Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að mikilvægt er að við höldum nafni Íslendingsins Leifs Eiríkssonar sem mest á lofti í þessu sambandi og gleymum því ekki að hann er skilgetinn sonur þessa lands. Um þetta hafa hins vegar verið miklar deilur við Norðmenn sem hafa viljað telja hann Norðmann, en mér skilst að í sambandi við þetta kynningarátak nú hafi orðið eins konar salómonsdómur þess efnis að a.m.k. þeir Norðmenn, sem hafa tekið þátt í viðræðum við Íslendinga um málið, hafi viðurkennt að hann sé sonur Íslands en sonarsonur Noregs. Líklega verður því ekki mótmælt ef menn vilja lýsa þessu svo.
    Hv. þm. las fréttatilkynningu utanrrn. og ég hef beðið um frekari upplýsingar þaðan. Þær eru hér í allítarlegu máli sem ég kemst nú líklega ekki yfir að lesa allt í stuttum tíma. Ég sleppi fréttatilkynningunni en tek fram að eins og hún er hér orðuð þá er ekki sagt að Norðmenn muni sigla, heldur að sumarið 1991 muni eftirlíking af Gauksstaðaskipinu verða siglt frá Noregi til Orkneyja.
    Fundur um þetta mál varð 5. des. sl. og það sóttu fundinn fulltrúar frá forsetaskrifstofu, utanrrn., menntmrn., Útflutningsráði, Ferðamálaráði, Stofnun Árna Magnússonar, Sjónvarpinu og Þjóðræknisfélaginu. Fundir verða núna á næstunni um framkvæmd þeirrar áætlunar. Í minnisblaði frá þessum fundi, sem var haldinn 5. des., kemur m.a. fram það sem ég sagði áðan um þetta samkomulag um að svo skuli Leifur skilgreindur, eins og ég nefndi áðan, sem sonur og sonarsonur.
    Síðan hefur verið sett á fót sameiginleg íslensk/norsk stjórnarnefnd. Af Íslands hálfu eiga sæti í henni Kornelíus Sigmundsson forsetaritari, Guðni Bragason frá utanrrn. og Ingjaldur Hannibalsson frá Útflutningsráði. En fleiri taka þátt í þessu starfi af Íslands hálfu eins og Kristinn Hallsson úr menntmrn., Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Jónas Kristjánsson frá Stofnun Árna Magnússonar, Sveinn Einarsson frá Sjónvarpinu og Jón Ásgeirsson frá Þjóðræknisfélaginu.
    Ákveðið hefur verið að framkvæmdastjóri þessa verks verði deildarstjóri í norska utanrrn., Leidulv Namtvedt.
    Helstu þættir kynningarátaksins er sigling víkingaskips yfir Atlantshafið sumarið 1991. Í þessari fréttatilkynningu segir að í áhöfn Gauksstaðaskipsins verði sex til átta menn, íslenskir og norskir. Hins vegar hef ég ekki fengið skiptingu á því og ég veit ekki reyndar hvort hún er að fullu ákveðin, en skipstjóri verður norskur, þ.e. hinn þekkti sægarpur Ragnar Thorseth.
    Þessi sigling, sem á að hefjast 17. maí, er allkostnaðarsamt fyrirtæki og kostar u.þ.b. 120 millj. kr. og er kostuð af norska skipaeigandanum Knut Utstein Kloster. Ég vil svo bæta því inn fyrir mitt leyti að þó ég fagni því mjög að Íslendingar séu þátttakendur í þessu, þá hefði náttúrlega verið skemmtilegra að við hefðum getað tekið meiri fjárhagslegan þátt í þessu

starfi, en þessi skipaeigandi kostar mjög stóran hluta af öllu þessu prógrammi.
    Það er gert ráð fyrir að skipið fari 17. maí, það fer á þjóðhátíðardegi Norðmanna, en kemur hingað á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní á það að koma hér og fara héðan aftur 25. júní. Það fer síðan til Nuuk á Grænlandi og síðan til Nýfundnalands, Halifax, Boston, Newport, New York og komið verður til Washington á degi Leifs Eiríkssonar 9. okt. Þetta er svona í fljótu bragði farið yfir dagskrána.
    Það verður gerð kvikmynd af siglingunni, sem bresk hjón, Lomax, munu kosta og ekki veit ég hvernig þau eru komin inn í þetta mál. Síðan eru ráðgerðir sjónvarpsþættir 1992 -- 1993 og eftir því sem ég best sé er ekki enn þá afgert hvernig sjónvarpsstöðvar á Íslandi koma inn í það, en það er gert ráð fyrir því. Hins vegar hefur norska sjónvarpið ákveðið að gera sjónvarpsþátt af þessu.
    Síðan verður vörukynning 1991 sem Íslendingar munu standa fyrir af okkar hálfu að sjálfsögðu, í sambandi við alla siglinguna. Það verður menningarkynning líka sem menntmrn. mun hafa veg og vanda af. Það verður ferðamálakynning einnig í ár sem Ferðamálaráð mun annast. Allt þetta verður á viðkomustöðum skipsins og við Íslendingar reynum að hafa a.m.k. okkar hlut þannig sæmilega myndarlegan.
    Það hefur mjög verið óskað eftir því að forseti Íslands verði viðstaddur þegar skipið kemur til Washington og það er í athugun á forsetaskrifstofunni og þá mun líklega vera einhver fulltrúi frá norsku konungsfjölskyldunni. Og það verða víkingasýningar frá 1993 -- 1994. (Forseti hringir.)
    Því miður get ég, eins og ég óttaðist í upphafi, ekki farið ítarlegar út í þetta. Það er sjálfsagt að afhenda fyrirspyrjanda þetta sem ég hef hér. Ég get ekki neitað því að mér finnst þáttur Norðmanna stór. Það hefur eingöngu fengist 10 millj. kr. framlag af Íslands hálfu og það á að greiðast, ef ég man rétt, á tveimur árum. Og það er náttúrlega í raun ekki nema dropi í hafið, við skulum gera okkur glögga grein fyrir því.