Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi færa hæstv. forsrh. þakkir fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið flutt og greinargerð um afskipti ríkisstjórnarinnar af þeim tveimur málum sem hér eru til umræðu. Það er skemmst frá því að segja að það sem aðhafst hefur verið af hálfu Alþingis fram til þessa og hæstv. ríkisstjórnar til stuðnings Eystrasaltsþjóðunum í sjálfstæðisbaráttu þeirra hefur allt verið til framdráttar þeirri baráttu og reyndar má segja að framlag okkar Íslendinga hafi í ýmsum efnum verið meira en annarra þjóða. Þó að við séum fámenn þjóð og höfum ekki áhrifavald á alþjóðavettvangi eins og ýmsar stærri þjóðir, þá höfum við þó sameinast um það Íslendingar að ganga feti framar í stuðningi við Eystrasaltsþjóðirnar en ýmsar aðrar þjóðir. Ég tel mjög mikilvægt að samstaða okkar í þessu efni haldi. Ég er þeirrar skoðunar að við getum látið gott af okkur leiða. Við finnum eðlilega til sterkra tilfinninga og samúðar með þessum þjóðum sem á sínum tíma fengu fullveldi og sjálfstæði í sömu mund og við fengum viðurkenningu á fullveldi Íslands. Menningarlega og sögulega hlýtur samúð Íslands að vera með þessum þjóðum. Við viðurkennum lagalegan rétt þeirra til sjálfstæðis. Við mótmælum því ofbeldi sem þær hafa þurft að sæta og neitum að viðurkenna innlimun þeirra í sovéska ríkjasambandið.
    Atburðir síðustu daga í Litáen hafa ekki einasta vakið andúð heldur andstyggð flestra. Þeir hafa snert okkur Íslendinga mjög djúpt.
    Það lýsir best andstæðum í heiminum og hversu snöggt veður getar skipast í lofti að sá maður, sem aðeins fyrir örfáum vikum tók við friðarverðlaunum Nóbels og skrifaði undir lokasamþykkt Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og hét því að virða lýðræði og mannréttindi og gaf þjóðum Evrópu nýja von um betri framtíð, öruggari framtíð, skuli vera forseti og æðsti yfirmaður þess hers sem síðustu daga hefur farið inn í sjálfstætt ríki, Litáen, og ekki aðeins ógnað sjálfstæði þess heldur limlest og deytt saklausa borgara. Og það er einkennilegt að heyra frásagnir af því að friðarverðlaunahafi Nóbels megi ekki vera að því í hádegisverði að tala við forseta Litáens þegar rauði herinn ryðst þar inn og limlestir og deyðir fólk. Þetta eru mikil örlög og þau hljóta að kalla á hörð og snögg viðbrögð þjóða heims. Það er fagnaðarefni að af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar, í samræmi við fyrri samþykktir Alþingis, hefur verið brugðist snarlega við í þessu efni.
    Þingflokkur sjálfstæðismanna hélt fund í morgun og sendi frá sér svofellda yfirlýsingu í tilefni af innrás rauða hersins í Litáen sem ég ætla hér að lesa, með leyfi forseta:
    ,,Þáttaskil hafa orðið í Evrópu. Innrás rauða hersins í Litáen og blóðug atlaga hans að sjálfstæði þjóðarinnar hefur brotið niður vonir manna um að undir forustu Mikhails Gorbatsjovs, forseta Sovétríkjanna, nái sjálfstæðiskröfur lýðveldanna fram að ganga. Litáar hafa verið í fylkingarbrjósti í baráttu einstakra lýðvelda fyrir sjálfstæði undan miðstjórninni í Moskvu. Árásin sem hefur verið gerð á þá er ekki aðeins til þess fallin að svipta þá frelsi heldur er hún einnig áminning til sjálfstæðishreyfinga annars staðar í Sovétríkjunum. Kremlverjar skirrast ekki við að beita hervaldi til að halda síðasta nýlenduveldinu saman. Þingflokkur sjálfstæðismanna fordæmir harðlega þessar aðgerðir rauða hersins.
