Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki rekja hér í einstökum atriðum til hverra aðgerða hefur verið gripið af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar vegna þeirra válegu tíðinda sem spurst hafa í Litáen og Eystrasaltsríkjunum af þeirri einföldu ástæðu að hv. þm. mun vera fullkunnugt um það nú þegar af greinargerð hæstv. forsrh. og almennt af fréttaflutningi þessara örlagaríku daga. Ég mun þess vegna takmarka mál mitt við nokkur meginatriði:
    1. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til þess að verða við áskorun Landsbergis, forseta Litáens, um það að skjóta þessu máli til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna?
    2. Við hvaða rök styðst það að aðgerðir Sovétríkjanna brjóti í bága við alþjóðlegar viðurkenndar skuldbindingar þeirra skv. Helsinki - lokaskjalinu og Parísaryfirlýsingunni?
    3. Að segja fáein orð úr stöðu málsins nú og framtíðarhorfur.
    Það var aðfaranótt sl. sunnudags sem mér barst orðsending frá Landsbergis forseta fyrir milligöngu upplýsingafulltrúa Litáensstjórnar í Ósló. Kjarni þess máls var að skora á utanrrh. Íslands í samráði við utanríkisráðherra Norðurlanda að kæra framferði sovéskra stjórnvalda til öryggisráðsins og leita eftir stuðningi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við það mál. Þessa nótt og fram á sunnudaginn stóðu yfir símtöl og skeytasendingar milli okkar utanríkisráðherra Norðurlanda um alla þætti málsins og þar á meðal þetta. Það er nauðsynlegt að hv. þm. sé gerð grein fyrir því hvernig með slík mál er farið.
    Í fyrsta lagi er þess að geta að að forminu til er ekki unnt að taka fyrir innan öryggisráðsins mál sem skilgreind eru sem innanríkismál. Af hálfu Sovétríkjanna er það að sjálfsögðu sú opinbera skilgreining sem þeir gefa.
    Í annan stað. Það er því aðeins heimilt samkvæmt reglum öryggisráðsins að taka upp slíkt mál ef það er stutt þeim rökum að heimsfriðnum stafi sérstök hætta af þróun mála, en þá er það skilyrt að því aðeins geti ríki tekið upp slík mál að það eigi sæti í öryggisráðinu sjálft. Náist það fram þá mun beiðni um að öryggisráðið fjalli um slíkt mál tekið til umfjöllunar á óformlegum fundi ríkja sem sitja í öryggisráðinu og þá er tilskilið samþykki 9 ríkja af 15 í öryggisráðinu. Án þess að orðlengja allt það sem farið hefur milli aðila vil ég aðeins taka það fram að ég hef í þeim samtölum áskilið íslensku ríkisstjórninni rétt til þess að fara þessa leið ef hún reynist fær. En ég dreg ekki dul á það að á því eru tormerki.
    Það er ljóst að við eigum ekki aðild sjálfir að öryggisráðinu og verður þess vegna að leita til annarra um það. Ég hef hins vegar þegar efnt til óformlegra samtala við fulltrúa annarra ríkja um það og þá fyrst og fremst hér á landi við staðgengil sendiherra Bandaríkjanna. Niðurstaða þess máls liggur ekki fyrir en það er unnið að því áfram. Hitt er þó ljóst að við getum ekki verið mjög bjartsýn um jákvæða niðurstöðu í því

af þeirri einföldu ástæðu að innan öryggisráðsins gilda þær reglur að þar geta einstök ríki beitt neitunarvaldi.
    Annað mál sem ég vil víkja að í tilefni af þessum umræðum eru þær staðhæfingar okkar að með beitingu hervalds í Litáen hafi sovésk stjórnvöld gerst brotleg við alþjóðlegar skuldbindingar og er þá vísað til lokaskjals Helsinki - sáttmálans og Parísaryfirlýsingarinnar. Þetta styðst einkum við V. kafla lokasamþykktar Helsinki - ráðstefnu RÖSE, eða Ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu, frá 1975. Þá er ég að vísa til kafla þar sem fjallað er um þær tíu grundvallarreglur sem þar voru samþykktar og undirritaðar með skuldbindandi hætti um að virða þær. Í V. kafla er sett fram grundvallarreglan um friðsamlega lausn deilumála. Þar segir svo, með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu minni:
    ,,Þátttökuríkin skuldbinda sig til þess að leysa deilur sín í milli með friðsamlegum hætti og á þann hátt að stofna ekki í hættu alþjóðlegum friði, öryggi og réttlæti.`` Enn fremur segir þar: ,,Í þessu augnamiði munu þjóðirnar neyta ráða eins og samninga, sérstakrar rannsóknar, sáttanefnda, úrskurðaraðila, málskots til dómstóla eða annarra friðsamlegra leiða sem færar kunna að vera til þess að ná fram samkomulagi til þess að leysa deilur milli aðila.``
    Önnur meginreglan sem hér á við er sett fram í VIII. kafla og varðar jafnan rétt til sjálfsákvörðunar allra þjóða. Þar segir m.a. að allar þjóðir skuli hafa rétt til þess að njóta frelsis og ákveða þegar þær óska þjóðréttarlega stöðu sína án utanaðkomandi íhlutunar og ráða sjálfar þróun mála innan lands að því er varðar stjórnmálalega, efnahagslega, félagslega og menningarlega þróun.
