Lánsviðskipti
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um grundvöll lánsviðskipta, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna o.fl. Flm. ásamt mér eru hv. þingkonur Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Gjaldþrot og greiðsluerfiðleikar eru að verða hversdagsleg orð sem eru að glata merkingu sinni, nema fyrir þá sem standa í slíkri baráttu og þeir eru margir. 900 bú voru tekin til gjaldþrotaskipta á liðnu ári í Reykjavík einni saman ef tölur frá janúar til október eru marktækar. Þrjú af hverjum fjórum þessara gjaldþrota eru gjaldþrot einstaklinga. Það eru því margir sem eiga um sárt að binda vegna gjaldþrota, þessir einstaklingar, fjölskyldur þeirra, vinir og vandamenn, sem oft hafa einnig farið illa út úr gjaldþrotum annarra.
    Ýmsar ástæður eru fyrir gjaldþrotum fólks og ætla ég ekki að rekja þá sögu hér, enda varðar frv. það sem hér er til umræðu aðeins einn hluta þess máls, hvernig staðið er að lánveitingum, hvers vegna bankar taka nánast aldrei á sig ábyrgð eða áhættu sjálfir, heldur leita eftir veðum eða sjálfskuldarábyrgðarmönnum fyrir nánast öllum lánum og virðast ekki gera þá kröfu að lántakandi sé borgunarmaður fyrir lánum sínum ef hann getur útvegað ábyrgð. Því miður byggjast lánsviðskipti einstaklinga sárasjaldan á því að gerð sé raunhæf greiðsluáætlun í samræmi við tekjur þeirra og aðrar skuldir. Enn fátíðara er að slík áætlun sé grundvöllur lánsviðskipta banka og einstaklings. Raunar er slík áætlunargerð aðeins nýlega orðin almenn vinnubrögð við húsnæðiskaup og lántöku úr byggingarsjóði.
    Eftir stendur að velflest bankalán eru veitt út á veð eða sjálfskuldarábyrgð, en oftast er þessa krafist. Því miður þekkja flestir hryggileg dæmi um hve röng þessi aðferð getur verið. Dæmi er um að eignalausir einstaklingar hafi æ ofan í æ komið ættingjum sínum eða vinum á kaldan klaka með því að geta sífellt slegið hærri lán ef þeir fá einhvern til að skrifa upp á fyrir sig eða lána veð. Það er í raun fráleitt að lána peninga á öðrum forsendum en þeim að gera ráð fyrir að sá sem tekur lánið borgi það einnig. Það verður aðeins gert með því að meta greiðslugetu lántakanda og nota þá áætlun sem grundvöll lánsviðskiptanna. Að lána einhverjum sem sýnilega getur ekki greitt sínar skuldir út á eignir annarra eða aðra ábyrgð ætti ekki að eiga sér stað.
    Mig langar til þess að vitna í umsögn sálfræðings á Akureyri, Bjargar Bjarnardóttur, í bókinni ,,Undir hamrinum`` sem fjallar um gjaldþrotamál. Með leyfi forseta segir hún þar:
    ,,Nú er orðið miklu auðveldara að komast yfir fjármagn en var fyrir 1980. Hins vegar er orðið mjög dýrt að skulda. Fjöldi fólks hefur ekki áttað sig á þessu fyrr en of seint. Þetta sama fólk er oft lokað inni í gamla drauminum um vinnu- og viðskiptasiðferði, sjálfstæði, dugnað og heiðarleika í viðskiptum. Það áttar sig ekki á að hin nýja fjármögnunarvél slær

allt annan takt og hér hefur orðið til nýr þjóðfélagslegur veruleiki á þessum áratug. Ýmislegt viðgengst og þykir sjálfsagt í viðskiptum hér á landi sem ekki er tíðkað meðal grannþjóðanna, eins og víxlar og skuldabréf með útgefendum og ábyrgðarmönnum. Í breskum bönkum t.d. er unnt að fá mörg þúsund pund að láni án þess að nokkur skrifi undir það annar en lántakandinn sjálfur. Veð er ekki farið fram á nema þegar fólk kaupir húsnæði, en þá er því líka lánað allt upp í 90% af verði íbúðarinnar. Þetta er eitt dæmið um einhliða vald og verndun réttinda og hagsmuna útlánastofnana hér. Oft hafa skuldarar ekki aðeins misst eigin eigur heldur dregið aðra með sér í fallinu. Í kjölfar eignamissis kemur því oft vinamissir, úlfúð og sundurlyndi. Einnig eru börn og afkomendur gerðarþola áfram bundnir á skuldaklafann. Atvinnumissir verður einnig hjá þeim sem hafa rekið eigin fyrirtæki, sömuleiðis hjá því starfsfólki sem þar hefur unnið.
