Sérþjálfaðar leynisveitir hérlendis
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrir jólahlé þingsins lagði ég fram fsp. til hæstv. forsrh. um sérþjálfaðar leynisveitir hérlendis og hún er svohljóðandi:
    ,,Hafa starfað hérlendis frá árinu 1951 að telja sérþjálfaðir hópar eða leynisveitir með tengsl við íslensk stjórnvöld, NATO eða CIA til að bregðast við hugsanlegu hernámi landsins af hálfu Sovétríkjanna, sbr. nýjar uppljóstranir í mörgum löndum Vestur - Evrópu?"
    Þetta er fsp. Tilefni hennar eru upplýsingar sem fram hafa komið á Vesturlöndum, í flestum NATO - ríkjum og raunar víðar, þar á meðal í Svíþjóð, um það að á áratugnum 1950 -- 1960 hafi verið komið upp að frumkvæði bandarísku leyniþjónustunnar og Atlantshafsbandalagsins sérstökum hópum til þess að annast viðbrögð við sovésku hernámi í löndum Vestur - Evrópu og þeir hafi starfað án vitundar þjóðþinga þessara landa og með fárra vitorði, alveg fram á þennan dag sums staðar. Enn er að verki svokölluð Clandestine Cooperation Committee innan NATO sem hefur samræmingu með höndum á starfi þessara hópa.
    Hér er um að ræða starfsemi sem einhver mesta leynd hefur hvílt yfir á Vesturlöndum eftir stríð og það er ekki aðeins svo að þessar sérþjálfuðu sveitir, sem hafa verið tiltölulega fámennar samkvæmt þeim tölum sem upp hafa verið gefnar, t.d. 150 manns í Svíþjóð, hafi haft með höndum viðbrögð við hugsanlegu hernámi af hálfu Sovétríkjanna í þessum löndum heldur hafa þær gripið inn í innanlandsmál landanna svo sem mjög er frægt á Ítalíu og enn ekki séð fyrir endann á því máli öllu saman, en þar gengu þessar sveitir undir nafninu Gladio, sem mun tákna stutt sverð og gladiatorar voru kallaðir þátttakendurnir í þeim. Þessar sveitir tengdust áætlun um að steypa ítölsku ríkisstjórninni og fasískri valdatöku 1964 að því er talið er og þræðir þessara sveita liggja inn í einhver dekkstu myrkraverk ítalskrar sögu eftirstríðsáranna eins og hefur verið að koma fram í einu málinu eftir annað.
    Að því er Ísland varðar hefur ekkert komið fram um starfsemi af þessu tagi hérlendis. Það er ástæðan fyrir því að ég spyr hæstv. forsrh.: Hefur slík starfsemi farið fram hér í NATO - landinu Íslandi hliðstætt því sem verið hefur í flestum ef ekki öllum öðrum löndum Atlantshafsbandalagsins?