    Að því er varðar Parísaryfirlýsinguna, sem var undirrituð við hátíðlega athöfn á einhverjum sögulegasta fundi sem haldinn hefur verið í Evrópu eftirstríðsáranna 19. nóv., má nefna til mörg ákvæði þar sem leiðtogar Evrópuríkjanna 35, þar á meðal leiðtogar Sovétríkjanna, hafa skuldbundið sig. Þar er t.d. að finna kafla sem ber yfirskriftina ,,Nýtt tímabil lýðræðis, friðar og samstöðu`` en þar segir á þessa leið í lauslegri þýðingu minni:
    ,,Til þess að stuðla að lýðræðislegri þróun, friði og einingu í Evrópu skuldbindum við okkur hér með með hátíðlegum hætti að standa við og virða hinar 10 grundvallarreglur Helsinki - lokaskjalsins``. Og enn fremur segir þar: ,,Við endurnýjum skuldbindingar okkar um það að forðast hótun eða beitingu valds sem varðar landfræðilegt sjálfræði þjóða eða pólitískt sjálfstæði ríkja.``
    Enn fremur er þar áréttuð skuldbindingin til þess að leita lausna á öllum pólitískum deilum með friðsamlegum hætti.
    Á enn öðrum stað í kafla sem ber yfirskriftina ,,Leiðarvísir til framtíðar`` segir á þá leið að þátttökuríkin skuldbindi sig undir öllum kringumstæðum til þess að forðast hótun eða beitingu valds en leita þess í stað friðsamlegrar lausnar á deilum og er það áréttað mörgum fögrum orðum.
    Um það hefur verið spurt hvort þessi samningsákvæði séu skuldbindandi og ég vil taka það skýrt fram að á því leikur enginn vafi samkvæmt þjóðarétti að þær eru skuldbindandi. Þessi ákvæði og reyndar fleiri sem ég gæti vitnað til hafa því miður verið rofin með þeim aðgerðum sem Sovétríkin hafa gert sig sek um í samskiptum sínum við Litáen á undanförnum dögum.
    Þriðji þátturinn sem ég vildi nefna er spurningin um hver er staða málanna nú og hvert verður framhaldið. Ljósi punkturinn, ef ég má orða það svo, í þessu máli er að mínu mati drengileg og sköruleg framganga forseta rússneska lýðveldisins í þessu máli, Boris Jeltsíns. Í gærkvöldi sótti hann fund með forsetum Eistlands, Lettlands og sendiherra Litáens. Þessi fundur var haldinn fyrir opnum tjöldum og honum var sjónvarpað beint. Á þessum fundi gerðist það að forseti rússneska lýðveldisins lýsti yfir ásamt hinum forsetum lýðvelda gagnkvæmri viðurkenningu á fullu og óskoruðu sjálfsforræði þessara ríkja. Hann tók þátt í því með ályktun fundarins að fordæma mjög harðlega beitingu vopnavalds í Litáen og vara við afleiðingum þess. Í framhaldi af þessu hefur forseti rússneska lýðveldisins komið á framfæri formlegum mótmælum við Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna, og við varnarmálaráðherra Sovétríkjanna. Hann hefur síðan fylgt þessu eftir í morgun með útvarpsyfirlýsingu til allra rússneskra þegna sem eru í sovéskum hersveitum á landsvæði Eystrasaltsríkjanna og upplýst þá um að samkvæmt lögum rússneska lýðveldisins sé þeim forboðið að taka þátt í beitingu vopnavalds utan landamæra ríkisins án beinna fyrirmæla rétt kjörinna forustumanna þess, þ.e. forseta rússneska lýðveldisins. Samkvæmt fréttaskeyti sem borist hefur frá forsetum Eistlands og Lettlands fara þeir mörgum orðum um hversu mikilvægur þessi stuðningur forseta rússneska lýðveldisins hafi verið þeim á örlagastundu og telja að með þessum aðgerðum sínum hafi hann stórlega dregið úr hættunni á því að sömu örlög biðu Eistlands og Lettlands.
