Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Við höfum undanfarna sólarhringa verið vitni að óhugnanlegum atburðum og erum með hverju dægrinu sem líður að færast nær hættuástandi sem heimurinn hefur ekki staðið frammi fyrir um langan tíma. Þau mál sem við ræðum hér, hernaðaríhlutunin í Litáen og ástandið við Persaflóa vegna innrásarinnar í Kúvæt, eru með vissum hætti tengd. Samhengið í báðum er vopnuð íhlutun í málefni ríkja, ríkja sem ættu að vera fullvalda og þar sem brotið er á alþjóðarétti. Þegar ég heyrði það í fréttum í gærmorgun hvað gerst hefði í fyrrinótt í Litáen hafði ég samband við forseta sameinaðs þings og óskaði eftir að þetta mál yrði rætt hér sérstaklega utan dagskrár. Nú ræðum við það hér í samhengi við ástandið í Persaflóa. Það er mjög eðlilegt að tengja þessi mál saman í umræðu hér á Alþingi þó með sitt hvorum hætti séu þau varðandi bakgrunn og þróun.
    Þegar við stöndum frammi fyrir því og erum ásjáendur þess, Íslendingar, að þjóðþing ríkis, sem við viðurkennum sem fullvalda og sjálfstætt ríki, er umkringt af skriðdrekum og herliði og þingmönnum er haldið í herkví er það eðlilegt og sjálfsagt að þjóð eins og Íslendingar og þing þess taki við sér og láti að sér kveða. Það hefur Alþingi borið gæfu til þótt ekki hafi dregið til svo válegra tíðinda. Það er aðeins í rökréttu framhaldi af stuðningi Alþingis Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna að við nú ræðum þetta mál hér en við daprari aðstæður en áður hafa ríkt þegar við höfum um það fjallað og um það ályktað.
    Ég held við þurfum ekki mörg orð til þess að setja okkur í spor þjóðþings Litáens ef við hugsuðum okkur að eitthvað hliðstæðar aðstæður blöstu við okkur hér á Alþingi Íslendinga með skriðdreka og vopnað lið hér úti fyrir á Austurvelli og þinginu haldið í herkví. Undanfari væri áhlaup á helstu fjölmiðla landsins með hervaldi og manndrápi.
    Það er ánægjulegt til þess að vita að við höfum borið gæfu til þess hér á Alþingi að taka á þessum málum undanfarið ár, lýst yfir stuðningi í orði og á alþjóðavettvangi við málstað hinna þjökuðu og kúguðu þjóða Eystrasaltsríkjanna og hvatt aðrar þjóðir til dáða.
    Við erum hér með vissum hætti að leggja inn á nýja braut hér á Alþingi Íslendinga sem er fagnaðarefni og gerir kröfu til okkar um framhaldið. Við erum í rauninni þegar við ræðum bæði þessi mál að gera kröfu til þess að lagt verði af tvöfalt siðgæði í alþjóðamálum á alþjóðavettvangi. Og við þurfum að vera svo metnaðarfull áframhaldandi að standa undir þeirri kröfu sem við gerum til sjálfra okkar með þessum málflutningi, með umræðu okkar og ályktun.
    Ég tel að þau skref sem ríkisstjórn landsins hefur tekið í þessum efnum og hér hafa verið rakin og rædd, bæði varðandi Eystrasaltsríkin og vegna Persaflóadeilunnar fram til þessa, séu jákvæð og réttmæt. Nú er spurningin frekar um það hvernig högum við okkur í áframhaldinu þó við getum auðvitað velt

vöngum yfir því hvort við hefðum getað gert betur í fortíðinni.
    Það er mjög eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að sú staða er uppi í Evrópu nokkrum mánuðum eftir að undirritaðir eru samningar um lyktir á styrjaldarástandi sem í raun endaði í álfunni 1945, en að eftir standa ríki óvarin gagnvart áþján stórvelda og ofbeldisaðgerðum, eins og við höfum verið vitni að undanfarið.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að minna á ástæður þessa. Íslendingar hefðu vafalaust getað gert betur á liðinni tíð. Þeir viðurkenndu þessi ríki 1922 og sú fulla viðurkenning er í gildi þann dag í dag. En það hafa ekki önnur Evrópuríki gert mörg hver og ekki sýnt þann stuðning sem þurft hefði til þess að leiðrétta stöðu þessara ríkja og í rauninni að slá striki undir Evrópu eftirstríðsáranna þannig að við gengjum inn í nýja tíma þar sem smáþjóðir álfunnar gætu verið sæmilega óhultar fyrir skriðdrekum og vopnavaldi nágrannaríkja. Það hefði kannski betur verið dokað við að skrifa undir yfirlýsingar í París um þessi efni 19. og 20. nóv. sl. Það hefði kannski verið ráð að taka sér ögn meiri tíma og gera kröfu til þess af stóra ríkinu í austri að það viðurkenndi í reynd og gerði upp þessar leifar síðasta heimsstríðs að því er varðar mál Eystrasaltsríkjanna.
