Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Guðmundur G. Þórarinsson :
    Virðulegi forseti. ,,Þar sem áður voldugt ríki var, villiasninn er nú kóngur þar``, sagði Ómar Kajam í Rúbæjat. Sagan kennir okkur að þar sem áður var voldugt ríki, þar er nú eyðimörk. Þar sem áður var voldugt ríki, þar eru nú frumskógar. Þannig liðast voldug ríki í sundur, eru forgengileg og gleymd mörg hver.
En eftir lifir í hugum manna aðdáun og minning um frelsisbaráttu smáþjóða sem risið hafa upp gegn ofríki með frelsisfána og frelsisandann einan að vopni. Frelsisþráin og frelsisandinn eru eilíft afl sem aldrei verður sigrað.
    Eitt af því sem menn mega aldrei rugla saman í samskiptum einstaklinga og þjóða eru hugtökin afl og réttur. Á þeim hugtökum er grundvallarmunur. Smáþjóðir og einstaklingar geta átt ríkan rétt þótt unnt sé að beita þau afli og valdi. Réttur hins smáa og fámenna er iðulega borinn ofurliði af valdi hins fjölmenna og ríka þegar stálhanskinn og bryndrekinn leggja saman. Eigi að síður er það einmitt hið eilífa afl sem blívur, þ.e. frelsisþráin, frelsisástin, frelsisandinn.
    Það eru alvarlegir atburðir sem gerst hafa í Litáen. Hér hafa margar ræður eðlilega verið fluttar um þá atburði. Málflutningur íslenska utanrrh. hefur verið einarður og skorinorður á alþjóðavettvangi og það svo að tekið hefur verið eftir. Það hefur vakið athygli að nafn Íslands hefur sérstaklega verið nefnt þegar Eystrasaltsþjóðirnar hafa skírskotað til umheimsins í sínum erfiðleikum nú. Valdbeiting, vopnabeiting og ofbeldi gegn litáísku þjóðinni og réttkjörnu þingi þess er hörmulegur atburður. Önnur Eystrasaltsríki standa frammi fyrir ógninni og enginn veit í raun hvað er að ske. Eðli þessara atburða sem nú hafa gerst er mörgum tiltölulega óljóst enn. Þáttur Gorbatsjovs hefur vakið margar spurningar þó að ljóst virðist nú af sjónvarpsviðtölum að hann hefur lagt blessun sína yfir það sem þarna hefur skeð.
    Ég held að mönnum sé að verða ljóst og hafi verið ljóst að á þessum vandamálum sem þarna eru er engin önnur lausn til en óskorað sjálfstæði og fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Það er ólöglegur og ógildur samningur Hitlers og Stalíns sem heldur frelsi þessara þjóða í fjötrum og þann samning verður að rjúfa úr gildi.
    Reyndar er ástandið í Sovétríkjunum slíkt að enginn veit í raun hvað þar er að ske. Þær umfangsmiklu þjóðfélagsbreytingar sem menn höfðu hugsað sér að koma þar á á skömmum tíma virðast ekki ganga fyrir sig eins og þeir bjartsýnustu höfðu vonað. Efnahagskerfi Sovétríkjanna er í upplausn, matvælaskortur ríkir og matvæladreifingin virðist nánast í höndum glæpahringa. Verulegur ágreiningur virðist milli Sovétstjórnarinnar og stjórna lýðveldanna og margir velta því fyrir sér hvort Sovétríkin séu að liðast í sundur.
    Ég tek undir með utanrrh. þegar hann sagði í ræðu sinni hér fyrr í dag að ljósasti punkturinn, ef unnt er

að tala um ljósa punkta í þessari atburðarás, er afstaða forseta rússneska lýðveldisins, Boris Jeltsíns. Hann hefur beint þeirri áskorun til sinna hermanna að óhlýðnast skipunum um að skjóta á óbreytta borgara. Hann hefur rætt um að draga hermenn sína frá Eystrasaltslöndunum og hefur í raun lýst yfir að hann styðji sjálfstæði Eystrasaltslýðveldanna.
    Þannig er ljóst að það er engin samstaða innan Sovétríkjanna um þá atburði sem nú hafa gerst. Í því felst von um að unnt sé að snúa við af þeirri braut sem þarna er hafin. Það er alveg ljóst að Íslendingar, þó að smáríki sé, verða að grípa til allra þeirra ráða sem þeim eru tiltæk til að styðja þessar vinaþjóðir við Eystrasalt og ég treysti utanrrh. vel til að halda á því máli á sama hátt og hann hingað til hefur gert, enda stendur íslenska þjóðin algjörlega einhuga í þessu máli.
    Margir hafa gert hér að umræðuefni ástandið við Persaflóa. Þar stöndum við líka frammi fyrir ógnvænlegum atburðum þar sem meira en hugsanlegt er að á skelli alvarleg styrjöld innan tíðar. Ég ætla ekki að fara hér í nánari vangaveltur um hvað þar muni ske. Ég óttast þó að þar stefni í veruleg hernaðarátök og blóðugri en menn geta kannski gert sér í hugarlund. En ég hygg að það sé iðnríkjunum umhugsunarefni að 2. ágúst réðist Írak inn í Kúvæt og tók það smáríki á tiltölulega stuttum tíma, vopnum vætt frá iðnríkjunum. Nú standa vesturveldin og iðnríkin frammi fyrir styrjöld við Írak þar sem Írak er búið vopnum, efnavopnum, sýklavopnum og nýtísku hátæknivígbúnaði, sem vesturveldin og iðnríkin hafa keppst við að selja þeim á undanförnum missirum. Þar stöndum við frammi fyrir undarlegum þverstæðum í þessum sundraða heimi andstæðnanna sem við í reynd lifum í.