    Þetta á án vafa þátt í því að því hefur verið lýst yfir af hálfu forsetaembættis alríkisins að atburðirnir í Litáen séu ekki á ábyrgð forsetans, þ.e. Mikhails Gorbatsjovs. Síðan bíðum við þess að forseti Sovétríkjanna ávarpi þingið og geri hreint fyrir sínum dyrum vegna þess að ef það er svo að rauði herinn hefur beitt vopnavaldi án þess að það sé samkvæmt fyrirmælum æðsta yfirmanns rauða hersins, forseta alríkisins, þá hefur farið fram valdarán í Sovétríkjunum. Það hefur tekist núna 24 tíma samkomulag sem nær fram að miðnætti í nótt, samkvæmt litáskum heimildum, um það að hersveitir rauða hersins í Litáen muni ekki láta frekar til sín taka þar, nóg er nú að gert. Spurningin er hvort forseti alríkisins, Mikhail Gorbatsjov, nýtir þann tíma til þess að taka af tvímæli um að þetta hafi verið ólöglegar athafnir og kemur ábyrgð yfir á þá sem þarna hafa gerst brotlegir, stöðvar beitingu frekara vopnavalds og verður við áskorunum hins alþjóðlega samfélags að heita má um það að fjarlægja þessar hersveitir, um það að ganga þegar í stað til samningaviðræðna án fyrir fram skuldbindinga, svo

sem allar áskoranir beinast að.
    Að sjálfsögðu er það ekki lítið mál þegar réttkjörinn og lýðræðislega kjörinn forseti rússneska lýðveldisins, sem stýrir því ríki þar sem búa 160 milljónir manna af heildaríbúafjölda Sovétríkjanna og án þess ríkis eru Sovétríkin ekki til, tekur svo einarðlega afstöðu í þessu örlagaríka máli.
    Að öðru leyti vil ég segja það um framhald málsins að næsta skref er að sjálfsögðu innan Ráðstefnunnar um samvinnu og öryggi í Evrópu en innan vettvangs hennar er Helsinki - lokaskjalið samþykkt og Parísaryfirlýsingin gefin út. Það vill svo til að á morgun hefst á Möltu fundur aðildarríkjanna þar sem sérstaklega er fjallað um þann kafla Parísaryfirlýsingarinnar sem kveður á um nýja stofnun sem á að vera til þess að fyrirbyggja árekstra og deilur milli ríkja og þjóðernishópa, Center for prevention of conflict. Þar er á dagskrá skilgreining á hlutverki þessarar stofnunar. Við höfum að sjálfsögðu, í samræmi við fyrirheit sem við höfum áður gefið, gefið sendimanni Íslands á þessari ráðstefnu fyrirmæli um að taka þetta mál upp einarðlega og afdráttarlaust með þeim hætti sem við höfum gert hingað til. Mér er einnig kunnugt um að það mun fulltrúi bandarísku ríkisstjórnarinnar gera.
    Ég vek athygli á því að frá því að þessar deilur hófust fyrst hefur orðið mikil breyting á afstöðu einstakra ríkja. Í fyrsta sinn þegar haldin var ráðstefna á vegum Evrópuráðsins með utanríkisráðherrum vestur - og austur - Evrópuríkja um grundvallarþætti um samvinnu og öryggi í Evrópu gerðist það að einungis tveir utanríkisráðherrar tóku þá upp mál Eystrasaltsríkjanna, þ.e. íslenski utanríkisráðherrann og sá danski. Það var lengi vel svo að fáir aðrir fengust til þess að taka undir þennan málflutning. Það er ekkert launungarmál t.d. að á þó nokkrum ráðsfundum innan Atlantshafsbandalagsins voru það einungis þeir tveir utanríkisráðherrar sem héldu mönnum við það efni án þess að aðrir tækju undir. Nú hefur það gerst í fyrsta sinn, ef til vill fyrir okkar málflutning og okkar áskorun, að pólitíska nefndin innan Atlantshafsbandalagsins hefur hist tvisvar yfir þessa helgi. Meiri hluti utanríkisráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins hefur brugðist við og sent afdráttarlausar mótmælaorðsendingar, viðvaranir og kröfur um tafarlausa stöðvun beitingar vopnavalds og aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins hefur fyrir hönd bandalagsins gefið út yfirlýsingu í sama anda. Það hefur ekki gerst fyrr og það skiptir miklu máli.
