Sérþjálfaðar leynisveitir hérlendis
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Þessi fsp. er að því leyti sérstæð að það er upplýst af spyrjanda eftir þýskum heimildum að aðeins sérstakir menn --- sérstakir menn í hverju þjóðlandi hafi fengið að vita um tilvist slíkra sveita hafi þær verið til. Og jafnframt að gífurleg leynd hafi hvílt yfir þeim. Þegar hv. fyrirspyrjandi fær þessar upplýsingar í Þýskalandi snýr hann sér að forsrh. og spyr hvort hann viti um tilvist sveitanna. Mér finnst nánast að í því felist sú tilhneiging að hann telji forsrh. sennilegastan til að hafa verið meðlim í slíkum sveitum hafi þær verið til. Hvers vegna spyr hann ekki hæstv. fjmrh. þessarar spurningar? ( Gripið fram í: Það er ólíklegt.) Kostaði þetta ekki peninga, hv. þm.?
    Ég tel að í því fámenni sem hér er megi það með ólíkindum vera ef hugsanlegt sé að vopnabúr séu til í landinu í eigu Íslendinga sem hafi verið hugsuð til hernaðaraðgerða hér ef Sovét tæki landið. Ég tel að hv. þm., fyrirspyrjandi, skuldi okkur hinum óbreyttu skýringar á því hvers vegna hann beinir þessari fsp. til forsrh.