    Í viðtölum við mig talar fólk mjög gjarnan um það að þegar skriðan er á annað borð komin af stað, þá fari hún mjög hratt. Stór hluti af þjáningum fólks eftir missinn er sá að það skilur ekki enn hvað gerðist í raun og veru, hvers vegna svo margt brást.``
    Þetta voru orð sálfræðings og orð í tíma töluð.
    Lánsviðskipti sem byggjast á viðskiptatrausti frekar en veðtryggingu eða sjálfskuldarábyrgð stangast að mati manna alls ekki á við löggjöf þá sem fyrir er um íslenska banka og aðrar lánastofnanir. Í reynd vantar þó að tekið sé af skarið og þessir viðskiptahættir verði almennt teknir upp. Þessu frv. er ætlað að bæta úr því og jafnframt að reyna að tryggja hagsmuni sjálfskuldarábyrgðarmanna og veðeigenda og fjölskyldna þeirra í þeim undantekningartilvikum þegar réttlætanlegt getur talist að krefjast aukinnar ábyrgðar. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að rekja greinargerð þessa frv. og grípa niður í athugasemdir við einstakar greinar þess.
    ,,Í þessu frv. er lögð áhersla á að meginregla í öllum lánsviðskiptum sé gagnkvæmt traust lántakanda og lánveitanda. Eðlilegt er að við lántöku sé greiðslugeta lántakanda metin, greiðsluáætlun gerð og hún sé grundvöllur viðskiptatrausts hans. Í flestum lánaviðskiptum tíðkast nú að krefjast trygginga fyrir skilvísum greiðslum lántakanda. Algengt er að lántakandi leggi sjálfur fram slíkar tryggingar, t.d. með veði í fasteign sinni. Hitt er ekki síður algengt að krafist sé sjálfskuldarábyrgðar eins eða tveggja manna á greiðslum lántakanda. Þarf lántakandi að útvega þessa ábyrgðarmenn, sem oft eru ættingjar lántakanda.
    Þá er einnig algengt að lántakandi fái lánað veð í eign annars manns til tryggingar greiðslum sínum, sérstaklega í tengslum við fasteignakaup. Segja má að nánast sé meginregla að lántakandi geti ekki fengið lán án þess að afla trygginga frá öðrum. Slíkt ætti þó einungis að vera í undantekningartilvikum og gilda um það skýrar reglur.`` Mig langar að bæta því við að nánar segir um þessar reglur í greinargerðinni sem gilda þyrftu:
    ,,Margir sem veita ábyrgð sína á endurgreiðslum af lánum annarra gera sér ekki grein fyrir því hvert eðli

og umfang slíkrar ábyrgðar er. Ef til ábyrgðarinnar þarf að taka ábyrgist sjálfskuldarábyrgðarmaður greiðslu lántakanda með öllum eigum sínum, en sá sem hefur lánað fasteignarveð leggur viðkomandi fasteign undir. Ábyrgðarmaður þarf oft að greiða verulegar fjárhæðir fyrir lántakanda sem hann ábyrgist. Ef ábyrgðarmaður getur ekki greitt skuldir lántakanda missir hann eigur sínar í hlutfalli við skuldir lántakanda, oft allt sitt. Á síðustu árum hafa gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja aukist mjög mikið og sífellt fleiri ábyrgðarmenn hafa þurft að standa við ábyrgðir sínar, oft með þeim afleiðingum að ábyrgðarmaður verður líka gjaldþrota. Gjaldþrot hafa ekki einungis viðskiptalega hlið því að oft leysast heimili gjaldþrota einstaklinga upp.
