Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið váleg tíðindi þegar fregnir af því bárust að Sovétríkin hefðu beitt hervaldi til þess að kúga smáríkið Litáen. Vonbrigðin eru því meiri þegar hugsað er til baka að nýlega hafa ríki Austur-Evrópu risið hvert á fætur öðru og losað um tökin. Þar hafa á þeim þróunarferli sem hófst árið 1989 myndast lýðfrjáls ríki á nýjan leik eftir margra áratuga hersetu Sovétríkjanna í þessum ríkjum. Þess vegna eru vonbrigði okkar meiri að svo virðist sem á þessari þróunarbraut sé nú verið að stíga stórt skref til baka. Óneitanlega hljótum við að hugsa til þeirra sem búa í ríkjum Austur-Evrópu. Þeim hlýtur að stafa mikil ógn af þessum síðustu atburðum og þeir hljóta að hugleiða það hvort þeir eigi e.t.v. eftir að horfa upp á að herir Sovétríkjanna muni enn á ný halda innreið sína jafnvel í þau ríki Austur-Evrópu sem þegar hafa fengið fullt frelsi og teljast nú til lýðfrjálsra ríkja álfunnar.
    Við hljótum að fordæma þessar aðgerðir með öllum tiltækum ráðum og beita öllum þeim aðgerðum sem tiltækar eru til að koma í veg fyrir að þetta nái fram að ganga og vikið verði af þeirri braut þíðu og frjálslyndis sem Evrópuríkin hafa öll verið á að undanförnu. Það er því mikilvægt að það sé mjög sterk samstaða meðal Íslendinga, allrar þjóðarinnar, og þar á ég fyrst og fremst við að sjálfsögðu ríkisstjórn og þing, að ekki komi fram sundurlyndi okkar á meðal þannig að menn fari að nota sér þetta alvarlega ástand til þess að slá pólitískar keilur og fara að hagnast á þeim innbyrðis átökum sem því miður einkenna mjög alla pólitíska umræðu á Íslandi. En ég tel af þeim umræðum sem nú þegar hafa farið fram að svo sé ekki. Ég fagna þeirri samstöðu sem hefur komið fram í máli hv. þm. sem hér hafa talað á undan og vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar og lýsa yfir fullri samstöðu okkar þingmanna Borgfl. við þær aðgerðir sem þegar hafa verið við hafðar af hálfu ríkisstjórnar Íslands og fullri samstöðu með þeim þingmönnum og þeim yfirlýsingum sem hér hafa komið fram af hálfu annarra hv. þm.
    Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt og okkur Íslendingum ber skylda til þess að reyna að hafa áhrif á aðrar þjóðir og þau samtök annarra þjóða sem við eigum aðild að til þess að fljótt og skjótt verði brugðist við þessum válegu tíðindum. Ég tek því undir og fagna með öðrum sem hér hafa tekið til máls því frumkvæði hæstv. utanrrh. sem hefur haft samband við starfsbræður sína hjá NATO og óskað eftir að þeir taki málið upp á þeim vettvangi. Sömuleiðis hljótum við að þurfa að fylgja eftir frekar þeim aðgerðum sem við höfum séð af hálfu starfsbræðra okkar á hinum Norðurlöndunum. Og við hljótum að horfa til Sameinuðu þjóðanna og vonast til þess að þær taki málið enn frekari og fastari tökum.
    Því miður eru víðar blikur á lofti og án þess að ég ætli að gera hér sérstaklega að umtalsefni þau válegu tíðindi sem einnig eru að gerast í Mið-Austurlöndum þá er ekki nokkur vafi á því að tímasetningin sem

Sovétmenn hafa valið tengist þeim atburðum, því það leikur sá grunur á að sovéska herstjórnin hafi séð leik á borði að hún gæti e.t.v. falið þessi ofbeldisverk sín í Eystrasaltslöndunum í skjóli þeirra atburða sem nú eru að gerast í Mið-Austurlöndum.