Nú þurfum við að hvetja til þess á alþjóðavettvangi, hvar sem við fáum eyra og áheyrn, að þetta merki verði upp tekið og knúið á um það, eins og samþykktir ríkisstjórnar Íslands standa til og eins og Alþingi hefur ályktað um, að Sovétríkin standi við undirritanir og skuldbindingar sem þau hafa á sig tekið. Ekkert annað og ekkert minna getur verið nægilegt en auðvitað er fyrsta skrefið af öllum að láta af hernaðaríhlutuninni, að láta af valdbeitingunni, að draga herina til baka úr Eystrasaltsríkjunum og taka upp siðaðra manna samskipti við þessar þjóðir.
    Við Íslendingar eigum að fylgja þessu eftir og gera þá kröfu til þjóðanna sem eru nákomnastar okkur, Norðurlandaþjóðanna annarra, að þær taki á í þessu máli með okkur því að ég er alveg sannfærður um að sú tilfinning forustumanna í Eystrasaltsríkjunum að Norðurlöndin hafi þarna aðra og betri stöðu en aðrir til þess að láta að sér kveða með árangri er rétt mat. Og við Íslendingar höfum til þess stöðu með vissum hætti betri en oft áður að sinna því frumkvæði. Í okkar hópi hér á Alþingi Íslendinga er forseti Norðurlandaráðs sem hefur látið sig þessi mál skipta með jákvæðum hætti og getur hvenær sem er kallað forsætisnefnd Norðurlandaráðs til fundar til þess að fjalla um þessi mál.
    Utanríkisráðherrar Norðurlanda hafa verið að taka á þessum málum með jákvæðum og eðlilegum hætti. Þeir þurfa að gera betur. Þeir þurfa að fylgja því enn betur eftir alveg eins og þeir eru að taka á hinu válega ástandi við Persaflóa á jákvæðan hátt og sýna að Norðurlandabúar eru kannski betur læsir á alþjóðamál og þær grundvallarreglur sem þar ættu að ríkja en almennt gerist á heimsbyggðinni.
    Alþingi Íslendinga þarf að setja sig sem best inn í

aðstæður Eystrasaltsríkjanna. Þar eru gagnkvæmar heimsóknir vel til fallnar og segja vissulega meira en orð. Það fann ég er ég heimsótti Eistland í júnímánuði sl. og átti þar viðræður við marga. Það er mikið ánægjuefni að forsrh. Íslands hefur hér lýst því yfir að starfsbróðir hans frá Eistlandi sé væntanlegur hingað í heimsókn og sérstaklega velkominn og þess megi vænta að einnig verði Litáen heimsótt af forsrh. landsins til að undirstrika samstöðu okkar. En Alþingi hefur fengið boð úr þessari átt einnig að senda þingmenn á vettvang og við eigum að verða við því kalli fyrr en seinna.
    Það var mjög fróðlegt að sitja norræna ráðstefnu á Sjálandi um miðjan nóvember sl. þar sem m.a. voru staddir fulltrúar frá Eystrasaltsríkjunum og fleiri löndum þar í kring og einnig frá Sovétríkjunum, hlýða á málflutning þeirra og ákall um stuðning og ábendingar um hvernig hann best verði af hendi látinn. Þingmenn hér hafa nú fengið yfirlit af þessum fundi sem fróðlegt getur verið fyrir menn að kynna sér til þess að átta sig enn frekar á aðstæðum og málflutningi fulltrúa Eystrasaltsríkjanna.
