Slysavarnaskóli sjómanna
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þetta ágæta mál og rifja það upp hér, sem raunar er aðalatriði forsögu þessa máls, að það er staðreynd að Slysavarnaskóli sjómanna hefur nú starfað í rösk fimm ár og er raunar orðinn einn aðalþáttur í starfsemi Slysavarnafélags Íslands sem hefur veitt þessu máli farsæla forustu frá upphafi.
    Það sem mér finnst mjög
mikilvægt í þessu máli er það, eins og hér hefur komið fram í máli ræðumanna, að þess verði gætt alveg sérstaklega að rjúfa ekki hin nauðsynlegu tengsl og stjórnunarform sem hin ýmsu félagasamtök og ekki síst Slysavarnafélag Íslands eiga að þessu máli. Ég tel að það væri ekki til farsældar fyrir framtíðina ef lagasetning í þessu máli yrði til þess að rjúfa þetta mikilvæga atriði í starfsemi slysavarna og félagsmála að því er varðar slysavarnir í landinu og ekki síður þau hagsmunasamtök í landinu sem þessi áhugamál og nauðsynjamál varða fyrir íslenska sjómenn.
    Þetta vil ég leggja sérstaklega áherslu á, það verður að tengja þessi félagslegu samtök löggildingu þessa máls og gera það á afgerandi hátt.
    Það sem ég vildi aðeins koma hér inn á er að að sjálfsögðu er Slysavarnaskóli sjómanna í dag í fjárlögum íslenska ríkisins og er búinn að vera það alla tíð. Við síðustu afgreiðslu fjárlaga er framlag ríkisins á árinu 1991 23,8 millj. til skólans. Alþingi hefur síður en svo tekið þessari starfsemi illa og reynt að styrkja hana á allan hátt frá því að skólinn var stofnsettur, eins og kemur raunar fram í grg. sem fylgir þessu frv.
    Ég vil einnig rifja upp að það var mjög ánægjulegt að vel skyldi til takast á árunum 1985 -- 1986 að þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson tók myndarlega við því erindi sem kom fram frá Slysavarnafélaginu og hagsmunaaðilum sjómanna um að nýta varðskipið Þór, sem þá hafði verið lagt vegna verkefnaleysis, til þessara mála með því að bjóða Slysavarnafélagi Íslands skipið til eignar fyrir 1.000 kr. Þetta var upphaf að farsælu verkefni sem strax kom í ljós að var gífurlega mikilvægur þáttur í því að auka öryggisfræðslu fyrir íslenska sjómenn. Það þarf ekki annað en að líta á töfluna sem fylgir með frá Slysavarnaskóla sjómanna um námskeið og annað slíkt sem haldin hafa verið til að sjá að þetta skip, Sæbjörg, hefur þegar gegnt alveg gífurlega mikilvægu hlutverki og haft mikla þýðingu fyrir öryggismál sjómanna og hefur siglt víða umhverfis land og er nú raunar orðið sá þáttur í þessum málum sem fólk á landsbyggðinnni treystir mikið á. Það er óskandi að hægt verði að halda áfram þessari mikilvægu starfsemi með því að nýta þetta skip miklu betur en tekist hefur til þessa. Til þess þarf að sjálfsögðu aukið fjármagn.
    Mér þótti eðlilegt að minnast á þetta hér því þetta er í raun og veru grundvöllur þess hve vel hefur til tekist á undanförnum fimm árum í sambandi við þetta heillaríka starf sem Slysvarnafélagið hefur haft forustu um.

    Að öðru leyti þarf ég ekki að fjölyrða meira um þetta mál. Okkur Íslendingum ber skylda til að sinna sérstaklega þessum þætti í atvinnumálum þjóðarinnar, þ.e. að efla sjómannaskólana og þá starfsemi sem þar fer fram, til að tryggja öryggi þeirra sem sjóinn stunda. Ég tel að til þessa hafi tekist hér á hv. Alþingi að marka nokkuð góða stefnu að því er þetta varðar. Þá minni ég á þá uppbyggingu sem fer fram núna á vegum sjómannaskólanna, Sjómannaskólans í Reykjavík, Stýrimannaskólans og Vélskólans, að gera þeim kleift að nýta þá fullkomnustu tækni sem nú er til í heiminum í sambandi við það nám sem þar er stundað áður en farið er til starfa á sjó. Þetta er mikilvægt mál og tengist þessu vissulega. Ég vænti þess að haldið verði áfram á þessari braut því þetta er eitt þýðingarmesta málið fyrir íslenska þjóð, að þeir sem starfa við þann atvinnuveg, sem er undirstaða allrar framfara hér á landi, njóti þess besta í öryggismálum og fái þá bestu þjálfun og menntun sem völ er á í nútímanum og ekkert verði þar til sparað. Ég lýsi stuðningi við þetta mál og legg áherslu á að það fái vandaða meðferð og tekið sé tillit til ýmissa atriða sem þarf að skoða vel og vandlega áður en af lögfestingu verður.