    Með þessu frv. er gengið út frá þeirri meginreglu að lántakandi ábyrgist sjálfur skilvísar endurgreiðslur sínar og geri sér grein fyrir sinni lánshæfni með gerð greiðsluáætlunar. Frv. er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu ábyrgðarmanna og tryggja lágmarksréttindi þeirra til upplýsingaöflunar. Nauðsynlegt er að flytja sérstakt frv. um þetta efni því almenn lög um skuldabréf hafa aldrei verið sett hérlendis og ekki þótti rétt að setja þessi ákvæði í lög um viðskiptabanka, sparisjóði eða verðbréfafyrirtæki þar sem fleiri lána fé en þær stofnanir. Frændur vorir á Norðurlöndum hafa búið við almenna löggjöf um skuldabréf í langan tíma og væri þörf á að setja slík lög hérlendis þótt ekki sé ráðist í það nú með þessu frv. Verði frv. að lögum geta ábyrgðarmenn á auðveldan hátt áttað sig á efni þeirra ábyrgða sem krafist er. Einnig geta þeir gripið mun fyrr en nú er í taumana ef lántakandi greiðir ekki af skuldbindingum sínum. Bitur reynsla undanfarinna ára hefur sannað að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga hafa brýna hagsmuni af því að þessi löggjöf nái fram að ganga.``
    Ég vil aðeins gera grein fyrir nokkrum atriðum sem varða einstakar greinar frv. og nefni þá fyrst 1. gr. Þetta ákvæði hefur að geyma þá meginreglu laganna að grundvöllur lánsviðskipta sé viðskiptatraust lántakenda. Ákvæðið nær til lánastofnana, banka, sparisjóða og verðbréfafyrirtækja. Lánastofnunum ber að gera greiðsluáætlun og meta þær tryggingar sem lántakandi getur ábyrgst þannig að meginreglan sé sem áður sagði að lántakandi ábyrgist sjálfur sín lán.
    Um 2. gr. segir: Þrátt fyrir meginreglu 1. gr. getur verið í einhverjum tilfellum að lánastofnun telji viðskiptatraust lántakanda og hans eigin tryggingar ekki tryggja fjárskuldbindingu nægilega. Er helst að þetta komi til ef lántakandi er algerlega eignalaus, hefur slæmt viðskiptatraust og í öðrum ámóta tilfellum. Ef krafist er ábyrgðarmanna eiga þeir rétt á að kynna sér þær forsendur sem eru fyrir lánveitingunni, þ.e. greiðsluáætlun lántakanda. Mig langar að taka það fram varðandi þessa grein að í flestum tilvikum er ekki um það að ræða að réttlætanlegt sé að veita lántakanda lán standi svo á sem segir í þessari grein, þannig að ég geri ekki ráð fyrir að til þess þurfi að koma.
    Um 3. gr. vil ég taka þetta fram: Þar er lögfest

skylda lánveitanda til þess að upplýsa ábyrgðarmenn lántakenda um eðli þeirra ábyrgða sem gengist er undir hvert sinn og afleiðingar vanefnda. Upplýsingaskyldan nær aðeins til einstaklinga sem ganga persónulega í ábyrgðir fyrir aðra, en ekki til ábyrgða sem fyrirtæki veita. Lögin miða að því að gefa einstaklingum, sem ganga persónulega í ábyrgð fyrir aðra, tækifæri til að meta réttarstöðu sína.
    Því má halda fram að þeim sem veitir ábyrgð sína á skuldbindingum annarra ætti að vera fullkunnugt um efni slíkrar skuldbindingar. Ýmsir veita ábyrgðir vegna fjölskyldu- eða vinatengsla og eiga af þeim orsökum erfitt með að neita lántakanda um ábyrgð. Á móti kemur að öll fræðsla almennings um þessi mál hefur verið af mjög skornum skammti. Húsnæðisstofnun ríkisins hefur reynt að vekja athygli fólks á þýðingu lánveða en að öðru leyti hefur slík fræðsla verið nánast engin nú seinni ár. Telja má að of mikið sé gert úr þekkingu almennings á efni og eðli ábyrgða á fjárskuldbindingum. Lánveitandi hefur mikla hagsmuni af því að ábyrgðarmenn geti staðið við ábyrgðir sínar ef lántakandi getur ekki staðið við sínar greiðslur. Eðlilegt er því að gera þá kröfu til lánveitenda að þeir kynni ábyrgðarmönnum eðli og efni þeirra ábyrgða sem þeir krefjast og geri ábyrgðarmönnum það ljóst að hugsanlega þurfi þeir að standa við ábyrgð sína. Enn fremur segir um þessa grein: ,,Í 2. mgr. er kveðið á um skyldur lántakanda, sem fær annan mann til þess að ábyrgjast persónulega þær fjárskuldbindingar sem hann tekst á hendur, til þess að veita ábyrgðarmanni sínum upplýsingar um fjárhagsstöðu sína á meðan hann er í ábyrgðum.``
    Í 6. gr. er um samsvarandi skyldu lánveitanda að ræða. Er þessi skylda sett í lög til þess að gera þennan rétt ábyrgðarmanns ótvíræðan. Ábyrgðarmaður getur reynt að grípa í taumana áður en í fullkomið óefni er komið ef hann fylgist með fjárhagsstöðu lántakanda. Ábyrgðarmaður er á móti bundinn þagnarskyldu um fjármál lántakanda.
