Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að í þessum umræðum hefur komið fram einróma fordæming Alþingis Íslendinga á hernaðaríhlutun Sovétríkjanna í málefnum Litáens og eindreginn stuðningur við þá lýðræðisþróun sem fram hefur farið í þessum ríkjum. Það er líka ljóst að við Íslendingar gegnum mikilvægu hlutverki á þessum dögum. Ástæðan er sú að forustumenn þessara ríkja binda vonir við okkar verk og hafa sýnt það á undanförnum vikum og mánuðum og við erum smáþjóð sem getur með meiri rétti gert kröfu til þess að þjóðir heims styðji aðrar smáþjóðir.
    Það koma stundum þeir tímar að menn þurfa að sýna stuðning sinn við lýðræði og mannréttindi með víðtækari hætti heldur en bara í orðum. Yfirlýsingarnar einar og sér duga ekki. Verkin verða að tala með þeim hætti að þeir sem boðin eiga að fá finni að þeim fylgi mikil alvara.
    Í þessum umræðum hefur verið kynnt ályktun þingflokks Alþb. Í henni koma fram nokkrar tillögur um aðgerðir af okkar hálfu. Ég vil í þessari umræðu, og áður en þingflokkar koma saman hér til fundar síðdegis, beina fyrir hönd Alþb. þeim eindregnu tilmælum til annarra þingflokka að þeir íhugi rækilega þær tillögur sem hér eru settar fram.
    Í fyrsta lagi teljum við mikilvægt að það séu ekki aðeins forustumenn á vettvangi stjórnmála sem lýsa afstöðu sinni til þessara hrikalegu atburða heldur geri það þjóðin öll. Það getur gerst með ýmiss konar hætti en það hefur skapast sú venja í gegnum tíðina að örstutt stund, sameiginleg þagnarstund þjóða, sé eitt áhrifaríkasta tæki sem þeir eiga til þess að sýna samstöðu sína og samhug. Ég er viss um að það muni verða þjóðum Eystrasaltsríkjanna mikil hvatning ef það gerist á morgun að öll íslenska þjóðin nemur staðar stutta stund, stöðvar vinnu sína og umferð til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi hvers einasta Íslendings við málstað þeirra sem nú berjast fyrir lýðræði og frelsi í Eystrasaltsríkjunum.
    Ég vil þess vegna beina þeim tilmælum til annarra þingflokka að þeir hugleiði hvort formenn þingflokka og forsetar þingsins eigi á þessum degi að beina þeim tilmælum til allrar íslensku þjóðarinnar að kl. 2 á morgun í upphafi þingfundar sameinist allir Íslendingar í tvær mínútur í slíkri aðgerð. Ég er viss um að ef það gerðist þá yrði það ekki aðeins mikið fagnaðarefni hinum almennu borgurum í Eystrasaltsríkjunum heldur einnig mikilvægt vegarnesti fyrir forustumenn íslensku þjóðarinnar sem á næstu vikum og mánuðum geta þurft að grípa til veigameiri aðgerða á alþjóðavettvangi til stuðnings Eystrasaltsríkjunum en Íslendingar hafa almennt gert.
    Við skulum gera okkur grein fyrir því að þótt við séum smáþjóð þá höfum við verið í forustu vestrænna ríkja í stuðningi við Eystrasaltsríkin. Sú forusta hefur bæði komið fram á Alþingi, hjá forsrh., hjá utanrrh., hjá formanni Sjálfstfl. og hjá mörgum öðrum þingmönnum sem hafa lýst þessum stuðningi í verki. Það er mikilvægt að Íslendingar haldi þessu forustuhlutverki því að í því felst lýðræðislegur styrkur.
    Í öðru lagi teljum við mjög mikilvægt að Íslendingar kalli nú á hollustu vestrænna ríkja við lýðræði og mannréttindi og knýi á um það að önnur vestræn ríki og Evrópuríki sýni í verki stuðning sinn við lýðræðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna en hernaðarhagsmunir við Persaflóa og nauðsyn á því að láta Sovétstjórnina blessa þær hernaðaraðgerðir með einum eða öðrum hætti verði ekki látnar verða til þess að Vesturlöndin hiki í afstöðu sinni á þessari örlagastund í sögu þjóðanna við Eystrasalt. Mér finnst þess vegna koma til greina að utanrrh. Íslands geri sér á næstu dögum ferð til bæði Washington og nokkurra höfuðborga Evrópu til þess að leggja áherslu á þennan þátt.
    Í tillögu Alþb. kemur einnig fram sú hugmynd að allir forsætisráðherrar Norðurlanda sem sameinuðust í einu bréfi í gær komi saman til fundar á allra næstu dögum og þar verði einnig forsetar þinganna og forsætisnefnd Norðurlandaráðs þannig að æðstu menn Norðurlandanna allra komi saman til þess að sýna í verki að Norðurlöndin ætla sér að gegna stuðningshlutverki við Eystrasaltsríkin --- ekki bara í dag og ekki bara á morgun heldur eins lengi og þarf þar til sjálfstæði og lýðræði hafa fest í sessi í þessum ríkjum.