    Íslendingar geta sett sig í spor Litáa, smáþjóðar sem þráir heitt og innilega að öðlast sjálfstæði og ráða málum sínum sjálf. Sjálfir háðu Íslendingar baráttu fyrir sjálfstæði sínu um svipað leyti og Litáar í upphafi þessarar aldar. Íslendingar áttu hins vegar undir þjóð að sækja sem virti samninga og lögfræðileg rök. Litáar standa hins vegar frammi fyrir valdsmönnum sem vilja láta hnefaréttinn ráða og skáka enn í sama skjóli og Jósef Stalín þegar hann innlimaði Eystrasaltsríkin með samþykki Adolfs Hitlers. Fólkið í Vilnius sér fulltrúa harðstjóra enn gráa fyrir járnum á götum borgar sinnar og skriðdrekar merja vopnlausa borgara undir beltum sínum.
    Þingflokkur sjálfstæðismanna minnir á tillögur sem hann hefur flutt á síðasta þingi og því sem nú situr um formlega viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og stofnun stjórnmálasambands.
    Vegna þeirra atburða sem nú eru að gerast í Litáen og í öðrum Eystrasaltsríkjum vill þingflokkur sjálfstæðismanna árétta þessar tillögur. Framkvæmd þeirra yrði formleg og sýnileg staðfesting á vilja okkar Íslendinga til að rétta Eystrasaltsþjóðunum hjálparhönd. Þau sjónarmið sem Sjálfstfl. hefur haldið fram njóta nú vaxandi stuðnings.
    Þingflokkur sjálfstæðismanna metur einnig aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem miðað hafa að því að styrkja sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.
    Þá minnir þingflokkurinn á ábyrgðina sem því fylgir að Landsbergis, forseti Litáens, hefur snúið sér sérstaklega til utanrrh. Íslands með ósk um aðstoð á þessari örlagastundu í sögu þjóðar sinnar. Þegar hann var á Íslandi á síðasta hausti tók hann fram að árétting á fyrri viðurkenningu mundi hafa mikla þýðingu fyrir stöðu Litáens í viðræðum við Sovétstjórnina.
    Íslenskum stjórnvöldum ber að leita allra leiða til að afla málstað Eystrasaltsríkjanna stuðnings. Íslendingar eiga að láta fordæmingu sína á ódæðisverkum rauða hersins í Litáen koma fram í samskiptum sínum við Sovétríkin. Ríkisstjórnin á að kanna og gera Alþingi tafarlausa grein fyrir hvað hún telur árangursríkast í því efni. Kemur þar ýmislegt til álita, svo sem að fresta eða hætta viðskiptaviðræðum við Sovétmenn, kalla íslenska sendiherrann í Moskvu heim til skrafs og ráðagerða og skipa Sovétmönnum að fækka í sendiráði sínu hér á landi.
    Þingflokkur sjálfstæðismanna hvetur til þess að íslenska þjóðin sameinist um leiðir til að veita Litáum, Lettum og Eistlendingum stuðning á örlagatímum.``
    Þannig hljóðar sú yfirlýsing sem þingflokkur sjálfstæðismanna samþykkti í morgun í tilefni þeirra atburða sem átt hafa sér stað í Litáen síðustu daga.
    Auðvitað er það svo að hér á landi geta menn haft

mismunandi sjónarmið á því hvaða ráð duga best og hversu langt er hægt að ganga í stuðningi við þessi ríki í mikilvægri baráttu þeirra. Ekkert er óeðlilegt við að mismunandi mat komi fram í því efni. Það er hins vegar ánægjulegt að um meginafstöðuna hefur tekist mikilvæg samstaða meðal þjóðarinnar og hér á Alþingi á milli allra stjórnmálaflokka. Og Sjálfstfl. vill fyrir sitt leyti stuðla að þeirri samstöðu því hún hefur úrslitaþýðingu í baráttu á alþjóðavettvangi í þágu þeirra þjóða sem hér eiga hlut að máli.
    Alþingi, eins og áður hefur verið rifjað upp, brást við sjálfstæðisyfirlýsingunni á síðasta ári þegar hún var gefin út af þjóðþingi Litáens, með sérstökum árnaðaróskum og gekk þar fram fyrir skjöldu af hálfu þjóðþinga alheimsins. Og í ýmsum efnum hefur stuðningur okkar Íslendinga verið virkur og meiri en annarra þjóða allt frá þeim tíma, bæði af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og eins í viðræðum einstakra þingmanna við forustumenn stjórnmálaflokka og forustumenn þeirra ríkja sem hér eiga hlut að máli.