    Ég tel ekki ástæðu til að rekja athugasemdir við 4. gr. laganna þar sem kveðið er á um upplýsingaskyldu lánveitenda og bent á aðferðir til að fullnægja henni. En í skýringum við greinina segir m.a., ef ég tek örlítinn hluta af því:
    ,,Til þess að brýna mikilvægi þessarar upplýsingaskyldu lánveitenda er gert ráð fyrir því að vanræksla á því að sinna skyldunni hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir lánveitendur. Gert er ráð fyrir því að þriðji maður, sem er ábyrgðarmaður, þurfi ekki að standa við ábyrgðir sínar ef honum hafa ekki verið kynnt efni þeirra. Í staðlaðan texta viðskiptabréfa yrði væntanlega sett yfirlýsing ábyrgðarmanns um að hann hafi kynnt sér þær upplýsingar sem fram komu í texta bréfsins.``
    Um 5. gr. segir í skýringum við einstakar greinar: ,,Það virðist eðlilegt að leggja þá skyldu á lánveitendur að tilkynna ábyrgðarmönnum á sannanlegan hátt um vanskil lántakanda 10 dögum eftir að vanskil verða á greiðslum hans. Iðulega fá ábyrgðarmenn ekki að vita um vanefndir fyrr en kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir eru hafnar og lánsupphæð hefur öll verið gjaldfelld. Ábyrgðarmanni kann þá að vera ofviða að grípa í taumana, en hugsanlega hefði hann getað staðið við ábyrgð sína á fyrri stigum. Hér er því um veigamikla réttarbót að ræða fyrir ábyrgðarmenn. Ef ekki næst í ábyrgðarmenn vegna þess að ókunnugt er um heimilisfang þeirra er nægilegt að birta eina tilkynningu í Lögbirtingablaðinu. Lántakandi gæti hugsanlega bakað sér skaðabótaskyldu ef ábyrgðarmaður fær ekki tilkynningu.``
    Um 6. gr. segir: ,,Ábyrgðarmaður hefur ótvíræða hagsmuni af því að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um þær lánveitingar sem hann gengur í ábyrgð fyrir. Jafnframt að öllum upplýsingum sem lánveitandi hefur um fjárhag lántakanda. Hér er lagt til að réttur ábyrgðarmanns til upplýsingaöflunar verði lögfestur. Lántakanda er gert skylt í 2. mgr. 3. gr. að hlíta þessari skyldu lánveitandans til upplýsinga. Á móti er krafist þagnarskyldu af ábyrgðarmanni.
    Í 20. og 21. gr. laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923, er kveðið á um að þeim sem er í hjúskap beri að afla sér samþykkis maka fyrir veðsetningu fasteignar sem jafnframt er heimili fjölskyldunnar og muna sem notast til heimilisins. Hins vegar getur maki óhindrað gengist undir sjálfskuldarábyrgð þar sem ábyrgðin nær til allra eigna hans. Er með þessu ákvæði sett undir þennan leka. Jafnframt er lagt til að ofangreindar reglur laga um réttindi og skyldur hjóna gildi einnig um sambúðarfólk þar sem sömu rök eiga við um að sambúðaraðili þurfi að afla samþykkis sambúðaraðila áður en fasteign fjölskyldunnar er veðsett.``
    Um 7. gr. vil ég taka þetta fram: ,,Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. sept. 1991 þar sem lánveitendur þurfa aðlögunartíma til þess að undirbúa ný skjalaform og gera aðrar breytingar.``
    Það er því miður engin tilviljun að þetta mál er nú fram komið. Við höfum heyrt að undanförnu ótal dæmi um það í hvílíkum hremmingum góðgjarnir einstaklingar, sem skrifa upp á eða lána veð til fólks sem það treystir, getur lent. M.a. hafa verið frásagnir í blöðum um öryrkja sem orðinn er eignalaus af greiðasemi, með því að skrifa upp á. Fjölskyldur hafa orðið eignalausar af ævintýrum eins fjölskyldumeðlims. Á vinnustöðum hafa orðið vinslit. Það þýðir ekki að afgreiða þessi fjölmörgu dæmi með alhæfingum eins og: Enginn ætti að skrifa upp á lán eða fólk getur bara sjálfu sér um kennt.