    Ef ekki tekst með öllum tiltækum ráðum sem hefur verið fjallað um hér í ræðum hv. þm. að framan, að knýja Sovétríkin til þess að hætta við þau ofbeldisverk sem þegar eru framin í Eystrasaltsríkjunum og stuðla að þeirri þróun sem þar er að eiga sér stað, a.m.k. að reyna ekki að koma í veg fyrir hana eins og hér er augljóslega verið að gera, þá hljótum við að íhuga hvort ekki verði að fara út í mjög harkaleg viðbrögð gegn þessum aðgerðum Sovétríkjanna. Ég vil varpa fram þeirri hugmynd hvort ekki komi til greina að Íslendingar ríði þar á vaðið með mjög harkalegum aðgerðum. T.d. finnst mér fyllilega koma til greina að við köllum sendiherra okkar heim frá Sovétríkjunum, ef ekkert gerist til þess að koma ástandinu í það horf aftur sem það var áður. Eins hljótum við að íhuga það ásamt með öðrum þjóðum hins frjálsa heims að dregið verði úr öllum áformum, eða hætt við öll áform um frekari efnahagsaðstoð til Sovétríkjanna. Og við hljótum að taka alla viðskiptasamninga sem við höfum gert við Sovétríkin til endurskoðunar ef fer fram sem horfir. Þetta hljótum við að taka til mjög alvarlegrar yfirvegunar því það getur ekki staðist að við eigum eðlileg samskipti við Sovétríkin ef þau halda áfram á þeirri braut sem hófst hér sl. helgi.
    Mig langar til að fjalla eilítið um afstöðu Norðurlandanna og þá sérstaklega samstarfsráðherra Norðurlanda. Á vettvangi þeirra hafa verið í undirbúningi margháttuð verkefni og samstarf við Eystrasaltsríkin. Hljóta þessir síðustu atburðir að hafa veruleg áhrif á þau áform. Það var 9. okt. í haust sem leið að sérstök framkvæmdaáætlun samstarfsráðherra Norðurlandanna var samþykkt um samstarf og verkefni með Eystrasaltríkjunum og öðrum ríkjum í Austur-Evrópu. Þessi framkvæmdaáætlun er mjög víðtæk og til hennar hefur verið veitt mjög umtalsverðum fjármunum af hálfu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.
    Í fyrsta lagi er fyrirhugað að koma upp norrænum upplýsinga- og menningarskrifstofum í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna sem verða kostaðar af ráðherraskrifstofunni í Kaupmannahöfn. Hér er um að ræða að það verði opnaðar skrifstofur í Tallinn, Riga og Vilnu, með einum starfsmanni og hugsanlega einhverjum fleiri sem hugsanlega verða fengnir í þeim ríkjum þar sem þessar skrifstofur verða reknar. Þegar hafa verið auglýstar stöður forstöðumanna þessara þriggja skrifstofa á öllum Norðurlöndunum.
    Þá gerði framkvæmdaáætlunin ráð fyrir því að veitt yrði umtalsverðum fjármunum til þess að geta boðið nemendum frá Eystrasaltsríkjunum upp á námsstyrki til námsdvalar á öllum Norðurlöndunum en það er kannski það skynsamlegasta sem við getum gert til að hjálpa Eystrasaltsríkjunum á þeim þróunarferli sem þau vonandi fá frið til þess að halda áfram á í átt til frjálsra lýðvelda, þ.e. að hjálpa þeim við að mennta unga fólkið og kenna þeim á hvernig lýðfrjáls ríki

hegða sér og hvernig hinn daglegi gangur á sér stað í lýðfrjálsum ríkjum heimsins.
    Í þriðja lagi var svo um að ræða alhliða menningarsamstarf og hvers kyns verkefni sem hugsanleg væru milli Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, bæði á sviði menningarstarfsemi og umhverfismála, svo dæmi séu tekin.
    Fjallað var um umsóknir um styrki til margháttaðra verkefna á fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna nýverið í Kaupmannahöfn. Ég verð að segja eins og er að það olli mér nokkrum vonbrigðum að þar var um að ræða umsóknir um ein 40 -- 50 samstarfsverkefni en þar voru Íslendingar hvergi á blaði. Því miður er það nú svo að okkur hættir stundum til að tala mikið en gera minna. Og það vil ég að komi fram hér að það vakti mikla furðu mína að svo virðist að enginn hafi séð ástæðu til þess að sækja um styrk fyrir hönd Íslands til eins einasta samstarfsverkefnis við Eystrasaltsríkin í þeim aragrúa af verkefnum sem þar voru til umfjöllunar á okkar fundi.
