Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum óskaði ég á laugardaginn eftir umræðum utan dagskrár um hið alvarlega ástand sem nú ríkir í heiminum, þ.e. um yfirvofandi styrjaldarátök við Persaflóa. Aðfaranótt sunnudagsins gerðust hörmulegir atburðir austur í Litáen og hafði forseti Sþ. samband við mig og tjáði mér að hv. 2. þm. Austurl. hefði óskað eftir umræðum utan dagskrár um þá atburði og vildi athuga hvort ég hefði nokkuð við það að athuga að í stað þess að ræða þessi mál hvort í sínu lagi yrðu málin rædd saman, þ.e. umræðan yrði almennt um hið alvarlega ástand sem ríkti í heiminum. Hafði ég auðvitað ekkert við það að athuga.
    Samkomulag var einnig um að við sem óskum eftir umræðunni hæfum umræðuna í þeirri röð sem við hefðum beðið um hana að öðru leyti en því að forsrh. hefði óskað eftir að gefa yfirlýsingu vegna stöðu mála og yrði það væntanlega í upphafi umræðunnar. Í morgun kom síðan í ljós að fyrsta mál á dagskrá Sþ. er skýrsla forsrh. um atburðina í Litáen og við Persaflóa. Atburðir síðustu daga, það sem er að gerast í Litáen og það að hætta er á að styrjöld brjótist út næstu daga við Persaflóa, gerir þetta mál mjög sérstakt. Mér finnst þó óeðlilegt að ráðherra taki á síðustu stundu upp mál sem þingmenn hafa fengið leyfi til að ræða utan dagskrár. Ég vona að þetta sé alger undantekning vegna eðlis málsins en ekki sé ætlunin að taka upp þau vinnubrögð af hálfu ráðherra að koma með stuttum fyrirvara með munnlega skýrslu um efni sem þingmenn hafa óskað eftir að ræða utan dagskrár og fengið til þess heimild hjá forseta.
    Virðulegur forseti. Það ofbeldi og yfirgangur sem Moskvustjórnin hefur sýnt þjóðum við Eystrasalt er alls ekki hægt að líða. Íslendingar hafa frá upphafi stutt sjálfstæðisbaráttu þessara ríkja og fylgst grannt með því sem þar hefur farið fram. Það er ekki síst þess vegna sem innrás Sovétmanna í Litáen og það ofbeldi sem þar á sér nú stað kemur sérstaklega illa við okkur Íslendinga. Við erum smáþjóð og skiljum þess vegna hve yfirgangur hins stóra og sterka getur oft verið mikill og hve erfitt það getur reynst að ná rétti sínum ef við ofurefli er að etja. Framkoma Moskvuvaldsins gegn Eystrasaltsríkjunum hefur einkennst af hugarfari hermennskunnar sem ógnar friði og bættum samskiptum þjóða heims.
    Ég tel ekki nokkurn vafa á því að tregða ríkja við að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna á sinn þátt í að Sovétmenn ráðast nú til atlögu. Þetta á sérstaklega við um Litáen sem hefur kallað ákafast eftir stuðningi frá þjóðum heims. Sovétmenn virðast telja sig geta brotið á bak aftur vilja þjóðarinnar um sjálfstæði og frelsi. Við verðum að halda áfram á alþjóðavettvangi, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annars staðar, að vinna að því að vilji fólksins fái að ráða.
    Í reynd er ekki mikill munur á innrás inn í Litáen og innrás inn í Kúvæt. Það er því einkennilegt ef þjóðir heims rísa ekki upp með sama hætti vegna atburðanna í Litáen eins og þegar innrásin í Kúvæt átti sér stað.