    Mig langar í lokin að vitna örlítið til greinar eftir Sigríði Gunnarsdóttur sem birtist í DV þann 10. desember sl. Hún segir í upphafi þeirrar greinar, með leyfi forseta:
    ,,Í allri þeirri umræðu sem verið hefur undanfarið um breyttar forsendur í peningamálum hefur lítt eða ekki komið fram þáttur banka í harmsögum einstaklinga í þessu landi. Við, þessi fámenna þjóð sem hreykjum okkur á hátíðarstundu af sameiginlegri þjóðarsál, þekkjum næstum hver og einn einhvern sem farið hefur illa út úr fjármálum á undanförnum mánuðum og árum og
getum ekki látið eins og þetta komi okkur ekki við.

Þessi einhver er bróðir eða mágkona, vinur eða kunningi, tengdur, skyldur eða kunnugur á einhvern veg í svona smáu samfélagi. Staðreyndin er sú að bankar halda ótrúlega lengi áfram að lána jafnvel eignalausu og atvinnulausu fólki ótrúlegar fjárupphæðir löngu eftir að ljóst er að venjulegar tekjur standa engan veginn undir afborgunum af þeim. Hvers vegna? E.t.v. vegna vorkunnsemi eða kunningsskapar. E.t.v. vegna þess að þetta nauðstadda fólk fær betur stæða aðstandendur eða vini til þess að skrifa upp á. Það þarf sannarlega að hafa steinhjarta til þess að neita nánum ættingja um uppáskrift þegar ekkert blasir við annað en að hrekjast allslaus út á götu jafnvel með vansæl og taugaveikluð börn sem manni þykir vænt um og kemur við. Þá þakkar maður guði fyrir eigin hag og vonar að þetta blessist einhvern veginn. Innst inni veit maður vel að þetta er rangt að farið og aðeins til að lengja í hengingarólinni og gjaldþrotið verður bara stærra þegar að því kemur. Ætli bankarnir lánuðu svo mikið og lengi ef þetta ábyrgðarmannakerfi væri ekki til staðar og fólk fengi aðeins lánað út á andlitið á sér?``
    Í fjölskyldu- og kunningjasamfélagi er ekki alltaf auðvelt að neita um greiða og enn erfiðara er að meta hvenær slíkt sé óhætt vegna þess að nú hafa menn litla möguleika á að afla sér upplýsinga um fjármál þess sem þeir skrifa upp á fyrir. Þeir sem lána veð geta lent í því að vita ekki af því að skuld sé komin í vanskil fyrr en kemur nálægt uppboði á eign þeirra sjálfra með öllum þeim kostnaði sem þá hefur hlaðist á skuldina. Ég vil í leiðinni jafnframt lýsa yfir stuðningi mínum við þáltill. hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og fleiri um fræðslu um fjármálaumsýslu í skólum. Það mál tengist þessu máli vissulega og er mjög þarft og tímabært. Aukin fræðsla og heilbrigðari grundvöllur lánsviðskipta eiga vonandi eftir að verða til þess að lát verði á gjaldþrotum og greiðsluvanda fólks sem af góðsemi er að reyna að hjálpa ættingjum og vinum sem virðast endalaust geta fengið lán án þess að þurfa að sýna fram á að þeir séu borgunarmenn eða gera greiðsluáætlun.
    Með þeirri skipan mála sem er í frv. þessu sem hér er mælt fyrir er þess freistað að koma á annars konar lánsviðskiptum en nú tíðkast. Það er von mín að frv. þetta fái skjóta og góða afgreiðslu á þessu þingi því hér er um mjög brýnt mál að ræða sem varðar ótrúlega stóran hóp í samfélaginu.
    Að umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.