    Virðulegur forseti. Þingflokkur Alþb. hefur fjallað um þau mál sem hér eru á dagskrá og ályktað bæði um málefni Litáens og Eystrasaltsríkjanna og einnig um málefni Persaflóa. Ég ætla hér að kynna ályktun þingflokksins um málefni Eystrasaltsríkjanna en hún er svohljóðandi:
    ,,Þingflokkur Alþb. fordæmir harðlega hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í málefni Litáens. Sú hernaðaríhlutun er alvarlegt áfall fyrir þá jákvæðu þróun sem einkennt hefur málefni Evrópu síðustu missiri. Þingflokkurinn lýsir yfir stuðningi við þau skref sem íslensk stjórnvöld hafa þegar stigið til stuðnings við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Brýnt er að varðveita þá samstöðu sem tekist hefur í þessu máli hér innan lands. Til að undirstrika hana ætti Alþingi að sýna stuðning sinn við málstað Eystrasaltsríkjanna með tveggja mínútna þögn í upphafi fundar á morgun, þriðjudaginn 15. jan. kl. 14, og beina þeim tilmælum til þjóðarinnar að gera það einnig á sama tíma, hver á sínum vettvangi, á öllum vinnustöðum og með stöðvun allrar umferðar.
    Þingflokkurinn átelur að forusturíki á Vesturlöndum skuli ekki hafa veitt sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna þann stuðning sem henni ber, m.a. með því að tengja kröfuna um óskorað sjálfstæði þeirra Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu og Parísaryfirlýsingunni í nóvember 1990. Eftir síðustu atburði hljótum við að gera þá kröfu, sérstaklega til vestrænna ríkja og allra Evrópuríkja, að þau veiti stuðning málstað Eystrasaltsríkjanna hvarvetna á alþjóðavettvangi. Þingflokkurinn styður það að Ísland fylgi málinu eftir af fullum þunga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, svo og hvarvetna annars staðar á alþjóðavettvangi, m.a. innan Norðurlandaráðs og RÖSE - ráðstefnunnar.
    Þá telur þingflokkurinn rétt að Alþingi sendi hið fyrsta nefnd þingmanna til Eystrasaltsríkjanna og kanna ber hvort ekki sé hægt að kalla saman þegar í

stað sameiginlegan fund forsætisráðherra Norðurlanda, forseta þjóðþinga Norðurlanda og forsætisnefnd Norðurlandaráðs til að fjalla um stöðu mála í Eystrasaltsríkjunum og samskipti Norðurlanda við Sovétríkin.
    Þingflokkur Alþb. lýsir yfir þeirri von sinni að forustumenn í Sovétríkjunum sjái að sér og láti af hernaðarógnunum og ofbeldi í garð smáþjóða eins og Eystrasaltsríkjanna. Gerist það hins vegar ekki telur þingflokkurinn að endurskoða beri öll samskipti Íslands við Sovétríkin jafnt á sviði viðskipta, félagsmála og menningarsamskipta.``
    Þetta var ályktun þingflokks Alþb. sem samþykkt var á fundi hans eftir hádegið í dag.
    Það væri ástæða til þess, virðulegi forseti, að fara mörgum fleiri orðum um þá stöðu sem uppi er í Eystrasaltsríkjunum og varðandi samskipti þeirra og Sovétríkjanna. Ég ætla að spara mér það tímans vegna en hlýt þó að nefna að þrátt fyrir þá ógnvænlegu atburði sem nú hafa orðið hljótum við að hafa í huga og hafa von um að klukkunni verði ekki snúið til baka, málum verði ekki snúið frá þeirri þróun sem orðið hefur á vettvangi Evrópu undanfarin ár, að það kalda stríð sem við höfum búið við allt of lengi verði ekki vakið upp á nýjan leik, eins og nú er hætta á. Það er undir forustumönnum Sovétríkjanna komið að þeir bregðist við og skilji það ákall sem frá okkur kemur og fjölmörgum öðrum um að leggja ekki út á þá braut.
