Jólakveðjur í sameinuðu þingi
Föstudaginn 21. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Haustönn Alþingis er nú að ljúka og fram undan eru kærkomnir dagar í friði jólahátíðarinnar. Þinghald hefur farið fram eins og best má verða og þakka ég öllum hv. alþm. gott og heiðarlegt samstarf. Varaforsetum færi ég sérstakar þakkir og ekki síður hæstv. forsetum Ed. og Nd.
    Starfsfólki Alþingis færi ég þakkir fyrir framúrskarandi störf og óska því góðra og gleðilegra jóla eftir eril síðustu vikna. Ég óska öllum hv. þingmönnum góðrar og gleðilegrar heimkomu og bið fyrir kveðjur til fjölskyldna þeirra. Megi jólahátíðin verða okkur öllum tími gleði og friðar og samkenndar með þeim fjölskyldum sem nú halda jól eftir þungan missi í hörmulegum slysum þessa síðustu daga vestur á fjörðum og hér í Reykjavík. Eru þeim fluttar kveðjur.
    Ég vona að okkur auðnist öllum að koma til þings á ný þegar þinghléi lýkur til starfa fyrir land og þjóð.