Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti vill nú leita samstarfs við hv. þm. í þeim tilgangi að taka tillit til þeirra hv. þm. sem úr bænum þurfa að fara. Hvort hv. þm., þeir sem eftir eru á mælendaskrá, geti ekki sætt sig við að gera mjög stuttar athugasemdir ef forseti þess í stað beitir sér fyrir því að þegar á fyrsta degi þegar þing kemur saman fari fram umræða um þessi mikilvægu mál. Þá væri hugsanlegt að unnt yrði að ljúka þinghaldi kl. 5. En ég endurtek að forseti mun þá beita sér fyrir því, ef menn ganga til þessa samstarfs, að á fyrsta degi þings þegar það kemur saman fari fram umræða um þessi mál. Hv. þm. sumir eru afar óþolinmóðir að komast til síns heima og starfsfólk löngu orðið yfir sig þreytt þannig að ég bið nú þá fimm hv. þm. sem enn eru á mælendaskrá að stytta mál sitt mjög.