    Þá er það hitt málið sem við ræðum hér, virðulegi forseti, hættuástandið við Persaflóa. Þar hefur ríkt síðan 2. ágúst sl. alveg sérstakt ástand eftir innrásina í Kúvæt og innlimun þess ríkis í Írak með óréttmætum hætti og grimmdarlegum, svo að ekki sé farið orðum um þær ógnir sem íbúar þess lands hafa mátt búa við og rakið hefur verið m.a. af Amnesty International. Um framhaldið hefur verið fjallað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með ályktunum sem Ísland er aðili að. Það eru vissulega ný tíðindi að Sameinuðu þjóðirnar taki á slíkum málum sameiginlega og nái samstöðu um það að bregðast við innrás, eins og þarna var gert, samstiga og gera sameinaða kröfu um að árásaraðilinn dragi sig til baka. Þetta er gott og réttmætt svo langt sem það nær. En slík krafa á þó ekki að þýða að menn gangi blindandi til leiks og láti ályktanir og tímasetningar skera úr um hvenær slíkum kröfum er fylgt eftir með vopnavaldi með því gífurlega magni drápstækja sem safnað hefur verið saman í Mið - Austurlöndum og sem nú er verið að koma í skotstöðu, ef þeim undirbúningi er ekki þegar lokið, og þar sem eldregn eldflauganna getur hafist hvenær sem er, einnig með kjarnorkuvopnum vegna þess að þau er að finna á þessu svæði.
    Það er hollt fyrir okkur hér að íhuga hvernig allt þetta vopnasafn er komið á þennan blett á jörðinni. Hvernig hefur það gerst að Írak, Íran og fleiri ríki á þessum slóðum hafa náð að byggja upp her og herbúnað með þeim hætti sem nú blasir við þannig að jafnvel stórveldið Bandaríkin, risaveldið, þarf marga mánuði til þess að koma sér fyrir þar í grenndinni, til að vera nokkurn veginn tryggt að hafa í fullu tré við

árásaraðilann? Ég held að þá kæmi upp á borð okkar, ef við flettum þessari sögu, vopnasölunni til Íraks, þá birtist okkur í allri sinni hrikalegu mynd hið tvöfalda siðgæði í alþjóðamálum, þar sem lýðræðisríki Vestur - Evrópu m.a. hafa séð Írak fyrir efna - og sýklavopnum og búið þetta ríki í stakk til þess að ógna nágrönnum sínum með þeim hætti sem gerst hefur. Það hlýtur að vera eitt af brýnustu verkefnum á alþjóðavettvangi að taka fyrir vopnaviðskipti og vopnasölu, viðskipti með vopn og vopnasölu eins og það gerist nú með þátttöku landa sem telja sig að jafnaði hafa sæmilega hreinan skjöld í sambandi við vopnuð átök, hótanir og styrjaldarundirbúning.
    Ég geri ráð fyrir því að hver og einn alþingismaður hafi farið yfir það í huga sínum hvaða afleiðingar beiting þessa búnaðar á báðar hliðar kunni að hafa fyrir aðstæður á þessu svæði og raunar um heim allan því að þó að við teljum okkur sæmilega óhult fyrir vopnunum hér norður frá fer ekki hjá því að við munum finna með einum og öðrum hætti fyrir afleiðingum átaka á þessu svæði, bæði í umhverfi okkar, vegna þess að þetta mun vafalaust hafa gífurlega mikil og ef til vill langvarandi áhrif sem geta haft áhrif á skilyrði okkar til búsetu á Íslandi, að ekki sé talað um þau efnahagslegu áhrif sem mundu gera vart við sig nánast samstundis.
    Ég tel því alveg nauðsynlegt fyrir Íslendinga að leggja á það áherslu nú og á næstu dögum að höndin verði ekki sett á gikkinn, að af hálfu þess liðssafnaðar sem búinn er að koma sér fyrir í Saudi - Arabíu undir merkjum Sameinuðu þjóðanna verði ekki lagt til atlögu og settur af stað sá surtarlogi sem af hlytist, án þess að það sé gert annað og miklu meira en það sem gert hefur verið til þess að stilla til friðar og fá fram friðsamlega lausn á þessu svæði. Við höfum efni á því sem gerum kröfu til almennilegra samskipta í alþjóðamálum, við höfum efni á því að hinkra við og láta reyna á það til fullnustu að fá fram friðsamlegar lausnir. Og við eigum að gera þá kröfu til þeirra, sem við höfum staðið að og ályktað með í þessum efnum, að þeir leggi sig fram og brjóti jafnvel odd af oflæti sínu til þess að laða fram friðsamlega lausn sé þess nokkur kostur.
