Slysavarnaskóli sjómanna
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir :
    Herra forseti. Ég er meðflm. að þessu frv. og mér er umhugað um að það fái góð málalok á þessu þingi. Ég held að við höfum alltaf hugsað okkur að námskeiðin yrðu haldin sem víðast á landinu því að ef þau yrðu kannski bara á einum stað kemur það auðvitað alls ekki að því gagni sem við hugsuðum okkur. Ég held að ekki sé vandamikið að setja þetta niður hingað og þangað um landið því alls staðar eru sjómenn og það er eins og okkur Íslendingum sé það í blóð borið að allir unglingar hugsa til að fara til sjós. Sjómennskan verður kannski ekki þeirra ævistarf og í fæstum tilfellum, en flesta langar að prófa að fara til sjós. Og það er eins og við vitum líka að slys eru kannski algengust einmitt á þeim sem ungir eru og kunna ekki fótum sínum forráð.
    Ég hef dálitla reynslu af þessu en það vill svo til að ég þekki þó nokkra sem eru sjómenn að ævistarfi. Ég veit ekki hvort það var almennt með útgerðir hér í Reykjavík en ég veit þó um útgerð sem heitir Ögurvík sem beitti sér mjög fyrir því að sjómenn á hennar skipum færu á þessi námskeið. Einn af sjómönnunum kom oft til mín einmitt á meðan á námskeiðinu stóð, hann er búinn að vera sjómaður í milli 30 og 40 ár. Honum fannst hann alltaf vera að læra eitthvað nýtt á námskeiðunum og var mjög áhugasamur fyrir námskeiðunum þegar hann fór að sækja þau.
    Þetta kom einnig heim við mína eigin reynslu. Ég fór á námskeið sem haldin voru á vegum míns félags. Þar hefði ég auðvitað samkvæmt minni vinnu átt að vita allt og ekkert þurft að læra, en það var nú þannig að ég var alltaf að læra eitthvað, í hverjum einasta tíma. Auðvitað sá ég að margt af þessu sem ég var að læra hefði ég kannski getað lært í vinnunni en það er bara öðruvísi. Þá er maður með hugann við vinnuna. Þegar komið er á námskeiðið er maður með hugann við það sem er verið að gera þar. Þess vegna yfirsést þér ýmislegt í vinnunni, eins og þér yfirsést náttúrlega ýmislegt ef þú ert bara á námskeiðinu og í engum tengslum við vinnuna.
    Ég held að það verði að vera skylda að fólk sem fer til sjós taki þessi námskeið, annars verður þetta alltaf í einhverju ólagi. Það verða alltaf einhverjir til sem halda að þeir læri ekkert þó að þeir fari á námskeið. En alveg sérstaka áherslu legg ég á það að námskeiðin séu opin þannig að foreldrar á staðnum þar sem þau eru haldin eigi auðvelt með að senda unglingana á námskeið, að unglingar eigi auðvelt með að komast á þessi námskeið. Það gerir ekkert til þótt þeir fari ekki á sjóinn strax, það er alla vega gott að hafa farið á námskeið og vera tilbúinn þegar að því kemur.
    Ég vil svo þakka öllum þeim sem hafa talað hér fyrir það hvað þeir hafa verið jákvæðir og endurtek að ég vona að þetta fái góð málalok á þessu þingi.