Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þjóðir heims standa nú óhug lostnar frammi fyrir þeim stríðsátökum sem virðast við blasa við Persaflóa. Við vitum að þau vopn sem nú virðast svo hárbeitt og öflug í höndum okkar vesturveldanna geta á örskotsstund, eins flugskeytis eða kjarnorkuskeytis, snúist og orðið að helsprengju sem springur í höndum okkar sjálfra. Takist Hussein að æsa aðra Araba gegn hinum sameiginlega forna fjanda sínum Ísrael munu ýmsar arabískar ríkisstjórnir heykjast á samstöðunni með vesturveldunum, knúnar áfram af hatri því sem ræktað hefur verið meðal arabísks almennings gegn Ísrael. Því liggur við að allt sé betra en stríð við Persaflóa og vænlegra mun vera að svelta refinn í greninu fremur en að svæla hann út með efnum sem koma kannski mest niður á okkur sjálfum og bandamönnum okkar.
    Við eigum bágt með að skilja hugsunarhátt Araba og það hefur án efa háð þeim forustumönnum sem við stjórnvöl standa á Vesturlöndum. En eitt getum við skilið og það eru þarfir smáþjóða fyrir það að eiga sér öruggan samastað í viðsjárverðum heimi. Því skiljum við að bæði Palestínumenn og Ísraelsmenn þurfa að eiga sér land að búa í. Flóttamannabúðir þær sem Palestínumenn hafa búið í áratugum saman bjóða börnum þeirrar þjóðar enga framtíð og hver blóði drifinn árekstur milli þessara frændþjóða, Palestínumanna og Ísraelsmanna, leiðir þær lengra út á heljarslóðina og við, aðrar þjóðir heims, hrekjumst með þeim því hvert eitt slysaskot í Palestínu hæfir ekki aðeins þann sem verður fyrir því og deyr heldur okkur öll. Þess vegna verður að leiða deilu þessara tveggja þjóða til lykta svo báðir aðilar verði sáttir að kalla.
    Ef Írökum væri boðið upp á það að lausn fengist á þessum erfiðu ágreiningsmálum í skiptum fyrir að þeir skiluðu Kúvæt þá gætu þeir borið höfuð hátt í fararbroddi Arabaþjóða, hvort sem Hussein á það skilið eða ekki. Hér er ekki um það að ræða, heldur hitt að forða heimi frá ófriði sem getur breiðst út um mikinn hluta heims.
    Þið heyrið það, hv. þm., að ég er á öndverðum meiði við síðasta ræðumann. Ég held að við hljótum að geta skilið það að þessi maður, Hussein Íraksforseti, getur ekki látið undan nema hafa einhvern staf að styðjast við, einhvern fána að veifa framan í sína eigin landsmenn á eftir. Þess vegna er ég ekki sammála hv. síðasta ræðumanni.
    Í skjóli átakanna við Persaflóa hafa voveiflegir atburðir átt sér stað við Eystrasalt. Enn einu sinni hefur réttur hins smáa verið troðinn fótum af hinum stóra og að því er virðist sterka. Björninn rússneski lyfti hrammi og sló litla veiðibráð í Vilnius svo að blóð flæddi og fjöldi fólks lét lífið. Enn einu sinni hefur stórþjóð neytt aflsmunar í von um að aðrar þjóðir bregðist við á sama hátt og í Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi fyrir áratugum, bregðist við með veikburða mótmælum en engum athöfnum. Það voru sárir dagar þegar vorið í Prag var kæft, er stórþjóðirnar héldu að sér höndum í þögulu samþykki þess að hinn stóri

og sterki hefði ætíð rétt fyrir sér. Þetta má ekki endurtaka sig. Nú verða vestræn ríki að láta í ljós kröftug mótmæli og samstöðu með Eystrasaltsríkjunum. Við getum ekki rétt Sovétríkjunum alls konar efnahags - og matvælaaðstoð á meðan þeir drekkja frelsisþrá Litáa í blóði. Gorbatsjov getur tæpast skýlt sér á bak við það að hann hafi ekki vitað hvað var að gerast. Ef svo er hefur hann misst tökin á stjórn lands og hers. Hann verður að gera meira en að lofa fögru og sýna okkur Vesturlandabúum fágaða framhlið. Ef hann hefur ekki annað fram að færa eru hans dagar nokkurn veginn taldir.
