hafi í raun verið að grafa undan trausti á stofnunum sem fara með viðkvæm mál. Ég tel að þetta hafi verið óþarfar yfirlýsingar sem hann gaf en vegna þess að hæstv. viðskrh. hefur tekið af mér ómakið, og reyndar hv. þm. Guðni Ágústsson, þá ætla ég ekki að eyða frekari orðum að því.
    Ég vil aðeins segja það í lokin að aukinn sparnaður er eina ástæðan fyrir því að hægt er að reka ríkissjóð með halla og fá lán á innlendum markaði eins og gert hefur verið að undanförnu í stórum stíl, hættulega stórum stíl. Það er vegna þess að fólk velur á milli sparnaðar og eyðslu og þegar vextirnir hækka eru meiri líkur til þess að fólk leggi peninga til hliðar og spari en eyði þeim ekki í eitthvað það sem það

getur verið án. Þetta er nú staðreyndin. Þetta er staðreynd markaðskerfisins og þetta eru kannski boðorð sem hæstv. ríkisstjórn mætti taka sér til fyrirmyndar, þ.e. að draga úr eyðslunni og spara og leggja til hliðar og gefa þá öðrum kost á því, t.d. atvinnulífinu, að taka lán á næstunni til að byggja sig upp á lægri vöxtum en ella. Þetta eru þau skilaboð sem þurfa að komast til skila til hæstv. fjmrh. sem situr hér enn í salnum.