    Íslenska ríkisstjórnin hefur stutt sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna dyggilega, dyggilegar en aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum. Ég hef verið nokkuð sátt við framgöngu bæði forsrh. og utanrrh. undanfarna daga og reyndar undanfarið og nú einnig vegna síðustu atburða sem hafa átt sér stað. Ég vil taka það fram vegna orða hæstv. utanrrh. hér áðan að fulltrúi Sjálfstfl. í þessari umræðu er ekki fulltrúi stjórnarandstöðunnar, eins og hann orðaði það, heldur er hann fulltrúi Sjálfstfl. og við kvennalistakonur getum túlkað okkar sjónarmið án hans aðstoðar. En vegna þess hversu vel mér hefur fundist ríkisstjórnin taka á þessu máli, þá þóttu mér það mjög furðulegar fréttir sem bárust í gegnum fjölmiðla í gær að viðskiptasendinefnd frá Íslandi hefði farið áleiðis til Moskvu í gærmorgun þrátt fyrir þá atburði sem áttu sér stað og verð ég að átelja það. Það er ekki nóg að senda bréf og skeyti. Það verður að vera ljóst að hugur fylgi máli. Það má vel vera að við töpum einhverjum viðskiptum á því að sýna ákveðni. Og þótt viðskipti séu mikilvæg eru þau aldrei svo þýðingarmikil að með þeim megi kaupa sér frið til að geta beitt aðra ofbeldi og kúgun. Það getur reynst nauðsynlegt að fórna einhverju í þessu máli af okkar hálfu og við megum ekki telja það eftir. Grænlendingar ákváðu að hætta þegar að ræða við Sovétmenn um fiskveiðar í Barentshafi og það er reisn yfir þeirri ákvörðun. Ég skora á ríkisstjórnina að kalla sendinefndina nú þegar heim, hafi það ekki þegar verið gert. Við verðum að gera það sem í okkar valdi stendur til að stöðva það ofbeldi sem þarna á sér stað og að Sovétmenn dragi heri sína þegar í stað út úr Litáen.
    En það er ekki bara við Eystrasalt sem blikur eru á lofti. Við Persaflóa vofir nú yfir styrjöld. Óhugnanlega miklar líkur eru á að jafnvel strax eftir morgundaginn komi til átaka. Ef það gerist hefur það hroðalegar afleiðingar. Hundruð þúsunda barna, kvenna og karla gætu látið lífið og mikil hætta er á eyðileggingu umhverfis og auðlinda sem getur haft veruleg áhrif á lífsskilyrði næstu áratugina.
    Allt frá innrás herja Saddams Husseins inn í Kúvæt þann 2. ágúst sl. hefur þessi hætta vofað yfir. Saddam Hussein hefur virt að vettugi áskoranir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að draga heri sína út úr Kúvæt og viðleitni til að finna friðsamlega lausn á málum hefur enn engan árangur borið. Hussein virðist ekki vilja gefa neitt eftir.
    Innrás Íraka inn í Kúvæt snýst fyrst og fremst um olíu. Írak og Kúvæt hafa til samans yfir að ráða um 40% af olíulindum svæðisins. Þegar Cheney varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sat fyrir svörum í bandaríska þinginu á dögunum um hugsanlegar afleiðingar styrjaldar við Persaflóa spurði hann þingmenn hvað þeir héldu að olíuverð mundi hækka mikið ef Írakar kæmust upp með að ráða yfir svo miklum olíubirgðum. Hækkun olíuverðs virðist vera honum ofar í huga en aðrar afleiðingar styrjaldar. Því miður hefur þjóðum oft áður verið sýnt ofbeldi á svipaðan hátt og

Írakar beita nú gagnvart Kúvæt og það án þess að þjóðir heims hafi sameinast gegn innrásaraðilanum. Það væri vert að hugleiða hvers vegna.
    Aðalmálið hjá mörgum þeirra sem nú fylkja liði gegn Írak virðist því miður ekki vera að standa vörð um lýðréttindi eða vilja kúvæsku þjóðarinnar, heldur tryggja sér aðgang að ódýrri olíu í Mið - Austurlöndum. Þetta hafa margir gagnrýnt, m.a. margir öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum. Miklar deilur hafa verið á bandaríska þinginu um það hvort veita ætti forsetanum heimild til að ákveða að ráðast inn í Kúvæt. Það var samþykkt með naumum meiri hluta í öldungadeild bandaríska þingsins eða með 53:47 atkv.