    Hér á Alþingi höfum við ályktað samhljóða fyrir tveimur árum eða svo að styðja alþjóðlega ráðstefnu, friðarráðstefnu undir merkjum Sameinuðu þjóðanna, um málefni Mið - Austurlanda þar sem m.a. væri tekið á málefnum Palestínumanna, deilum þeirra og Ísraels, sem hefur verið hinn alvarlegi fleinn á þessu svæði um áratugi og sem nauðsynlegt er að leysa og draga út og gera óvirkan fyrr en seinna eigi að skapast friður á þessu svæði. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að heyra það hér frá hæstv. forsrh. að hann er því samþykkur að einnig þetta mál verði tekið til meðferðar til þess að slökkva eldana eða væta púðrið áður en það springur og menn leggi sig alla fram með diplómatískum hætti til þess að ekki þurfi að láta vopnin tala á þessu svæði.
    Þannig á Ísland að ganga fram og þess vegna er það von mín og ég geri ráð fyrir okkar allra að það

megi takast að koma í veg fyrir það blóðbað sem þarna er í aðsigi. En við megum þá ekki sitja með hendur í skauti heldur þarf aðgerðir til. Íslensk stjórnvöld eiga að sýna frumkvæði í því ekki aðeins í samfloti með utanríkisráðherrum Norðurlanda heldur með því að koma þeirri kröfu af sinni hálfu á framfæri við risaveldið í vestri, sem stendur að og hefur forustu fyrir liðssafnaðinum í Saudi - Arabíu, að þeir taki sér aukinn tíma, að þeir leggist á sveif að finna diplómatíska lausn á þessari deilu. Ég teldi að hæstv. utanrrh. gerði margt lakara með sinn tíma á næstu dögum en það að skreppa bæjarleið vestur um haf til þess að koma slíkri áskorun og slíkum boðum til stjórnvalda í Bandaríkjunum og ræða við framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um slík málstök. Það væri í samræmi við þann anda
og það lóð sem Íslendingar eiga að leggja á vogarskálir við aðstæður sem þessar. Þingflokkur Alþb. ályktaði fyrr í dag um Persaflóadeiluna með svofelldum hætti, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þingflokkur Alþb. leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld geri allt sem unnt er til að koma í veg fyrir hernaðarátök við Persaflóa. Þingflokkurinn lýsir stuðningi við kröfur ríkisstjórnar Íslands og utanríkisráðherra Norðurlanda um friðsamlega lausn þessara deilumála. Höfuðáherslu ber að leggja á að Íraksher hverfi tafarlaust frá Kúvæt, að stofnaðar verði sérstakar friðargæslusveitir og að haldin verði alþjóðaráðstefna um málefni Austurlanda til að tryggja varanlegan frið. Þingflokkurinn bendir á að samþykktir Sameinuðu þjóðanna um Persaflóadeiluna fela í sér heimildir til hernaðaríhlutunar en ekki ákvörðun um að hefja stríð. Þingflokkurinn telur ekki rétt að beita þessum heimildum en reyna beri þess í stað með öllum tiltækum ráðum hvort samkomulag getur tekist um pólitíska lausn mála, en mikið vantar enn á að svo hafi verið gert. Íslendingar mega undir engum kringumstæðum gerast stríðsaðilar, heldur ber þeim að leggja lóð sitt á vogarskál friðar og afvopnunar.``
    Þetta er samþykkt þingflokks Alþb. sem gerð var á fundi nú eftir hádegið í dag. Eins og heyra má er það skoðun þingflokks Alþb. að nú þegar eigi að gera gangskör að því að knýja fram stjórnmálalega og friðsamlega lausn, sé þess nokkur kostur og menn eigi að taka sér til þess þann tíma sem þarf, lengri tíma heldur en dagsetningin 15. jan. Við eigum að koma þeim boðum á framfæri við þá sem við höfum staðið með að ályktunum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Við eigum líka að gera það skýrt og ákveðið að Ísland gerist ekki styrjaldaraðili, að Ísland fer ekki í styrjöld, gerist ekki þátttakandi að styrjöld, þó svo að ákvæði Atlantshafssamningsins geri ráð fyrir einhverju slíku. Við eigum að taka af allan vafa um það að við erum ekki í því bandalagi, þeir sem bera ábyrgð á því, til þess að gerast stríðsaðili. Það er jafnframt áskorun af minni hálfu til hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnarinnar allrar að tryggja að svo verði ekki.