Húsnæðislánastofnanir og húsbankar
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka sem mælt hefur verið fyrir af hv. flm., Guðmundi Ágústssyni. Ég efa það ekki að tilgangur flm. er góður. Það er hans skoðun, eins og hann hefur hér lýst í sinni framsöguræðu, að sú leið sem lögð er til í þessu frv. sé heppilegri en það kerfi sem við búum við núna sem er húsbréfakerfið. Flm. hefur í máli sínu borið saman þessi tvö kerfi og m.a. farið nokkrum orðum um þá ágalla sem hann sér á til að mynda húsbréfakerfinu og síðan kosti þessa kerfis sem hann mælir fyrir fram yfir húsbréfakerfið.
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki hafa um þetta mál mörg orð. Ég sé þó ástæðu til þess að benda á verulega ágalla á þeirri leið sem hér er lögð til og ástæða er til að nefna, en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem frv. um þetta efni er hér lagt fyrir hv. Alþingi.
    Fyrirmyndin að þessari leið er augljóslega danska fasteignalánakerfið þó að segja megi að aðstæður hér og þar séu ósambærilegar, t.d. að því er varðar framboð á lánsfjármagni, en í Danmörku er það langt umfram eftirspurn.
    Í þessu kerfi sem hér er mælt fyrir er það þannig að svokölluð innri fjármögnun á íbúðakaupum milli aðila þar sem bréf ganga upp í kaup yrði engin samkvæmt þessari leið frekar en í danska kerfinu þar sem skuldabréfin eru alltaf seld á verðbréfamarkaði til að afla fjár til íbúðakaupa og þetta eykur vitanlega eftirspurnina eftir lánsfé í samkeppni við aðrar fjárfestingar.
    Ég tel ástæðu til þess að benda á 8. gr. frv. þar sem kveðið er á um að stofnunin sjálf sem fer með þessi viðskipti ákveði mat fasteignarinnar. Þetta atriði hefur orðið samkeppnisatriði milli dönsku fasteignalánastofnananna þar sem fasteignalánastofnanirnar hafa yfirboðið hver aðra og þess vegna valdið miklum erfiðleikum vegna verðfalls fasteigna. Það hafa mörg mál komið upp á sl. tveimur árum þar í landi vegna lánafyrirgreiðslu, t.d. þessara stofnana, m.a. vegna lóða sem aldrei var byggt á o.s.frv., og einnig að það er verið að lána langt umfram veðhæfni eignarinnar en í því felst samkeppnin raunverulega milli þessara aðila.
    Ég tel líka ástæðu til þess að benda á að að ýmsu leyti er fjármagnskostnaður íbúðarkaupenda mun hærri í þessu kerfi heldur en í núverandi húsbréfakerfi og má t.d. benda á eftirtalinn kostnað sem kaupendur bera. Það er í fyrsta lagi raunvextir, allt að markaðsvöxtum. Afföll með sölu húsbréfa eru háð eftirspurn og framboði á lánsfjármarkaði. Framlag í varasjóð, eins og fram kemur í 11. og 15. gr., og í Danmörku eru þessi útgjöld veruleg og reiknuð bæði af höfuðstól og síðan hverri greiðslu, 1% af höfuðstól og 1,25 -- 2,5% af hverri greiðslu, sem eykur verulega kostnað íbúðarkaupenda sem ekki er hér. Síðan er sérstakt lántökugjald í þessu kerfi vegna rekstrar, þóknun til verðbréfasala sem er 1,5% í Danmörku við sölu skuldabréfa, þinglýsing, stimpilgjöld og fleira. En eins

og ég hef hér upp talið eru nokkrir af þessum útgjaldaliðum sem íbúðarkaupendur hér þurfa ekki að bera.
    Í 6. gr. er síðan ákvæði um eignaraðild erlendra húsnæðislánastofnana. Þar er talað um að félmrh. geti heimilað stofnun að efna til samstarfs við hliðstæðar erlendar húsnæðislánastofnanir, m.a. með því að hinar erlendu stofnanir gætu öðlast eignaraðild að innlendum húsnæðislánastofnunum. Í þessu felst að verulegar ákvarðanir um fjármögnun íbúðarhúsnæðis á Íslandi yrðu kannski teknar af erlendum aðilum.
    Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir ýmsum valkostum lántakenda. M.a. er boðið upp á happdrættisbréf með föstum vöxtum eða fasteignalán á bak við bréfin bera breytilega vexti og spyrja má þess vegna: Hver borgar mismuninn? Þetta kemur fram í miklum afföllum af þessum happdrættisbréfum, sérstaklega meðan verðbólga er lítil og menn vænta þess og ef búast má við því að verðbólga aukist. Happdrættisbréf útgefin í hærri verðbólgu gætu hins vegar, ef verðbólga lækkaði, gefið gengishagnað, en þá bæri lánastofnunin kostnaðarmismuninn því með lækkandi vöxtum kæmi minna inn til að standa undir föstum vöxtum.
