Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar
Föstudaginn 21. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég vil í lokin aðeins þakka fyrir þá merku umræðu sem hér hefur farið fram. Ég ætla að víkja aðeins í örfáum orðum að nokkrum atriðum, fyrst ræðu hæstv. fjmrh. Hún var býsna skondin. Mál þetta snýst um það frumhlaup hæstv. forsrh. að lýsa því yfir að bankaráð Búnaðarbankans hafi brotið lög og tekið ákvörðun sem sé alvarlegra brot gegn þjóðarsátt en nokkuð annað fram að þessu með því að hækka vexti. Þá kemur fjmrh., sem situr í sömu ríkisstjórn og forsrh., og lýsir ástandinu á þann veg þegar forsrh. telur að það sé svo alvarlegt vegna vaxtahækkana að vextirnir séu að lækka skref fyrir skref. Það mætti helst halda að hæstv. fjmrh. hafi komið til umræðunnar beint frá tunglinu.
    Allt þetta mál, umræðan í gær og hér á þinginu, minnir óneitanlega á ævintýrið um nýju fötin keisarans. Í fjölmiðlum í gær fór hæstv. forsrh. í skrautklæði keisarans sem berst gegn vaxtahækkun. Í dag hefur hann verið í sömu sporum og keisarinn í ævintýrinu þegar strákarnir komu, í þessu tilviki hæstv. viðskrh., hv. 5. þm. Suðurl. og hv. 10. þm. Reykv., þingmenn Framsfl., og sögðu: Sjáið, hann er ekki í neinum fötum.
    Niðurstaðan af þessari umræðu er sú að viðskrh. og tveir af þingmönnum Framsfl. hafa tekið hér fram: Ákvarðanir bankaráðs Búnaðarbankans brutu ekki gegn lögum. Ákvarðanir bankaráðs Búnaðarbankans voru í fullu samræmi við þjóðarsátt.
    Þetta er kjarni málsins. Þetta er það sem gerir það að verkum að keisarinn sem fór í skrautklæðin í fjölmiðlum í gær og ætlaði að vera í forustu fyrir þeim sem berjast gegn háum vöxtum hefur af eigin mönnum verið afhjúpaður hér í dag og lýkur þessari umræðu af sinni hálfu með því að segjast vera stoltur af því að vera á öndverðum meiði í vaxtamálum við viðskrh. eigin ríkisstjórnar. Fátt lýsir betur ástandinu innan núv. hæstv. ríkisstjórnar og fátt staðfestir betur en þessi niðurstaða umræðunnar og ummæli tveggja hv. þm. Framsfl. sem bæta þau ummæli forseta Alþýðusambandsins að meginástæðan fyrir þeirri raunvaxtahækkun sem hefur orðið og í vændum er felst í þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin sjálf hefur tekið með fjárlagahalla og útgáfu á húsbréfum. Þetta eru þær meginástæður sem bornar hafa verið fram og þingmenn stjórnarliðsins sjálfs hafa staðfest. Kjarni málsins og niðurstaða er sem sagt þessi: Vextir eru að hækka vegna ákvarðana hæstv. ríkisstjórnar og ákvarðana sem meiri hluti ríkisstjórnarflokkanna í bankaráði Búnaðarbankans hefur tekið.