Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Hér er rætt um landafundi Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi. Við erum ekkert óvanir því að frændur vorir Norðmenn reyni að eigna sér Leif Eiríksson. Ég held við megum vel við una, eins og hæstv. forsrh. sagði, að hann sé talinn sonur Íslands en sonarsonur Noregs. Þessu verður ekki breytt. Leifur fæddist að Eiríksstöðum í Haukadal í Dalasýslu og við mig hafa sagt menn úr Vesturheimi, Bandaríkjamenn, að þar sem Eiríksstaðir eru, þar höldum við á gimsteini í lófanum, eins og þeir orðuðu það. En þeim stað hefur kannski ekki verið nægur sómi sýndur. Það er annað mál. Við erum í fjölskyldu með Norðmönnum frá fornu fari og það er ýmislegt karpað innan vébanda fjölskyldunnar. Þeir hafa reynt að eigna sér Snorra í Reykholti. Við vitum alveg hvernig það er til komið. Á hinn bóginn verður það að segjast með sanni að frændur vorir Norðmenn hafa líka lagt sitt myndarlega af mörkum til þess að halda uppi minningu Snorra í Reykholti. Það er sjálfsagt að vera vakandi í þessum efnum, en við skulum vera óhræddir.