    Ég lít svo á að við getum gert mest með því að eiga samskipti við fólkið sem býr í þessum löndum, hjálpa því á ýmsa lund, bjóða því í heimsókn til hinna Norðurlandanna, bjóða ungu fólki frá Eystrasaltsríkjunum að koma hingað og fræðast um okkar búskaparhætti og kenna því á hina ýmsu þætti viðskiptalífs, iðnaðar og landbúnaðar, svo dæmi séu tekin. Því er mjög brýnt að við sinnum þessu og ég ítreka það enn og aftur að það er betra að gera eitthvað og tala kannski pínulítið minna.
    Fyrirhuguð er heimsókn af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar til Eystrasaltsríkja en í ljósi þeirra atburða sem nú hafa gerst hafði ég samband við skrifstofu formanns ráðherranefndarinnar og spurðist fyrir um hvort af þessari heimsókn yrði. Og eins hvort við mundum halda okkur við þau áform að koma upp sérstökum menningar- og upplýsingaskrifstofum í höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna í ljósi þessara atburða.
    Það er samstaða okkar samstarfsráðherranna um að bíða nú átekta því að sjálfsögðu kemur það ekki til greina að eiga nein samskipti við einhvers konar leppstjórnir Sovétríkjanna sem kynnu að verða myndaðar í Eystrasaltsríkjunum. Hins vegar er fastur ásetningur okkar að halda samskiptum við þær útlagastjórnir sem kunna að verða myndaðar. Ef þróunin verður með þeim hætti að Rússar ætla að fylgja þessu eftir af hörku og reka lögmætar stjórnir þessara lýðvelda frá völdum og koma leppstjórnum sínum þar upp í staðinn þá hljótum við að taka allt þetta samstarf til gagngerðrar endurskoðunar.
    Síðan langar mig til að víkja aðeins að svokallaðri Rönneby-áætlun. Sl. haust á fundi sem allir forsætisráðherrar þeirra ríkja sem eiga lönd að Eystrasalti sóttu í Rönneby í Svíþjóð varð til svokölluð baltnesk áætlun um að sinna af miklum krafti og í samstarfi allra þessara landa umhverfisverkefnum í Eystrasaltsríkjunum, þ.e. að hreinsa upp strendur og koma í veg fyrir þá mengun sem er í Eystrasaltinu vegna starfsemi í öllum löndum sem eiga eins og ég segi strandlengju að Eystrasalti. Það var stofnað sérstakt baltneskt ráð til að halda utan um þetta verkefni og ætla Norðurlöndin að veita umtalsverðum fjármunum til þess.
    Nú er það svo að þrátt fyrir blikur á lofti í alheimsstjórnmálum og þó að þessi afturkippur hafi orðið á hinum pólitíska vegi Eystrasaltsríkjanna til frjálsræðis þá megum við að sjálfsögðu ekki láta það hafa þau áhrif að hætt verði við öll áform um að bæta ástand í umhverfismálum í þessum ríkjum. Hins vegar verður það að vera jafnljóst að við getum ekki verið í samvinnu við einræðisöflin né heldur leppstjórnir þeirra sem hafa kannski verið settar til höfuðs lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum þessara ríkja. Því hljótum við einnig að taka það samstarf allt til endurskoðunar og láta það koma skýrt fram að við munum ekki og viljum ekki vera í samstarfi við einræðisöflin sem þarna eru augljóslega komin á kreik aftur. Við hljótum því að taka þessi mál mjög til athugunar núna næstu daga og vikur. En að sjálfsögðu vil ég ítreka það að lokum að við hljótum að gera allt sem í okkar valdi stendur, Íslendinga, og þar legg ég mikla áherslu á það að um það skapist samstaða hér meðal okkar á Alþingi og í ríkisstjórn og meðal allrar þjóðarinnar í heild sinni, að við beitum öllum tiltækum ráðum sem okkur standa til boða til að reyna að hafa áhrif á þessa þróun og knýja Sovétríkin til þess að fara aftur inn á þá braut sem þessi mál voru komin inn á sem allir voru sáttir við.