    Að lokum vil ég árétta það sem fram kemur í þessari ályktun en lítt hefur verið rætt í þessari umræðu að það getur verið nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga, ef hernaðaríhlutunin heldur áfram af hálfu Sovétstjórnarinnar í málefnum Eystrasaltsríkjanna, að grípa til þeirra aðgerða af okkar hálfu að slíta þau efnahagstengsl, þau stjórnmálatengsl og þau félagstengsl og þau menningartengsl sem þróast hafa í samskiptum við Sovétstjórnina. Við getum þurft að fórna skammtímaviðskiptahagsmunum til þess að sýna í verki stuðning okkar við lýðræðisþróunina og frelsisbaráttuna í Eystrasaltsríkjunum. Við megum ekki fara að meta það hvort gjaldeyristekjur okkar eða útflutningshagsmunir séu það stórir að við getum ekki gripið til slíkra aðgerða. Við þurfum að vera reiðubúin að sýna það að við viljum fórna einhverju í þágu þessa málstaðar. Þess vegna tel ég að bæði ríkisstjórnin og flokkar stjórnarandstöðunnar eigi að ræða það við aðra forustumenn í okkar þjóðfélagi á næstu dögum hvort og hvenær verður gripið til slíkra aðgerða.
    Ég vil einnig hér setja fram þá hugmynd að ef svo illa fer að herinn í Sovétríkjunum tekur völdin algjörlega og brýtur lýðræðisþróunina í Eystrasaltsríkjunum á bak aftur og þau telja sig knúin til þess að setja á fót útlagastjórnir, þá bjóði Ísland slíkri útlagastjórn sæti í okkar landi. Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin lýsi því yfir að við séum tilbúin til þess að okkar land verði meðan þarf heimkynni þeirrar lýðræðisbaráttu sem þarf að heyja utan Eystrasaltsríkjanna fyrir sjálfstæði, frelsi og lýðræði þessara ríkja. Ég vona að til þess þurfi ekki að koma. En við þurfum hins vegar að vera reiðubúin til þess að ef svo illa fer, þá verði fulltrúum frelsisaflanna í Eystrasaltsríkjunum boðinn sá griðastaður sem þeir helst vilja kjósa sér og ef þeir vilja kjósa hann á Íslandi, þá séum við reiðubúin að vera gististaður og heimkynni slíkrar útlagastjórnar.
    Virðulegi forseti. Fyrstu daga desembermánaðar átti ég þess kost í hópi þingmanna frá Bandaríkjunum og Bretlandi að eiga klukkustundar fund með Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna. Á þeim fundi kom m.a. fram að sovéski herinn hefði framkvæmt tilraunasprengju með kjarnorkuvopn gegn hans vilja. Á þeim fundi kom einnig fram að hann lýsti því yfir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að sínu valdi væru takmörk sett og það var greinilegt í orðræðunni við Gorbatsjov og eins í viðtölum við forustumenn aðra og fulltrúa á þjóðþingi Sovétríkjanna að óvissan og spennan var slík að enginn vissi hvað mundi gerast næsta dag, hvað þá heldur í vikunni þar á eftir.
    Á þessum viðræðufundi sagði Gorbatsjov okkur einnig að friðarverðlaun Nóbels sem væru honum mjög dýrmæt veittu honum siðferðilega hvatningu og legðu honum siðferðilegar skyldur á herðar til þess að gegna hlutverki á alþjóðavettvangi með öðrum hætti. Ég er persónulega sannfærður um það að sá maður sem við ræddum þar við hefur ekki getað gefið skipun um að sovéski herinn skjóti á borgara í Eystrasaltsríkjum og skapi umsátur um þjóðþingin nema hann sé gjörsamlega heillum horfinn, nema andstaðan og baráttan á síðustu mánuðum hafi brotið hann niður, bæði siðferðilega og pólitískt. Ég hef enga trú á því að hann, sem hefur svo mikið á sig lagt á síðustu árum við að breyta veröldinni, fórni þeim orðstír öllum á einum degi nema hann, eins og stundum gerist, brotni niður, eins og hver maður getur gert sem örlögin hafa lagt miklar byrðar á herðar. Ég ætla þess vegna ekki að fullyrða um það hér og nú hver þessa ákvörðun tók eða hvað var á bak við hana. En ég er sannfærður um það að innan Sovétríkjanna eru sterk öfl sem eru á móti þeirri ákvörðun, sem munu reyna að knýja á um að henni verði breytt og við eigum þess vegna líka að hugsa um það í okkar umræðu hér hvernig við getum stutt þau öfl, stutt þeirra baráttu og knúið það fram að þau verði ofan á til þess að varðveita allt það sem áunnist hefur í okkar heimsálfu á síðustu árum.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þær hugmyndir sem hér hefur verið varpað fram, bæði í tillögu þingflokks Alþb. og þær sem ég hef hér sett fram, geti orðið efniviður í sameiginlega afstöðu þings og ríkisstjórnar í dag og næstu daga. --- [Fundarhlé.]