Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka utanrrh. og forsrh. fyrir að hafa haldið vel á málum fyrir okkar hönd. Það var ánægjulegt að heyra og til þess að vita að Íslendingar urðu fyrir valinu þegar íbúar í Litáen sendu frá sér neyðarkall. Það er mikil og góð landkynning ef svo má segja á þessari örlagastundu að finna að við séum það vel kynnt að til okkar sé leitað og víst að mörgum Íslendingnum hlýnaði um hjartarætur og treystir okkar forustumönnum til að halda áfram að vinna það góða verk sem þarna er hafið á þessari erfiðu stundu hjá fólkinu í Eystrasaltslöndunum. Í dag hefur margt verið sagt hér, margt gott og annað skrýtið. Langar mig aðeins að stikla hér á stóru og drepa á nokkur atriði.
    Fyrsta spurningin sem leitar á mig er: Við hvern eigum við? Við hvern er að eiga í Eystrasalti? Eru það Sovétríkin eða sovéski herinn eða er þetta einhver önnur útfærsla? Það hefur ekki komið greinilega fram enn þá þannig að öllum vafa sé burtu vísað hverjir áttu hlut að máli þegar herlið réðst inn í Litáen. Var það samkvæmt skipunum frá sovésku stjórninni eða var þarna um að ræða einkaframtak hjá sovéska hernum og hugsanlega eingöngu þeirri deild hersins sem dvelur í þessum þrem löndum? Á meðan það er ekki vitað er ákaflega erfitt fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir í rauninni að átta sig á því við hvern er að sakast og hverjum á að senda þær ályktanir og þær óskir íslensku þjóðarinnar sem við erum svo hjartanlega sammála um að koma á framfæri á þessari stundu.
    Það var svo að heyra og sjá í sjónvarpsfréttum að fólkið í Litáen kallaði innrásarherinn ekki Sovétmenn heldur Asíumenn. Ég staldraði við þetta og hef velt þessu fyrir mér. Af hverju kölluðu íbúar Litáens innrásarhermennina Asíumenn? Bendir það til þess að herfylkjunum sé ekki stjórnað af Rússum, sem eru Evrópumenn í þeim skilningi, þ.e. frá Rússlandinu gamla, og þarna sé eingöngu um lengra að komnar hersveitir að ræða sem hugsanlega lúta annarri stjórn en ef Rússar ættu þarna hlut að máli? Þetta er ein af þessum spurningum sem hefur vaknað og ég hef verið að velta fyrir mér. Hefur það gerst í Sovétríkjunum, sem margir hafa spáð, að ríkin séu að leysast upp á þann hátt að Evrópuríkin séu að skilja sig frá Asíuríkjunum? Og þá er spurningin: Er það til góðs fyrir Sovétríkin og er það til góðs fyrir okkur? Hver er staða Evrópuþjóða ef upp rís stórt ríki Asíumegin í Sovétríkjunum, sem lýtur Asíusjónarmiðum og stjórn þess fólks sem þaðan kemur, en Evrópuríki Rússlands renna saman við önnur ríki Evrópu í þjóðahópum og þjóðaheildum? Hvert leitar slíkt Asíuríki? Hvar leitar það að bandamönnum? Gæti það hugsanlega orðið bandamaður Saddams Husseins eða annarra álíka þjóðhöfðingja sem rísa upp í nágrenninu við Asíulandið? Er ekki affarasælast fyrir okkur að Rússland sé áfram forustuafl í Sovétríkjunum og Rússland leiði þetta mikla bandalag sem Sovétríkin eru þannig að Evrópusjónarmiða gæti í stjórnun og framkvæmd þeirra mála

sem sambandsstjórnin fjallar um? Er það ekki meiri ávinningur fyrir Evrópuþjóðir? Þetta er ein af þeim spurningum sem hafa vaknað við þessa undarlegu hluti sem eru að gerast í Sovétríkjunum í dag.
    Við megum líka gæta þess að reka ekki of hratt á eftir þróuninni. Löndin verða að fá að feta sig áfram en taka þessa þróun ekki í mörgum stökkum. Þó að þróunin á milli Austur - og Vestur - Þýskalands hafi gengið hratt fyrir sig er ljóst að þessi víðfeðmu ríki sem ná á milli stærstu hafa eru ekki undir það búin að stíga sjálf sín spor til sjálfstæðis með sama hraða og Austur - Þjóðverjum tókst að gera í skjóli Vestur - Þjóðverja. Við megum passa okkur á því, Evrópubúar og Vesturlandafólk, að hvetja ekki svo mjög til þeirrar þróunar, sem við öll kjósum að verði, að hún verði til þess að þetta mikla ríkjasamband splundrist og leiti sitt í hverja áttina því að við sjáum ekki fyrir endann á þeirri þróun.
