Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 16. janúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég held að hv. 3. þm. Reykv. hafi örlítið misskilið mitt mál, ég vona að hún hafi gert það. Það sem fyrst og fremst voru rök hjá mér var það að ég vildi stemma stigu við því í eitt skipti fyrir öll að ríkið tæki lögboðið framlag, og ekki síst þar sem hér er um að ræða nefskatt, að hluta til sín án þess að viðkomandi sjóður fái rönd við reist. Þetta er náttúrlega mjög mikil viðurkenning að fengist skuli hafa samþykki fyrir því að allar brúttótekjur sem sjóðurinn á lögum samkvæmt fari til sjóðsins sjálfs.
    Hitt er svo nýtt mál að auka hlutverk sjóðsins eins og hér er lagt til í þessu frv., um það geta verið skiptar skoðanir. Ég lagði áherslu sérstaklega á einn þáttinn þar. Það var að hjúkrunarheimili fyrir aldraða mættu ekki líða fyrir það. Hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra sem ég þarf ekki að endurtaka að eins og allir vita þá er á fjárlögum á ári hverju framlag til hjúkrunarheimila aldraðra og annarra stofnana aldraðra umfram það sem sjóðurinn veitir samkvæmt hans lögum. Þetta þarf þingmönnum að vera ljóst þegar þetta mál er rætt.
    Ég vildi aðeins, af því að hv. þm. fór út í fleira, m.a. aðstöðu aldraðs fólks til að eignast húsnæði, að við sátum saman í ríkisstjórn 1983 -- 1987. Á því tímabili var lögum um Húsnæðisstofnun breytt, þ.e. félagslega þættinum, c-lið, þar sem tekið var inn nýtt ákvæði í þeim lögum sem gilda enn í dag, að Samtök aldraðra t.d. fá aðgang að sérstöku láni á félagslegum grundvelli 85 -- 90% á 1% vöxtum til 40 ára. Þetta var mjög mikið áhugamál þeirra sem hafa forustu fyrir Samtökum aldraðra og hafa í gegnum þessa löggjöf frá 1984 getað hafið stórvirki, ekki síst á þéttbýlissvæðinu, með því að byggja myndarlegar íbúðir, fjölmargar íbúðir, svo hundruðum skiptir, sem aldraðir eignast einmitt í gegnum þetta lagaákvæði. Við getum því sameiginlega fagnað því að hafa átt hlut að því að koma þessu góða máli í gegn sem ekki hefur tekist að eyðileggja til þessa, þrátt fyrir mikið umrót í húsnæðislöggjöfinni.
    Þess vegna held ég að við getum verið sammála um það að þrátt fyrir einhvern ágreining um þessa breytingu, sem ég tel vera mikilvæga þar sem Alþingi ákveður að viðkomandi sjóður fái 100% framlag til ráðstöfunar miðað við það að á undanförnum árum hefur þetta verið skert, ekki minna en um 1 / 3 , að þá er þetta mjög mikilvægur áfangi. Við getum svo rætt um hitt nánar, hvort hér sé of langt gengið. Ég tel að liðir 3, 4 og 5 séu atriði sem eru ekki stærst í sniðum en þýðingarmikil eigi að síður í sambandi við rekstur þessara stofnana. Ég vona að Alþingi gleymi ekki því hlutverki sínu, eins og þegar hefur verið viðurkennt í fjárlögum ár eftir ár, að standa undir rekstri þessara stofnana miðað við það sem viðurkennt er.