Lánsviðskipti
Þriðjudaginn 15. janúar 1991


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem til máls hafa tekið góðar undirtektir. Það eru aðeins örfá atriði sem ég ætlaði að drepa á.
    Varðandi orð hv. 6. þm. Norðurl. e., þar sem hann sagði að 3. gr. frv. væri sú mikilvægasta, þá vil ég vekja athygli hans á því að verði ákvæði 1. gr. að lögum, þá eru þau hin langmikilvægustu. Þar með yrði sumt af þeim vanda er hann lýsti e.t.v. ekki framtíðarvandi í sama mæli og nú er.
    Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta frv. eitt og sér leysir ekki öll þau mál sem leysa þarf í sambandi við greiðsluerfiðleika í þessu samfélagi, en ég er sannfærð um að það mun leysa einhver mál og hvert eitt skref hlýtur að skipta máli.
    Í öðru lagi vil ég aðeins til glöggvunar geta þess að vissulega er það rétt að ábyrgðarmönnum er gert viðvart ef skuld er komin í vanskil. Það á hins vegar ekki við um eiganda veðs og því eru þau ákvæði mikilvæg sem þar eru þó þau séu aðeins varnagli í þeim undantekningartilvikum þar sem krafist er þess að fengin sé ábyrgð í eign annars manns.
    Í þriðja lagi langar mig að taka undir það sem fram hefur komið hjá ýmsum hér að samkvæmt núgildandi siðum í lánaviðskiptum, því ekki eru þeir nú allir bundnir við reglur, þá eru hagsmunir lánveitenda ávallt tryggðir en hagsmunir lántakenda og þeirra sem lána ábyrgðir, hvort sem um er að ræða sjálfskuldarábyrgðir eða veð, ekki að sama skapi, þeim er ekki sýnd sú sama virðing að þeirra hagur sé alltaf tryggður.
    Í fjórða lagi vil ég aðeins geta þess að verði þetta frv. að lögum, þá vonast ég til þess að gerbreyting verði á öllum grundvelli bankaviðskipta og ég tek ekki síst undir þau orð hv. 13. þm. Reykv. að hér er um málefni að ræða sem varðar fyrst og fremst og ekki síst fjölskyldur þessa lands og málið er flutt í þeim tilgangi að liðsinna þeim ef verða mætti.