Landafundir Leifs Eiríkssonar í Vesturheimi
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Svo naumt er nú skammtaður tími í fsp. að varla er hægt að segja hér nokkur orð um þetta mál. Ég hygg að sú ákvörðun Norðmanna að senda þetta skip til Ameríku eigi að vekja Íslendinga til umhugsunar um það að það voru þrír stóratburðir taldir gerast árið 1000. Eitt var kristnitakan hér á landi, eitt var fall Ólafs konungs Tryggvasonar og eitt var landafundur Leifs Eiríkssonar.
    Ég hygg að miðað við framtíðarmöguleika Íslands í ferðamennsku og þá staðreynd að flestir ferðamenn koma nú frá Ameríku, þá sé nauðsyn að ríkisstjórn Íslands móti um það stefnu hvernig skuli minnast þeirra atburða hér á landi þegar Leifur Eiríksson fann Ameríku, því að tvímælalaust er það svo að sá atburður er frá viðhorfi nútímamanna langstærstur þeirra þriggja sem taldir voru gerast árið 1000. Og ég hygg að enn sé nægur tími til að taka á því máli, en hins vegar er ekki ráð nema í tíma sé tekið að fara að undirbúa slíka kynningu.