    Virðulegi forseti. Það hefur verið rætt um stjórnmálasamband Íslendinga við þessi ríki í umræðunum hér í dag. Það komst á árið 1922 og það er eftir því sem ég best veit við lýði enn. Því til staðfestingar má geta þess að til skamms tíma var einn virðulegur kaupsýslumaður hér í borginni, iðnrekandinn Tómas Tómasson í Ölgerðinni, ræðismaður Eistlands allt fram að því að hann lést. Ég kann ekki þessa sögu alveg en ég man eftir því að hann var titlaður ræðismaður, þessi ágæti iðnrekandi, sem staðfestir að á sínum tíma var og komst á það stjórnmálasamband við þessi lönd, eða a.m.k. eitt þeirra, sem hefur verið talað um í dag að við þyrftum að koma á. Það er fyrir hendi og þarf því vonandi ekki að hafa um það fleiri orð.
    Virðulegi forseti. Þetta er annað þeirra tveggja mála sem þjóðir heims skelfast í dag. Hitt málið gerist fyrir botni Persaflóa og vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um það líka.
    Það er sérstaklega einn þáttur þess máls sem hefur vakið mig til umhugsunar núna síðustu mánuði og það er það ógrynni vopna sem þarna hefur safnast saman. Hvernig það má í rauninni vera að vopn virðast leita hindrunarlaust út úr öllum helstu iðnaðarríkjum heimsins og í hendurnar á þjóðhöfðingjum sem víla ekki fyrir sér að nota þau á þennan hátt. Við vitum öll og höfum heyrt í fréttum hvernig Írakar hafa náð að kaupa sér vopn að því er virðist frá öllum þeim þjóðum sem annaðhvort framleiða eða selja vopn og hvernig þeir hafa keypt sér þann búnað sem þarf til þess að framleiða eiturvopn með þeim árangri að nú er saman komið fyrir botni Persaflóa meira vopnasafn en dæmi þekkjast um áður.
    Þó er einn þáttur ótalinn í þessu sambandi og það er sá þáttur sem snýr beint að Bandaríkjunum og öðrum NATO - ríkjum. Það eru þau vopn sem Bandaríkjamenn hafa selt fyrrverandi vinaþjóðum sínum, fyrrverandi samherjum og vopnabræðrum sem núna blasa við þeim bandarísku hermönnum sem eiga innan tveggja sólarhringa að fylgja eftir samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Þannig seldu Bandaríkjamenn shainum af Íran ótæpilega vopn árum saman og áratugum saman þannig að þegar Írakar og Íranir börðust féll óhemju

mikið magn af nýjustu bandarísku vopnunum í hendur Íraka. Það sama gerðist með Kúvæt. Bandaríkjamenn seldu Kúvæt vopn og þar á meðal fullkomnustu gerð af flugskeytum til þess að granda flugvélum. Nú bíður bandarísku flugmannanna að vera skotnir niður með þessum fullkomnustu tækjum sem bandarísk tækni getur framleitt því að Írakar hafa nú yfir að ráða öllum þeim vopnum sem voru í Kúvæt eftir að þeir hernámu landið. Þegar ég kom fyrir rúmum tíu árum í bandarískan flugskóla voru þar Írakar svo að hundruðum skipti sem Bandaríkjamenn voru að þjálfa bæði í flugi og flugvélaviðgerðum. Þannig mæta nú herir bandamanna íröskum flugmönnum sem eru þjálfaðir í Bandaríkjunum og vélum þeirra er haldið við af íröskum flugvélavirkjum sem hafa lært þar einnig.
    Þetta er svo skelfileg niðurstaða að hún hlýtur að vera mæðrum bandarískra unglinga og drengja, sem eru nú sendir fram á vígvöllinn, ærið umhugsunarefni, hvernig þjóðin getur skaffað þessum óvinum sínum, bæði beint og óbeint, bæði inn um forstofudyrnar og bakdyrnar, bestu vopn þannig að þessir óvinaherir standa nú gráir fyrir járnum andspænis bandarísku æskunni sem þangað er send með sömu vopn og Bandaríkin sjálf búa yfir.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en að lokum vil ég taka fram, vegna þess að hér hafa fallið þau orð að Íslendingar ættu ekki að taka þátt í ófriði eða segja þessum Persaflóalöndum stríð á hendur, sem við óbeint gerum náttúrlega með því að styðja Sameinuðu þjóðirnar, að við verðum að standa fast við allar samþykktir þeirra alþjóðastofnana sem við erum aðilar að. Þar duga engin undanbrögð. Á sama hátt ef ráðist verður á Tyrki verða Íslendingar að standa sem einn maður við bakið á Tyrkjum. Það þýðir ekkert að hlaupast undan merkjum. NATO byggir á því og hefur oft verið gagnrýnt fyrir að einn fyrir alla og allir fyrir einn. Við getum ekki ætlast til þess að Ísland verði varið ef til kastanna kemur ef við erum ekki reiðubúin til þess að fylkja liði að baki þeim hersveitum og því fólki sem vill verja Tyrki í nafni NATO. Ef við ætlumst til verndar frá NATO verður sú vernd að ná jafnt yfir alla.