    Einnig vil ég vekja athygli á því að af hálfu Evrópubandalagsins eða utanríkisráðherraráðs þess hefur þegar verið yfir lýst að á meðan ekki komi viðhlítandi og fullnægjandi skýring á því hver beri ábyrgð á þessum brotum á grundvallarsáttmálum hins nýja Evrópusamstarfs þá verði stöðvuð framkvæmd á öllum áætlunum um efnahagsaðstoð við Sovétríkin. Þetta skiptir meginmáli vegna þess að kjarni þessa máls er sá að Sovétríkin hafa hér gerst brotleg við þessa grundvallarsáttmála. Ef því heldur áfram er búið að leggja í rúst árangur af tíu ára uppbyggingarstarfi ríkja

Evrópu sem hefur miðað að því að nú hæfist nýr kafli í sögu Evrópu þar sem við yfirgæfum tímabil kalds stríðs og átaka og upp væri tekin samvinna og samstarf milli ríkja og þjóða á grundvelli grundvallarreglna um virðingu fyrir alþjóðalögum, um viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsforræðis, samstarf byggt á grundvallarreglum höfuðgilda vestrænnar siðmenningar um mannréttindi. Ef þessir sáttmálar eru ekki haldnir
kallar það einfaldlega fram heildarendurskoðun á afstöðu lýðræðisríkjanna til Sovétríkjanna því sú afstaða er ekki byggð á afstöðu til einstakra stjórnmálamanna í þeirra eigin persónu. Hún er byggð á þessum grundvallarreglum og spurningunni um trúnað við þær í framkvæmd.
    Ég vil að lokum geta þess að í gær barst áskorun frá sjónvarpsstöðinni í Kaunas í Litáen áður en henni var lokað með valdi, sem beint var til ríkisstjórna Vestur-Evrópu, um það að senda á vettvang til Litáens eins fljótt og unnt væri lyf, hjúkrunargögn og hjúkrunarfólk. Það var byggt á þeirri forsendu að þá þegar var mannfall orðið um 30 manns og tæplega 200 limlestir og alvarlega særðir. Á það var bent að þarna væru tugir þúsunda óvopnaðra borgara sem væru fyrirvaralaust fórnarlömb skriðdrekasveita og vopnaðra sérsveita ef átökin breiddust út og þá væri fyrir séður skortur á slíkum hjálpargögnum. Ég vil upplýsa það að af hálfu okkar hafa þegar í morgun verið teknar upp viðræður við rétta aðila, þar á meðal Rauða krossinn hér á landi, og það mál er í vinnslu og góðar horfur á að við munum taka þátt í því þótt ekki sé enn að fullu séð hvernig þeim verður komið áleiðis. Þó skal þess getið að Finnar hafa fengið leyfi fyrir lendingarrétti flugvéla til þess að koma slíkum hjálpargögnum á framfæri á flugvellinum í Vilnius þegar á morgun.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að svo stöddu að segja fleira um þetta mál. Ég vil ljúka máli mínu um þennan þátt málsins með því að segja að ég lýsi ánægju minni með þá samstöðu sem lýst hefur verið hér á hinu háa Alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu og ég er þakklátur fyrir þau ummæli leiðtoga stjórnarandstöðunnar þegar hann sagðist kunna að meta með hvaða hætti fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa hingað til tekið á þessu máli.
    Virðulegi forseti. Örfá orð um stöðu mála í þeirri háskalegu deilu sem nú er á örlagaríkum tímamótum og leitt hefur af innrás Íraks í Kúvæt.
    Hv. 1. þm. Suðurl. fór þess á leit að ég skýrði betur hver væri afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar í þessu máli og ég skal reyna að verða við því.
