Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni fyrir það að vekja athygli á því sem er að gerast í sambandi við kynningu á Leifi Eiríkssyni í tengslum við afmæli landafunda Kristófers Kólumbusar.
    Ég held þó að það hefði verið nauðsynlegra fyrir okkur Íslendinga að minna svolítið á okkur hér heima, minna á staði eins og Eiríksstaði í Dölum, Dranga á Ströndum, þar sem Eiríkur, faðir Leifs Eiríkssonar, nam fyrst land og jafnvel að tengja frekar landafundina við það að á því er ekki neinn vafi að það var íslensk kona sem var fyrsta hvíta móðirin í Ameríku.
    Við höfum ekki séð ástæðu til þess að láta 1 millj., hvað þá 10 millj., til að kynna ákveðna sögustaði og ákveðna hluti hér heima á Íslandi, en hlaupum nú til að vera í slagtogi með Norðmönnum við það að kynna Norðmanninn Leif Eiríksson. Það má vel vera að það hafi verið nauðvörn okkar að taka þátt í þessu en fyrst svo er búið að ákveða þá verður þar sjálfsagt að halda áfram. En ég tel að okkur sé nauðsynlegur kostur að halda fram okkar þætti í því að hafa komið um árið 1000 til Ameríku, ekki aðeins sem finnandi eins og Leifur Eiríksson, heldur sem búandi og eins og ég nefndi áðan, í því að fæða af sér nýtt líf í þessu nýnumda landi og minnast fyrstu íslensku móðurinnar á þessu ónumda landi sem þá var, en það hefur einhvern veginn gleymst á undanförnum árum.