    Við sjálfstæðismenn töldum eðlilegt að árétta viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og stofna til stjórnmálasambands. Í viðræðum sem ég átti sl. haust við forseta Eistlands og forseta Litáens kom fram að þeir töldu báðir að slíkar ákvarðanir af hálfu Íslendinga og annarra þjóða mundu styrkja þá í viðræðum við sovésk yfirvöld um lausn á deilumálum ríkjanna. Það sannfærði mig um að rétt væri að stíga slíkt skref.
    Auðvitað er það svo að það er ekki einfalt að taka slíkar ákvarðanir og auðvitað er það rétt að eins og sakir standa er erfitt að koma slíkum ákvörðunum til fullra framkvæmda, ekki síst eftir að rauði herinn hefur unnið þau ofbeldisverk sem raun hefur orðið á síðustu daga. En kjarni þess máls er hins vegar sá að Eystrasaltsþjóðirnar voru reiðubúnar, eins og hér hefur komið fram, að eiga viðræður við Sovétstjórnina. Þær lögðu hins vegar á það áherslu að slíkar viðræður snerust ekki um það hvort Eystrasaltsþjóðirnar ættu að öðlast sjálfstæði heldur skyldu sjálfstæðisyfirlýsingar þjóðanna vera forsenda fyrir því að viðræður færu fram á milli sjálfstæðra þjóða. Og á þeim grunni vildu Eystrasaltsþjóðirnar ræða um stjórnmálasamskipti og efnahagsleg samskipti og töldu að því virkari viðurkenning sem kæmi fram af hálfu annarra ríkja því sterkari yrðu þær í því að halda þessum forsendum til streitu í viðræðum við sovésk yfirvöld.
    En vitaskuld koma margháttaðar aðrar aðgerðir líka að miklu haldi og yfirvöld í Eystrasaltsríkjunum hafa metið hversu langt íslensk stjórnvöld og Alþingi Íslendinga hafa gengið í þessu efni. Ég tel að atburðir síðustu daga hljóti að hvetja þjóðir heims til enn frekari og virkari aðgerða.
    Á undanförnum mánuðum hafa mörg ríki á Vesturlöndum kosið að gefa varfærnar yfirlýsingar til stuðnings Eystrasaltsþjóðunum, fyrst og fremst með þeim rökum að það kynni að valda forustumönnum Sovétríkjanna og leiðtoga þeirra erfiðleikum og þannig draga úr líkum á árangri ef vesturveldin, eða vestræn lýðræðisríki gengju of hratt fram í stuðningi sínum við

Eystrasaltsríkin. Þessi röksemdafærsla byggðist á miklu trausti á ærlegum vilja leiðtoga Sovétríkjanna til þess að styðja við lýðræðiskröfur og mannréttindakröfur. Því miður hefur innrás rauða hersins í Litáen brotið þessar vonir manna á bak aftur. Því miður sýnir innrásin að það er ekki með sömu rökum og áður hægt að byggja afstöðu vestrænna ríkja vegna þess að leiðtogar Sovétríkjanna hafa brugðist vonum manna og trausti. Því fremur sem þessir atburðir eru svo alvarlegir sem raun ber vitni þurfum við að herða á afstöðu okkar og hvetja til virkari samstöðu á alþjóðavettvangi til stuðnings Eystrasaltsþjóðunum.
    Ég er sammála þeim viðbrögðum sem þegar hafa komið fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. En eins og fram kemur í yfirlýsingu þingflokks sjálfstæðismanna þá teljum við að einnig eigi að íhuga virkari aðgerðir svo sem eins og þær að fresta eða hætta viðskiptaviðræðum við Sovétríkin og kalla viðskiptasendinefndina heim. Enn fremur að kalla sendiherra Íslands heim til skrafs og ráðagerða og sýna sovésku ríkisstjórninni á þann hátt að við leggjum mjög þunga áherslu á yfirlýsingar okkar og orð í þessu efni. Og enn fremur kemur hér til álita að fyrirskipa fækkun í sendiráði Sovétmanna hér á landi.
    Það eru líka miklar skyldur sem við tökum á okkur með þeirri afstöðu sem við höfum áður sýnt og verðum þess vegna að bregðast við þegar forseti Litáens óskar eftir því að við beitum okkur fyrir því að málið verði tekið upp hjá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eins og fram hefur komið er það ýmsum erfiðleikum háð en ég tel að við eigum að láta á það reyna að málið verði tekið þar upp og við eigum að verða við því kalli að hafa þar um frumkvæði.