    Skýrsla sem stofnun Simons Wiesenthals hefur gefið út beinir sjónum okkar að því að ekki færri en 207 stórfyrirtæki í vopnaiðnaði hafa selt Írökum vopn á síðustu missirum. Þessi 207 fyrirtæki eru frá svo að segja öllum iðnríkjum sem fær eru um að framleiða slík vopn. Jafnvel Þjóðverjar hafa orðið uppvísir að því að selja Írökum efnavopn, hráefni til efnavopna og aðstoðað þá við uppbyggingu slíkra verksmiðja eftir að Írakar hafa beitt efnavopnum gegn Írönum í stríði og jafnvel gegn sínum eigin landsmönnum, Kúrdum. Minnugir eru menn þeirra málaferla sem nú hafa staðið yfir í Þýskalandi vegna aðildar þýskra fyrirtækja að byggingu eiturverksmiðja í Líbýu.
    Þannig hefur það verið eftir að stórveldin hafa náð öflugar saman í afvopnunarmálum að vopnafyrirtækin hafa leitað sér annarra markaða og vopnasalan hefur orðið meiri og öflugri til þriðja heimsins. Síðan geta menn risið upp og fyllst heilagri reiði yfir því að þessi ríki beiti þessum vopnum og noti þau. En á altari Mammons eru færðar stórar fórnir. Fyrirtæki sem búa við óhóflegan auð og vita ekki aura sinna tal freistast af gróðavoninni til þess að selja til þriðja heimsins slík vopn, efnavopn, sýklavopn og hátæknivígbúnað, með þeim afleiðingum að takmörkuðum fjármunum er varið frá matarkaupum í heimi þar sem 40

þús. börn deyja á degi hverjum úr hungri til vopnakaupa og afleiðingin er auðvitað örkuml fjölmargra einstaklinga og síðan atburðir eins og þeir sem við nú stöndum frammi fyrir við Persaflóa.
    Það er alveg ljóst að þannig verður ekki lengur haldið áfram. Það er alveg nauðsynlegt að iðnríkin nái samstöðu um fullkomið eftirlit með vopnasölu, ekki bara eins og verið hefur til austantjaldslandanna, heldur til þriðja heimsins og raunar til allra landa í heiminum. Það er alveg nauðsynlegt að gera slíka vopnasölu gagnsæja. Það er alveg nauðsynlegt að stofna á alþjóðavettvangi stofnun eða ráð, ef til vill á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, sem hefur það hlutverk að fylgjast með vopnasölum, hvort sem menn eru að tala um efnavopn, sýklavopn, hátæknivígbúnað eða gjöreyðingarvopn, og birta um það á vettvangi heimsins, til að mynda mánaðarlega, skýrslur og upplýsingar þannig að öllum sé ljóst hvaða sölur er um að ræða. Síðan verða menn að koma á alþjóðalögum og koma við refsingum þegar þau eru brotin með sölum sem þannig fara fram á vopnum.
    Hér er um svo alvarlegt mál að ræða að undan verður ekki vikist. Það má segja að mörg þessara ríkja séu þannig sett í dag að hver þverþumlungur lands sé þakinn vígvélum eða jafnvel eldflaugum. Allt er þetta gert með tæknibúnaði og framleiðslu iðnríkjanna.
    Þarna verður að sporna við fótum. Ég hygg að það væri verðugt verkefni fyrir Íslendinga, sem á undanförnum missirum hafa ítrekað á alþjóðavettvangi nauðsyn afvopnunar á höfunum réttilega og eru nú fyrst að ná hljómgrunni á vettvangi þjóðanna fyrir þann málflutning, að Íslendingar flytji þær tillögur inn á málþing þjóðanna að sett verði upp alþjóðastofnun eða alþjóðaráð sem fái það hlutverk, til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að fylgjast algjörlega og eins nákvæmlega og unnt er með vopnasölum til þriðja heimsins og reyndar, eins og ég sagði áðan, til heimsins alls og birti um það skýrslur þannig að alheimur sjái hvað um er að ræða og reyni að eiga frumkvæði að því að menn komi á alþjóðasáttmálum um slíkar vopnasölur og viðhlítandi refsingum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera þessi mál að frekara umræðuefni í ljósi þess hvað tíminn líður hér frá okkur í kvöld. En ég þykist viss um að það er Eystrasaltslöndunum mikils virði að Alþingi Íslendinga bregðist fljótt við og samþykki í kvöld ályktun, sem send verði bæði Sovétríkjunum og Eystrasaltsríkjunum, þar sem fram kemur að eina viðunandi lausnin á þeim vanda sem við er að glíma við Eystrasaltið í dag sé fullt og óskorað sjálfstæði þeirra ríkja sem þar búa.