    Fyrst er frá því að segja að Íslendingar, eins og yfirgnæfandi meiri hluti aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, eiga fulla aðild að öllum tólf ályktunum Sameinuðu þjóðanna í því máli. Við höfum greitt atkvæði með þeim og stöndum við þær. Í annan stað hefur íslenska ríkisstjórnin gert um það ályktun að fordæma þessa óréttlætanlegu innrás Íraka í Kúvæt og tekið undir kröfuna um að Írak beri skilyrðislaust að draga herlið sitt til baka frá Kúvæt. Þá er þess að geta að

Íslendingar samþykktu í fyrsta lagi ályktun 661 um viðskiptabann og tóku þátt í því þegar eftir var leitað af hálfu annarra ríkja að leggja fram það sem kalla mætti okkar skerf í að aðstoða ríkin á svæðinu. Sú aðstoð var látin í té í formi matvæla, hjálpargagna, til grannlanda Íraks og Kúvæts, einkum Jórdaníu en einnig Egyptalands.
    Þá er þess að geta að ályktun öryggisráðsins nr. 678, sem heimilar aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna að beita öllum nauðsynlegum ráðum og fer ekki á milli mála hvað við er átt, þ.e. þar með talið hernaðaraðgerðum eftir 15. þ.m., hverfi Írakar ekki frá Kúvæt fyrir þann tíma, er einnig ályktun sem íslenska ríkisstjórnin hefur átt aðild að. Hitt skal skýrt tekið fram að ályktunin sem slík skuldbindur ekkert aðildarríkjanna til þátttöku í hernaðaraðgerðum og gerir ekki með sjálfkrafa hætti neitt ríki að styrjaldaraðila. Til þess þarf sjálfstæða ákvörðun hvers ríkis og vísa ég í því efni til þeirra umræðna sem farið hafa fram á Bandaríkjaþingi og lyktaði með því að forseta Bandaríkjanna var gefin heimild á grundvelli þessarar ályktunar. Svarið við spurningunni um styrjaldaraðild Íslands vegna stuðnings við þessa ályktun er einfaldlega það að það gerist ekki með sjálfvirkum hætti. Það eina sem gæti kallað yfir okkur beina aðild að styrjaldarátökum væri ef stjórnvöld í Írak hæfu styrjöld á hendur Tyrkjum, sem er aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Þá mundi reyna á 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem kveður á um það að árás á eitt aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins er árás á öll. Þess skal getið af því það mun vera í fyrsta sinn í sögu bandalagsins að tyrkneska ríkisstjórnin sá ástæðu til að fara þess sérstaklega á leit að fluttar væru sérsveitir til Tyrklands til þess að undirstrika samstöðu bandalagsríkjanna og vara um leið Íraksstjórn við því að breiða út þessi átök með því að ráðast inn í Tyrkland. Við því var orðið en líkurnar á því að á þetta reyni er að flestra mati ekki miklar.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég fara nokkrum orðum um það sem kallað hefur verið frumkvæði utanríkisráðherra Norðurlanda varðandi þetta mál. Um það vil ég segja þetta:
    Þegar ljóst var að fundur Bakers, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Aziz, utanríkisráðherra Íraks, í Genf var árangurslaus, þá gerðist það að frumkvæði Stoltenbergs, utanríkisráðherra Norðmanna, að hann óskaði eftir því að norrænu utanríkisráðherrarnir bæru saman bækur sínar um það hvort þeir vildu leggja fram sameiginlegar tillögur um þetta mál sem beint yrði til framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og síðan öryggisráðsins. Það skal tekið skýrt fram að því er þessar tillögur varðar að þær eru byggðar á mjög skýrri forsendu, nefnilega þeirri að ekki er vikið frá sameiginlegri ályktun Sameinuðu þjóðanna um þá skilyrðislausu kröfu að árásaraðilinn dragi herlið sitt til baka. Um það er enginn ágreiningur.
    Hitt er svo ljóst að þótt það takist fyrir samstöðu Sameinuðu þjóðanna að knýja ofbeldissegginn til þess að draga herlið sitt til baka er ekki þar með búið að leysa þau mál sem hér er við að fást, fjarri því. Tillögur norrænu utanríkisráðherranna eru þess vegna um það að skilgreina hlutverk Sameinuðu þjóðanna, hvert skuli vera þeirra hlutverk og hver skuli vera þeirra aðild að þróun mála eftir að Írak hefur dregið herlið sitt til baka. Þær tillögur voru í efnisatriðum á þessa leið:
    Í fyrsta lagi að skora á framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að undirbúa það rækilega að Sameinuðu þjóðirnar gætu gripið inn í þróun mála þegar í stað með diplómatísku frumkvæði.
    Í annan stað að Sameinuðu þjóðirnar væru í stakk búnar til þess að senda friðargæslusveitir og hernaðarlega eftirlitsaðila þegar í stað á vettvang.