    Verðtryggðu bréfin, sem samkvæmt þessu frv. eiga að gegna litlu hlutverki, eru hins vegar aldrei innleysanleg eins og núverandi húsbréf og mundu þannig einungis höfða til þeirra sem eru að spara fé til 15, kannski 40 ára. Það má einnig spyrja: Hver tekur skellinn ef og þegar þessar húsnæðislánastofnanir eða húsbankar verða gjaldþrota? Varasjóðirnir eiga að vera trygging. En hve langan tíma tekur að byggja þá upp til að taka við áföllum sem geta hlotist af miklum verðbólgusveiflum? Áhætta húsbréfaeigenda yrði þannig veruleg og líklega ríkissjóðs á endanum þegar þessar lánastofnanir yrðu gjaldþrota eða vegna greiðsluerfiðleika lántakenda. Í núverandi húsbréfakerfi er útborgun bréfanna ríkistryggð en samkvæmt frv. er um að ræða tryggingu með varasjóðum. Áhætta eigenda slíkra bréfa er því augljós sem eykur enn á afföll bréfanna auk þess sem búast megi við að fáir hafi áhuga á að eiga þessi bréf til langframa. Þau yrðu því væntanlega mjög mikið í umferð.
    Það má einnig benda á hverjum væri til að dreifa hér á landi sem hefðu áhuga eða getu til að koma slíkum stofnunum á fót.
Hvorki bankar né lífeyrissjóðir hafa haft áhuga á að vera mikið í slíkum viðskiptum. Lántakendur yrðu hugsanlega sjálfir að bindast einhvers konar samtökum um að koma slíkum stofnunum á fót. En spyrja má líka, hvort þeir séu nógu margir hér og samstæðir til þess að standa í slíku. Danska fasteignalánakerfið hefur þróast í langan tíma eða á annað hundrað ár.
    Á bls. 11 í grg. er verið að lýsa íslenska húsbréfakerfinu og talið að þetta kosti íbúðarkaupendur mikil hlaup milli aðila þar sem fasteignasalar útbúi veðskuldabréf í stöðluðu formi sem kaupandi skrifi undir. Seljandi íbúðar hleypur svo með veðskuldabréfið upp í Húsnæðisstofnun þar sem hann skiptir á því og bunka af húsbréfum sem stofnunin hefur látið prenta og gefa út o.s.frv. Því er með öðrum orðum haldið

fram að þetta kerfi sé erfitt og þungt í vöfum og kosti íbúðarkaupendur mikil hlaup fram og til baka. En það má benda á í þessu sambandi ákvæði í 14. gr. þessa frv., sem er nokkuð sérkennilegt. Um þá grein segir í athugasemdum, og þá er verið að lýsa þessu kerfi sem hv. þm. hefur hér mælt fyrir:
    ,,Ef lántakandi vill greiða upp lán sitt hjá stofnun verður hann að afhenda henni jafnmikið magn húsbréfa úr þeirri röð bréfa sem seld var til að mynda lánið og svarar til þess er hann skuldar af höfuðstól lánsins.``
    Ég er nú ansi hrædd um að þetta sé mjög þungt í vöfum og erfitt að sjá hvernig á að framkvæma það. Mér sýnist helst á þessu að sá sem er með slíkt undir höndum þurfi að fara að leita að bréfunum, þ.e. úr sömu röð bréfa, ef hann vill greiða upp lánið og það má benda á hlaupin milli húsbanka ef um fleiri slík er að ræða til að fá sem hæst matsverð eignarinnar.
    Ég tel einnig að fjármagnskostnaður, eins og ég hef reyndar hér lýst, íbúðarkaupenda muni aukast. Í stuttu máli: Áhættan í kerfinu yrði mjög mikil, ekki síst vegna ósamræmis fastra og breytilegra vaxtabréfa og fasteignalána. Ég tel einnig að eftirspurnin eftir slíkum lánum yrði að sjálfsögðu mjög takmörkuð ef það er markmið frv. að draga úr íbúðarkaupum.
    Ég hef hér stiklað á stóru sem ég tel að séu verulegir ágallar á þeirri leið sem hér hefur verið mælt fyrir, og get ekki séð, virðulegi forseti, að þetta frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka hafi neina kosti fram yfir húsbréfakerfið. Þvert á móti tel ég að á því séu verulegir gallar sem leiða mundu okkur í öngstræti í húsnæðismálum.
    Þetta vildi ég að fram kæmi en ég ítreka það að ég veit vel að tilgangur flm. með því að koma með þetta mál hér inn á þing er góður. Það er hans skoðun að þetta sé betra fyrirkomulag heldur en það húsbréfakerfi sem við búum við og við því er raunar ekkert að segja. En ég hef þó talið mér rétt og skylt að vekja athygli á því sem ég sé sem galla á þessari leið.