Atburðirnir í Litáen og við Persaflóa
Mánudaginn 14. janúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Fyrir hönd þingflokks Alþfl. vildi ég í þessum umræðum gera grein fyrir samþykkt sem þingflokkurinn gerði í dag og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þingflokkur Alþfl. fordæmir harðlega þær ofbeldisaðgerðir sem Sovétríkin hafa gripið til í samskiptum við Litáen. Þingflokkurinn þakkar utanrrh. fyrir það frumkvæði sem hann fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands hefur frá öndverðu haft á alþjóðavettvangi um einarðan og drengilegan stuðning við málstað Eystrasaltsþjóða, svo sem ummæli Landsbergis forseta Litáens staðfesta. Sú staðreynd að Landsbergis leitar fyrst til utanrrh. og ríkisstjórnar Íslands um stuðning á neyðarstund staðfestir þetta betur en mörg orð. Með aðgerðunum gegn Litáen hafa stjórnvöld í Sovétríkjunum brotið gegn grundvallarreglum í samskiptum Evrópuríkja sem þau hafa skuldbundið sig til að virða samkvæmt Helsinki - sáttmálanum og öðrum samþykktum á vettvangi Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu.
    Þingflokkur Alþfl. ítrekar nauðsyn þess að fram fari alvarlegar samningaviðræður milli stjórnvalda í Eystrasaltsríkjum og stjórnvalda í Sovétríkjunum til að leita friðsamlegra lausna á deilumálum ríkjanna.
    Þingflokkurinn leggur hins vegar áherslu á að höfuðforsenda fyrir því að slíkar viðræður geti skilað árangri er skilyrðislaust brotthvarf sovéskra herja frá Eystrasaltsríkjunum.
    Þá fagnar þingflokkur Alþfl. frumkvæði utanríkisráðherra Norðurlanda að friðsamlegri lausn Persaflóadeilunnar. Með þessum tillögum er skilgreint hvert skuli vera hlutverk Sameinuðu þjóðanna við að tryggja samkomulag um friðsamlega lausn deilumála eftir að Írak sem árásaraðili hefur dregið her sinn til baka og sjálfstæði Kúvæts hefur verið endurreist. Sérstaklega lýsir þingflokkurinn fylgi við tillögur um að Sameinuðu þjóðirnar beiti sér fyrir alþjóðlegri ráðstefnu með þátttöku allra deiluaðila. Markmiðið er að koma á nýju öryggiskerfi á svæðinu í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna og reynslu Evrópuþjóða af gagnkvæmum samningum um niðurskurð vígbúnaðar, traustvekjandi aðgerðir og gagnkvæma afvopnun. Það er hlutverk hinna Sameinuðu þjóða að ekki einasta að knýja ofbeldisaðila til að hlíta alþjóðasamningum og koma í veg fyrir stríð, heldur einnig að hafa frumkvæði að lausn pólitískra deilumála sem stofnað geta heimsbyggðinni í hættu.``
    Ég tel jafnframt rétt, virðulegi forseti, að fram komi hér í þessum umræðum að n.k. fimmtudag og föstudag munu formenn norrænu jafnaðarmannaflokkanna halda fund í Helsinki. Á þeim fundi verða einnig formenn jafnaðarmannaflokkanna í Eistlandi, Lettlandi og Litáen og mun það í fyrsta skipti sem slíkur fundur er haldinn. Formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh., mun sækja þennan fund og þennan fund munu væntanlega einnig sækja fjórir af fimm utanríkisráðherrum Norðurlandanna og þar verður fjallað ítarlega um atburði og þróun mála í Eystrasaltsríkjunum.