Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka ríkisstjórninni fyrir þau viðbrögð sem hún hefur haft í frammi í sambandi við þau tíðindi sem hafa orðið, sérstaklega í Eystrasaltsríkjunum. Það fer ekki á milli mála að allur heimurinn reynir að fylgjast með slíkum málum og stendur á öndinni hvað gerist á næstu mínútum. Þó eru það tveir atburðir sem hafa skeð nú sem standa efst, það er valdbeitingin hjá Moskvuvaldinu í Litáen og síðan hlutur forseta Rússlands, sem eru ákaflega mikilsverð tíðindi. Ég fyrir mitt leyti ber miklar vonir um árangur af því frumkvæði vegna þess að hann er forseti langvoldugasta, fjölmennasta og besta stæða lands Ráðstjórnarríkjanna. Þær vonir hljóta að vera uppi um það að hans frumkvæði verði til þess að þeir sem ráða ferðinni í Eystrasaltslöndunum, hverjir sem það eru, hiki við. Hins vegar bendir allt til þess að það sé annaðhvort orðin uppreisn í Sovétríkjunum eða geti orðið eftir það frumkvæði sem forseti Rússlands hefur sýnt.
    Ég held að það sem við verðum auðvitað að gera sé að reyna að verða við þeim óskum sem Eystrasaltsríkin hafa komið á framfæri við okkar ríkisstjórn og eiga kannski eftir að koma með. Ég held að það hljóti að koma fyllilega til athugunar að kalla sendiherra okkar heim strax til skrafs og ráðagerða og til þess að undirstrika okkar afstöðu. Ég held líka að það hljóti að koma nú upp athugun á því hvort við eigum ekki að árétta yfirlýsingu okkar frá 1922 um að við styðjum sjálfstæðisyfirlýsingar Eystrasaltsríkjanna. Það er sagt að það þurfi ekki en við þurfum bara að athuga að það er orðið æði langt síðan þau voru hernumin og hafa ekki haft sjálfstæði.
    Mér finnst það hljóti að vera sjálfsagt mál að kalla viðskiptasendinefndina heim frá Moskvu og ég er eiginlega undrandi yfir því slysi, sem ég vil kalla, að hún skuli hafa farið til Moskvu eftir að það er ljóst hvað þeir sem ráða hernaðaraðgerðum í Eystrasaltsríkjunum ætlast fyrir og hafa gert.
    Ég held líka að hæstv. ríkisstjórn okkar ætti að senda forseta Rússlands orðsendingu og lýsa yfir stuðningi og aðdáun á frumkvæði hans að reyna að koma í veg fyrir valdbeitingu í Eystrasaltsríkjunum. Það eru mikilsverðustu viðbrögðin sem hafa verið í þessu máli.
    Ég held að við hljótum að ná samstöðu um það að þrátt fyrir lög og reglur NATO - ríkjanna komi það aldrei til greina að við verðum aðilar að stríðsrekstri á neinn hátt. Það er alveg andstætt okkar viðhorfum sem hafa verið í gegnum síðustu áratugi a.m.k.
Þannig að ég var nú alltaf hissa á því að við skyldum ekki hafa fyrirvara á þessu lagafyrirmæli. En eitt slys hefur orðið hér hjá okkur, að ég tel, --- ég hefði nú viljað að hv. 1. þm. Suðurl. væri hér inni, því að það eru ummæli hans við fjölmiðla í gær. Við vitum það að enginn maður sem nú er uppi hefur í raun og veru haft meiri áhrif á gang mála á undanförnum árum en einmitt forseti Sovétríkjanna, Gorbatsjov. Þessi maður fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir sín störf

og þær breytingar sem hann hefur komið á í heiminum. Ég held að þau hljóti að hafa verið slys, þau stóru orð sem formaður Sjálfstfl. hafði í frammi og ég var að vona það þegar hann var hér uppi áðan og flutti sína ræðu að hann tæki þau að einhverju leyti til baka. Ég vil ekki hafa þessi orð yfir. Þau vekja það mikla undrun mína að slíkt hafi getað skeð.
    Mér sýnist að það sé tvennt sem er að gerast í Rússlandi og hljóti að vera skýringin á þessu. Annaðhvort er það að Gorbatsjov er niðurbrotinn maður eða þá að það er orðin uppreisn hersins og hann hefur ekki tök á málum. Og það er margt sem bendir til þess. Það er t.d. afsögn utanríkisráðherra hans hér á dögunum, það eru hin hörðu og ákveðnu viðbrögð forseta Rússlands. Ég held að maður, sem er formaður stærsta stjórnmálaflokks Íslendinga, fyrrv. forsrh., geti hafa skaðað eða skaði álit okkar erlendis með svona ummælum og ég held að það hljóti að verða einhverjir af hans flokksmönnum sem gefa skýringu á þessum ummælum og taki þau til baka vegna þess að þögn er sama og samþykki.
    Ég ætla ekki að fara að tala mikið um mál við Persaflóa. Það er búið að segja það margt um það að undanförnu að það er í raun og veru ekki neinu við það að bæta. En ég held að það hafi verið mjög rétt hjá Norðurlöndunum hvernig þau hafa staðið að þeim málum og ég stend í þeirri trú og er alveg samþykkur því sem hefur komið fram hér hjá öðrum, t.d. hjá þingflokki Alþb., að það hafi ekki verið og sé ekki fullreynt hvort hægt er að ná samkomulagi án þess að það verði stríðsátök. En það veit enginn hvaða skelfilegar afleiðingar verða ef stríðsátök verða þar, hvað það muni leiða yfir heiminn á næstunni og hverjir muni blandast inn í það. Þess vegna hljótum við, sem erum vopnlaus þjóð sem viljum leysa mál með samningum en ekki valdi --- og getum auðvitað ekkert annað, hitt væri bara sýndarmennska ef við léðum máls á því að verða stríðsaðilar, við höfum engan her, kunnum ekki einu sinni að skjóta úr byssu. Þess vegna væri það athugandi hvort ekki væri hægt að hafa áhrif á það að a.m.k. yrði ekki byrjað strax á morgun á stríðsrekstri við Persaflóa og reyna að gera fleiri tilraunir til þess að komast hjá slíkum hörmungum sem það mun leiða yfir.