    Ef horft er á löndin á Arabíuskaganum og reynt að gera sér í hugarlund hvað muni gerast ef herir Bandaríkjamanna og þeirra ríkja sem hafa sameinast í Saudi - Arabíu beita valdi til að ná Kúvæt úr höndum Íraka verðum við að gera okkur grein fyrir því að á skaganum má segja að búi sama fólkið með sömu tungu og sömu trú. Öll landamæri á svæðinu voru dregin upp af erlendu stórveldi án samráðs við íbúana. Þannig voru Írak og Jórdanía t.d. ekki til fyrr en eftir 1930 og Kúvæt fékk ekki sjálfstæði fyrr en 1962 og oftast hafa þessi ríki staðið saman í deilumálum á móti öðrum.
    Í flestum þessara landa eru ríkisstjórnir sem ekki hafa fengið vald sitt frá fólkinu í lýðfrjálsum kosningum og því er alls ekki víst að vilji ríkisstjórnanna endurspegli vilja meiri hluta fólksins. Almenningur lítur ekki svo á að landamæri milli landa skipti höfuðmáli, enda má ekki hafa landamæri milli trúaðra samkvæmt því sem Kóraninn segir. Það er því ekki víst að almenningur muni styðja hernaðaraðgerðir gegn Írökum þó ríkisstjórnir landanna við Persaflóa séu andsnúnar innrás Íraka inn í Kúvæt, sérstaklega þó ef Hussein tekst að sannfæra fólk um að þar verði um að ræða heilagt stríð.
    Ég er ekki viss um að við Vesturlandabúar gerum okkur grein fyrir hve trúin er stór hluti af lífi fólksins og að Kóraninn er í raun þeirra sameiginlega stjórnarskrá. Það er því ákaflega erfitt að setja vestrænan mælikvarða á það sem þarna mun gerast. Sérstaklega má búast við því að múslimar snúi bökum saman ef Ísrael blandast inn í átökin. Það er því ekki víst að eins auðvelt verði að brjóta á bak aftur innrás Íraka eins og margir, t.d. Bush og Baker, virðast halda. Það er því engin lausn í þessu máli frekar en öðrum að reyna að leysa það með ófriði. Stríð er engin lausn. Við hljótum þess vegna að spyrja hvort búið sé að reyna til þrautar að finna friðsamlega lausn á málum. Ég hef sannfæringu fyrir því að svo sé ekki.
    Efnahagsþvinganir Sameinuðu þjóðanna hafa ekki haft langan tíma til að hafa áhrif. Í raun virðast þær ekki hafa neitt verulegt að segja fyrir Íraka. Ef tíminn sem efnahagsþvinganirnar stæðu yfir yrði lengdur er ég viss um að þær hefðu farið að segja til sín og neytt Íraka að samningaborðinu.
    En það eru fleiri leiðir ræddar. Mikið er nú rætt um að lykillinn að friðsamlegri lausn geti verið að tekið sé á vandamálum fyrir botni Miðjarðarhafs í víðara samhengi samhliða lausn Kúvætmálsins. Í því samhengi er Palestínumálið stór þáttur og á því þarf að taka hvort sem er. Ef haldin yrði alþjóðleg ráðstefna um Palestínumálið með þátttöku allra deiluaðila og fulltrúa öryggisráðsins í samræmi við samþykktir Sameinuðu þjóðanna væru miklar líkur á að hægt væri að koma í veg fyrir styrjaldarátök við Persaflóa. Jafnvel þótt andstaða sé hjá einhverjum gegn slíkri málsmeðferð má hún ekki verða til þess að hægt sé að koma í veg fyrir ógnvænlega styrjöld þar sem enginn getur sigrað. Í stríði tapa allir. Það er alveg ljóst að það verður að leysa þessi vandamál og það virðist ekki vera nein lausn í sjónmáli önnur en að reyna að komast út úr þeim hnút sem málið er nú í og þess vegna held ég að þarna sé lausn í sjónmáli. Ísland á að lýsa nú þegar andstöðu sinni við stríðsaðgerðir og leggja áherslu á friðsamlega lausn málsins.
    Palestínumenn eru einnig hernumdir og hafa verið það lengi. Það getur því ekki verið neitt á móti því ef unnt verður að leysa málefni þeirrar hrjáðu þjóðar og um leið að frelsa Kúvæt undan hernámi Íraka. Hvers vegna er þetta svona slæm leið? Heyrt hef ég að þá gæti Hussein e.t.v. fengið of mikið hrós fyrir. En hve mikils virði er friður í hugum þeirra sem hugsa svo?
