Sérþjálfaðar leynisveitir hérlendis
Fimmtudaginn 17. janúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég átta mig nú ekki á því hvort innlegg hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar er tilraun til að gera það sem hér er rætt að gamanmáli. Það mátti nánast álykta sem svo af hans orðum. Ég hélt að það væri hverjum þingmanni ljóst hvers vegna þessari fsp. er beint til hæstv. forsrh. Auðvitað vegna þess að hæstv. forsrh. er í forustu fyrir ríkisstjórn landsins og mál af þessu tagi getur snert mörg ráðuneyti, eðli málsins samkvæmt öðru fremur utanrrn. og dómsmrn. Og vegna þess hversu hv. þm. vísar þessu máli --- ja, út í hafsauga í sínum málflutningi, þá ráðlegg ég honum að kynna sér gögn í öðrum löndum um það sem gerst hefur í þessum efnum. Ég legg líka til að hv. þm. athugi skipunarbréf nýrrar nefndar sem hæstv. utanrrh. setti á fót á haustdögum í samvinnu við hæstv. dómsmrh. um sérstaka skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál. En ég mun gera sérstaka fsp. til hæstv. utanrrh. fljótlega út af skipun þeirrar nefndar.