    Það er þó ljós í þessu niðamyrkri að Boris Jeltsín hefur af djörfung stutt málstað Eystrasaltsríkja og ýmsir þingmenn sovéska þingsins virðast gera hið sama. Við í samtökum Norðurlanda verðum að grípa til öflugra mótmæla og þrýstings gagnvart Sovétstjórninni. Samstaða Norðurlanda með Finnum hefur ætíð verið þeim vörn gegn ágengni Sovétmanna og slíkan skjöld þurfum við líka að bera fyrir Eystrasaltsþjóðirnar. Evrópubandalagið og EFTA - löndin ættu nú að sýna samstöðu og kraft og reyna í sameiningu að þrýsta á Sovétveldið að leysa heljartökin á Litáen, Lettlandi og Eistlandi.
    Við megum ekki stara í skelfingu til Persaflóa á meðan helstríð er háð við bæjardyr okkar. Fái sovéski herinn mótmælalaust að vaða uppi við Eystrasalt, í Lettlandi, Litáen og Eistlandi, er trúlegt að þrengjast fari fyrir dyrum annarra ríkja sem verið hafa undir járnhæl Sovétríkjanna. Á ég þar einkum við Rúmeníu, Búlgaríu, Júgóslavíu og ef til vill Ungverjaland sem öll gætu átt von á hernaðaríhlutun úr Sovétáttinni þar eð innanlandsástand í þessum löndum er tvíbent og sums staðar jaðrar við upplausn, svo sem í Júgóslavíu. Austur - Þjóðverjar flúðu sem fætur toguðu í faðm bræðraþjóðarinnar í vestri. Pólverjar eiga sér sterka trúarhefð að byggja sitt lýðræði á og Tékkar eru gamalt iðnaðarríki með allmika lýðræðishefð. Því mun þessum þjóðum síður hætt en flestum hinna sem ég nefndi. En þau geta öll verið í stórhættu núna ef sovéski herinn fær að ráða.
    Við gætum vonað að atburðirnir í Litáen hafi verið fjörbrot farlama óargadýrs, hins sovéska hers, en það væri óskynsamlegt að trúa því. Þess vegna verða Vesturlönd að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem tiltækar eru til að hafa áhrif á það sem er að gerast við Eystrasalt. Þjóð sem beiðist aðstoðar okkar, eins og Sovétríkin hafa verið að gera, verður að skilja að sú aðstoð er ófáanleg nema á móti komi raunverulegar aðgerðir í frelsis - og lýðræðisátt fyrir Eystrasaltsríkin og raunar fyrir allar þjóðir innan Sovétríkjanna. Við vitum að þjóðir Sovétríkjanna eiga sér litla lýðræðishefð. Þær kunna ekki að hegða sér samkvæmt lýðræðisreglum og sú getur verið ástæða fyrir gerðum hersins í Vilnius. En þau verða að læra að réttur hins smáa er jafnmikilvægur og réttur hins stóra og sterka og það er hlutverk okkar að hjálpa þeim til að læra það.
    Við Íslendingar getum verið ánægðir með framgöngu íslensku ríkisstjórnarinnar til stuðnings Litáen.

Nú má ríkisstjórnin ekki láta deigan síga. Hún verður að styðja með öllum tiltækum ráðum rétt smárra þjóða til sjálfstæðis. Kúvæt, Ísrael, Palestína við Persaflóa og Rauðahaf, Litáen, Lettland, Eistland við Baltneska flóann. Það er sama hvort smáþjóðirnar eiga land við þessa stóru flóa eða hvort um er að ræða lítið land umlukt úthafi á allar hliðar. Allar þjóðir, smáar og stórar, eiga rétt á sjálfstæði og lýðræði þegnanna. Við verðum ætíð að standa vörð um þennan rétt og sjaldan hefur verið meira í húfi en nú.