    Virðulegi forseti. Í þessu máli verður að finna friðsamlega lausn þótt tíminn sé að renna út. Þótt Ísland sé ekki stórveldi skiptir rödd okkar þó miklu máli í sinfóníu þjóðanna. Við eigum að leggja áherslu á að vopn leysa engin deilumál hvort sem þau eiga sér stað við Persaflóa eða Eystrasalt. Mig langar að lesa upp tvær ályktanir sem kvennalistakonur sendu frá sér á laugardaginn. Sú fyrri er frá fundi sem haldinn var í Reykjavík og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alla þessa öld hafa friðarhreyfingar kvenna beitt sér gegn stríði og fyrir friðsamlegum lausnum deilumála. Sú eyðing lífs og átök sem nú blasa við hljóta því að kalla á sterk viðbrögð hjá konum. Á fundi kvennalistakvenna víðs vegar að af landinu sem haldinn var í Reykjavík laugardaginn 12. jan. komu fram þungar áhyggjur vegna þess hættuástands sem nú ríkir í heiminum.
    Austur við Persaflóa standa herir gráir fyrir járnum og hætta er á að styrjöld brjótist út innan fárra daga. Þau átök kunna að kosta hundruð þúsunda barna, kvenna og karla lífið. Mikil hætta er á verulegri eyðileggingu umhverfis og auðlinda sem getur haft áhrif á lífsskilyrði næstu áratugina. Því er mikilvægt að allar þjóðir heims leggist á eitt og komi í veg fyrir að styrjöld brjótist út. Íslensk stjórnvöld verða að leggja sitt lóð á vogarskálarnar með því að tala máli friðar og samninga hvar sem því verður við komið og lýsa yfir andstöðu við stríðsaðgerðir. Kvennalistinn telur einu færu leiðina til friðar vera þá að þegar verði sest að samningaborði.
    Beiting hervalds gegn Litáum er önnur birtingarmynd hugarfars hermennskunnar sem ógnar friði og bættum samskiptum þjóða. Kvennalistinn leggur áherslu á friðsamlega lausn þessa máls sem annarra en hún fæst ekki nema Sovétstjórnin dragi heri sína þegar í stað út úr Litáen og semji við Eystrasaltsríkin um framtíð þeirra og sjálfstæði.``
    Hin ályktunin er frá fundi kvennalistakvenna á Vesturlandi og hún hljóðar svo:
    ,,Fundur haldinn í gistihúsinu Langaholti á Snæfellsnesi 11. og 12. jan. skorar á ríkisstjórnina að lýsa nú þegar andstöðu Íslands við stríðsaðgerðir við Persaflóa. Kvennalistakonur hugsa þessa dagana sérstaklega til kvenna um heim allan, sem eru að fæða börn og til þeirra barna sem lifa við stöðugan ótta um stríð. Í hótunum um stríð birtist hugarfar sem er í hróplegri mótsögn við menningu kvenna sem þiggur kraft sinn frá endurnýjun lífs, verndun þess og viðhaldi. Kvennalistakonur á Vesturlandi benda á að hernaðarátök eru engin lausn á deilumálum þjóða og hvetja íslensku þjóðina og ráðamenn hennar til að sýna samstöðu með þeim sem vilja friðsamlega lausn á málum.``
    Ég vil að lokum endurtaka áskorun mína til ríkisstjórnarinnar, að leggja sitt af mörkum til að finna friðsamlega lausn á þessum stóru deilumálum og gera allt til að koma í veg fyrir styrjaldarátök. Ísland á að lýsa formlega yfir andstöðu sinni við öll hernaðarátök við Persaflóa. Ég vil spyrja forsrh. að því hvort hann sé tilbúinn til að gera það. Jafnframt vildi ég fá að heyra álit hæstv. forsrh. og utanrrh. á því hvort þeir telji að styrjöld við Persaflóa geti leyst nokkur vandamál. Ég tel alls ekki svo vera því að ef styrjöld brýst út tapa allir, þar verður enginn sigurvegari.