Eftirlit með skipum
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um eftirlit með skipum á þskj. 345, 238. mál Nd.
    Frv. þetta felur í sér heildarendurskoðun á lagaákvæðum um eftirlit með skipum og er í átta köflum sem allir kveða með einum eða öðrum hætti á um þetta eftirlit, um framkvæmd þess, um skyldur útgerðaraðila, um siglingadóm, gjaldtöku, refsingar, gildistökuákvæði o.s.frv.
    Frv. er samið af nefnd sem þáv. samgrh. skipaði til að endurskoða þessi lög, nr. 51/1987, um eftirlit með skipum. Í þessari nefnd áttu sæti Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri í samgrn., formaður, Einar Hermannsson, fulltrúi Sambands ísl. kaupskipaútgerða, Helgi Laxdal, varaforseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Jónas Haraldsson, skrifstofustjóri LÍÚ, og Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri. Eins og sjá má komu helstu hagsmunaaðilar málsins að samningu frv. í gegnum þessa nefnd.
    Í gildandi lögum, sem eins og áðan kom fram eru ekki nema fjögurra ára gömul, um eftirlit með skipum, var leitast við að færa lagaákvæði um þetta efni til samræmis við nútímaaðstæður um leið og þau voru einfölduð allverulega. En ýmis atriði laganna frá 1987 hafa sætt gagnrýni og töldu menn þörf á því að lagfæra þar ákveðin atriði og að fleiri breytinga væri þörf en gerðar voru 1987. Því var tekin ákvörðun um það að endurskoða lögin.
    Við samningu þessa frv. hefur, eins og reyndar við samningu laganna á sínum tíma, sérstaklega verið höfð til hliðsjónar löggjöf nágrannalandanna, einkum Danmerkur og Noregs, og hefur ýmislegt úr þeirri löggjöf verið haft til hliðsjónar.
    Fjölmargir aðilar voru kallaðir til nefndarinnar til ráðslags, t.d. formaður réttarfarsnefndar og formaður siglingadóms vegna ákvæða um siglingadóm og ríkissaksóknari vegna refsiákvæða.
    Allmiklar breytingar eru gerðar á nokkrum aðalþáttum, ákvæðum um haffæri skipa, hámarksaldur innfluttra skipa, farbann og siglingadóm, auk þess sem aukin áhersla er lögð á mengunarvarnir í skipum og aðbúnað og hollustuhætti. Við þessa uppsetningu laganna er horfið að því ráði að leitast við að raða saman efnislega skyldum ákvæðum í kafla og fylgja réttri tímaröð, allt frá því að skip er smíðað.
    Um frekari athugasemdir held ég að ég vísi í einstakar greinar frv. en þeim eru allítarlega gerð skil í grg. Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. samgn.