    Í þriðja lagi að beita sér fyrir því að endurreisn fullveldis Kúvæts yrði tryggt.
    Í fjórða lagi að skilgreina nauðsyn uppbyggingarstarfs og skipuleggja og koma með tillögur um fjármögnun þess.
    Þetta voru nokkur atriði. Síðan var lögð á það áhersla að ef samkomulag tækist um með þeim ríkjum sem þarna eiga hlut að máli, að deilum þá yrðu Sameinuðu þjóðirnar reiðubúnar til þess að beita sér fyrir alþjóðlegri ráðstefnu sem hefði það að meginmarkmiði að ná fram samningum um nýtt öryggiskerfi á þessu svæði. Rökin fyrir því eru augljós. Þetta svæði er eitt mesta víghreiður í heiminum. Nú mega forustumenn einstakra ríkja, bæði í austri og vestri, rifja það upp fyrir sjálfum sér að þeir hafa á undanförnum áratugum keppst hver við annan um að selja vopn og vígbúnað, hátæknivígbúnað, á þetta svæði. Fyrir því liggja óyggjandi sannanir að einstök fyrirtæki á Vesturlöndum hafa tekið þátt í því að auðvelda Írökum að byggja upp framleiðslugetu varðandi eiturefni og sýklavopn. Ríki bæði í austri og vestri hafa keppst um að gefa eða selja vígbúnað af þessu tagi. Niðurstaðan er því sú hvort heldur við lítum á Írak, Íran, Sýrland, Ísrael eða einstök önnur ríki, þar með talið Saudi-Arabíu, þá er þar nánast hvert þverfet lands þakið hátæknivígbúnaði sem er svo margfaldlega langt umfram allt sem skilgreint má verða sem eðlilegar varnarþarfir þessara ríkja.
    Þegar við ræðum spurninguna um alþjóðlegt samkomulag sem reynt yrði að ná á alþjóðlegri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þá snýst það fyrst og fremst um eitt. Með vísan til reynslunnar af afvopnunarsamningunum sem tekist hafa á evrópskum vettvangi á undanförnum árum væri það hlutverk Sameinuðu þjóðanna að beita sér fyrir massífum niðurskurði á vígbúnaði á þessu svæði. Sér í lagi samkomulagi um að fá allsherjarbann við framleiðslu, birgðahaldi á, svo ekki sé talað um nýtingu á efna- og sýklavopnum sem og útbreiðslu kjarnavopna á þessu svæði. Því næst þarf við að bæta samningum um gagnkvæma afvopnun í stórum stíl að því er varðar hefðbundin vopn og samkomulag um traustvekjandi aðgerðir í samskiptum ríkja sem og að lokum alvarlega tilraun til þess að fá fram lausn á langvarandi pólitískum deilumálum á þessu svæði á grundvelli þeirra ályktana sem Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar gert í þeim málum.
    Þetta er ekki lítið mál en ég læt mér nægja að segja: Við skulum vona að árásaraðilinn, í þessu tilviki stjórnvöld í Írak, láti sér segjast og dragi herlið sitt til baka. Jafnframt er augljóst að þá hljótum við að gera þær kröfur til hinna Sameinuðu þjóða sem hér eiga hlut að máli en ekki einstök ríki, að þau séu þegar í stað reiðubúin til þess að taka á þeim vandamálum sem taka þarf á og leysa, vegna þess að það eitt að koma í veg fyrir stríð er aðeins að slá málum á frest. Um þetta snýst hið svokallaða norræna frumkvæði.
    Þess skal getið að þessum tillögum var afar vel tekið af framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þessar tillögur voru ræddar og um þær varð ekkert ósamkomulag af hálfu okkar utanríkisráðherra Norðurlanda við fulltrúa Bandaríkjastjórnar. Þessara tillagna hefur verið getið með mjög jákvæðum hætti í ályktunum Evrópubandalagsins. Ég persónulega lýsi því yfir að ég tel að þær séu jákvætt framlag til þessa máls en jafnframt vil ég taka það skýrt fram að með þessum hætti höfum við ekki rofið samstöðu aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna vegna þess að við samþykkjum að undir engum kringumstæðum eigi að verðlauna árásaraðilann með einum eða neinum hætti. Það sem hér er um að ræða er siðferðileg ábyrgð og lagaleg skylda Sameinuðu þjóðanna til þess að tryggja frambúðarlausnir í framhaldi af því að hinu alþjóðlega samfélagi hefði vonandi tekist að koma í veg fyrir styrjöld.