    Það er að sönnu rétt að við höfum aldrei viðurkennt innlimun Sovétríkjanna að lögum. Það höfum við hins vegar, eins og aðrar vestrænar þjóðir, viðurkennt í verki og því er nú þörf á að sýna með ótvíræðum hætti og nýjum ákvörðunum að við ætlum okkur að viðurkenna þessi ríki sem sjálfstæðar og fullvalda þjóðir og koma fram við þær með þeim hætti. Aðalatriðið er að það takist samstaða um aðgerðir af Íslands hálfu og þó að ég hafi hér minnt á og lagt áherslu á að við getum stigið frekari skref í þessu efni þá skiptir þó mjög miklu máli að hér hefur tekist samstaða og við sjálfstæðismenn viljum tryggja að hún verði og við metum það sem gert hefur verið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Þessir atburðir bera upp á tímamót í stríðsátökunum við Persaflóa og e.t.v. er það ekki tilviljun að rauði herinn tók þá örlagaríku ákvörðun sem tekin var einmitt á þessum tímamótum. Við Persaflóa hefur verið stríðsástand síðan 2. ágúst að Írak réðst inn í Kúvæt og svipti réttkjörna ríkisstjórn og stjórnendur landsins valdi og innlimaði Kúvæt í Írak. Það eru ekki þau tímamót nú að spurning sé um það hvort á tímafresti sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið hefjist stríð við Persaflóa. Það stríð hófst 2. ágúst þegar Írak réðst inn í Kúvæt. Nú er hins vegar komið að því að sá tímafrestur sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu rennur út og á þeim tímapunkti hljóta aðilar að þeirri samþykkt

að grípa til eðlilegra ráðstafana í samræmi við þær ákvarðanir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið.
    Við erum að vísu vopnlaus þjóð og tökum ekki af þeim sökum þátt í slíkum hernaðarátökum en við hljótum að leggja á það áherslu að við lítum á ákvarðanir Sameinuðu þjóðanna sem mjög mikilvægan þátt í varðstöðu um sjálfstæði og lýðréttindi smáríkja. Þær ákvarðanir, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið, og m.a. byggja á því að þola ekki hernám Kúvæts og að leysa Kúvæt úr því hernámi með hernaðaraðgerðum ef aðrar aðferðir duga ekki, eru ákveðin trygging fyrir smáþjóðir að Sameinuðu þjóðirnar þoli ekki slíkt ofbeldi sem þarna var sýnt. Við hljótum því að styðja þær ákvarðanir Sameinuðu þjóðanna og þær ákvarðanir, sem þau ríki sem aðild eiga að alþjóðahernum taka, í samræmi við þá niðurstöðu.
    Að því hefur verið vikið hvort tengja eigi saman Palestínuvandamálið, sem svo hefur verið nefnt, og innlimun Kúvæts í Írak. Það hefur verið meginkrafa leiðtoga Íraks að þessi mál væru tengd saman. Ég hygg hins vegar að fáir hafi séð samhengið í því og fáir geti á það fallist að hernám Kúvæts sé sérstakur örlætisgerningur eða sérstakt góðverk í þágu Palestínuaraba. Enda hefur af hálfu vestrænna þjóða og Evrópuþjóða verið skýrt tekið fram að lausnin á hernámi Kúvæts gæti ekki tengst öðrum málum þó að þau séu flókin og viðkvæm og þarfnist úrlausnar eins og Palestínumálið.
    Mér hefur sýnst sem af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hafi ekki komið glöggt fram hvaða afstöðu hún hefur að því er þetta atriði varðar. Ég hygg að enginn mæli á móti því að þjóðir heims leggi sig fram um að styðja við aðgerðir til þess að leysa vanda Palestínuaraba og ágreining þeirra við Ísraelsstjórn. En að minni hyggju er óráðlegt að blanda því máli saman við ólögmætt hernám Kúvæts. Ég vil því gjarnan óska eftir því að í þessari umræðu geri hæstv. utanrrh. nokkuð fyllri grein fyrir afstöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessu efni. En aðalatriðið er auðvitað það að samstaða hefur tekist um það í fyrsta skipti innan Sameinuðu þjóðanna að bregðast við ofbeldisverkum eins og þeim sem Írak sýndi gagnvart Kúvæt og tryggja með aðgerðum á þeim vettvangi að fámennar þjóðir séu ekki beittar ofbeldi með hervaldi eins og þarna átti sér stað. Og við Íslendingar hljótum að styðja
þær ákvarðanir og styðja þá samstöðu svo sem við frekast megum.